All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Breytingar hafa einkennt plánetuna okkar alla tíð. Landflæmi hennar, úthöf, gufuhvolf, loftslag og lífið á jörðinni hefur alltaf verið að breytast. Það sem gerir núverandi breytingar ólíkar þeim fyrri er fordæmalaus hraði og magn, sem og þeir þættir og drifkraftar sem standa á bakvið. Öfgakenndir atburðir, eins og óveður sem gerast einu sinni á 100 ára fresti, hitabylgjur, flóð og þurrkar, eru orðnir partur af nýjum veruleika okkar. Fyrirsagnir fjölmiðla víðsvegar um heiminn benda til loftslags- og umhverfisvandamála sem hafa áhrif á framtíð tegundar okkar.
Hvortheldur heitið sem við kjósum að nota — „nýr veruleiki okkar” eða “margþætt hættuástand” — þá liggja staðreyndirnar fyrir. Hnattræna loftslagið er að breytast og breytingin er af völdum manna. Það hversu hagkerfi okkar eru háð jarðefnaeldsneyti, landnotkun og víðtækri skógareyðingu eykur magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem síðan veldur breytingum á hnattrænu loftslagi. Það er einnig ljóst að loftslagsbreytingar hafa áhrif á allar manneskjur og alla hluta plánetunnar, þar með talið Evrópu. Sum samfélög geta þurft að þola miklar hitabylgjur og þurrka, á meðan önnur kunna að standa frammi fyrir alvarlegri og tíðari óveðrum en áður. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á fólk, náttúruna og hagkerfið.
Vísindin standa einnig fast á því að fjölbreytni lífs á jörðinni fari dvínandi með ósjálfbærri þróun. Á hverju ári eru margar tegundir úrskurðaðar útdauðar, þar sem haldið er áfram að eyðileggja, brjóta upp og menga búsvæði þeirra. Stofnar sumra tegunda, þar með talið frjóbera eins og býflugna og fiðrilda sem eru lífsnauðsynleg fyrir velferð okkar, hafa minnkað gífurlega sökum víðtækrar notkunar á skordýraeitri. Mengunarefni sem myndast með hagrænni starfsemi safnast upp í umhverfinu og draga úr getu vistkerfa til að endurnýjast og veita okkur lífsnauðsynlega þjónustu. Umhverfismengun hefur ekki eingöngu áhrif á plöntur og dýr heldur einnig fólk.
Efnahags- og fjármálakreppur hafa einnig sett sitt mark á 21stu öldina. Rannsóknir hafa staðfest að neyslu- og framleiðslukerfi okkar eru einfaldlega ósjálfbær. Línulega haglíkanið — þar sem hráefnum er breytt í vörur sem eru notaðar, þeirra neytt og þeim síðan fleygt — leiðir ekki eingöngu til uppsöfnunar á mengun og úrgangi heldur einnig til alþjóðlegrar samkeppni um náttúruauðlindir. Hnattræn net geta ekki bara dreift efnum, vörum og mengunarvöldum: kreppa sem hefst í fjármálageiranum í einu landi getur dreifst um heiminn og valdið áralangri stöðnun og samdrætti.
Það er einnig ljóst að ávinningnum af hagvexti er ekki deilt með jöfnum hætti um heiminn. Tekjustig eru mjög breytileg á milli og innan landa, svæða og borga. Jafnvel í Evrópu, þar sem lífskjör eru vel fyrir ofan heimsmeðaltal, eru samfélög og hópar sem búa við tekjur sem eru undir fátæktarmörkum. Því miður eru sum þessi samfélög og sumt fólk einnig varnarlausara gagnvart umhverfisvá. Það er líklegra til að búa á svæðum sem eru berskjölduð fyrir loftmengun og flóðum og í húsum sem eru ekki nógu vel einangruð til að verja það fyrir öfgakenndum hita og kulda. Hóparnir sem njóta ávinningsins eru ekki endilega þeir sem bera kostnaðinn.
Ef núverandi þróun heldur áfram munu framtíðar kynslóðir, óháð heimalandi og tekjustigi, standa frammi fyrir öfgakenndara hitastigi og veðri, færri tegundum, auknum skorti á auðlindum og meiri mengun. Miðað við þessar horfur kemur ekki á óvart að þúsundir ungra Evrópubúa hafi farið í kröfugöngur þar sem stefnumótendur eru hvattir til að grípa til metnaðarfyllri og áhrifaríkari aðgerða til að draga úr loftslagsbreytingum.
Á síðustu 40 árum hefur Evrópa markað stefnur til að takast á við tiltekin vandamál, svo sem loftmengun og vatnsmengun. Sumar af þessum stefnum hafa skilað markverðum árangri. Evrópubúar njóta hreinna lofts og hreinna baðvatns. Aukinn hluti af sorpi fer í endurvinnslu. Fleiri og fleiri svæði á sjó og landi eru vernduð. Evrópusambandið hefur verið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við magnið árið 1990. Það hefur verið fjárfest fyrir milljarða af evrum í lífvænlegri borgum og sjálfbærum samgöngum. Orka sem er mynduð með endurnýjanlegum auðlindum jókst með stigvaxandi hætti.
Á þessu tímabili hefur þekking okkar og skilningur á umhverfinu einnig aukist mikið, sem undirstrikar þá staðreynd að fólkið, umhverfið og hagkerfið eru allt hlutar af sama kerfinu. Á þeim 25 árum frá því að hún var stofnuð, hefur Umhverfisstofnun Evrópu tengt og þróað þessi svið þekkingar til að bæta kerfisbundinn skilning okkar. Fólk getur ekki lifað góðu lífi ef umhverfið og hagkerfið eru í slæmu ásigkomulagi. Ójöfnuður þegar kemur að dreifingu á ávinningi, svo sem efnahagslegum auði og hreinu lofti, og kostnaði, þar með talinni mengun og uppskeru sem tapast vegna þurrka, mun halda áfram að valda félagslegum óróleika.
Það getur verið erfitt að viðurkenna þessar staðreyndir. Á sama hátt getur verið erfitt að breyta eftirlits- og stjórnunarkerfum, neysluvenjum og neysluvali. Eigi að síður, þrátt fyrir umfang verkefnisins, þá er enn mögulegt að skapa sjálfbæra framtíð. Þetta felur í sér að sporna við núverandi háttalagi, svo sem að skera niður umhverfisskaðlega styrki og hætta með og banna mengandi tækni, og á sama tíma styðja við sjálfbæra valkosti og samfélögin sem verða fyrir áhrifum af breytingunum. Kolefnis-hlutlaust, hring-hagkerfi getur dregið úr eftirspurn eftir náttúruauð okkar og takmarkað hækkun á hitastigi í heiminum. Að breyta þeirri stefnu sem við erum á mun útheimta að við breytum venjum okkar og hegðun, til dæmis hvernig við förum á milli staða og hvað við borðum. Þekkingin til að stýra þessari breytingu í átt að langtíma sjálfbærni er til staðar. Það er einnig vaxandi stuðningur hjá almenningi fyrir breytingum. Nú þurfum við að axla ábyrgð og hraða þessum breytingum.
Hans Bruyninckx
Framkvæmdastjóri EEA
Ritstjórnargreinin sem var gefin út í mars útgáfu 2019 af Fréttabréfi Umhverfisstofnunar Evrópu 01/2019
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/articles/heilsusamlegt-umhverfi-er-naudsynleg-forsenda or scan the QR code.
PDF generated on 11 Sep 2024, 12:48 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum