All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Í skýrslunni Umhverfismál í Evrópu: Önnur úttekt", sem þessi samantekt er byggð á, er birt skýr mynd af ástandi umhverfismála í Evrópu og kynnt þau meginsvið þar sem aðgerða er þörf á landsvísu eða á alþjóðavettvangi.
Þar sem skýrslunni er ætlað að vera lykilframlag á ráðstefnunni Environment for Europe í Árósum í júnímánuði 1998, en þar hittast umhverfisráðherrar allra Evrópuríkja í fjórða sinn, er hún byggð á og er uppfærsla á fyrstu heildarskýrslunni um ástand umhverfismála í allri Evrópu, Europes Environment: The Dobris Assessment", sem gefin var út árið 1995 á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sú alhliða skýrsla náði til 46 ríkja á grundvelli gagna sem að meginhluta var safnað fram til ársins 1992, og í henni var kynnt úttekt á ástandi umhverfismála í Evrópu á þeim tíma.
Dobris-úttektin var kynnt á þriðju ráðstefnu umhverfisráðherra allra Evrópuríkja í Sofíu í októbermánuði 1995. Ráðstefnur þessar miða að því að skilgreina grundvallaratriði og stefnumið til hagsbóta fyrir umhverfið í því skyni að stuðla að meira samræmi í stefnunni í umhverfismálum og sjálfbærara þróunarmynstri í álfunni allri. Á ráðstefnunni í Sofíu fögnuðu ráðherrarnir skýrslunni og töldu hana mikilvægt grunnskjal til notkunar við mat á framtíðarþróun Umhverfisáætlunar Evrópu (EPE). Þeir fóru þess á leit við Umhverfisstofnun Evrópu að hún gerði aðra úttekt tímanlega fyrir næsta fyrirhugaða fund þeirra í Danmörku árið 1998.
Umhverfismál í Evrópu: Önnur úttekt" er svar stofnunarinnar við þeirri beiðni.
Í skýrslunni er athygli beint að þeim 12 meginvandamálum í umhverfismálum sem fjallað var um í fyrri úttektinni, og lýst er hvernig ástandið hefur þróast síðan áætlunin Umhverfismál í Evrópu" (Environment for Europe) hófst árið 1991 (í reynd er oft miðað við árið 1990). Þetta er í samræmi við ákvörðun ráðherraráðstefnunnar í Sofíu, en þýðir jafnframt að hér er ekki fjallað um öll umhverfisvandamál í Evrópu. Skýrslur Umhverfisstofnunar Evrópu verða smámsaman ítarlegri í framtíðinni. Þeim til viðbótar verða gerðar einstakar úttektir sem beinast að sérstökum áhyggjuefnum um leið og þær ná til æ stærri landsvæða.
Auk þess að veita upplýsingar um ástand umhverfisins og líklega þróun 12 umhverfisvandamála eru í þessari skýrslu skilgreind þau félagshagfræðilegu öfl sem verka á umhverfið í Evrópu. Um leið og skýrslan kynnir skýra mynd af breytingum á ástandi umhverfisins er einnig bent á lykilsvið þar sem frekari aðgerða er þörf.
Umhverfissérfræðingar frá mörgum Evrópuríkjum hafa aðstoðað Umhverfisstofnun Evrópu við samningu þessarar skýrslu. Því miður er það svo að enn leyfa aðstæður ekki í nægilegum mæli söfnun samræmdra gagna um öll Evrópuríki þrátt fyrir að lögð hafi verið sérstök áhersla á þetta mál í Umhverfisáætlun Evrópu. Þær heimildir sem veittur var aðgangur að fyrir undirbúning þessarar skýrslu nægðu ekki í sjálfum sér til að sigrast á þessu vandamáli og umfjöllun um einstök ríki er því mismikil í skýrslunni. Einkum og sér í lagi var ekki unnt að forðast að Vestur-Evrópu væri gert sérstaklega hátt undir höfði. Samt sem áður er í skýrslunni að finna umfangsmesta og áreiðanlegasta yfirlit sem til er, og ályktanir eru studdar haldgóðum gögnum frá allri Evrópu.
Í næsta kafla þessa yfirlits er í stuttu máli gerð grein fyrir framvindunni í baráttunni við meginvandamálin í umhverfismálum Evrópu og endað á greiningu á aðild helstu samfélagsgeira að vandamálunum og lausn á þeim. Í lokakaflanum er að finna útdrætti um þau 12 umhverfismálefni sem fjallað er um í aðalskýrslunni.
Rammi 1.2: Flokkun ríkja
í þessari skýrslu: Vestur-Evrópa (ESB+EFTA+Sviss) Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portugal, Spánn, Stóra- Bretland, Svíþjóð, Þýskaland, auk Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss. Mið- og Austur-Evrópa (öll Mið-Evrópuríki, Eystrasaltslöndin, Tyrkland, Kýpur og Malta) Albanía, Bosnía-Hersegovína, Búlgaría, Eistland, Króatía, Lettland, Litháen, Makedónía, Pólland, Rúmenía, Sambandslýðveldið Júgóslavía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland, Ungverjaland, auk Tyrklands, Kýpur og Möltu Nýfrjáls ríki í Evrópu (Eystrasaltslöndin ekki meðtalin) Armenía, Aserbaidsjan, Georgía, Hvíta-Rússland, Moldóva, Rússneska sambandið, Úkraína Í textanum er hugtakið Austur-Evrópa stundum til hægðarauka notað um bæði mið- og austurevrópsk ríki og nýfrjálsu ríkin. |
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/publications/92-9167-087-1/page002.html or scan the QR code.
PDF generated on 04 Dec 2024, 11:30 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum