næsta
fyrri
atriði

Article

Þorskar á þurru landi - Stjórn fiskveiða og loftlagsbreytingar

Breyta tungumáli
Article Útgefið 23 Mar 2009 Síðast breytt 11 May 2021
Fiskimaður segir frá Nóttina 6. október 1986 voru fiskimenn frá smábænum Gilleleje fyrir norðan Kaupmannahöfn að veiða humar í Kattegat. Er þeir drógu net sín reyndust þau full af leturhumri, sem annaðhvort var þegar dauður eða að drepast. Margir humranna, um helmingur, voru einkennilegir á litinn.

Ef Eystrasaltsþorskurinn fengi að vera í friði í tvö ár myndi hann ná sér á strik

Henrik Sparholt, Sérfræðingur hjá Ráðgjafarsviði Alþjóða hafrannsóknarráðsins


Mælingar á súrefni í sjónum, ásamt því að humarinn var dauður eða í andarslitrunum, sýndi svo ekki var um að villast að óvenjulega stórt botnsvæði syðst í Kattegat var gjörsamlega súrefnislaust. Vísindamenn við Dönsku umhverfisrannsóknarstofnunina, sem rannsökuðu hvað hafði valdið þessum einkennilega atburði, töldu að 'anoxia', þ.e. súrefnisskortur við hafsbotninn, hefði kæft humrana þarna um nóttina!

Nú, 22 árum síðar er 'anoxia' viðvarandi í stórum hlutum Eystrasalts og talað er um víðáttumikil 'dauð svæði'.

Hrun fiskveiða við Borgundarhólm

Borgundarhólmur, sem er yndisleg dönsk eyja í mynni Eystrasalts, u.þ.b. á milli Svíþjóðar, Þýskalands og Póllands, er þekkt fyrir reykta síld. Öldum saman voru gjöful fiskimið umhverfis eyjuna undirstaða lífsafkomu eyjarskegga.

Á áttunda áratugnum kom u.þ.b. helmingur allra tekna af veiðunum frá þorskinum. Seint á níunda áratugnum voru tekjurnar af þorskveiðunum orðnar um 80% af heildinni. Margir sjómenn sáu fyrir sér að framtíðin yrði björt og keyptu nýja báta. En svo gerðist það árið 1990 að veiðarnar hrundu og hafa aldrei náð sér eftir það. Fljótlega sigldu íbúarnir inn í þunga fjárhagslega kreppu.

Menn hafa undrast hve skyndilega þorskstofninn Eystrasalti hrundi og hve algjört hrunið varð. Mikil orka hefur farið í að skilja hvað olli fyrst vexti og síðar hruni stofnsins. Þessi saga hefur orðið fræg um allan heim og menn hafa dregið af henni lærdóma sem gagnast kunna annarsstaðar. Sagan er ekki einföld – og segja má að það, hve flókin hún er, sýni hve erfiðar þær ákvarðanir eru sem þeir standa frammi fyrir sem móta stefnuna í umhverfismálum hafdjúpanna.

Fiskað eftir upplýsingum

Fiskimenn á Borgundarhólmi eru, á sama hátt og starfsbræður þeirra víðsvegar í Evrópu, bundnir í báða skó af Sameiginlegu fiskveiðistefnunni sem segir til um hve mikið þeir mega veiða af hverri tegund á hverju veiðisvæði.

Alþjóða hafrannsóknaráðið (International Council for the Exploration of the Sea, ICES) veitir vísindalega ráðgjöf um hvaða mörk eru örugg út frá líffræðilegum sjónarmiðum. Gögn um fiskveiðar, aflamagnstölur og vöktun skilyrða í höfunum veita ómetanlegar upplýsingar sem gagnast við mat á ástandi flestra veiðistofna. Sérstaklega skiptir miklu máli fjöldi fiska á ákveðnu aldursskeiði sem er á svæðinu. Eftir því sem meira af ungfiski kemst upp þeim mun meira verður unnt að veiða tveimur til fimm árum síðar, þegar fiskurinn hefur náð nægum þroska. Eftir því sem kynþroska fiski fjölgar, fjölgar þeim hrognum sem hryngt er

Ákvarðanir um heildarmagn leyfðs hámarksafla (total allowable catches, TACs) eru teknar af aðildarríkjum ESB að fengnum tillögum sérfræðinga. Þessar ákvarðanir byggjast oft á öðrum forgangssjónarmiðum en verndun fiskistofna. Á árinu 2006 voru veiðar úr u.þ.b. 45% aldursgreindra fiskstofna á miðum við Evrópu umfram líffræðilega örugg mörk. Aflamörkin voru samþykkt af ráðherrum ríkjanna.

Vegna mengunar gengur súrefnið til þurrðar og fiskurinn kafnar

Aukin notkun tilbúins áburðar í landbúnaði á sjöunda áratugnum svo og útþensla borganna á sama tíma gerði það að verkum að feiknaleg aukning varð á næringarefnaflæði, þ.e. mengun, í Eystrasaltið. Það leiddi svo til mjög aukins þörungagróðurs og fisktegundir fjölguðu sér ákaft (meiri þörungagróður þýðir meira æti fyrir fiskinn). Hins vegar hefur þessi gróður einnig leitt til súrefnisskorts þar sem dýpið er mest.

Þegar súrefni þverr í sjónum við botninn, leysist vetnissúlfíð úr botninum og mengar vatnið. Vetnissúlfíð er eitur fyrir flestar lífverur, og að öllum líkindum var það súlfíð og súrefnisskortur sem drap humarinn þarna um nóttina í Kattegat árið 1986.

Súrefnissnauðu svæðin eru nú svo víðáttumikil að líkleg hrygningarsvæði austantil í miðju Eystrasaltinu hafa skroppið saman. Þetta gerir það að verkum að hrygning þorsksins misferst.

Hvers vegna voru árin upp úr 1980 svo hagstæð þorskveiðunum?

Klakið tókst mjög vel hjá þorskinu á árunum 1978–1983. Fyrir því voru fjórar ástæður. Helsta ástæðan er sú að veiðiálagið var lítið á síðustu árunum fyrir 1980. Í öðru lagi barst mikið af saltari sjó frá Norðursjónum vegna veðurskilyrða. Eystrasaltið var í rauninni ósalt stöðuvatn þar til sjávarmál hækkaði fyrir um 8 000 árum svo að Norðursjórinn flæddi inn í það. Flæði salts sjávar inn í Eystrasaltið hefur enn þýðingu fyrir salt- og súrefnisjafnvægi þess.

Flæði sjávar inn í Eystrasaltið jók súrefnisinnihaldið á hrygningarstöðvum þorsksins og þess vegna tókst klakið vel og mikið komst upp af seyðum. Í þriðja lagi var nóg af smávaxinni rauðátu (pseudocalanus acuspes), helstu fæðu lirfa og seyða, og að auki var ekki mikið af rándýrum eins og brislingi og sel. Brislingurinn étur hrognin og selurinn þorskinn.

Og hvað var það sem fór úrskeiðis?

Frá því um miðjan níunda áratuginn hefur verið lítið um meiriháttar innflæði úr Norðursjónum, svo að klakið hefur tekist illa og lítið komist upp af seyðum. Vegna þess að sjórinn er ekki eins saltur og hann þyrfti að vera er miklu minna af rauðátu sem lirfurnar lifa mikið á. Þótt líffræðilega örugg aflamörk hafi verið færð niður á árunum næst á eftir að ástand stofnanna var orðið svona slæmt, leyfðu stjórnvöld yfirleitt meiri veiði (total allowable catches, TACs). (Mynd 1).

Ólöglegar veiðar auka enn á vandann. Álitið er að til viðbótar sé 30% landað ólöglega á þessu svæði við Eystrasalt. Sumarið 2007 var svo mikið um ólöglegar landanir pólskra fiskiskipa að veiðar Pólverja voru stöðvaðar um mitt ár 2007.

Mynd 1 / Aflamörk samkvæmt tillögum vísindamanna (tillögur ICES), heildarveiði skv. leyfi stjórnvalda (TAC) og endanleg veiði á fiskislóð nærri Borgundarhólmi á árunum 1989–2007. Heimild: EEA, 2008.

Og svo bætast loftlagsbreytingar við!

Loftlagsbreytingar hafa bæði áhrif á hitastig og saltmagn sjávarins í Eystrasalti..Aukinn sjávarhiti við botninn eykur súrefnisþörfin vegna aukinna efnaskipta lífvera og súrefnismettunarhæfni sjávarins minnkar. Af því hlýst að súrefnissnauð svæði stækka. Seltustig Eystrasaltsins hefur lækkað stöðugt frá árunum kringum 1985 vegna aukinnar úrkomu og minna innrennslis úr Norðursjónum.

Báðir þessir þættir eru knúnir áfram af loftlagsbreytingunum. Smávægileg lækkun seltustigs er nú á góðum vegi með að breyta samsetningu sjávarbúsvæðisins í Eystrasalti. Af fisktegundunum þremur, sem mest eru veiddar, þorski, síld og brislingi, er þorskurinn viðkvæmastur fyrir lækkun á seltustigi vegna þess að seltustigið hefur bæði áhrif á tímgunarhæfni þorsksins og magn helsta ætis þorsklirfanna.

Horfur í sambandi við ástand lofts og sjávar í Eystrasalti eru þær að úrkoma mun aukast og innstreymi frá Norðursjónum minnka. Þetta þýðir að þorskstofninn og aðrir fiskistofnar munu að öllum líkindum halda áfram að hrörna nema dregið verði úr veiðum.

Loftlagsbreytingar munu breyta Eystrasaltinu og draga úr hæfni þess til viðhalds nýtanlegs þorkstofn. Stjórn veiðanna verður að taka tillit til þessara breytinga ef veiðarnareiga að standa undir sér
Professor Brian MacKenzie, DTU-Aqua, Danmarks Tekniske Universitet

Mynd 2 / Áætluð útbreiðsla súrefnislítils botnsjávar (súrefnisinnihald undir 2 ml/l) og súrefnissnauðs botnsjávar (súrefnisinnihald ekkert; oft með vetnissúlfíði sem hvarfast við súrefni og myndar súlfat. Þegar þessi efnahvörf verða, er súrefnisstyrkur talinn neikvæður) haustið 2007. Heimildir: http://www.helcom.fi/environment2/ifs/ifs2007/en_GB/HydrographyOxygenDeep/.

Enn er von

Til að bregðast við hinum fjölþætta og alvarlega umhverfisvanda Eystrasaltsins hafa löndin á svæðinu komið sér saman um 'Aðgerðaráætlun fyrir Eystrasaltið' með það fyrir augum að þróa aðgerðir landanna til að samþætta stefnuna í landbúnaðarmálum og fiskveiðum stefnumörkun hinna ýmsu svæða. Þessi áætlun sem samþykkt var í Nóvember 2007, hefur mikla þýðingu fyrir framkvæmd markaðrar stefnu ESB fyrir svæðið.

Þar á meðal er hin nýja Rammatilskipun um hafið, en samkvæmt henni eiga aðliggjandi lönd að hafa komið á 'góðu ástandi í Eystrasalti' r fyrir 2020 og þar er tekið fram að ástand fiskistofna skuli komið í 'gott horf'.

Við þetta bætist að Framkvæmdastjórn Evrópu er að vinna að svæðisbundinni stefnu fyrir Eystrasaltið, en á henni verður byggð framkvæmdaáætlun þar sem tilgreindir eru helstu aðilarnir, hvaða hagstjórnartækjum verður beitt, og jafnframt verður sett upp verkáætlun. Samþykkt þessarar stefnu verður eitt af helstu forgangsverkefnum meðan Svíar verða í forsæti ESB síðara misseri ársins 2009. Svíar hafa lýst því yfir að umhverfismál Eystrasaltssvæðisins verði eitt aðalforgangsverkefnið.

Sameiginlegu fiskveiðistefnunni (The Common Fisheries Policy, CFP) var ætlað að samræma fiskveiðar út frá umhverfislegum, fjárhagslegum og félagslegum sjónarmiðum. Hins vegar hafa margar af verðmætustu tegundum matfiska í Evrópu verið ofveiddar gegndarlaust og nú er svo komið að stofnarnir hafa minnkað niður fyrir líffræðilega örugg mörk. Lagasetning um þessi mál er þannig að það getur reynst dýrt og erfitt að lögsækja aðildarríki sem ganga of hart fram í veiðunum.

Við blasir að ekki hefur tekist að koma á sjálfbærum háttum við stjórnun veiða þessara fiskistofna og því hafa sérfræðingar í málefnum fisks og sjávar kallað eftir rækilegri endurskoðun markaðrar stefnu, en greinilegt er að hún byggist á málamiðlunum viðkomandi ríkja. Hafsvæðin þurfa menn að líta á sem vistsvæði í stað þess að hugsa eingöngu um að nýta afmarkaða þætti þess.

Joe Borg, sem framkvæmdastjóri fiskveiða og hafs hjá Evrópusambandinu hefur meira að segja látið svo um mælt að CFP stuðli ekki að því að útgerðarmenn eða stjórnmálamenn sýni ábyrgð og hóf tafarlaust endurskoðun á stefnunni í september 2008, fjórum árum á undan áætlun.

 

Heimildir

Diaz, R. J. and Rosenberg, R., 2008. Spreading Dead Zones and Consequences for Marine Ecosystems. Science, vol. 321, pp. 926–929.

Mackenzie, B. R.; Gislason, H.; Mollmann, C.; Koster, F. W., 2007. Impact of 21st century climate change on the Baltic Sea fish community and fisheries. Global Change Biology, vol. 13, 7, pp. 1 348–1 367.

Sparholt, H.; Bertelsen, M.; Lassen, H., 2008. A meta-analysis of the status of ICES fish stocks during the past half century. ICES Journal of Marine Science, Vol. 64, 4, pp. 707–713.

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir