All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Það er gleðiefni að sjá þessa breiðu og ítarlegu áherslu á sjálfbærni. Viðurkenning á því að sjálfbær þróun er hvort í senn áskorun og nauðsyn fyrir þróuð ríki jafnt sem þróunarríki er svo sannarlega skref í rétta átt.
Þessi hugmynd Heimsmarkmiðanna kemur einnig fram í heildarmarkmiði Evrópusambandsins í 7. aðgerðaáætlun á sviði umhverfismála: „Árið 2050 lifum við góðu lífi innan þolmarka plánetunnar." Gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða innan ESB til að ná þessu markmiði. Hins vegar er eðli hagkerfis okkar og umhverfisins þannig að erfitt er að fyrir einstök lönd eða lönd sem vinna saman (á borð við ESB) að leysa umhverfisvandamál hvert í sínu lagi. Til dæmis veldur losun gróðurhúsalofttegunda áhrifum í öllum lofthjúpi jarðar óháð því hvar hún á sér stað og þau áhrif kunna að vara til langframa.
Án aðgerða á heimsvísu og þróunar í átt að raunverulegri sjálfbærni hættum við á að grafa undan vellíðan og lífsgæðum í heiminum. Skýrslan „Umhverfismál Evrópu — ástand og horfur 2015" sýnir að núverandi neyslu- og framleiðslumynstur eykur lífsgæði okkar en setur þau í hættu á sama tíma.
Skýrslan sýnir einnig að vísbendingar eru um að hagkerfi okkar séu að ná vistfræðilegum þolmörkum sínum og að við séum nú þegar farin að finna fyrir áhrifum efnislegra og umhverfislegra takmarkana. Áætlanir gefa til kynna að heildarneysla á alþjóðavísu fari fram úr endurnýjunargetu plánetunnar um meira en 50%. Með öðrum orðum neytum við meira en það sem plánetan getur gefið af sér á hverjum tíma án þess framleiðslugeta hennar minnki.
Önnur þýðingarmikil heimsþróun veldur frekari áhyggjum. Í dag eru innan við 2 milljarðar af þeim 7 milljörðum sem búa á jörðinni skilgreindir sem millistétt. Árið 2050 er áætlað að mannfjöldi jarðar nái 9 milljörðum þar sem yfir 5 milljarðar tilheyra millistétt. Líklegt er að þessi vöxtur auki samkeppni um auðlindir jarðar og færi aukið álag á vistkerfi.
Notkun á auðlindum jarðar kann að tvöfaldast fram til ársins 2030. Áætlað er að orku- og vatnsþörf heimsins aukist um á milli 30% og 40% á næstu 20 árum. Á sama hátt er áætlað að þörfin á fæðu, fóðri og trefjum aukist um 60% frá deginum í dag og til ársins 2050.
Aukinn skortur á auðlindum og aukin samkeppni veldur áhyggjum af öruggu aðgengi að helstu auðlindum. Vaxandi áhyggjur af matvæla-, vatns- og orkuöryggi hafa knúið landtöku áfram á milli landa síðustu 5-10 ár, einkum í þróunarlöndum.
Evrópusambandið er mikilvægur aðili bæði hvað varðar framleiðslu og neyslu. Vistfræðileg fótspor flestra Evrópulanda fara þessa stundina fram úr þeim líffræðilegu framleiðslusvæðum sem standa til boða, þ.e. „lífrænni framleiðslugetu". Aukinheldur, ef litið er til viðskipta ESB við önnur lönd, er ljóst að umtalsverður hluti þeirra umhverfisáhrifa sem stafar af neyslu innan ESB verður utan ESB-svæðisins sjálfs. Ennfremur hefur hluti þess vistspors sem er vegna eftirspurnar innan ESB en sem hefur áhrif utan landamæra ESB aukist á síðasta áratugi hvað varðar land-, vatns- og efnisnotkun sem og losun lofttegunda.
Á undanförnum árum hefur umræða um umhverfismál á heimsvísu snúist um vendipunkta, takmörk og það sem vantar upp á. Þessi orðræða endurspeglast ekki enn innan samfélaga, hagkerfa, fjármálakerfa, í pólitískri stefnu og þekkingarkerfum, sem enn þann dag í dag vinna ekki eftir hugmyndinni um takmarkanir jarðarinnar. Hins vegar býr jörðin yfir takmörkuðu magni lykilauðlinda á borð við vatn og land.
Í hnattrænu hagkerfi sem bundið er af takmörkuðum auðlindum og berst við aukna eftirspurn á heimsvísu og hnignun umhverfisins er auðlindanýtið grænt hagkerfi eini lífvænlegi kosturinn. Umbreyting yfir í grænt hagkerfi felur í sér grundvallarbreytingar á því hvernig við framleiðum og neytum afurðir og þjónustu, byggjum borgir, flytjum vörur og fólk o.s.frv.
Stefnubreyting yfir í grænt hagkerfi þarf ekki að fela í sér hindranir eða aukinn kostnað. Þvert á móti felast þar í tækifæri. Margar atvinnugreinar í Evrópu hafa með árangursríkum hætti minnkað eftirspurn eftir efnum og dregið úr útblæstri eða skorið á tengslin á milli hagvaxtar og losunar. Til dæmis óx umhverfisgeirinn um meira en 50% á árunum 2000 til 2011. Þetta er ein af fáum atvinnugreinum innan ESB sem hafa blómstrað eftir fjármálakreppuna 2008.
Á svipaðan hátt má líta á fólksfjölgun og aukna samkeppni um auðlindir sem drifkraft á bakvið þessa nauðsynlegu kerfisbundnu breytingu. Til að gera hana mögulega getum við byrjað á að byggja skipulagðar borgir um allan heim þar sem lykilþættir á borð við orkumál, samgöngur og flutninga valda ekki álagi á náttúruauð og losun kolefna og úrgangs er eins nálægt núlli og mögulegt er.
Hans Bruyninckx
Framkvæmdastjóri EEA
Leiðari birtist í fréttabréfi EEA tölublaði nr. 2015/3, september 2015
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/articles/stefnt-ad-sjalfbaerni-a-heimsvisu or scan the QR code.
PDF generated on 11 Sep 2024, 09:50 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum