All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Press Release
Skýrslan ‘Umhverfi Evrópu — fjórða úttekt’ var kynnt í Belgrað í Serbíu við opnun sjöttu ráðherraráðstefnunnar í tengslum við áætlunina 'Umhverfi fyrir Evrópu', á vegum Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE).
Skýrslan er nýjasta úttektin í röð úttekta á umhverfisástandi allrar Evrópu sem EEA hefur gefið út á síðastliðnum 15 árum. Í henni er gerð grein fyrir framförum í umhverfismálum fimmtíu og þriggja landa – þar sem búa meira en 870 milljónir manna. Svæðið nær yfir Austur-Evrópu, Kákasuslöndin og Mið-Asíu (AEKMA), Suðaustur-Evrópu (SAE), ásamt Vestur- og Mið-Evrópu (VME).
Framfarir í beitingu ríkjandi stefnumörkunar og setning einfaldra og raunhæfra markmiða er það sem mest áhersla er lögð á í skýrslunni. Hins vegar er einnig mjög brýn þörf fyrir sameiginlegt upplýsingakerfi fyrir umhverfisupplýsingar svo að hægt verði að bæta úr hinum afleita skorti á traustum upplýsingum um allt þetta mikla landsvæði, gögnum sem auðvelt er að nálgast og bera saman.
“Við verðum að einbeita okkur enn betur að því að efla aðgerðir til að bæta umhverfið hvarvetna í Evrópu. Til þess þurfum við að læra betur á vandamálin sem við stöndum frammi fyrir, kynnast betur eðli þeirra og átta okkur á því hvernig þau hafa birtst í hinum ýmsu samfélögum og á hinum ýmsu tímum. Greining, mat, samskipti og meiri og betri menntun; allt þetta mun gera okkur kleift að brúa þessa ‘upplýsingagjá’ og þeir sem þurfa að taka til hendinni munu þá kunna réttu tökin,” sagði Jacqueline McGlade, prófessor og framkvæmdastjóri EEA.
Í skýrslunni kemur fram að flestallt það sem mest þrengir að umhverfinu á þessu feiknastóra landsvæði stafar af hverskonar atvinnuumsvifum, eins og landbúnaði, ferðaþjónustu, samgöngum, flutningum og orkuframleiðslu. Neyslumynstur nútímans og framleiðsluhættir spilla auðlindum náttúrunnar meir og meir og umhverfið stendur höllum fæti.
Allt það sem herjar á umhverfið, og það er býsna margt, hefur spillt miklu og nú er svo komið að ástand vatnsbirgða, lofts og jarðvegs er orðið mjög lélegt víða, en að vísu hefur það skánað sumsstaðar. Meira en 100 milljónir manna hafa ekki aðgang að nothæfu drykkjarvatni og hreinlætið líður fyrir það. Í mörgum löndum í Austur-Evrópu, Kákasusfjöllum, Mið-Asíu og Suðaustur-Evrópu hefur vatnsgæðum og hreinlæti hrakað á undanförnum 15 árum og það bitnar mest á fólki í dreifbýli, segir í skýrslunni.
Þótt eitthvað hafi áunnist í að draga úr loftmengun, er magn hættulegra efna – einkum nituroxíðs, fíns svifryks og ósons við jörðu – orðið svo mikið að það er talið muni stytta ævi fólks í löndum Vestur- og Mið-Evrópu um næstum því eitt ár að meðaltali og ógna heilsu og vexti barna. Í Austur-Evrópu, Kákasusfjöllum og Mið-Asíu má gera ráð fyrir að ástandið sé ekki skárra. Þar hafa flestar tegundir loftmengunar aukist um 10% frá aldamótum vegna mikils hagvaxtar, aukinna flutninga og lélegrar stefnumótunar til að vinna gegn loftmengun.
Í skýrslunni er víðtækt og ítarlegt mat á ástandi hafanna umhverfis Evrópu, og þar kemur fram að menn hafa mjög þungar áhyggjur af ofveiði, þörungablóma og síauknu álagi á strandsvæðin. Þótt meiriháttar olíuslysum fækki, er enn þó nokkur olíulosun í höfin vegna ýmiss konar atvinnustarfsemi.
Hvað varðar líffræðilegan fjölbreytileika ber þess að geta að engin von er til þess að því markmiði að snúa við þróuninni eigi seinna en árið 2010 verði náð nema með verulega auknu átaki. Meira en 700 tegundir eru í útrýmingarhættu vegna eyðingar búsvæða, hnignunar umhverfisins og allskonar truflunar, þar á meðal gaupan á Íberíuskaganum.
Áhrif loftlagsbreytinga á samfélagið og auðlindir náttúrunnar eru þegar sýnileg um allan heim og gert er ráð fyrir að þau eigi enn eftir að aukast – jafnvel þótt losun gróðurhúsalofttegunda dragist mjög mikið saman. Í skýrslunni er lögð þung áhersla á að þjóðirnar reyni að búa sig nú þegar undir áframhaldandi loftslagsbreytingar, þótt ekki sé víst hvert framhaldið verður.
“Ráðherrarnir hafa lýst því yfir að ráðstefnan í Belgrað sé ‘ráðstefna um björgunaraðgerðir’. Skýrslan okkar sýnir að framfarir hafa orðið. Okkur
hefur tekist að minnka nokkuð loftmengunina og við höfum bætt hreinsun skólps. Hins vegar lifum við á miklum breytingatímum og höfum verulegar áhyggjur af ógnvænlegum og
heilsuspillandi áhrifum loftmengunar og ískyggilegri hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og náttúrlegs umhverfis. Til að bregðast við þessum flóknu umhverfisvandamálum
þurfum við að halda áfram að vinna saman allsstaðar í Evrópu og jafnframt verður fjárhagslegur og tæknilegur stuðningur okkar að vera ákaflega hnitmiðaður,” sagði
prófessor McGlade.
Lesið skýrsluna í heild hér: http://www.eea.europa.eu/pan-european/fourth-assessment
Umhverfi Evrópu — fjórða úttektin
Þessi skýrsla, ‘Umhverfi Evrópu — fjórða úttektin’ er árangur víðtækasta samstarfs um sameiginlega nýtingu umhverfisupplýsinga sem fram að þessu hefur farið fram. Henni er ætlað að veita nýjar og áreiðanlegar upplýsingar um samspil umhverfis og samfélags og jafnframt að stuðla að því að umhverfismarkmiðum fyrir Evrópu alla verði náð.
Frá Kiev til Belgrað
Með áætluninni 'Umhverfi fyrir Evrópu'(EfE) vinna 56 lönd saman að því að bæta ástand umhverfisins. Áætlunin er alveg einstök samvinna ríkjanna í Efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE). EfE áætlunin nær einnig til stofnana Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, annarra alþjóðastofnana, svæðismiðstöðva umhverfismála og hagsmunasamtaka.
Til að styðja þessa starfsemi hefur EEA útbúið fjölþætt umhverfismat fyrir allt Evrópusvæðið til að fá fram upplýsingar um gagnkvæm áhrif umhverfis og samfélags, sem eru bæði nýjar og áreiðanlegar og koma jafnframt markaðri stefnu við á beinan hátt.
Fyrsta heildarmatið á ástandi umhverfismála í allri Evrópu var kynnt í Sofiu árið 1995. Matið var síðar uppfært í tvígang og kynnt á ráðherraráðstefnunum í Árósum 1998 og Kiev 2003
Þetta er fjórða skýrslan í röðinni. Þar sem því verður við komið er árangurinn metinn í skýrslunni, einkum með hliðsjón af markmiðum Sjötta átaksverkefnis Efnahagsbandalags Evrópu í umhverfismálum og Umhverfisáætlunar fyrir löndin í Austur-Evrópu, Kákasus og Mið-Asíu.
Skýrslan, ‘Umhverfi Evrópu — fjórða úttekt’ nær til 53 landa, en þau eru: Albanía, Andorra, Armenía, Austurríki, Aserbaidsjan, Hvíta Rússland, Belgía, Bosnía, Hersegóvína, Búlgaría, Króatía, Kýpur, Lýðveldið Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Kasakstan, Kyrgystan, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemburg, FYR Makedónía, Malta, Lýðveldið Moldavía, Mónakó, Svartfjallaland, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Rússland, San Marínó, Serbía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Tadsjikistan, Tyrkland, Túrkmenistan, Úkraína, UK og Úsbekistan.
Um Umhverfisstofnun Evrópu (EEA):
EEA hefur aðsetur í Kaupmannahöfn. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að mikilvægum og mælanlegum framförum í umhverfismálum Evrópu með því að koma tímabærum og hnitmiðuðum, viðeigandi og öruggum upplýsingum á framfæri við stefnumótendur og allan almenning.
Nánari upplýsingar um EEA er að finna á vefsvæðinu: http://www.eea.europa.eu
Fyrirspurnum frá fjölmiðlum skal beint til
Brendan Killeen
Press Officer
Sími: +45 33 36 72 69
Farsími: +45 23 68 36 71
Marion Hannerup
Head of Communications and Corporate Affairs
Sími: +45 33 36 71 60
Farsími: +45 51 33 22 43
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/pressroom/newsreleases/radherrar-verda-ad-taka-saman-hondum-til-ad-tryggja-farsela-lausn-a-umhverfismalum-evropu or scan the QR code.
PDF generated on 15 Oct 2024, 06:37 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum