Iðnaður

Breyta tungumáli
Page Síðast breytt 10 Aug 2018
Frammistaða iðnaðarins í Evrópu í umhverfismálum hefur batnað á undanförnum áratugum. Breytingar hafa átt sér stað af nokkrum mismunandi ástæðum: strangari umhverfislöggjöf, endurbætur á skilvirkni orkunotkunar, almenn þróun iðnaðar í Evrópu að þróast í átt frá mengandi iðnaðarframleiðslu yfir í hreinni framleiðslu, og þátttaka fyrirtækja í sjálfvöldum verkefnum sem miða að því að draga úr umhverfisáhrifum þeirra. Þrátt fyrir þessar endurbætur, ber iðnaðurinn enn þann dag í dag ábyrgð á umtalsverðu álagi á umhverfið sem birtist sem mengun og úrgangur sem fellur til frá iðnaðarframleiðslunni.

Iðnaður Evrópu skilar miklum hagrænum og félagslegum ávinningi: hann framleiðir vörur og framleiðsluvörur, og skapar störf og skatttekjur. Hins vegar standa stærstu iðnaðarverksmiðjur Evrópu á bak við umtalsverðan hlut af heildarlosun mikilvægra mengandi efna í loft og gróðurhúsalofttegunda(GHG), auk þess sem verksmiðjurnar hafa önnur mikilvæg umhverfisáhrif, þar með talin losun mengandi efna í vatn og jarðveg, myndun úrgangs og orkunotkun.

Stefna ESB

Iðnaður er lykilþáttur í hagkerfi Evrópu, en um leið mengunarvaldur. Í mörg ár hafa umhverfisreglur takmarkað ýmis áhrif þessa mengunarvalda á heilsu fólks og umhverfis. Þær Evrópureglur sem þegar eru í gildi til að takmarka mengun af völdum iðnaðar eru eftirfarandi:

 • Í tilskipun um losun í iðnaði (IED) koma fram þær kröfur sem gerðar eru til 50.000 stórra iðnaðarmannvirkja til að forðast eða draga úr losun mengandi efna í andrúmslofti, vatni og jarðvegi. Í tilskipuninni er þess einnig krafist að dregið sé úr losun úrgangs frá þessum mannvirkjum. Fyrir tiltekna starfsemi, t.d. stór brennsluver, sorpbrennslustöðvar og sambrennslustöðvar, notkun leysiefna og framleiðslu á títandíoxíði setur tilskipunin fram útblásturstakmarkanir fyrir tiltekna mengunarvalda.
 • Í tilskipuninni um meðalstórar brennslustöðvar kemur fram að frá 2018 verði settar skorður á brennisteinstvíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOX) og ryk frá bruna á eldsneyti í stöðvum með nafnvarmaafl meira en 1 megavatt (MWth) og minna en 50 MWth.
 • Í rammatilkskipun um visthönnun eru settar fram Evrópureglur til að bæta orkunýtingu  vara, s.s. heimilistækja, tölvu- og samskiptabúnaðar eða hönnunar.
 • Með viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) er dregið úr gróðurhúsalofttegundum frá yfir 12.000 orkuframleiðslu- og framleiðslustöðvum í 31 landi sem og frá flugumferð. Viðskiptakerfið nær yfir um 45% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í ESB
 • Í rammatilskipun um vatn er þess krafist að aðildarríkin dragi smám saman úr vatnsmengun af völdum efna sem saman eru nefnd „forgangsefni“. Þess er einnig krafist að aðildarríkin hætti eða dragi úr útblæstri, losun og leka á hættulegri mengunarefnum sem saman nefnast „hættuleg forgangsefni“.
 • Í tilskipun um hreinsun skólps frá þéttbýli er fjallað um verndun umhverfis gegn hættulegum áhrifum losunar frá skólpi úr þéttbýli og tilteknum öðrum iðnaðargeirum.

 

Almennur aðgangur að upplýsingum um mengandi iðnað hefur batnað stórlega á síðustu áratugum. Þar hefur  Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna  veitt ýtarlegt yfirlit yfir mengandi útblástur og yfirfærslu frá stærri iðnaði. Hún hefur að geyma árlegar upplýsingar frá meira en 30.000 iðnaðarmannvirkjum í 33 Evrópulöndum um magn mengunar í lofti, vatni og landi sem og frárennsli frá vinnslustöðvum og um mengunarefni í skólpi.

 Aðgerðir í átt að sjálfbærni

Einnig hafa verið sett fram skilyrði um sjálfbærni til að draga úr áhrifum iðnaðar á umhverfi.  Dæmi um slíkar aðgerðir eru útbreidd upptaka umhverfisstjórnunaraðgerða í gegnum umhverfisstjórnunarkerfi Evrópubandalagsins (EMAS) og ISO14001.

Einnig var ráðist í frumkvæðisverkefni tengd samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja til að ná fram félagslegum og umhverfislegum markmiðum umfram lagakröfur.  Dæmi um það eru verkefnið Responsible Care innan efnaiðnaðarins, Global e-Sustainability Initiative (GeSI), stjórnunarstefna alþjóðaráðsins um námugröft og málmvinnslu og viðskiptanetið CSR Europe.

Innan Evrópusambandsins hefur framkvæmdastjórnin innleitt stefnumótun um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og í alþjóðlegu tilliti veitir ISO 26000 staðallinn um samfélagslega ábyrgð leiðbeiningar um hvernig fyrirtæki og stofnanir geta starfað á samfélagslega ábyrgan hátt.

 Aðgerðir EEA

Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) kemur að innleiðingu og mati á mengunarstefnu ESB. Við vinnum einnig að þróun á stefnumótun til langs tíma til að draga úr umhverfislegum og heilsufarslegum áhrifum af völdum iðnaðar.

Gögn um útblástur frá iðnaði

Stofnunin styður við þróun ESB á langtímastefnumörkun til að draga úr umhverfislegum þrýstingi vegna iðnaðar með því að veita mat og upplýsingar til stefnumótandi aðila. Meginstarfsemi okkar og þjónusta felst í að gera tiltæk þau gögn sem koma frá Evrópulöndum sem hluti af tilkynningaskyldu þeirra samkvæmt Evrópulögum, þ.m.t.:

 • að veita gögn um útblástur frá stórum brennsluverum og upplýsingar sem koma fram í Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna.
 • skýrslugjöf um framleiðslu, viðskipti með og notkun á efnum sem valda rýrnun ósonlagsins innan Evrópu og veiting nýjust gagna sem koma frá evrópskum fyrirtækjum samkvæmt viðkomandi reglugerðum
 • samantekt á efnum sem valda rýrnun ósonlagsins frá Evrópu í samræmi við Montreal-bókunina
 • skýrslugjöf um notkun á flúoruðum gastegundum innan ESB  og að veita nýjustu upplýsingar frá evrópskum fyrirtækjum samkvæmt reglugerðinni um flúoraðar gastegundir
 • skráning á notkun viðskiptakerfis ESB fyrir losunarheimildir (ETS) í aðildarríkjunum
 • að veita hagnýtar upplýsingar til ríkja og fyrirtækja vegna skýrslugjafar um gögn sem tengjast útblæstri frá iðnaði

 

Skilvirkari skýrslugjöf

EEA styður við þróun ESB á verkefnum sem auka einfalda skýrslugjöf um útblástur frá iðnaði. Þar á meðal eru verkefni til að samræma og einfalda löggjöf um upplýsingagjöf aðildarríkja ESB og fyrirtækja um iðnað.

 Mat og skýrslur

EEA gefur út ýmsar matsskýrslur sem fjalla um umhverfisáhrif iðnaðar í Evrópu. Þar á meðal eru skýrslur EEA sem koma út á fimm ára fresti, „Umhverfismál í Evrópu - Ástand og horfur“, og aðrar sértækari skýrslur.

Aðgerðir EEA varðandi iðnaðarmengun eru gerðar í nánu samstarfi við í evrópska verkefnamiðstöð um loftmengun og loftlagsbreytingar (ETC/ACM) og landanet EEA (Eionet).

 Horfur

Til að iðnaður í Evrópu verði umhverfisvænni í framtíðinni þarf heildstæða nálgun sem eykur mengunarstjórnun á upprunastað og hvetur til breytinga á aðferðum og upptöku nýrrar og betri tækni.

Stefnumótendur telja það vera forgangsatriði að stækka þekkingargrunn Evrópu um iðnaðarmengun. Í samræmi við Árósarsáttmálann inniheldur 7. umhverfisaðgerðaáætlunin markmið um að bæta aðgengi að upplýsingum um innleiðingu löggjafar um mengunarstjórnun. Í tilskipuninni um losun í iðnaði er þess krafist að aðildarríki veiti betri samantektarupplýsingar um iðnaðarmannvirki.

Full innleiðing endurbættrar löggjafar mun stuðla að betri stjórnun losunar í iðnaði.

 • Tilskipunin mun koma á strangari reglum um iðnaðarstarfsemi en hin fyrri tilskipun um mengunarvarnir og mengunarstjórnun í iðnaði. Reglurnar fela í sér meginregluna um bestu fáanlegu tækni (Best Available Technique, BAT), sem nær til víðtækari iðnaðarstarfsemi en tilskipunin um mengunarvarnir og mengunarstjórnun í iðnaði, og einnig innleiðingu hámarkslosunargilda sem kveðið er á um í tilskipuninni um losun í iðnaði, sérstaklega fyrir stór brennsluver, þar sem þau eru strangari en þau sem tilskipunin um stór brennsluver segir til um (2001/80/EB).
 • Tilskipun um meðalstór brennsluver mun minnka árlega losun mikilvægu lofttegundanna SO2, NOX og PM verulega.

Að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda var viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hannað til að hvetja til upptöku tækni sem losar lítinn koltvísíring. Árið 2020 verður losun úr iðnaði sem viðskiptakerfið nær til 21% minni en árið 2005. Árið 2030 verður hún 43% minni, samkvæmt niðurstöðum leiðtogaráðsins í október 2014.

Til langs tíma leggur vegvísir framkvæmdastjórnarinnar að auðlindanýtinni Evrópu drög að því hvernig Evrópuhagkerfið gæti orðið sjálfbært fyrir árið 2050. Þar er stungið upp á leiðum til að auka framleiðni og aðskilja vöxt frá notkun á auðlindum en forðast á sama tíma að festast í tiltekinni tækni, svo að minnka megi losun gróðurhúsalofttegunda um 80% af magni þeirra árið 1990 fyrir árið 2050. Pakkinn um hringlaga hagkerfi sem lagður var fram árið 2015 kemur á aðgerðaáætlun fyrir ferlið í heild sinni: frá framleiðslu og notkunar til úrgangsstjórnunar og markaðs fyrir  endurunnin hráefni. Þessar aðgerðir fela í sér leiðsögn um hringlaga hagkerfi og upplýsingar um bestu venjur við endurnýtingu vatns í viðeigandi hliðsjónarskjölum um bestu fáanlegu tækni í tilskipun um losun í iðnaði.

Framkvæmdastjórnin stendur nú fyrir mati á hæfi og árangri reglugerðarinnar um Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna til að rannsaka að hve miklu leyti löggjöfin uppfyllir enn markmiðin með henni. Gert er ráð fyrir að matið verði birt fyrir lok árs 2016. Auk þess er í gangi víðtækt mat á hæfi eftirlit og skýrslugjafar samkvæmt umhverfislöggjöf með það að markmiði að finna aðgerðir í átt að einfölduðu, skilvirku og árangursríku eftirliti og skýrslugjöf. Áætlað er að niðurstöður og hugsanlegar tillögur um frekari aðgerðir verði kynntar í lok árs 2017.

 

Tengdir hlekkir:

Evrópuskrá yfir losun og flutning mengunarefna (E-PRTR)

Gögn um stór brennsluver

Stjórnarsvið umhverfismála og iðnaðarlosunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Stjórnarsvið loftlagsaðgerða hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Verkefnamiðstöð um lágmörkun loftmengunar og loftlagsbreytinga (ETC/ACM)

Tengt efni

Tengd gögn

Tengd rit

Sjá einnig

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir
Áskriftir
Nýskráning til þess að fá skýrslur frá okkur (á prentuðu og/eða rafrænu formi) og ársfjórðungslegt e-fréttabréf.
Fylgjast með okkur
 
 
 
 
 
Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)
Kóngsins nýjatorgi 6
1050 Kaupmannahöfn K
Danmörku
Sími +45 3336 7100