All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Í stað þess að skaða vistkerfi ættum við frekar að búa þau til
segir Jacqueline McGlade prófessor
„Í stað þess að skaða vistkerfi ættum við frekar að búa þau til", segir Jacqueline McGlade prófessor. „Við höfum tækni og hönnunargetu til þess. Dæmi um slíka möguleika í framtíðinni er að finna víðs vegar í Evrópu en þau eru enn aðeins lítil og afmörkuð nýsköpunarsvæði. Við verðum að færa út slík svæði þannig að áhrifanna gæti í borgum framtíðarinnar.
Tökum ljósið sem dæmi – það er náttúruauðlind. Fólk vill lifa og starfa við eðlilega dagsbirtu. Við byggingu mannvirkja er auðveldlega hægt að nýta dagsbirtuna betur. Lítum einnig á garðyrkju í borgum. Garðyrkja í námunda við byggingar, í þeim og á, getur breytt borgum okkar í sjálfbær bóndabýli þar sem nytjajurtir eru ræktaðar.
Hugmyndin um lifandi veggi og ræktun sem fer fram á spildum sem eru hver ofan á annarri er afar gömul og nær allt aftur til hengigarðanna í Babýlon. Það er í raun óskiljanlegt að við skulum ekki hafa gert meira af slíku fyrr. Nú gætu loftslagsbreytingarnar orðið nýr hvati til að fá okkur til þess að breyta háttum okkar,” segir prófessor McGlade.
Hærra hitastig í borgum af völdum steinsteypu og malbiks sem dregur í sig hita og losar hann svo hægt aftur myndi hafa í för með sér lengri ræktunartíma og meiri uppskeru. Hægt væri að safna regnvatni á þökum og nota leiðslukerfi til þess að veita því niður á við til allra hæða þar sem ræktun fer fram. Plönturnar myndu einnig hafa einangrandi áhrif og halda íbúðum svölum á sumrin og hlýjum á veturna.
Um allan heim eru íbúar dreifbýlisins að flytjast til borganna. Árið 2050 er búist við því að áttatíu prósent af þeim níu milljörðum manna, sem áætlað er að byggi jörðina, muni búa í borgum. Margar borgir okkar eiga í erfiðleikum vegna félagslegra og umhverfisfræðilegra vandamála sem til eru komin vegna of mikils þéttbýlis, fátæktar, mengunar og umferðar, svo nokkur dæmi séu tekin.
Búist er við því að fólk sæki áfram í auknum mæli eftir því að búa í borgum. Borgir þekja aðeins 2 % af yfirborði jarðar en þar býr helmingur allra jarðarbúa(20). Í Evrópu búa 75 % íbúanna í borgum. Þetta hlutfall mun líklega hækka í 80 % fyrir árið 2020. Borgir og bæir Evrópu nota nú 69 % af orkunni sem í boði er og þaðan kemur því einnig mestur útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Umhverfisáhrifa frá borgum gætir víða vegna
þess hve mikið er treyst á önnur svæði til þess að mæta þörf borganna fyrir orku og auðlindir og til þess að losa þær við úrgang. Könnun sem gerð var á öllu Lundúnasvæðinu(21) leiddi í ljós að Lundúnir hafi líklega áhrif á svæði sem er um 300 sinnum stærra en borgin sjálf eða sem samsvarar um tvöfaldri stærð Bretlands í heild sinni. Mengun frá borgum hefur einnig oft áhrif á svæði utan þeirra.
Í loftslagsbreytingum felst ný og alvarleg ógn við borgarlífið. Sumar borgir munu verða illa úti vegna loftslagsbreytinga. Slíkt gæti aukið á félagslegan ójöfnuð. Fátækt fólk er oft í mestri hættu og hefur ekki tækifæri til að laga sig að breyttum aðstæðum. Loftslagsbreytingar munu einnig hafa áhrif á þéttbýlisskipulag, t.d. hvað varðar gæði andrúmslofts og vatns.
Borgir okkar og þéttbýlissvæði standa því frammi fyrir mörgum vandamálum, félags- og heilbrigðislegum jafnt sem umhverfislegum. Hjá fólkinu, fyrirtækjunum og þjónustunni sem tengist borgamenningunni má þó einnig finna mörg sóknarfæri.
Þéttbýli býður upp á mikilvæg tækifæri til sjálfbærra lifnaðarhátta. Þéttbýli í borgum hefur nú þegar haft í för með sér styttri vegalengdir til að sækja vinnu og þjónustu, aukna notkun almenningssamgangna, og minni hýbýla sem þurfa minni orku til lýsingar og hitunar. Þar af leiðir að þéttbýlisfólk notar minni orku en landsbyggðarfólk miðað við höfðatölu.(22)
Borgir okkar eru einnig í einstakri stöðu hvað varðar mildun á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögun. Augljósir þættir, svo sem hönnun, stjórnun og lega borgar eru aðeins nokkur þeirra atriða sem geta aukið eða dregið úr slíkum áhrifum.
Augljóslega eru verkfræðilegar aðgerðir, eins og t.d. að reisa flóðgarða, aðeins hluti lausnarinnar. Aðlögun krefst einnig róttæks endurmats hvað varðar hönnun og stjórnun borga og ætti þannig mat að skipa höfuðsess í allri skyldri stefnumótun, þ.m.t. hvað varðar landnýtingu, húsnæðismál, vatnsstjórnun, samgöngumál, orkunotkun, félagslegt réttlæti og heilbrigðismál.
Með því að nálgast borgaskipulag, byggingarlist, samgöngur og framtíðaráætlanir með nýju hugarfari getum við breytt borgum okkar og borgarsvæðum í „þéttbýlisvistkerfi” í þeirri viðleitni að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga (betri samgöngur og hreinni orka) og laga okkur að þeim (fljótandi híbýli, garðrækt innan borgarmarka) Betra þéttbýlisskipulag mun auka lífsgæði allra og leiða til nýrra atvinnutækifæra með því að auka markaðinn fyrir nýja tækni og vistvæna byggingarlist.
Lykilatriði er að skipuleggja borgir á þá vegu að hægt sé að minnka orkunotkun hvers íbúa með því að koma á sjálfbærum borgarsamgöngum og orkunýtnum híbýlum. Einnig er mikilvægt að finna nýja tækni þannig að hægt sé að nýta orku á skilvirkari hátt, betri aðferðir til þess að virkja endurnýjanlegar auðlindir á borð við sólar- eða vindorku og nýjar tegundir eldsneytis, auk þess að láta einstaklingum og samtökum í té tækifæri til þess að breyta neysluhegðun sinni.
„Framtíðin mun reynast frábrugðin því sem við búumst við – það er það eina sem við getum verið viss um. Við erum nú að leggja á ráðin um hvernig takast megi á við þá óvissu,” segir Johan van der Pol, aðstoðarforstjóri Dura Vermeer, hollensks byggingarfyrirtækis sem nú vinnur að hönnun og byggingu IJburg, nýs fljótandi hverfis í Amsterdam.
Ijburg er eitt metnaðarfyllsta verkefnið sem Amsterdam-borg hefur ráðist í. Aukinn fólksfjöldi og hækkandi vatnsyfirborð hefur neytt hina fjölmennu borg til nýsköpunar eins og þessarar tilraunar með nýjar tegundir byggingarlistar sem flýtur á vatni. Nýju húsin „liggja við” fljótandi gönguleiðir og eru tengd við rafmagns- og vatnsveitur og frárennsliskerfi. Auðvelt er að taka húsin í sundur og flytja á annan stað, sem veitir hugtakinu að „flytjast búferlum” nýja merkingu. Í nýja hverfinu eru vistvæn fljótandi gróðurhús þar sem alls konar ávextir og grænmeti er ræktað.
Fljótandi húsin í Ijburg eru aðeins eitt dæmi um nýja strauma á sviði byggingarlistar og þéttbýlisskipulags. Áhrif loftslagsbreytinga koma fram sem þurrkur og hitabylgja í sunnanverðri Evrópu, sem flóð í norðurhluta álfunnar og allt þar á milli. Borgir verður að aðlaga nýjum aðstæðum. Í stað þess að styrkja bara flóðgarða eða flytja vatn inn á svæði skoða sumir arkitektar, verkfræðingar og skipulagsfræðingar glænýjar leiðir til þess að bæta lifnaðarhætti í þéttbýli og borgum. Þeir nálgast þéttbýlislandslag sem þéttbýlisvistkerfi framtíðarinnar.
