næsta
fyrri
atriði

News

Loftmengun í Evrópu er enn of mikil

Breyta tungumáli
News Útgefið 13 Nov 2018 Síðast breytt 10 Dec 2019
4 min read
Photo: © Ieva Bruneniece, My City /EEA
Þrátt fyrir hægar umbætur heldur loftmengun áfram að vera meiri en hámörk og viðmiðunarreglur Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kveða á um, samkvæmt uppfærðum gögnum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Heilbrigði manna og umhverfi stafar enn mikil hætta af loftmengun.

Loftmengun er ósýnilegur morðingi og við þurfum að leggja meira á okkur til að taka á orsökum hennar. Með tilliti til loftmengunar er losun frá flutningum á vegum oft skaðlegri en frá öðrum uppsprettum, þar sem hún er við yfirborð jarðar og verður oft til í borgum, nálægt fólki. Þess vegna er svo mikilvægt að Evrópa dragi enn frekar úr losun frá flutningum, raforkuframleiðslu og landbúnaði og fjárfesti í að gera þessa geira hreinni og sjálfbærari. Ef við tökumst á við þessa geira á samþættan hátt getum við fengið skýran ávinning fyrir bæði loftgæði og umhverfið, og það mun auk þess bæta heilsu okkar og velferð.

Hans Bruyninckx framkvæmdastjóri EEA

Vegaflutningar eru ein helsta uppspretta loftmengunar í Evrópu, sérstaklega skaðlegra mengunarvalda eins og köfnunarefnistvíoxíðs og svifryks, samkvæmt „Loftgæði í Evrópu - 2018“ skýrslu EEA.  Losun frá landbúnaði, raforkuframleiðslu, iðnaði og heimilum stuðlar líka að loftmengun. Skýrslan kynnir nýjustu gögn um loftgæði frá meira en 2.500 mælistöðvum um alla Evrópu 2016.

Heilbrigðisáhrif loftmengunar eru markverð

Svifryk, köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og óson við yfirborð jarðar (O2) hafa skaðlegustu áhrifin á heilbrigði manna. Hár styrkur mengunarvalda í loft heldur áfram að hafa skaðleg áhrif á Evrópubúa, sérstaklega þá sem búa í borgum. Loftmengun hefur veruleg hagfræðileg áhrif, styttir lífaldur, eykur lækniskostnað og dregur úr framleiðni hagkerfisins vegna vinnudaga sem tapast vegna slæmrar heilsu. Loftmengun hefur einnig neikvæð áhrif á vistkerfi, skemmir jarðveg, skóga, vötn og ár og dregur úr landbúnaðaruppskeru.

Fyrrum og núverandi stefnur og tækniframfarir hafa leitt til hægra en stöðugra framfara við að draga úr þessum neikvæðu áhrifum. Uppfærð möt í skýrslunni benda til þess að magn svifryks (<2,5μm) hafi ollið um 422.000 ótímabærum dauðsföllum í 41 Evrópuríki árið 2015, en þar af voru um 391.000 í ESB-ríkjunum 28. Víðtækara mat sem er að finna í skýrslu þessa árs, sem lítur til baka til ársins 1990, sýnir að dregið hefur úr ótímabærum dauðsföllum vegna svifryks (<2,5μm) um hálfa milljón á ári. Það stafar af innleiðingu evrópskrar loftgæðastefnu og ráðstafanna á landsvísu sem hafa til dæmis leitt til hreinni bíla, iðnaðar og raforkuframleiðslu.

Aðrar helstu niðurstöður

Svifryk: Hlutfall íbúa ESB-28 í borgum sem urðu fyrir váhrifum frá svifryki (<2,5μm) (svifryk með þvermál upp á 2,5 míkrómetra eða minna) var komið niður í 6% árið 2016 frá 7% árinu áður. Engu að síður urðu um það bil 74% borgarbúa í ESB fyrir váhrifum frá meiri styrk en strangari viðmiðunarreglur WHO segja til um. Talið er að váhrif af völdum svifryks (<2,5μm) hafi valdið ótímabæru dauðsfalli 422.000 manns í 41 landi árið 2015.

Köfnunarefnistvíoxíð: Enn er farið fram úr ársmörkum fyrir NO2 víða í Evrópu. 2016 bjuggu 7% af borgarbúum ESB-28 á svæðum þar sem styrkur köfnunarefnistvíoxíðs er hærri en ársviðmiðunarmörk ESB og WHO. Niður úr 9% árið 2015. Talið er að váhrif af völdum NO2 hafi valdið ótímabæru dauðsfalli 79.000 manns í 41 Evrópulandi árið 2015.

Óson við yfirborð jarðar: Um 12% borgarbúa ESB-28 urðu fyrir váhrifum af völdum O3 styrks yfir viðmiðunarmörkum ESB árið 2016, sem er töluvert minna en 2015 (30%). Engu að síður er það meira en 2014, þegar hlutfallið var 7%. Um það bil 98% urðu fyrir váhrifum af styrk yfir strangari viðmiðunarmörkum WHO. Talið er að váhrif frá ósoni hafi valdið ótímabæru dauðsfalli 17.700 manns í 41 Evrópulandi árið 2015.

Ný samantekt EEA sem útskýrir heilbrigðishættumat

Samantekt sem einnig var birt í dag, „Heilbrigðishættumat EEA vegna loftmengunar“, gefur greinargott yfirlit yfir hvernig EEA reiknar út loftgæðaheilbrigðismat sem finnur út áhrif loftgæða á heilbrigði íbúa.

Heilbrigðisáhrif váhrifa frá loftmengun eru margvísleg, allt frá bólgum í lungum til ótímabærra dauðsfalla. Þegar kemur að heilbrigðishættumati EEA er miðað við dánartíðni þar sem það er talan sem mest gögn liggja fyrir um. Dánartíðni af völdum loftmengunar er áætluð með tilliti til „ótímabærra dauðsfalla“ og „tapaðra lífsára“. Áætluð heilbrigðisáhrif í loftgæðaskýrslu EEA eru þau sem skýrast af váhrifum af völdum svifryks (<2,5μm), NO2 og O3 í Evrópu árið 2015. Þessar áætlanir eru byggðar á upplýsingum um loftmengun, lýðfræðilegum gögnum og sambandinu á milli váhrifa vegna magns mengunarvalda og skilgreindra heilbrigðisáhrifa. Matið sýnir áhrif loftmengunar á tiltekin íbúafjölda og er ekki hægt að tengja við tiltekna einstaklinga á tilteknu landssvæði.

 

Athugasemd við mat á ótímabærum dauðsföllum

Ekki er hægt að leggja einfaldlega saman áhrifin sem áætluð eru fyrir hvert mengunarefni til að ákvarða heildar heilbrigðisáhrif sem skýrast af váhrifum. Til dæmis þar sem oft er (stundum sterk) fylgni á milli styrks svifryks (<2,5μm) og NO2 er ekki hægt að leggja saman áætluð áhrif þeirra. Það gæti leitt til þess á áhrifin séu ofmetin.

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage