næsta
fyrri
atriði

Inngangur

Page Síðast breytt 19 Apr 2016
4 min read

1. Inngangur

Í skýrslunni „Umhverfismál í Evrópu: Önnur úttekt", sem þessi samantekt er byggð á, er birt skýr mynd af ástandi umhverfismála í Evrópu og kynnt þau meginsvið þar sem aðgerða er þörf á landsvísu eða á alþjóðavettvangi.

Þar sem skýrslunni er ætlað að vera lykilframlag á ráðstefnunni Environment for Europe í Árósum í júnímánuði 1998, en þar hittast umhverfisráðherrar allra Evrópuríkja í fjórða sinn, er hún byggð á og er uppfærsla á fyrstu heildarskýrslunni um ástand umhverfismála í allri Evrópu, „Europe’s Environment: The Dobris Assessment", sem gefin var út árið 1995 á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sú alhliða skýrsla náði til 46 ríkja á grundvelli gagna sem að meginhluta var safnað fram til ársins 1992, og í henni var kynnt úttekt á ástandi umhverfismála í Evrópu á þeim tíma.

Dobris-úttektin var kynnt á þriðju ráðstefnu umhverfisráðherra allra Evrópuríkja í Sofíu í októbermánuði 1995. Ráðstefnur þessar miða að því að skilgreina grundvallaratriði og stefnumið til hagsbóta fyrir umhverfið í því skyni að stuðla að meira samræmi í stefnunni í umhverfismálum og sjálfbærara þróunarmynstri í álfunni allri. Á ráðstefnunni í Sofíu fögnuðu ráðherrarnir skýrslunni og töldu hana mikilvægt grunnskjal til notkunar við mat á framtíðarþróun Umhverfisáætlunar Evrópu (EPE). Þeir fóru þess á leit við Umhverfisstofnun Evrópu að hún gerði aðra úttekt tímanlega fyrir næsta fyrirhugaða fund þeirra í Danmörku árið 1998.

„Umhverfismál í Evrópu: Önnur úttekt" er svar stofnunarinnar við þeirri beiðni.

Í skýrslunni er athygli beint að þeim 12 meginvandamálum í umhverfismálum sem fjallað var um í fyrri úttektinni, og lýst er hvernig ástandið hefur þróast síðan áætlunin „Umhverfismál í Evrópu" (Environment for Europe) hófst árið 1991 (í reynd er oft miðað við árið 1990). Þetta er í samræmi við ákvörðun ráðherraráðstefnunnar í Sofíu, en þýðir jafnframt að hér er ekki fjallað um öll umhverfisvandamál í Evrópu. Skýrslur Umhverfisstofnunar Evrópu verða smámsaman ítarlegri í framtíðinni. Þeim til viðbótar verða gerðar einstakar úttektir sem beinast að sérstökum áhyggjuefnum um leið og þær ná til æ stærri landsvæða.

Auk þess að veita upplýsingar um ástand umhverfisins og líklega þróun 12 umhverfisvandamála eru í þessari skýrslu skilgreind þau félagshagfræðilegu öfl sem verka á umhverfið í Evrópu. Um leið og skýrslan kynnir skýra mynd af breytingum á ástandi umhverfisins er einnig bent á lykilsvið þar sem frekari aðgerða er þörf.

Umhverfissérfræðingar frá mörgum Evrópuríkjum hafa aðstoðað Umhverfisstofnun Evrópu við samningu þessarar skýrslu. Því miður er það svo að enn leyfa aðstæður ekki í nægilegum mæli söfnun samræmdra gagna um öll Evrópuríki þrátt fyrir að lögð hafi verið sérstök áhersla á þetta mál í Umhverfisáætlun Evrópu. Þær heimildir sem veittur var aðgangur að fyrir undirbúning þessarar skýrslu nægðu ekki í sjálfum sér til að sigrast á þessu vandamáli og umfjöllun um einstök ríki er því mismikil í skýrslunni. Einkum og sér í lagi var ekki unnt að forðast að Vestur-Evrópu væri gert sérstaklega hátt undir höfði. Samt sem áður er í skýrslunni að finna umfangsmesta og áreiðanlegasta yfirlit sem til er, og ályktanir eru studdar haldgóðum gögnum frá allri Evrópu.

Í næsta kafla þessa yfirlits er í stuttu máli gerð grein fyrir framvindunni í baráttunni við meginvandamálin í umhverfismálum Evrópu og endað á greiningu á aðild helstu samfélagsgeira að vandamálunum og lausn á þeim. Í lokakaflanum er að finna útdrætti um þau 12 umhverfismálefni sem fjallað er um í aðalskýrslunni.

Rammi 1.2: Flokkun ríkja í þessari skýrslu:

Vestur-Evrópa (ESB+EFTA+Sviss) Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portugal, Spánn, Stóra- Bretland, Svíþjóð, Þýskaland, auk Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss.

Mið- og Austur-Evrópa (öll Mið-Evrópuríki, Eystrasaltslöndin, Tyrkland, Kýpur og Malta) Albanía, Bosnía-Hersegovína, Búlgaría, Eistland, Króatía, Lettland, Litháen, Makedónía, Pólland, Rúmenía, Sambandslýðveldið Júgóslavía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland, Ungverjaland, auk Tyrklands, Kýpur og Möltu

Nýfrjáls ríki í Evrópu (Eystrasaltslöndin ekki meðtalin) Armenía, Aserbaidsjan, Georgía, Hvíta-Rússland, Moldóva, Rússneska sambandið, Úkraína

Í textanum er hugtakið Austur-Evrópa stundum til hægðarauka notað um bæði mið- og austurevrópsk ríki og nýfrjálsu ríkin.

Permalinks

Skjalaaðgerðir