Vatnaþema og gögn

Breyta tungumáli
Page Síðast breytt 03 Jun 2016
Vatn er nauðsynlegt öllu lífi á jörðinni. Vistkerfin, samfélag okkar og hagkerfi þurfa öll hreint ferskvatn í nægum mæli til að þrífast. En vatnsauðlindir eru undir vaxandi álagi í mörgum heimshlutum og Evrópa er þar engin undantekning. Við verðum að nota og stýra vatnsauðlindum okkar betur ef við ætlum að halda áfram að njóta góðs af þeim.

Við þurfum hreint, heilnæmt vatn á hverjum degi: til drykkjar, til baða, til matreiðslu og til að framleiða margskonar vörur og þjónustu. Verndun vatnsauðlinda - og trygging vistfræðilegra gæða þeirra - er hornsteinn umhverfisstefnu ESB. Rammatilskipunin um vatn (RTV) var sett árið 2000 (2000/60/EB) og var fyrsta tilskipunin þar sem tekin var samþætt "vistkerfisnálgun" á verkefnið: að vernda vatnavistkerfi jafnt m.t.t. vatnsgæða, vatnsmagns og hlutverks þeirra sem búsvæða.

Hins vegar er líklegt að nærri helmingur vatna Evrópu nái ekki viðmiðum RTV og verði ennþá í slöku vistfræðilegu horfi árið 2015 (skýrsla USE 08/2012). Nokkrar ástæður eru fyrir þessu.

Fjölbreytilegir álagsvaldar ógna stöðugt náttúrulegri hringrás vatnsframboðs. Þessir álagsvaldar, m.a. manngerður vatnsskortur, mengun og ofgnótt vatns, bitna á ferskvatnsvistkerfum og samfélögum, en þetta ástand kallast „viðkvæmni“. Landnotkun, vatnstaka og loftslagsbreytingar eru þættir af mannavöldum sem breyta náttúrulegu „flæðimynstri“ vatna og vatnsfalla.

Nokkrar heimildir benda einnig til þess að oft sé ójafnvægi milli yfirborðsvatns í Evrópu (vatns í ám og vötnum) og grunnvatns (vatns í forða neðanjarðar). Vatnsnotkun er oft meiri en framboð sem leiðir til álags á vatnslindir í stórum hluta álfunnar (skýrsla USE 11/2012).

Vatnavistkerfi gegna margvíslegu hlutverki: þau sía, þynna og geyma ferskvatn; þau koma í veg fyrir flóð; þau viðhalda jafnvægi nærveðurs; og þau fóstra líffræðilegan fjölbreytileika. Að sama skapi þurfa margir þættir að koma saman til að vernda megi þessa fjölbreytilegu kosti. Verndun þeirra útheimtir að stefnur um aðlögun að loftslagsbreytingum og líffræðilegan fjölbreytileika séu samþættar atvinnugreinastefnum svo sem þeirra sem fjalla um landbúnað, orku og samgöngur.

Stefnur ESB

Verndun sameiginlegra vatnsauðlinda og vistkerfa Evrópu gegn mengun, oftöku og formbreytinga krefst samstilltra aðgerða á vettvangi ESB.

Rammatilskipunin um vatn felur í sér ramma utan um vatnsvernd og -stýringu í Evrópubandalaginu (tilskipun 2000/60/EB). Með innleiðingu hennar ber aðildarríkjunum að byrja á að tilgreina og greina vötn og vatnsföll Evrópu, eftir einstökum vatnasviðum og svæðum. Þeim ber síðan að taka upp stýringaráætlanir og aðgerðaáætlanir til að vernda vatnið í öllum vatnasviðum álfunnar. Setning RTV var viðbót við eldri vatnsstefnur ESB sem enn eru í gildi, t.d. þær sem gilda um skolp og baðvatn í þéttbýli.

Árið 2012 birti framkvæmdastjórnin orðsendinguna Aðgerðaáætlun til að vernda vatnsauðlindir Evrópu (COM(2012)673). Hún fjallar um stefnuaðgerðir sem geta stuðlað að bættri innleiðingu núverandi vatnslöggjafar og um samþættingu vatnsstefnumarkmiða við aðrar stefnur.

Aðgerðaáætlunin styrkir vatnsstefnur sem tengjast vatnsmagni og nýtni vatnsauðlinda fyrir sjálfbæra vatnsstýringu innan tímaramma Stefnumörkunar ESB fyrir árið 2020 fram til ársins 2050. Auk RTV og aðgerðaáætlunarinnar stuðla fjórar vatnstilskipanir að aðgerðum sem tryggja góða stöðu vatna og vatnsfalla í Evrópu (tilskipunin um skólp í þéttbýli (91/271/EBE), baðvatnstilskipunin (2006/7/EB), nítrattilskipunin (91/676/EBE) og drykkjarvatnstilskipunin (98/83/EB)). Flóðatilskipunin (2007/60/EB), sem miðar að því að hlúa að áætlunum um flóðaáhættustýringu, styrkir einnig verulega markmið RTV.

Starfsemi Umhverfisstofnunar Evrópu

Umhverfisstofnun Evrópu (USE) styður innleiðingu og mat á núverandi og væntanlegum stefnum ESB um vatn. Hún rekur alhliða þekkingargrunn fyrir stefnumótun um varðveislu, þol og endurreisn evrópskra vatna og vatnsfalla. Viðamiklar vatnsupplýsingar USE eru á formi skýrslna, gagna, vísa og matsgerða sem öll eru aðgengileg í Vatnsgagnamiðstöðinni.

Vatnsupplýsingakerfið fyrir Evrópu (VUKE) er samstarfsverkefni Evrópusambandsins (Stjórnarsviðs umhverfismála, Sameiginlegrar rannsóknamiðstöðar og Hagstofu Evrópubandalaganna) og USE. VUKE er sá mest alhliða aðgangsstaður að fróðleik um vatnsmál sem tekur til margra stofnana sem til er. Vatnsgagnamiðstöðin, sem er mikilvægur hluti VUKE, hýsir gögn og upplýsingar sem stofnanir ESB hafa safnað til að þjóna hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Með skoðunarforritum og gagnvirkum kortum VUKE má nálgast fjölbreytilegar upplýsingar og setja þær fram í réttu rýmislegu samhengi.

Allt árið 2012 birti USE röð skýrslna þar sem staða vatna og vatnsfalla Evrópu er metin. Í þessum skýrslum eru lykilhliðar á vatnsmálum metnar í skyni stefnumótunar (m.a. nýtni auðlinda og vatnshagfræði, vistfræðileg og efnafræðileg staða, landmótunarfræði m.t.t. vatns, viðkvæmni og líffræðileg fjölbreytni).

Hlutverk USE er að veita tímanlegar, hnitmiðaðar, viðeigandi og áreiðanlegar upplýsingar um vatnsmálefni. Þetta fær stuðning frá Evrópsku verkefnamiðstöðunni um landvatn og strand- og hafsjó (EVM/LVS).

Horfur

USE mun halda áfram að veita upplýsingar og matsgerðir um vatnsmálefni með vaxandi áherslu á vistkerfisnálgunina og könnun á hlutverki vatnsstýringar í grænu hagkerfi. Vistkerfismatsgerðir og nýtni vatnsauðlinda eru lykilatriði fyrir sjálfbæra vatnsstýringu til framtíðar. VUKE mun halda áfram að hýsa þekkingargrunninn sem þörf er á til að meta árangur á leiðinni í átt til góðrar stöðu allra vatnasvæða Evrópu.

Tenglar um skyld efni

Geographic coverage

Áskriftir
Nýskráning til þess að fá skýrslur frá okkur (á prentuðu og/eða rafrænu formi) og ársfjórðungslegt e-fréttabréf.
Fylgjast með okkur
 
 
 
 
 
Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)
Kóngsins nýjatorgi 6
1050 Kaupmannahöfn K
Danmörku
Sími +45 3336 7100