Býflugnasuð í ParísBýflugur hafa verið ræktaðar á þaki Parísaróperunnar í 25 ár. Býflugnastofninn ofan á þessu áberandi kennileiti Parísar þrífst vel og framleiðir nær 500 kg af hunangi árlega. Borgarbýflugurnar dafna og í borginni er að finna allt að 400 býflugnabú. Nýjum búum hefur nú verið komið fyrir í Versalahöll og í Grand Palais-höllinni í París. Raunin er sú að í borgum er að finna gnótt blómstrandi jurta og trjáa í einka- og almenningsgörðum. Og þó svo að mengun sé þar mikil þá er mun minna þar um notkun skordýraeiturs. Borgarbýflugur virðast farsælli en býflugnastofnar á landsbyggð Evrópu. Samtök franskra býflugnabænda réðust, árið 2005, í átak sem nefndist „býflugnaaðgerðin” með það að markmiði að festa býflugnastofna í sessi á þéttbýlissvæðum. Svo virðist sem það hafi borið árangur. Samtökin áætla að hvert býflugnabú í París framleiði að lágmarki 50-60 kg af hunangi í hverri uppskeru og dánartíðni flugnanna er 3-5 %. Það kemur vel út miðað við landsbyggðarbýflugur, sem framleiða milli 10 og 20 kíló af hunangi og dánartíðni þeirra er 30-40 %. Býflugur eru einnig iðnar í Lundúnum. Samkvæmt samtökum býflugnabænda í Lundúnum kunna borgarbý vel að meta þær plöntur og tré sem þar er nóg af, auk þess að tiltölulega lítið er notað af skordýraeitri í borginni. Það, og sú staðreynd að veðrið er eilítið mildara, hefur í för með sér að býflugnatíðin er lengri og yfirleitt afkastameiri í borginni en úti á landi. Þetta er fullkomið dæmi um þá möguleika sem þéttbýlisvistkerfi hafa upp á að bjóða. |
„Borgir Evrópu standa frammi fyrir mismunandi vanda þannig að þörf er á mismunandi aðferðum til að bregðast við þeim,” segir Ronan Uhel, yfirmaður áætlunar Umhverfisstofnunar Evrópu um náttúruleg kerfi og viðbrögð við vá.
„Í þeim borgum þar sem gripið er snemma til aðgerða mun fjárfestingin í aðlögun skila mestum ágóða. Hingað til hafa þó aðeins fáeinar borgir í Evrópu hrint af stað áætlunum í því skyni að laga sig að nýjum aðstæðum vegna loftslagsbreytinga og raunveruleg framkvæmd aðgerða takmarkast enn að mestu leyti við minni háttar verkefni” segir hann.
Aðrar borgir kunna að vera verr staddar með tilliti til þekkingar og auðlinda og munu þær því þurfa langvarandi stuðning og ráðgjöf. Á þessu stigi væri verðmætast að bæta miðlun á reynslu milli borga og kynna bestu þekktu vinnuaðferðir.
„Thisted er lítið samfélag í vesturhluta Danmerkur sem framleiðir alla þá orku sem það þarfnast. Stundum veitir það einnig orku til landskerfisins. Þetta samfélag gerir tilkall til þess að taka örlög sín aftur í eigin hendur. Það kann að hljóma heimspekilega en er engu að síðu það sem við erum að fjalla um: að endurheimta sjálfsmynd okkar,” segir Ronan Uhel.
„Við höfum byggt upp samfélög fólks sem þarf á aðstoð að halda. Oft eru tengsl okkar við náttúrulegt umhverfi okkar aðeins óbein; við kaupum innpökkuð matvæli og fáum vatn úr krana. Við þurfum að finna aftur sjálfsmynd okkar og þann sess sem við skipum í náttúrunni.”
Höfum auga með jörðinniVið hjá Umhverfisstofnun Evrópu teljum að til þess að takast á við þann umhverfisvanda sem steðjar að okkur verðum við að hafa venjulegt fólk með í ráðum og leita til þess eftir upplýsingum. Bændur, garðyrkjufólk, veiðimenn, íþróttaiðkendur eru allt dæmi um fólk sem býr yfir staðbundinni þekkingu á sínu sviði. „Auga með jörðinni” er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar Evrópu og Microsoft. Þar er hægt að fá skjótar og gagnvirkar upplýsingar um baðstrandavatn og loftgæði víðs vegar í Evrópu á því sem næst rauntíma og frekari þjónusta er væntanleg. Þetta samstarf gerir notendum kleift að koma sínum sjónarmiðum á framfæri til stuðnings og staðfestingar (eða jafnvel höfnunar) á opinberum upplýsingum. Með því að virkja almenna borgara til þátttöku og styðja þá með viðeigandi og samanburðarhæfum upplýsingum getur þjónusta eins og "Auga með jörðinni" átt heilmikinn þátt í því að bæta stjórnunarhætti í umhverfismálum: http://eyeonearth.cloudapp.net/ |
20. United Nations Environment Programme, 2008
21. Greater London Authority
22. IEA, 2008
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/articles/borgir or scan the QR code.
PDF generated on 20 Sep 2024, 05:01 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum