næsta
fyrri
atriði

Article

Umhverfis-, heilbrigðis- og efnahagsmál tengd saman

Breyta tungumáli
Article Útgefið 23 Dec 2013 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © G. Karadeniz / EEA
Áhrifa efnahagskreppunnar sem hófst árið 2008 gætir enn í hagkerfi Evrópu. Milljónir manna hafa fundið fyrir atvinnuleysi eða launalækkunum. Þegar nýútskrifaðir fá enga vinnu í einum ríkasta heimshlutanum, ættum við þá að vera að tala um umhverfismál? Ný umhverfisaðgerðaáætlun Evrópusambandsins gerir það einmitt, en ekki eingöngu. Hún skilgreinir einnig umhverfismál sem samþættan og óaðskiljanlegan hluta heilbrigðis- og efnahagsmála.

Nýlegar úttektir okkar benda til þess að notkun okkar á náttúruauðlindum er ósjálfbær, bæði hvernig við notum þær og hversu hratt. Við neytum meiri náttúruauðlinda en jörðin getur framleitt og losum mengunarefni vel yfir sjálfbæru þoli vistkerfa í góðu horfi. Samanlögð áhrif af umsvifum okkar eru að heilsa okkar, heilbrigði jarðarinnar og geta hennar til að sjá fyrir okkur fer versnandi. Þessi vandamál verða aðeins leyst með langtímaáætlanagerð og samræmdum aðgerðum.

Evrópusambandið hefur nýlega samþykkt sjöundu Umhverfisaðgerðaáætlun sína (7. UAÁ). 7. UAÁ lýsir forgangsmarkmiðum umhverfisstefnu Evrópu fram til ársins 2020 og með henni er kynnt langtímaframtíðarsýn til ársins 2050 um hvernig taka beri á helstu málum. Hún er byggð á þeim skilningi að hagsæld og velferð Evrópubúa velti á því að náttúruauðlegð álfunnar sé heilbrigð.

7. UAÁ er nátengd öðrum evrópskum stefnurömmum svo sem 2020-stefnu ESB, loftslags- og orkupakka ESB, stefnu ESB í líffjölbreytni til ársins 2020, vegvísinum til auðlindanýtinnar Evrópu og vegvísinum um yfirfærslu yfir í lágkolefnishagkerfi árið 2050.

Skilgreining þess að „búa vel“

Með titlinum „Að búa vel, innan takmarka jarðarinnar“ fangar 7. UAÁ strax áskorunina sem framundan er og langtímamarkmið okkar. Í efnahagslegu tilliti merkir það að búa vel, sómasamleg störf sem veita nægar tekjur, en einnig að fólk hafi aðgang að þjónustu og vörum. Í áþreifanlegu tilliti þýðir það heilbrigt líf án sjúkdóma, streitu eða hávaða og aðgang að hreinu lofti og vatni. En það að búa vel felur einnig í sér að við veljum, og með því ákvarðast hvað við framleiðum og hvers við neytum.

Sumum kann að þykja það árangurslítið, hægvirkt og óraunhæft að reyna að takast á við ósjálfbæra neyslu okkar með löggjöf og herferðum til að auka meðvitund um umhverfisáhrifin af því sem við veljum. En það má snúa röksemdinni við og spyrja hvort það sé raunhæft að búast við því að við getum haldið áfram á núverandi braut um ókomna framtíð. Fyrirliggjandi gögn og vísbendingar sýna að það getum við ekki.

Aðgerðir sem eru þegar í gangi

Í ESB er nú þegar í gildi marghliða löggjöf til að ná fram forgangsmarkmiðunum sem lýst er í 7. UAÁ, þ.m.t. búsvæða- og fuglatilskipanirnar, rammatilskipun um stefnu í málefnum hafsins, tilskipanir um loftgæði, rammatilskipun um vatn og aðrar ráðstafanir til að takast á við loftslagsbreytingar, kemísk efni, meðhöndlun úrgangs o.fl.

Í fjárlögum ESB fyrir árin 2014-2020 eru töluverðar fjárhæðir eyrnamerktar stuðningi við markmiðin sem tengjast 7. UAÁ. En aðildarríki ESB sjálf gegna lykilhlutverki í að innleiða og bæta innleiðingu þessara tilskipana og ráðstafana. Þessum forgangsmarkmiðum þarf að breyta yfir í áþreifanleg verkefni og frumkvæði á vettvangi sveitarstjórna, ríkja og álfunnar allrar.

Borgir skoðaðar betur

Með 7. UAÁ er skilgreiningin á umhverfi ekki einskorðuð við ósnortna skóga og óspillt vötn langt í burtu. Það er í kjarna samfélaga okkar: í borgunum okkar, þar sem 80% Evrópubúa búa.

7. UAÁ fjallar ekki aðeins um græn svæði og vatnshlot í borgum eða nágrenni þeirra. Í hinu breiðara stefnumiði hennar er gert ráð fyrir að hreyfanleiki fólks í borgum verði bættur, loftgæði í borgum, orkunýting bygginga, skólphreinsun o.fl., í skýrt samþættri og tengdri sýn á eiginleika vistkerfa (í borgum).

7. UAÁ er mikilvægt, tímabært og metnaðarfullt skref í átt að framtíðarsýn ESB fyrir árið 2050, sérstaklega í ljós þess að hún var samþykkt í miðri langvinnri efnahagskreppu. Ef markmiðum hennar verður náð, verður ekki aðeins umhverfi okkar heilbrigðara, heldur hagkerfið, fjölskyldur okkar og vinir sömuleiðis. Ég hlakka til innleiðingar hennar.

Gleðileg jól og árnaðaróskir á nýja árinu.

Hans BRUYNINCKX

framkvæmdastjóri

Ritstjórnargrein sem birtist í tölublaði nr. 2013/2 Fréttabréfs USE í desember 2013

Permalinks

Geographic coverage

Tags

Filed under:
Filed under: eea newsletter, editorial
Skjalaaðgerðir