næsta
fyrri
atriði

Article

Landbúnaður Evrópu: hvernig á að gera matvæli ódýr, heilbrigð og „græn“

Breyta tungumáli
Article Útgefið 08 Jan 2014 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © G. Karadeniz / EEA
Framleiðsla á nægjanlegum matvælum fyrir íbúa Evrópu byggist á þaulræktun sem hefur áhrif á umhverfið og heilsu okkar. Geta Evrópubúar fundið fleiri umhverfisvænar leiðir til að framleiða matvæli? Við spurðum Ybele Hoogeveen þessarar spurningar sem leiðir hóp hjá Umhverfisstofnun Evrópu sem kannar áhrif auðlindanýtingar á umhverfið og vellíðan manna.

Í nýlegri vísiskýrslu USE eru matvæli skilgreind sem eitt af stærstu kerfunum sem hafa áhrif á umhverfið. Hvað er matvælakerfi? Hvernig hefur það áhrif á okkur?

Hugtakið „matvælakerfi“ nær yfir öll ferli og innviði sem við höfum komið á fót til að framleiða og neyta matar. Það tekur til landbúnaðar, verslunar, smásölu, flutninga og neyslu. Matur er grunnþörf. Matvæli þurfa, auk þess að vera í boði, að vera af miklum gæðum og aðgengileg, m.ö.o. ómenguð og ódýr.

Það eru sterk tengsl á milli heilsu manna og vellíðunar og matar. Bæði vannæring og offita eru heilsufarsvandamál sem tengjast mat beint. Landbúnaður stuðlar einnig að loftslagsbreytingum og loft- og vatnsmengun, þáttum sem geta allir haft áhrif á heilsu manna og velferð óbeint.

Þegar við lítum nánar á málið sjáum við einnig að landbúnaður gegnir mjög mikilvægu félags- og efnahagslegu hlutverki. Í mörgum dreifbýlissamfélögum er hann burðarás hins staðbundna hagkerfis, táknar lifnaðarhætti og samspil við náttúruna sem hefur gildi fyrir menningu og útivist. Það hvernig við framleiðum matvæli hefur áhrif á fegurð landslagsins.

Eru einhver einkenni og leitnir greinanlegar í Evrópu hvað snertir matvælaframleiðslu og neyslu?

Almennt hefur Evrópa nútímaleg landbúnaðarframleiðslukerfi og gott ræktarland. Framleiðni á hektara hefur aukist töluvert, sérstaklega á síðari hluta 20. aldar. Með því fjölbreytilega ræktarlandi og loftslagi sem finna má í Evrópu er breitt úrval af vörum framleitt í álfunni. En Evrópumenn reiða sig einnig á innflutning, aðallega á fóðri, ferskum ávöxtum og grænmeti, um leið og þeir flytja út aðallega unnin matvæli.

Hvað neysluna áhrærir hafa orðið nokkrar breytingar á mataræði á undanförnum árum. Til dæmis hefur neysla rauðs kjöts aukist umtalsvert á síðustu fimm áratugum. En frá árinu 1995 hefur nautakjötsneysla á mann minnkað um 10%. Á hinn bóginn borða Evrópubúar nú meira alifuglakjöt, fisk og sjávarfang, ávexti og grænmeti.

Hverjar eru áskoranirnar sem matvælakerfi Evrópu munu glíma við á næstu áratugum?

Það eru aðallega tvö áhyggjuefni í Evrópu. Hið fyrra er félags- og efnahagslegt.  Þéttbýlismyndun og tengdar breytingar á lifnaðarháttum sýna að vægi landbúnaðar sem atvinnustarfsemi fer minnkandi. Bændum í Evrópu fer fækkandi og meðalaldur þeirra fer hækkandi.  Það verður stöðugt erfiðara að halda áfram búskap, sérstaklega þar sem land er erfitt undir bú. Það er farið að bera á því að ræktarland sé yfirgefið og það gæti haft afleiðingar utan hins staðbundna hagkerfis á svæðum þar sem búskapur stuðlar að náttúruvernd.

Hitt er meiri þaulræktun. Hún snýst um að fá hærri afrakstur á hektara með stækkunum, vélvæðingu, þurrkun lands, áveitu og notkun áburðar og skordýraeiturs. Þetta eykur arðsemi og leiðir til þess að minna land þarf undir búskap. Á hinn bóginn dregur það úr líffjölbreytni ræktaðs lands og eykur mengun jarðvegs, áa og vatna.

Loftslagsbreytingar munu einnig hafa áhrif á landbúnaðarframleiðni um alla Evrópu. Á mörgum svæðum gæti fólk þurft að laga sig að breytingum á vaxtartímabilum og úrkomu.

Getur Evrópa fært sig úr þaulræktun yfir í víðræktun?

Yfirfærsla yfir í lág-afkastakerfi væri óraunhæf og gengi gegn markmiði sínu. Við höfum ekki efni á því að búskapur sé óhagkvæmur, hvorki efnahagslega né umhverfislega.  Á sama tíma þurfum við að draga úr mengun frá landbúnaði. Þetta veldur klemmu.  Lífræn ræktun (án skordýraeiturs og áburðar) getur einnig gengið nærri landinu, en áætlað er að hún gefi u.þ.b. 20% minna af sér en þaulræktun. Til að framleiða sama magn af matvælum áfram þyrftum við þá að úthluta meira landi til landbúnaðar.

Slík umskipti hefðu einnig hnattræn áhrif. Þar eð ESB er einn stærsti framleiðandi og útflytjandi matvæla hefði hverskyns marktæk minnkun á framleiðslu þess áhrif á heimsframleiðsluna og þar af leiðandi matvælaverð. Allir í samfélaginu finna fyrir hækkun á matvælaverði, sérstaklega tekjulágar fjölskyldur. Slíkt gengi gegn markmiðinu um aðgengileg og ódýr matvæli.

Hver væri besta atburðarásin?

Landbúnaður verður ávallt sú starfsemi manna sem hefur einna mest áhrif á umhverfið. Þau áhrif má þó minnka á ýmsa vegu. Umskipti í átt að nýstárlegum lág-inntakskerfum (t.d. með því að beita lífrænum og nákvæmnis-ræktunaraðferðum) virðist heilt á litið vera besta leiðin fram á við.

Það væri sennilega ekki nóg að bæta framleiðsluhliðina í ljósi vaxandi eftirspurnar eftir fæðu, trefjum og orku. Við þurfum að auka skilvirkni frekar í öðrum hlutum matvælakerfisins, svo sem flutningum, verslun og neyslu.

Stór landsvæði eru notuð til að framleiða fóður, til að fæða nautgripi sem eru ræktaðir vegna kjötsins. Breyting á mataræði sem fæli í sér minna kjöt og meira grænmeti myndi sannarlega létta á þrýstingi á hnattrænni landnotkun. Eða tökum dæmið um sóun matvæla. 30-40% framleiddra matvæla í Evrópu er sóað.  Sóun matvæla byrjar á akrinum, heldur áfram í flutningum, í smásölu og endar á heimilum okkar. Í hverju skrefi sóum við landinu, vatninu og orkunni sem notuð er fyrir matinn sem við neytum ekki einu sinni.

Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB gegnir hér lykilhlutverki. Með nýlegum umbótum var sambandið milli greiðslna til bænda og framleiðslumagns þeirra að miklu leyti rofið. Til þess að bændur uppfylli skilyrði fjárstuðnings þurfa þeir nú að hlíta umhverfislöggjöf og vissar aðgerðir í átt til „grænkunar“ eru skylda. Þó að með því hafi dregið úr offramleiðslu og umhverfisálag gæti minnkað, er hægt að gera meira, t.d. draga úr notkun tilbúins áburðar og skordýraeiturs.

Landbúnaður keppir einnig um land við orkuframleiðslu (lífeldsneyti), byggð svæði og borgir. Betra rýmisskipulag — hvar á að hafa þaulræktun, hvar á að hafa lág-inntaks-víðræktun — myndi einnig stuðla að skilvirkari notkun lands og draga úr umhverfisálagi á fólk.

Allt í allt er ákjósanleg þróun að auðlindirnar sem við höfum til ráðstöfunar, sérstaklega land og vatn, verði betur nýttar. Í nýlegri vísiskýrslu okkar er litið af víðari sjónarhóli á auðlindanotkun og matvælakerfið tengt við önnur helstu kerfi: orku, heimili og hráefni.

Ybele Hoogeveen

Viðtal sem birtist í tölublaði nr. 2013/2  Fréttabréfs USE í desember 2013

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir