næsta
fyrri
atriði

Press Release

EEA afhjúpar fyrsta stafræna kortið af breyttri ásýnd Evrópu

Breyta tungumáli
Press Release Útgefið 17 Nov 2004 Síðast breytt 28 Jun 2016
Fyrsta stafræna kortið af hinum fjölmörgu breytingum sem orðið hafa á landslagi Evrópu frá 1990 var afhjúpað í dag. Hér eftir eiga stefnumótendur hægara með að sjá hvaða áhrif ákvarðanir þeirra á sviði landbúnaðar og samgangna, og reyndar einnig á fleiri sviðum, hafa á takmarkaðar auðlindir landanna og á umhverfið almennt.

FRÉTTATILKYNNING


Kaupmannahöfn/Brussel, 17. nóvember 2004


EEA afhjúpar fyrsta stafræna kortið af breyttri ásýnd Evrópu


Fyrsta stafræna kortið af hinum fjölmörgu breytingum sem orðið hafa á landslagi Evrópu frá 1990 var afhjúpað í dag. Hér eftir eiga stefnumótendur hægara með að sjá hvaða áhrif ákvarðanir þeirra á sviði landbúnaðar og samgangna, og reyndar einnig á fleiri sviðum, hafa á takmarkaðar auðlindir landanna og á umhverfið almennt.


Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) gerði grein fyrir árangri Corine landþekjuáætlunarinnar (Corine Land Cover (CLC) 2000) á fundi með háttsettum stjórnendum í allmörgum stjórnarskrifstofum framkvæmdastjórnar ESB - þar á meðal þeim sem ábyrgir eru fyrir svæðastefnumótun, landbúnaði, rannsóknum og umhverfismálum, ennfremur fulltrúum Geimvísindastofnunar Evrópu og fulltrúum núverandi og væntanlegra aðildarríkja EEA


Með því að beita samhæfðri aðferðafræði kemur CLC2000 fram með staðlaða könnun á landhulu Evrópu á árinu 2000 og á þeim breytingum sem orðið hafa á þeim áratug sem liðinn var frá því að fyrsta CLC könnunin fór fram, seint á níunda áratugnum. Báðar þessar kannanir er hægt að nálgast, öllum að kostnaðarlausu, á vef EEA.


Hin landfræðilega breidd og áherslan á nákvæmar upplýsingar um hina einstöku staði eru þættir sem skara langt fram úr því sem þekkist í öðrum upplýsingakerfum um landhulu í heiminum.. Kerfið nær þegar til 30 landa og gert er ráð fyrir að þeim fjölgi á árinu 2005.


"Corine Land Cover 2000 mun koma stefnumótendum að góðu gagni við að móta stefnuna og að gera áætlanir um betri Evrópu", sagði Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri EEA.


"Hér er um að ræða einstakt verkfæri til að mæla annarsvegar hið trausta og kraftmikla samspil hinna ótalmörgu aðila sem hagnýta landið og hinsvegar álagið - og alltof oft átökin - sem verða vegna mismunandi áherslna þeirra er ráða ferðinni í landbúnaðinum, í flutningageiranum, í stefnumótun einstakra landshluta og á fleiri sviðum.


Við gerð CLC2000 hagnýtti EEA IMAGE2000, sem er gervitunglamynda-verkefni sem EEA vann í samvinnu við Rannsóknarmiðstöð Evrópusambandsins (Joint Research Centre). Einnig var notast við loftmyndir og myndatöku úr lítilli hæð (near-ground imaging).


Úr efniviði IMAGE2000 unnu sérfræðingar frá mörgum Evrópulöndum nákvæm kort með 44 mismunandi gerðum landhulu, eins og t.d. 'samfelldu borgarsvæði,' 'beitilandi' og 'ræktarlandi án áveitna.'


Gert er ráð fyrir að CLC2000 gagnist mörgum. CLC könnunin 1990 hefur meðal annars verið notuð af fólki sem starfar við rannsóknir, í landbúnaði, við landlagshönnun, skógrækt, kennslu, flutninga og samgöngur, lýðfræðirannsóknir, í ferðaiðnaði, í orkugeiranum og að heilsufarsmálum, auk umhverfismála. Efnið hefur einnig verið hagnýtt í viðskiptageiranum, t.d. við útgáfu landabréfabóka og í leiðsögutækjum í bílum.


Í sambandi við stefnumörkunarmálin gagnast CLC2000 á þann hátt að það styður við verndun vistkerfa, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, sýnir hverjar eru afleiðingar loftlagsbreytinga, er gott fyrir mat á þróun í landbúnaði og mat á því hvernig gengur að framfylgja Rammatilskipun ESB um vatnsmálefni. Þannig er mikil hjálp að CLC2000 á þeim sviðum sem sérstök áhersla er lögð á í Sjöttu aðgerðaáætlun ESB í umhverfismálum.


CLC2000 getur sýnt okkur, svo að dæmi sé tekið, hvar sundurstykkjun lands vegna vegalagningar eða annarrar mannvirkjagerðar er að aukast og eykur þar með hættuna á að vistkerfin einangrist, en það er ákaflega hættuleg þróun, bæði fyrir gróður og dýr vistkerfanna.


Á sviði landbúnaðar getur CLC2000 leitt í ljós hvar meiriháttar breytingar á landnýtingu halda áfram eða eflast, eins og til dæmis það að leggja beitiland undir plóginn, færa út eða minnka hvíldarland, hætta að nýta land, eða að hætta alveg búskap.


EEA er með áform um að láta fara fram á næstu tveimur árum ítarlega greiningu á þeim breytingum sem CLC2000 hefur sýnt að orðið hafa. Meðal þess sem fyrst kemur í ljós er það að víða hafa borgir haldið áfram að þenjast út á tíunda áratugnum, þar á meðal á Ítalíu, í Hollandi, í austurhluta Þýskalands og á Írlandi.


"Hin gríðarlega útþensla borganna í austurhluta Þýskalands ætti að verða Pólverjum víti til varnaðar, einmitt nú þegar land þeirra er farið að uppfylla skilyrði fyrir byggðastyrkjum ESB. Illa getur farið ef ekkert verður gert til að milda áhrif slíkrar þróunar", sagði prófessor McGlade.


Á Írlandi er úttþenslan ekki eingöngu umhverfis borgirnar,heldur vítt og breytt um landið. Þessa samfélagslegu þróun má rekja til styrka til uppbyggingar í sveitum samkvæmt Sameiginlegri stefnu ESB í landbúnaðarmálum bætti prófessor McGlade við.


CLC2000 er hægt að nálgast á http://dataservice.eea.europa.eu. Þangað er einnig hægt að sækja kort sem sýna sérstaklega breytingarna milli 1990 og 2000 á tilteknum svæðum. Gögn er tengjast IMAGE2000 er hægt að fá á http://image2000.jrc.it/


Orðsending til útgáfustjóra


  • Við gerð CLC2000 unnu um 300 sérfræðingar frá u.þ.b. 100 stofnunum um alla Evrópu og kostnaðurinn varð um 13 milljónir evra. Um 150 mannár fóru í að setja upp CLC2000 gagnabankann.
  • Úr CLC2000 verður tekið efni í átaksverkefnið 'Inspire' (Innviðir fyrir rýmisupplýsingar í Evrópu) sem er a vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ætlunin er að setja upp gagnagrunn með samstæðum landfræðilegum upplýsingum sem styðja við markaða stefnu í umhverfisverndarmálum, þróun innviða uppbyggingar, landbúnaðar og siglinga á höfum. Nánari upplýsingar eru á http://www.ec-gis.org/inspire.
  • CLC2000 leggur einnig sitt af mörkum til átaksverkefnisins Hnattræn umhverfis- og öryggisvöktun (GMES). sem rekin er af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Geimvísindastofnun Evrópu, en frá og með 2008 munu þessar stofnanir veita umhverfisupplýsingar sem fengnar eru með því að tengja saman annarsvegar rannsóknarkerfi í lofthjúpi jarðar og í geimnum og hinsvegar vettvangsvöktun á jörðu niðri.
  • Corine stendur fyrir 'Coordination of Information on the Environment', þ.e. 'Samhæfingu umhverfisupplýsinga', sem komið var á stofn á árinu 1985, fyrir stofnun EEA.

Um EEA


Umhverfisstofnunin er í fararbroddi stofnana í Evrópu sem leitast við að koma á framfæri traustum og ólituðum umhverfisupplýsingum til allra þeirra aðila sem fást við stefnumótun tengda umhverfismálum, svo og til almennings. Stofnunin hefur verið starfrækt í Kaupmannahöfn frá 1994 og er kjarninn í Evrópska netkerfinu fyrir umhverfisupplýsingar og umhverfisvöktun (EIONET), en það er netkerfi um 300 aðila víðsvegar í Evrópu. Umhverfisstofnunin bæði safnar og dreifir upplýsingum og gögnum um umhverfismál í gegnum EIONET. Umhverfisstofnunin er ein af stofnunum ESB og er opin öllum þjóðum sem styðja markmið hennar. Aðildarríkin eru nú 31 alls, þ.e. ESB ríkin 25, þrjú ríki sem sótt hafa um aðild að ESB, (þ.e. Búlgaría, Rúmenía og Tyrkland), Ísland, Noregur og Liechtenstein. Byrjað er að ræða gerð aðildarsamnings við Sviss. Lönd á vestanverðum Balkanskaga, Albanía, Bosnía-Hersegóvína, Króatía, Makedónía, fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu, og Serbía-Svartfjallaland hafa sótt um aðild.


Links


IMAGE 2000:


CLC2000:Permalinks

Topics

Skjalaaðgerðir