All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
VANDAMÁL
Tafla 1 sýnir samantekt á heildarmati á framvindunni á síðastliðnum (hér um bil) 5 árum á 12 helstu umhverfisvandamálum í Evrópu sem skilgreind eru í Dobrisumhverfisúttektinni og metin í þessari skýrslu.
Greint er milli framfara í stefnumótun og framfara hvað varðar umbætur á umhverfi - en gæði umhverfis eru oft langt á eftir stefnumótuninni. Óhjákvæmilega er gagnagrunnurinn að baki þessari úttekt áreiðanlegri varðandi sum svið en önnur. Sérstaklega er honum áfátt í sambandi við kemísk efni, fjölbreytni lífríkis og borgarumhverfi. Þannig er t.d. hlutleysistáknið" vegna framfara í stefnumótun varðandi ósonlagið í veðrahvolfinu byggt á sterkari grunni og skilningi en samsvarandi merki fyrir kemísk efni, þar sem breytilegur skilningur á grundvallarvandamálum og alvarlegur skortur á gögnum hafa hindrað tilraunir til þess að meta ástandið.
Tafla 1
Helstu umhverfisvandamál FRAMFARIR
StefnumótunFRAMFARIR
umhverfisástandloftslagsbreytingar +/- - eyðing ósons í heiðhvolfinu + - súrnun + +/- óson í veðrahvolfi +/- - kemísk efni +/- +/- sorp - - fjölbreytni lífríkis +/- - ár og vötn +/- +/- haf og strendur +/- - jarðvegsrýrnun - - borgarumhverfi +/- +/- hætta af völdum tækni eða náttúru + +
Skýringar: + jákvæð þróun með tilliti til stefnumótunar eða ástands umhverfisins. +/- nokkur stefnumótun, en nægir ekki til að fást við vandamálið í heild (nær ekki heldur yfir nægilega stór landsvæði). Litlar eða engar breytingar á umhverfinu. Getur einnig gefið til kynna óvissa eða breytilega þróun á ýmsum sviðum. - lítil þróun í stefnumótun eða óheppileg þróun umhverfisástands. Getur einnig gefið til kynna mikið umhverfisálag eða lélegt ástand umhverfis.
Andrúmsloftið
Mikilvæg skref um árabil í átt að því að samræma stefnu og aðgerðir um alla Evrópu og víðar í því skyni að draga úr skaðlegu útstreymi og bæta ástand andrúmsloftsins hafa í flestum Evrópuríkjum leitt til verulegrar minnkunar á útstreymi margvíslegra efna sem ógna umhverfinu og heilsu manna. Meðal þessara efna er brennisteinstvíoxíð (SO2), blý og ósoneyðandi efni. Minna hefur dregið úr losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) og metanlausra, rokgjarnra, lífrænna sambanda (NMVOC).
Í Vestur-Evrópu hafa þessar breytingar aðallega orðið vegna breyttrar stefnu í þá veru að draga úr útstreymi og vegna breyttra framleiðsluhátta í iðnaði, svo og notkunar hreinna eldsneytis. Í Mið- og Austur-Evrópu hafa áhrif slíkra ráðstafana verið minni vegna mikils niðurskurðar í orkunotkun og iðnaðarframleiðslu í kjölfar breytinga á efnahagskerfum sem hafa leitt til verulegs niðurskurðar á aðföngum og útstreymi.
Á töflu 2 er sýnd framvindan í átt að æskilegum takmörkunum á útstreymi út í andrúmsloftið. Í sáttmálum og öðrum milliríkjasamningum hafa, einungis vegna mengunarvalda í þessari töflu, verið ákveðnar magnviðmiðanir sem ná til Evrópu allrar.
Tafla 2: Framför í átt að markinu
Ástand á arínu: Markmið Marktala og ár Framvinda 1990=100 1985 1990 1995 Loftslagsbreyting Markmið í Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) um að útstreymi CO2 verði ekki meiri árið 2000 (fyrir Kyoto) en það var 1990. Sjá textann um viðmiðanir fyrir Kyoto. CO2 útstreymi V-Evrópa 97 100 97 100 (2000) Á áætlun sjá texta M- og A-Evrópa .. 100 80 100 (2000) Á áætlun Nýfrjáls ríki .. 100 81 100 (2000) Á átættlun Eyðing ósons í heiðhvolfi
Framl. klórflúorkolefnis CFCCFC (klórflúorkolefni) 11, 12, 113, 114, 115 með tilliti til ósoneyðandi eiginleika..Markmið: Hætta notkun CFC 1.1.95, að frátalinnii nauðsynlegri notkun og framleiðslu til að mæta grunnþörfum þróunarlanda. Gildi árið 1996: 12. ESB 160 100 11 0 (1995) Á áætlun Súrnun
SO2 útstreymiAnnað markmið um brennistein í Samningi um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa. V-Evrópa 119 100 71 60 (2000) Verður líklega náð M- og A-Evrópa 118 100 66 70 (2000) Á áætlun Nýfrjáls ríki 131 100 62 90 (2000) Á áætlun NOx útstreymi Fyrsta markmið um NOx í Samningi um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa: miðað við 1987, markmið ESB -30% frá mörkum 1990. V-Evrópa 93 100 91 70 (2000) Verður líklega ekki náð M- og A-Evrópa 104 100 72 105 (1994) Á áætlun Nýfrjáls ríki .. 100 67 99 (1994) Á áætlun Útstreymi rokgjarnra, lífrænna efna Markmið um rokgjörn lífræn efni í Samningi um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa, að frátöldu náttúrulegu útstreymi. V-Evrópa 97 100 89 70 (2000) Verður líklega ekki náð M- og A-Evrópa - 100 81 70 (1999) Verður líklega ekki náð Nýfrjáls ríki - 100 70 70 (1999) Á áætlun
Aths.: Gögnin um nýfrjálsu ríkin eiga aðeins við 4 ríki (Hvíta-Rússland, Moldóvu, Rússneska sambandið og Úkraínu). CLRTAP= UN-ECE Samningur um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa. Þótt þessi úttekt sé gerð á öllu svæðinu eru viðmiðunarmörkin aðeins gild í þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum.
Þrátt fyrir framfarirnar, sem greint er frá í töflu 2, þarf að draga enn frekar úr útstreymi spilliefna svo að unnt sé að fullnægja þeim viðmiðunarmörkum sem þegar hafa verið ákveðin - og nýjum sem í vændum eru. Minnkandi útstreymi hefur í flestum tilvikum fram til þessa mátt þakka efnahagslegum breytingum og ráðstöfunum sem beint hefur verið gegn stórum mengunaruppsprettum í iðnaðar- og orkugeirunum. Að undanskildu blýi í bensíni hefur ekki tekist að draga úr útstreymi frá dreifðum mengunaruppsprettum, svo sem í flutningastarfsemi og landbúnaði. Örðugra er að koma stjórn á þessar greinar vegna þess að slíkt krefst meiri samþættingar á stefnum í umhverfismálum og öðrum málum.
loftslagsbreytingar
Þótt tekist hafi að draga nokkuð úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda (útstreymi koltvíoxíðs minnkaði í Evrópu sem heild um 12% og í Vestur-Evrópu um 3% milli áranna 1990 og 1995) þá er þessi minnkun í mörgum tilvikum að þakka efnahagslegum breytingum, svo sem lokun margra verksmiðja í þungaiðnaði í Austur-Evrópu og að skipt hefur verið úr kolum í gas við framleiðslu rafmagns í nokkrum ríkjum Vestur-Evrópu.
Mest útstreymi koltvíoxíðs stafar frá orkuframleiðendum (um 35% árið 1995), en útstreymi er innbyrðis áþekkt frá iðnaði, flutningum og heimilis- og viðskiptageirunum (um 20% frá hverjum), og fer hlutur flutningageirans vaxandi. Í Evrópusambandinu hefur framkvæmdastjórnin í síðustu áætlun sinni miðað við óbreytta þróun gert ráð fyrir 8% aukningu kolvíoxíðsútstreymis milli 1990 og 2010, í sláandi mótsögn við núverandi markmið sem fela í sér 8% minnkun (hvað varðar sex lofttegundir, þar á meðal koltvíoxíð) í Evrópusambandinu, eins og samið var um í Kyoto í desembermánunuði 1997. Augljóslega er þörf á víðtækum aðgerðum sem sjá mun stað á öllum sviðum efnahagslífsins ef takast á að ná því markmiði sem samþykkt var í Kyoto.
eyðing ósonlagsins
Framkvæmd Montreal-samþykktarinnar og síðari viðauka við hana hefur dregið úr heimsframleiðslu og útstreymi ósoneyðandi efna um 80-90%. Svipuð minnkun hefur náðst í Evrópu.
Hins vegar líða margir áratugir þar til ósonmagnið í heiðhvolfinu er orðið svipað og áður vegna varanleika ósoneyðandi efna í efri lögum lofthjúpsins. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að takmarka útstreymi þeirra ósoneyðandi efna sem eftir eru (vetnisklórflúorkolefni, HCFC og metýlbrómíð) og að tryggja að núverandi ráðstöfunum sé framfylgt í því skyni að flýta fyrir endurheimt ósonlagsins.
súrnun
Nokkrar framfarir hafa orðið síðan Dobris-úttektin var gerð í þá veru að ná tökum á súrnun, einkum í kjölfar áframhaldandi takmörkunar á útstreymi brennisteinstvíoxíða (50% milli áranna 1980 og 1995 í allri Evrópu). Ústreymi köfnunarefnisoxíða og ammoníaks hefur dregist saman um 15%. Á hinn bóginn er það svo, varðandi 10% af landsvæði Evrópu, að sýrumagnið er enn of hátt. Hvað varðar ústreymi á NOx á sviði flutninga hefur stefnan í umhverfismálum ekki náð að fylgja vextinum í flutningum - fjölgun bíla og aukin notkun þeirra er langt umfram þann ávinning sem hlotist hefur af tækniframförum á borð við notkun véla sem ekki menga jafnmikið og áður og notkun hvarfakúta í einkabílum. Þetta hefur leitt til þess að flutningageirinn er orðinn mest áberandi með tilliti til útstreymis köfnunarefnisoxíða. Fyrirsjáanleg aukning á flutningum með einkabílum í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum eykur að öllum líkindum þennan vanda.
óson í veðrahvolfinu og mengunarmóða að sumri
Þrátt fyrir aukinn umferðarþunga um alla Evrópu hefur náðst að draga verulega (um 14%) úr útstreymi ózonforstiga í Evrópu sem heild á árunum 1990 til 1995 vegna samverkandi áhrifa eftirlitsráðstafana í ýmsum geirum og efnahagslegrar endurskipulagningar í Austur-Evrópu. En mengunarmóða að sumri til af völdum mikils ósonmagns í veðrahvolfinu er enn algengt fyrirbrigði í mörgum evrópskum borgum og hún ógnar heilsu manna og gróðri.
Enn er þörf á verulegri takmörkun á útstreymi köfnunarefnisoxíða (Nox) og rokgjarnra, lífrænna efna á norðurhveli jarðar svo að ná megi markverðri minnkun á ósonmagninu í veðrahvolfinu. Næsta skref í kjölfar samþykktarinnar um köfnunarefnisoxíð (Nox) í samningnum á vegum Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE) um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (CLRTAP) verður samþykkt sem nær til margra spilliefna og mengunaráhrifa og fjallar meðal annars um mengun af völdum áhrifa ljóss á efnahvörf, súrnunar og ofauðgunar vatna. Gert er ráð fyrir að hún liggi fyrir til samþykktar á árinu 1999 og beinist væntanlega að strangari takmörkun útstreymis. Sérstaklega verður vandkvæðum bundið að hafa hönd í bagga með útstreymi í hinum hraðvaxandi flutningageira sem ber ábyrgð á meginhluta þeirra köfnunarefnisoxíða (Nox) sem myndast í allri Evrópu og losun rokgjarnra lífrænna efna í Vestur-Evrópu.
Í Austur-Evrópu er iðnaðurinn enn helsta uppspretta útstreymis á lífrænum, rokgjörnum efnum en það ástand gæti breyst vegna væntanlegrar aukningar í flutningum.
kemísk efni
Sú ógn sem umhverfi og heilbrigði manna stafar af kemískum efnum er og verður um margt óljós vegna óheyrilegs fjölda kemískra efna sem eru í almennri notkun, svo og vegna skorts á þekkingu um leiðir og og uppsöfnun þessara efna í umhverfinu og áhrif þeirra á menn og vistkerfi.
Vegna örðugleika við að meta eiturvirkni margra hugsanlega hættulegra kemískra efna, sem notuð eru eða sett í umferð (og blöndur af þeim), beinast eftirlitsáætlanir nú að því að minnka magn efna í umhverfinu (og þar með áhrif af völdum þeirra) með því að hætta eða draga úr notkun þeirra og útstreymi frá þeim. Ný úrræði, svo sem áætlanir um að menn dragi af sjálfsdáðum úr notkun þeirra, hljóta nú aukna athygli og sama gildir um skrár um eitrandi og mengandi útstreymi.
sorp
Áætlað er að heildarsorpmyndun hafi aukist um 10% á árunum 1990 til 1995. Hins vegar má gera ráð fyrir því að hin sýnilega aukning nú stafi að hluta til af betra eftirliti.
Í flestum löndum grípa menn enn til ódýrasta úrræðisins við meðhöndlun sorps, urðunar. Í auknum mæli er farið að beita æskilegri aðferðum við meðhöndlun sorps í þá veru að lágmarka eða koma í veg fyrir myndun sorps, en enn sem komið er greinist ekki í heild neinn árangur á þessu sviði. Endurvinnsla virðist skila meiri árangri í löndum þar sem öflugt sorphirðukerfi er fyrir hendi.
Lögð er áhersla á það í Mið- og Austur-Evrópuríkjum og í nýfrjálsu ríkjunum að bæta meðferð sorps á vegum sveitarfélaga með betri flokkun þess og betri stjórnun urðunar, endurvinnsluáætlunum á hverjum stað og ódýrum deyfingar- og takmörkunaraðgerðum á helstu urðunarstöðum.
fjölbreytni lífríkis
Heildarálag á fjölbreytni lífríkis af mannavöldum (þaulræktun í landbúnaði, skógrækt, þéttbýlismyndun og þróun samgöngu- og veitukerfa, auk mengunar) hefur almennt aukist síðan Dobris-úttektin var gerð.
Álagið skapast vegna sérhæfingar og í auknum mæli stækkandi rekstrareininga í landbúnaði og skógrækt, skiptingar landssvæða (sem leiðir til einangrunar náttúrulegra búsvæða og tegunda), uppsöfunar kemískra efna, vatnstöku, truflunar og áhrifa framandi tegunda. Mörgum umhverfisverndaráætlunum hefur verið hleypt af stokkunum á landsvísu og í alþjóðlegu samhengi, en hægt hefur gengið að hrinda þeim í framkvæmd. Á einstökum stöðum hafa hnitmiðaðar náttúruverndarráðstafanir haft áhrif til góðs, en litlar framfarir hafa orðið í átt til sjálfbærs landbúnaðar.
Landsvæði í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum eru vel sett vegna víðáttumikilla svæða þar sem skógar og önnur náttúrusvæði eru tiltölulega óspillt. Hins vegar gætu þau orðið fyrir álagi vegna efnahagslegra breytinga og þróunar nema viðeigandi ráðstafanir til verndar þeim séu byggðar inn í Umhverfisverndaráætlun Evrópu og í stefnumótun einstakra ríkja um efnahagslega þróun og tengda fjármálastarfsemi, svo og inn í aðildarsamninga þeirra ríkja sem ganga í ESB.
ár og vötn, haf og strendur
Í Umhverfisáætlun Evrópu er hugað sérstaklega að sjálfbærri stjórnun náttúruauðlinda og er þá átt við ár og vötn, haf og strendur. Hins vegar steðjar ógn að öllum þessum auðlindum.
Þótt tölur um þurrkun votlendis hafi verið stöðugar á síðastliðnum áratug og jafnvel fallið eilítið í nokkrum ríkjum Vestur- og Austur-Evrópu er enn möguleiki á vatnsskorti, einkum umhverfis þéttbýlissvæði. Leki frá dreifikerfum í sumum löndum og slæm nýting vatns í öllum ríkjum eru viðvarandi vandamál.
Gæðum grunnvatns - og þar af leiðandi heilsu manna - stafar ógn af miklu nítratmagni sem á rætur að rekja til landbúnaðar. Algengt er að styrkur skordýraeiturs í grunnvatni fari yfir leyfilegt hámark í ESB, og í mörgum ríkjum er skýrt frá grunnvatnsmengun af völdum þungmálma, kolvatnsefna og vetnisklórkolefna. Mörg ár líða þar til gæði grunnvatns verða bætt vegna tímans sem það tekur spilliefni að komast inn í og berast burt með grunnvatninu.
Síðan 1990 hafa ekki farið fram neinar almennar umbætur á fljótum í Evrópu. Þrátt fyrir 40-60% minnkun á fosfórútstreymi á síðastliðnum fimm árum - en ástæðan eru umbætur í iðnaði og meðferð frárennslis, svo og aukin notkun þvottaefnis án fosfórs á heimilum - er ofauðgun áa, vatna, uppistöðulóna og hafsins meðfram ströndum og úthafsins enn vandamál eins og lýst var í Dobris-úttektinni, þar sem hlutfall næringarefna hefur verið mjög hátt í mörg ár.
Ofveiði er enn stunduð víða á evrópskum fiskimiðum, stofnar fjölmargra fisktegunda eru í útrýmingarhættu, og þetta undirstrikar enn og aftur knýjandi kröfu í Umhverfisáætlun Evrópu (EPE) um stuðning við sjálfbæran sjávarútveg.
jarðvegsrýrnun
Jarðvegsrýrnun og selta í jarðvegi eru viðvarandi alvarleg vandamál mjög víða, einkum umhverfis Miðjarðarhafið. Framfarir í jarðvegsvernd hafa verið takmarkaðar, en í Umhverfisáætlun Evrópu er sérstök áhersla lögð á hana. Mjög víða er að finna menguð svæði sem brýnt er að hreinsa. Fram til þessa hefur verið bent á 300.000 staði sem að öllum líkindum eru mengaðir, einkum í Vestur-Evrópu, og sérstaklega á svæðum þar sem sterk hefð er fyrir þungaiðnaði.
Í Austur-Evrópu, þar sem mikill fjöldi svæða af hernaðarlegum toga er mengaður, er þörf á frekari upplýsingum til að fullvissa sig um stærð vandans.
borgarumhverfi
Íbúum í borgum Evrópu hefur fjölgað og evrópskar borgir sýna áfram merki um umhverfisstreitu - lítil loftgæði, mikinn hávaða, umferðaröngþveiti, rýrnun grænna svæða og skemmdir á sögulegum mannvirkjum og minnismerkjum.
Þrátt fyrir nokkrar umbætur síðan Dobris -úttektin var gerð (t.d. varðandi loft í borgum) er margs konar álag, einkum af völdum flutninga, sem í auknum mæli leiðir til versnandi lífsgæða og heilsu. Einn jákvæður þáttur hefur verið aukinn áhugi borga á staðbundnum aðgerðum í anda Dagskrár 21. Rúmlega 290 borgir í Evrópu hafa undirritað Álaborgarsáttmála evrópskra borga og bæja um sjálfbærni. Framkvæmd staðbundinnar stefnu og ráðstafana í anda Dagskrár 21, sem fela í sér verulegar umbætur á grundvelli samstillts átaks á hverjum stað, stefnir hraðbyri að því að verða sá þáttur í þróun borga sem mestu máli skiptir.
hættur af völdum tækni og náttúru
Til viðbótar því álagi, sem daglegar athafnir manna viðhalda stöðugt, verður umhverfið í Evrópu endrum og eins fyrir barðinu á meiriháttar tæknilegum slysum eða náttúruhamförum. Gögn um slík slys eru sem stendur aðeins til um tiltekin svæði í Evrópu; jafnvel enn færri gögn eru til um Mið- og Austur-Evrópu og nýfrjálsu ríkin. Ef miðað er við skráða atburði fer slysum fækkandi í iðnaði miðað við fjölda starfseininga í Evrópu.
Eyðilegging af völdum flóða og annarra hamfara af veðurfarslegum toga fer vaxandi í Evrópu; hugsanlega má kenna áhrifum manna um, svo og breytingum á landslagi (þar með talið jarðvegsbyrging undir þéttbýlissvæðum og samgöngu- og veitumannvirkjum), auk óvenjulegra veðurfyrirbæra sem eru orðin tíðari.
GEIRAR
Enda þótt dregið hafi verið úr álagi á umhverfið sýnir úttektin hér að framan að þetta hefur ekki leitt til umbóta eða meiri gæða í umhverfismálum Evrópu. Í sumum tilvikum er um að kenna náttúrulegum töfum (þegar um er að ræða t.d. eyðingu ósons í heiðhvolfinu eða uppsöfnun fosfórs í stöðuvötnum). Í mörgum tilvikum hafa þó verið gerðar of takmarkaðar ráðstafanir þegar tillit er tekið til þess hve stórt og flókið vandamálið er (t.d. mengunarmóða að sumri eða skordýraeitur í grunnvatni).
Í Evrópu er hefð fyrir því í umhverfismálum að beina athyglinni að því að hafa stjórn á menguninni við uppsprettu hennar og vernda tiltekna hluta umhverfisins. Á síðari tímum hefur samþætting umhverfissjónarmiða við önnur stefnumál og við eflingu sjálfbærrar þróunar rutt sér til rúms.
Flutningar, orka, iðnaður og landbúnaður eru meginaflvakarnir sem verka á evrópskt umhverfi. Mikil frávik eru í þróun umhverfisstefnu og skilvirkri beitingu hennar frá einum geira til annars. Iðnaðar- og orkugeirarnir eru sæmilega vel birgir af stefnum, en á nokkrum svæðum er enn þörf aðgæslu (t.d. skilvirk nýting orku og endurnýjanleg orka); landbúnaðurinn er ekki eins vel birgur og þar fer fram endurskoðun; ástandið er enn óviðunandi í flutningageiranum.
loftslagsbreytingar, súrnun, mengunarmóða að sumri, fjölbreytni
lífríkis, vandamál í borgum, kemísk efni og slys
Flutningar: Vöruflutningar á vegum í Evrópu allri hafa aukist um 54% síðan árið 1980 (mælt í tonn-kílómetrum), farþegaflutningar í bílum hafa aukist um 46% síðan 1985 (farþega-kílómetrar, aðeins í ESB) og farþegum í flugi hefur fjölgað um 67% síðan árið 1985.
Í flutningageiranum tekst verr en í öðrum geirum að láta stefnuna í umhverfismálum hafa við vaxtarhraðanum. Vandamál, t.d. öngþveiti, loftmengun og hávaða fara vaxandi. Til skamms tíma hefur vöxtur í flutningum almennt verið talinn grundvallarþáttur í hagvexti og þróun: ríkisstjórnir hafa sett sér það markmið að stuðla að þróun nauðsynlegra samgöngu- og veitukerfa, en verkefnið á umhverfissviði hefur verið takmarkað við að tryggja að útstreymi frá farartækjum færi hægt minnkandi og eldsneytisgæðin batnandi, og að val á umferðaræðum sé háð mati á umhverfisáhrifum.
Þessi skýrsla sýnir að nokkuð hefur þokast í rétta átt á þessu takmarkaða sviði víðast hvar í Evrópu. Samt sem áður hefur áframhaldandi aukning umferðar og fjölgun samgöngu- og veitumannvirkja leitt til almennrar aukningar á umhverfisvandamálum sem tengjast flutningum og almenningur hefur áhyggjur af því. Þetta leiðir til þess að fleiri grundvallarspurninga er spurt um tengslin milli hagþróunar og aukningar umferðar.
Að undanförnu hefur verið leitast við að hafa hemil á vexti í eftirspurn eftir flutningi, ýta undir frekari notkun almenningsfarartækja og hvetja til þess að teknir verði upp nýir búsetu- og framleiðsluhættir. Þessi umskipti í sjálfbærari skipan flutningamála verða ekki auðveld í framkvæmd, því talsverður pólitískur þungi liggur að baki hefðbundinni umfjöllun um þróun samgöngu- og veitumannvirkja, og notkun einkabíla er í vexti allsstaðar í Evrópu á kostnað almenningssamgangna.
loftslagsbreytingar, súrnun, mengunarmóða að sumri, strendur og
haf og vandamál í þéttbýli
Orkunotkun, sem er meginaflvakinn að baki loftslagsbreytingum og fjölda loftmengunarvandamála, hefur stöðugt verið mjög mikil í Vestur-Evrópu síðan Dobris-úttektin var gerð.
Í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum hefur dregið úr orkunotkun um 23% síðan 1990 í kjölfar efnahagslegrar endurskipulagningar, en búist er við að orkunotkun aukist aftur þegar efnahagslífið tekur við sér. Aukin skilvirkni í framleiðslu og orkunotkun er meginkrafa ef takast á að koma við meiri sjálfbærni í orkumálum.
Vegna tiltölulega lágs orkuverðs hefur ekki verið nægileg hvatning til að auka nýtingu í orkumálum í Vestur-Evrópu. Nú er aukningin í orkunýtingu um 1% á ári, en verg landsframleiðsla heldur áfram að aukast um 2 til 3% á ári.
Talsvert svigrúm er til þess að bæta enn orkunýtingu í Vestur-Evrópu, einkum á sviði flutninga og heimilishalds, en reynslan segir að á meðan verð á jarðefnaeldsneyti helst lágt þarf að grípa til róttækari pólitískra ráðstafana til þess að ná slíkum framförum.
Í Austur-Evrópu gæti aukin efnahagsleg samleitni við Vesturlönd snúið við þeirri þróun sem nú virðist leiða til minni orkunotkunar og vakið að nýju vöxt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda og annarrar mengunar, einkum í iðnaði, flutningum og í heimilishaldi. Líklegt er að nauðsynlegt verði að fara nýjar leiðir í skilvirkri framleiðslu og notkun orku einnig á þessum sviðum.
loftslagsbreytingar, óson í heiðhvolfi, súrnun, mengunarmóða að
sumri, kemísk efni, sorp, vatn, strendur og haf, vandamál í borgum og slys
Iðnaður: Hlutfall iðnaðar í vandamálum tengdum loftslagsbreytingum, súrnun, ósoni í veðrahvolfinu og vatnsmengum hefur farið minnkandi síðan Dobris-úttektin var gerð.
Í Vestur-Evrópu eru umhverfismál að verða hluti af ákvarðanatöku í iðnaði og það leiðir til minna heildarútstreymis frá iðnaði í loft og vatn. Hins vegar er slík samþætting ekki algeng í Austur-Evrópu og það undirstrikar þörfina á því í þessum löndum að vel sé staðið að því að skilgreina stjórnsýslulegan farveg og fjárhagslegan grundvöll við framkvæmd og eflingu umhverfislöggjafar og beitingu umhverfisstjórnunarkerfa víðar í viðskiptalífinu. Líkur eru á miklum tæknilegum framförum þegar verulegur hluti framleiðslukerfisins hefur verið endurnýjaður.
Í allri Evrópu hafa lítil og meðalstór fyrirtæki umtalsverð áhrif á umhverfið og svo er einnig um möguleika þeirra til að bæta ástandið. Almennt eru þessi fyrirtæki ekki enn látin sæta skilvirkum ráðstöfunum á sviði umhverfismála.
loftslagsbreytingar, óson í heiðhvolfi, súrnun, kemísk efni,
fjölbreytni lífríkis, sorp, vatn, strendur, haf og jarðvegur
Landbúnaður: Áður fyrr beindist áhersla í landbúnaði einkum að því að ná hámarksafköstum í matvælaframleiðslu og halda uppi tekjum býlisins. Í seinni tíð eru menn farnir að beina sjónum æ meir að umhverfissjónarmiðum og þörfinni fyrir sjálfbærari landbúnaði. Skýrsla þessi leiðir hins vegar í ljós að enn er í langt í land í þessum efnum.
Í Vestur-Evrópu hefur uppskera haldið áfram að aukast; svo er bættum aðferðum í landbúnaði fyrir að þakka. Notkun tilbúins áburðar og skordýraeiturs (mælt í þyngd virkra efna) hefur staðið í stað (þótt það, eins og bent er á að framan, hafi ekki strax í för með sér að grunnvatnið verði betra), en vatnsnotkun hefur haldið áfram að aukast.
Með aukningu búfjáreldis, framleiðslu búfjáráburðar og auknu útstreymi skertra köfnunarefnissambanda er ofauðgun vatna orðið alvarlegt vandamál í Norðvestur-Evrópu og segir æ meira til sín í Suður-Evrópu. Náttúruleg búsvæði og fjölbreytni lífríkis eru víða undir álagi vegna þaulræktunar í landbúnaði og dreifingar nýbýla.
Einstök ríki hafa hvatt til vistvæns landbúnaðar, en umhverfissjónarmið eru enn sem komið er lítill hluti af almennri landbúnaðarstefnu ESB. Umbætur í anda GATT og almennrar landbúnaðarstefnu ESB geta leitt til aukinnar hagkvæmni og sérhæfingar í landbúnaðarframleiðslu og til þess að hætt verði að nota land á jaðarsvæðum. Á hinn bóginn eru engin einföld tengsl milli þess að hætta að nota land og áhrifa þess á fjölbreytni lífríkis.
Í Austur-Evrópu eru kerfisbreytingar, innleiðing nútímaaðferða og aukning á fjölbreytni enn á forgangslista í landbúnaði. Á hinn bóginn stafar það af flóknum aðstæðum og óvissu hve erfitt er átta sig í heild á áhrifum slíkrar þróunar.
Þegar á heildina er litið er líklegt að þörf verði á verulegum tækniframförum og afgerandi breytingum í átt að vistvænni starfsemi, sem ekki er eins háð auðlindum, ef takast á að ná sjálfbærni í álagi á umhverfið og í nýtingu auðlinda.
Enda þótt í einstökum löndum hafi orðið einhverjar framfarir varðandi mótun stefnu sem fléttar umhverfisskilyrði inn í ákvarðanatöku (svo sem framkvæmdaáætlanir í umhverfismálum eða kröfur um mat á samanlögðum umhverfisáhrifum) er langt þar til slík stefna verður komin í framkvæmd um alla Evrópu. Hins vegar er talsvert svigrúm til umbóta sem nægja til þess að yfirvinna umhverfisáhrif af völdum aukinnar framleiðslu og neyslu, einkum í Mið- og Austur-Evrópu og í nýfrjálsu ríkjunum. Í þessum löndum veita efnahagsleg endurskipulagning og tækninýjungar tækifæri til að forðast nokkuð af þeirri bruðlkenndu tækni sem notuð hefur verið í Vestur-Evrópu.
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/publications/92-9167-087-1/page003.html or scan the QR code.
PDF generated on 08 Sep 2024, 02:24 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum