næsta
fyrri
atriði

Article

Leiðin til Evrópu 2030: Frjósöm náttúra, sjálfbær efnahagur og heilbrigt líf

Breyta tungumáli
Article Útgefið 05 Oct 2020 Síðast breytt 11 May 2021
6 min read
Photo: © Javier Arcenillas, REDISCOVER Nature/EEA
COVID-19 heimsfaraldurinn er skýrt dæmi um hve brothætt þjóðfélag okkar og efnahagslíf geta verið gagnvart meiriháttar áföllum. Búist er við að hnignun umhverfisins og loftslagsbreytingar geri slík áföll tíðari og alvarlegri. Þegar við stöndum nú frammi fyrir mörgum áskorunum er eini lífvænlegi valkostur okkar að tryggja að hver ákvörðun sem við tökum á þessum tvísýnu tímum færi okkur nær markmiðum okkar varðandi samfélagið og sjálfbærni.

Komandi mánuðir verða þýðingarmiklir í að skilgreina endurreisnar- og fjárfestingaráætlanirnar. Sem framlag okkar til þessarar umræðu erum við að skipuleggja röð málfunda á netinu með því markmiði að færa sérfræðiþekkingu og vangaveltur til breiðari hóps áheyrenda. Breytingar munu gerast á einn veg eða annan. Við þurfum að tryggja að hver ákvörðun okkar á þessari leið færi okkur einu skrefi nær sjálfbærni.

Hans Bruyninckx, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA)

COVID-19 faraldurinn hefur breytt öllu. Heimurinn hefur séð stríð, efnahags- og fjármálakreppur, skógarelda, matarskort og öldur fólksflutninga, og staðbundnar og árstíðabundnar farsóttir. En þessi heimsfaraldur er ólíkur öllu sem núverandi kynslóðir hafa upplifað áður. Hann breiddist út um hnöttinn, hafði bein eða óbein áhrif á milljónir, ef ekki milljarða manna, lokaði heilu þjóðfélögunum, lokaði landamærum og stöðvaði heilu atvinnugreinarnar – og gerði allt þetta á aðeins nokkrum mánuðum.

Nú hafa liðið sex mánuðir síðan mörg lönd í Evrópu gripu til lokunaraðgerða til að berjast við COVID-19. Eftir fyrsta áfallið í kjölfar þessara gríðarlegu og skyndilegu breytinga eru þjóðfélög ennþá að reyna að átta sig á veirunni og öllum áhrifum hennar og finna lausnir til að milda þau.

Misjöfn áhrif á heilsufar

Það er mismunandi hvernig kórónaveiran hefur áhrif á fólk. Viðkvæmir hópar, eins og þeir sem eldri eru eða þeir sem eru með undirliggjandi einkenni og sjúkdóma, virðast vera í meiri hættu.

Sama viðkvæma fólkið verður vanalega fyrir meiri áhrifum frá heilsufarsógnum í umhverfinu, sérstaklega vegna lélegra loftgæða. Langvinn útsetning fyrir loftmengun – jafnvel af lágum styrk – og öðrum mengunarvöldum getur skaðað heilsu manna og valdið krónískum sjúkdómum, og þar af leiðandi gert fólk viðkvæmara fyrir fyrirliggjandi og nýjum sjúkdómum eins og COVID-19.

Nýleg skýrsla okkar um „Heilbrigt umhverfi, heilbrigt líf“ undirstrikar að eitt af hverjum átta dauðsföllum í Evrópu má rekja til lélegra umhverfisgæða. Hún beinir einnig athyglinni að ójöfnuði varðandi heilsufarsáhrif bæði yfir alla Evrópu og innan landa. Með því að draga úr mengun í umhverfinu og tryggja aðgang að hreinu umhverfi er hægt að minnka byrðar sjúkdóma og hjálpa fólki að lifa heilbrigðara lífi.

Verndun náttúrusvæða

COVID-19 er sjúkdómur sem berst milli manna og dýra. Hann er ný veira sem hefur borist úr dýrategundum í menn. Líklegast er að slíkt stökk eigi sér stað þegar villt dýr komast í nálæga snertingu við hóp manna, sem er að mestu leiti afleiðing af aukinni starfsemi manna á náttúrusvæðum, verkunar milli manna og dýra í þéttbærum kjötvinnslustöðvum eða veiðum á villtum dýrategundum til manneldis.

COVID-19 er því aðeins enn eitt dæmið um tengslin milli víðtækari hnignunar umhverfisins og áþreifanlegra áhrifa hennar á heilsu okkar og velferð. Á nokkrum síðustu dögum hafa tvær skýrslur verið birtar – Horfur um líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu 5 frá ráðstefnunni um líffræðilega fjölbreytni og Skýrsla um lífið á jörðinni 2020 frá WWF. Báðar leggja þær áherslu á ógnvekjandi hraða hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni og kalla eftir afgerandi og áríðandi aðgerðum á heimsvísu. Sama áhyggjuvaldandi þróunin sést í Evrópu, sem hefur áhrif á viðkomugetu náttúrunnar, framleiðni og getu til að sjá fyrir okkur. Á komandi vikum munum við gefa út ítarlegt mat á stöðu náttúrunnar í Evrópu sem byggt verður á ítarlegum upplýsingum fengnum frá meðlimaríkjum ESB.

Að auka viðkomugetu náttúrunnar á heimsvísu með því að vernda og endurheimta náttúruleg svæði og skipta yfir í sjálfbæra matvælaframleiðslu er ekki aðeins líklegt til að minnka hættuna í tengslum við sjúkdóma sem berast milli manna og dýra heldur einnig til að tryggja velferð okkar til lengri tíma.

Óvissan í loftslagsmálum tekin með

Hvernig og hversu hratt við notum náttúrulegar auðlindir – þar með talið jarðefnaeldsneyti, skóg og land – er einnig í þungamiðju loftslagsbreytinganna. Frá síðustu skógareldunum í Bandaríkjunum til bráðnandi jökla í Ölpunum eru áhrifin þegar orðin átakanleg. Nema okkur takist að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og aðlögumst loftslagsbreytingum, munum við standa frammi fyrir mörgum fleiri alvarlegum áföllum sem munu hafa áhrif á samfélög okkar og efnahagslíf. Og, eins og í tilfelli COVID-19 og loftmengunar, verða sum okkar fyrir meiri áhrifum en önnur.

COVID-19 kom af staði almennri heilsufarskrísu auk djúprar efnahagskreppu. Til að bregðast við þessu hefur Evrópusambandið og aðildarríkin verið að setja saman áætlanir um efnahagslega endurreisn.

Aðalspurningin er: Hvernig getum við unnið okkur út úr núverandi kreppu þannig að komið verði í veg fyrir að önnur krísa – umhverfis, loftslags, efnahags og vegna almenns heilsufars – verði í framtíðinni?

Uppbygging sjálfbærs, réttláts samfélags og græns efnahagslífs

Lokunaraðgerðir komu á miklum og skyndilegum breytingum á lífsháttum í Evrópu. Það voru færri ökutæki á vegunum og varla neitt farþegaflug. Margskonar virkni færðist á netið og minnkaði enn frekar þörfina á ferðalögum. Áhrifin á umhverfið voru skýr. Loftgæði jukust í borgum innan vikna. Eftir því sem takmörkunum er aflétt og efnahagslífið nær sér á strik sjáum við stigvaxandi aukningu í átt til þess sem var fyrir COVID.

COVID dæmið hefur sýnt að lönd sem gripu til fljótra og afgerandi aðgerða voru almennt með færri sýkingar og dauðsföll, þar á meðal hjá viðkvæmari hópum. Lokunaraðgerðir ollu verulegum breytingum á lífstíl á stuttum tíma og minnkuðu þannig álagið á náttúruna og tölvuvæðing býður upp á ýmsar lausnir. Á sama hátt geta afgerandi aðgerðir, sem valda grundvallarbreytingum á framleiðslu- og neyslukerfum okkar, skipt raunverulegu máli.

Markmið langtímastefnu Evrópu koma fram í Grænum samningi Evrópu auk aðferðanna og aðgerðaáætlana. Stefnuræða forseta Evrópuráðsins Ursula von der Leyen staðfesti ekki aðeins skuldbindingar Evrópu varðandi þessi markmið heldur vakti einnig máls á enn metnaðarfyllri markmiðum í loftslagsmálum. Þessum markmiðum á að ná með réttlátum umskiptum, aðgerðum varðandi ójöfnuð og félagslegu réttlæti jafnfætis loftslagsmarkmiðunum.

Komandi mánuðir verða þýðingarmiklir í að skilgreina endurreisnar- og fjárfestingaráætlanirnar. Sem framlag okkar til þessarar umræðu erum við að skipuleggja röð málfunda á netinu með því markmiði að færa sérfræðiþekkingu og vangaveltur til breiðari hóps áheyrenda.

Breytingar munu gerast á einn veg eða annan. Við þurfum að tryggja að hver ákvörðun sem við tökum á þessari leið færi okkur einu skrefi nær sjálfbærni.

Hans Bruyninckx

Framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu

Viðtalið birtist í september útgáfu fréttabréfs Umhverfisstofnunar Evrópu 03/2020

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage

Topics

Tags

Filed under:
Filed under: european green deal
Skjalaaðgerðir