All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Sorp af öllu tagi er á ferð og flugi. Vaxandi magn, einkum af pappírsúrgangi, plasti og málmum er nú flutt frá þróuðum löndum til landa þar sem kröfurnar eru ekki eins strangar. Risastór hafskip fara um úthöfin með vörur frá nýjum markaðssvæðum í Asíu til Vesturlanda. Í stað þess að sigla tóm til baka og vegna þess skipin þurfa kjölfestu eru þeir sem gera út skipin fegnir að fá allt þetta rusl til að flytja til Asíu frá Evrópu.
Þetta táknar samt ekki að engar reglur gildi um lestun sorps. Bæði SÞ og ESB hafa strangar reglur um það hvað má flytja milli staða. Á alþjóðlegum vettvangi eru viðskipti með 'hættulegt sorp' (sorp sem er hugsanlega hættulegt fólki eða umhverfi) háð reglum Basel samnings Sameinuðu þjóðanna.
Takmarkanir þær sem samningurinn felur í sér hafa ekki verið undirritaðar af nógu mörgum löndum til að þær gildi um allan heim. Hins vegar hafa Sameinuðu þjóðirnar sett skorður og leyfa ekki flutning 'hættulegs sorps' nema til 'þróaðra landa' þar sem tæknin er fyrir hendi og fullnægjandi öryggis- og umhverfislagasetning. 'Þróað land' í þessu samhengi er skilgreint sem aildarríki Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD).
Langtímamarkmið ESB er að öll aðildarríkin skuli vinna allt sitt sorp í heimalandinu ('nálægðarreglan'). Samt hafa flutningar hættulegs og vandmeðfarins sorps frá aðildarríkjum ESB næstum fjórfaldast á árunum 1997 til 2005. Því vantar mikið á að farið hafi verið eftir þessu ákvæði.
Þeir þættir sem stýra inn- og útflutningi sorps eru mismunandi: Aðgengi að sérhæfðri vinnlsutækni; hráefnaskortur; mismunandi verð á förgun eða endurvinnslu.
Stefna ESB hvað varðar markmið fyrir endurnýtingu, hefur einnig í för með sér sorpflutninga frá aðildarríkjum sem ekki uppfylla markmið sín heimafyrir. Sorpmagnið á markaði heldur niðri verðinu fyrir lönd eins og Kína, sem þarf ódýr hráefni. Meðan þessu sorpi er ekki fargað á áfangastaðnum og inniheldur ekki hættuleg efni er litið svo á að um sé að ræða ásættanleg viðskipti.
Í Evrópu er í gildi lagasetning um flutninga hættulegs og vandmeðfarins sorps. Hinsvegar þarf meiri upplýsingar um virkni laganna hvað það varðar að draga úr umhverfisálagi.
Rafeindasorp, sem telst hættulegt, er sérlega athyglisvert. Í Afríku og Asíu eru rafeindatæki oft tekin í sundur þannig að lítill eða enginn hlífðarbúnaður er notaður. Sama gildir um mengunarvarnir. Tækjahlutar eru oft brenndir undir beru lofti til að endurheimta málm og við það verður oftast til mikið svifryk með miklu af þungmálmum og fólk er óvarið fyrir því. Einnig fylgir þessu mengun matar, jarðvegs og yfirborðsvatns.
Við höfum ekki skýra mynd af rafmagns- og rafeindatækjasorpi (waste electrical and electronic equipment, WEEE) sem flutt er innan ESB eða þaðan til annarra landa, einkum vegna þess að mjög óljósir kóðar eru notaðir fyrir tilkynningar um flutning rafeindasorps. Erfitt er að segja hvort sjónvarpstæki eru flutt út sem notuð tæki, sem er leyfilegt, eða sem sorp til förgunar, sem er bannað. Almennt er útflutningur WEEE frá ESB löndum til landa utan OECD bannaður. Hinsvegar er útflutningur sjónvarpstækja sem eru í lagi alveg leyfilegur.
Til eru vel skráð dæmi um brot á þessu banni. Reyndar virðist verulegur hluti útfluttra, notaðra sjónvarpstækja, tölva, skjáa og síma til landa utan OECD, vera úrgangur sem keyptur er með það fyrir augum að hirða úr honum hluta þá og einingar sem nefnd eru hér á undan.
Ef ESB getur ekki framfylgt sinni eigin löggjöf sem bannar útflutning WEEE til landa utan OECD, kann það að draga mjög úr líkum á að alþjóðleg staðfesting bannsins samkvæmt Basel sáttmálanum verði að veruleika.
Þrátt fyrir erfiðleika við að finna, skoða og greina gögn um sorp, hefur ESB, í samvinnu við 'Evrópsku verkefnamiðstöðina fyrir stjórnun auðlinda og úrgangs' (European Topic Centre on Resource and Waste management) gert greiningu á flutningum sorps frá ESB til annarra svæða.
Hægt er að sjá í evrópskum tölfræðiskýrslum magn, stærð og verðmæti útflutts raf- og rafeindatækjasorps sem flutt er frá ESB til annarra svæða (Myndi 1)
Á árinu 2005 voru meira en 15 000 tonn af litasjónvarpstækjum flutt frá ESB til Afríkulanda. Í Nígeríu, Ghana og Egyptalandi var tekið á móti u.þ.b. 1 000 tækjum daglega. Meðalverð útfluttra litasjónvarpstækja til Afríku er mjög lágt: Í Afríku sem heild var meðalverð pr. tæki 64 evrur og 28 evrur í löndunum þremur sem nefnd voru hér á undan. Til samanburðar eru sjónvarpstæki sem seld eru innan Evrópu að meðaltali verðlögð á 350 evrur.
Þetta lága einingaverð sjónvarpstækja sem seld eru til Afríku bendir til þess að hér sé um notuð tæki að ræða, og mörg af þeim eru sennilega ónýt.
Þar eð þessar tölur eiga einungis við um sjónvarpstæki, er gert ráð fyrir að útflutningur notaðra tölva, farsíma, geislaspilara o.fl. til þessa heimshluta sé töluvert meiri. Þetta bendir til þess að ESB bannið á viðskiptum með hættulegt sorp við lönd utan OECD sé brotið.
Milli 1995 og 2007 (Mynd 2) jukust flutningar hættulauss sorps eins og pappírs, plasts og málma frá ESB mjög mikið, einkum til Asíu, og þó alveg sérstaklega til Kína.
Magn pappírsúrgangs til Asíu tífaldaðist og plastúrgangs ellefufaldaðist, en málma sjöfaldaðist. Sorpflutningar innan ESB hafa einnig aukist, en þó miklu minna.
Á árinu 2007 var jafnmikið flutt af pappírsúrgangi til Asíu eins og var flutt milli ESB landa. Magn málma flutt innan ESB var meira en það sem fór til Asíu. Hinsvegar var flutt meira af plastúrgangi til Asíulanda en flutt var innan ESB.
Í meira en áratug hefur verð hráefna verið mjög hátt og það hefur gert það að verkum að verðmæti endurunnins hráefnis hefur hækkað.
Málmúrgangur, pappír, plast og annar úrgangur frá Evrópu nærir efnahagslíf Asíu, en þar er mikill uppgangur. Eftirspurninni verður ekki fullnægt með 'upprunalegum' hráefnum.
Löggjöf ESB eins og t.d. umbúðatilskipunin sem skyldar aðildarríkin til að ná ákveðnum markmiðum hvað varðar endurnýtingu, hvetur einnig með óbeinum hætti til þess að sorp verði flutt á brott til endurnýtingar.
Kröfur ESB um sérstaka endurvinnslutaxta hafa gert það að verkum að meira kemur af sorpi til endurvinnslu á markaðinn. Sem dæmi má nefna að magn pappírs og umbúðapappa, þ.e. 'umbúðasorps' sem endurunnið er, jókst um u.þ.b. 24 til 30 milljón tonn milli 1997 og 2005. Magn plastumbúða sem endurnýtt hefur verið hefur vaxið um 10 til 14 milljónir tonn á sama tíma. Skyldi það vera gott fyrir umhverfið?
Notkun endurunnins sorps í stað upprunalegs efnis er yfirleitt hagstæð fyrir umhverfið. Til dæmis þarf við vinnslu eins kílógramms af pappír úr pappírsúrgangi ekki nema helming þeirrar orku sem þarf við vinnslu upprunalegs pappírs. Endurvinnsla áls þarf ekki nema 5% af því sem þarf við frumvinnslu áls.
Almennt má segja að endurvinnsla leggi verulega mikið af mörkum til þess að minnka orkutengda losun CO2 og annað sem veldur álagi á umhverfið.
Hinsvegar getum við ekki, vegna þess að við vitum ekki alltaf hvað verður um sorpið eftir að það lætur úr evrópskri höfn, sagt til um það hvort tiltekinn farmur er góður eða slæmur fyrir umhverfið.
Á ESB svæðinu verður að tilkynna um sorpflutninga milli aðildarlanda til landsyfirvalda. Sama gildir um 'hættulegt og vandmeðfarið' sorp sem á að endurheimta. Þessi 'landstilkynning' er mjög nákvæm. Því miður fær Framkvæmdastjórn Evrópu einungis ágripskennt yfirlit yfir flutningana og því eru tiltækar upplýsingar á ESB vettvangi ekki nógu ljósar.
Ef nákvæmari upplýsingar fengjust, einkum um tegundir sorps, myndu yfirlitin gera mönnum kleift að setja fram miklu betra mat á umhverfis- og efnahagslegum afleiðingum þessara flutninga. Það gæti hjálpað okkur að finna út hvort sorpflutningarnir eru knúnir áfram af betri meðferðarúrræðum, meiri afkastagetu eða virkri verðlagningu. Við myndum skilja betur þátt lélegri staðla, skorts á lagasetningu og slælegri eftirfylgni sem osakir þess að sorp er flutt til vanþróaðri svæða. Ef betra yfirlit væri yfir löglega flutninga á ESB vettvangi myndi það einnig veita skýrari mynd af ólöglegum flutningum.
Vegna þess að skýrslugerð af þessu tagi er þegar stunduð af yfirvöldum einstakra aðildarlanda – mörg þeirra senda nú þegar frá sér ítarlegri tölfræðileg gögn í hagskýrslum sínum um inn- og útflutning sorps – myndi aukin skýrslugerð ekki íþyngja aðildarríkjunum verulega.
Heimildir
Basel Action Network 2002: Exporting Harm.
The high-tech trashing of Asia, February 2002.
EEA, 2007. Europe's environment — The fourth assessment, 2007.
EEA, 2008. Better management of municipal waste will reduce greenhouse gas emissions. EEA Briefing No 1/2008.
EEA, 2009. Environmental impacts from import and export of waste (in preparation).
ETC/RWM, 2008. Transboundary shipments of waste in the EU.
European Commission, 2007. The EU Member States reporting according to Commission Decision 99/412/EEC of 3 June 1999 concerning a questionnaire for the reporting obligation of Member States pursuant to Article 41(2) of Council Regulation No 259/93.
IMPEL (The European Union Network for the Implementation and Enforcement of Environmental Law), 2005. Threat Assessment Project, the illegal shipments of waste among IMPEL Member States, May 2005.
Greenpeace 2008:
Chemical Contamination at E-waste recycling and disposal sites in Acra
and Korforidua, Ghana — Greenpeace Research Laboratories, Technical
Note 10/2008, August 2008.
Secretariat
of the Basel Convention, 2007.
The Sun Newspaper, 5 August 2008.
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/articles/ekki-i-gardinumminum-2014-sorp-a-alfejodasiglingaleidum-og-orlog-umhverfisins or scan the QR code.
PDF generated on 13 Oct 2024, 11:09 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum