næsta
fyrri
atriði

Article

Hvernig á að gera borgir „grænar“

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Jacob Härnqvist, Asa Hellstrom
Yfir þrír fjórðu hlutar Evrópubúa búa í borgum. Það hvað borgarbúar framleiða, kaupa, borða og henda, hvernig þeir ferðast um og hvar þeir búa hefur allt áhrif á umhverfið. Um leið hefur það hvernig borg er byggð einnig áhrif á það hvernig íbúar hennar haga lífi sínu. Við spurðum Roland Zinkernagel frá Malmö í Svíþjóð um áþreifanlegar aðgerðir til að gera borgina sjálfbæra.

Hvað gerir borg sjálfbæra?

Borgir eru miðstöðvar efnahags- og félagsstarfsemi. Þær geta vaxið; þær geta minnkað. Ekki er til nein ein lausn sem hentar öllum til að gera borgir sjálfbærar. Það þarf að taka á mismunandi hliðum borgarlífs. Það er ekki nóg að byggja græn svæði, laða að sér nýsköpunar- og græn fyrirtæki og byggja upp öflugar almenningssamgöngur. Það þarf líka að skoða borgina sem heild, þ.m.t. velferð íbúanna.

Malmö er iðnaðarborg með rúmum 300.000 íbúum af fjölbreytilegum uppruna. Í borginni eru háhýsi sem byggð voru á 7. áratugnum og líka einbýlishús með görðum. Þar eru einnig ný hverfi þar sem við reyndum að byggja borg framtíðarinnar: kolefnishlutlaus, þétt, græn.

Eftir að hinni stóru skipasmíðastöð borgarinnar var lokað í byrjun 9. áratugarins tók íbúum hennar að fækka, aðallega vegna mikils atvinnuleysis. Það tók tíma að skipta þeirri neikvæðu ímynd borgarinnar út fyrir aðra jákvæða - þægilegt búsetuumhverfi, leiðandi í umhverfisstefnu og -vitund, borg sem stundar sanngjarna viðskiptahætti og er græn og hrein o.s.frv.

Hvernig er hægt að gera borg sjálfbæra?

Malmö-borg hefur útlistað almenn umhverfismarkmið sín í langtímaáætlun sem allir stjórnmálaflokkar hafa samþykkt. Umhverfisáætlunin kveður á um að borgarstjórn Malmö verði loftslagshlutlaus árið 2020 og að allt sveitarfélagið verði knúið með 100% endurnýjanlegri orku fyrir árið 2030. Það eru einnig markmið um að draga úr orkuneyslu á mann, sem og úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í umhverfisáætluninni er einnig gert ráð fyrir sjálfbærari notkun á auðlindum, þ.m.t. vatni, landi og líffjölbreytileika í borginni, sem og á nærliggjandi svæðum. Við miðum einnig að því að skapa þægilegra búsetuumhverfi fyrir alla, m.ö.o. að hjálpa til við að byggja borg framtíðarinnar.

Hvernig er hægt að koma þessum markmiðum fram með áþreifanlegum verkefnum?
Á grundvelli umhverfisáætlunarinnar samþykkir Malmö-borg aðgerðaáætlanir með nánar skilgreindum markmiðum. T.d. kemur fram í einu af hinum áþreifanlegu markmiðum aðgerðaráætlunarinnar að 40% af lífrænum úrgangi eigi að fara í lífgasframleiðslu fyrir árið 2015. Áþreifanleg markmið á borð við þetta krefst aðgerða á ólíkum sviðum og stigum. Fólk þarf að flokka stærra hlutfall af heimilissorpi. Þeir, sem hafa stjórnun úrgangs með höndum þurfa að búa sig undir að taka við meira magni af lífrænum úrgangi. Og að lokum, til að umbreyta auknu magni af lífrænum úrgangi í lífgas þarf nýjar verksmiðjur eða að auka vinnslugetu þeirra verksmiðja sem eru til staðar.

Sumum markmiðum á borð við hærra flokkunarhlutfall heimila má ná með upplýsingaherferðum. Fyrir önnur gæti þurft að fjárfesta í innviðum, þ.m.t. sorphirðubílaflotum og orkuverum.

Eins og gildir um þetta dæmi útheimtir eitt áþreifanlegt markmið þátttöku margra mismunandi aðila. Svo þessi verkefni geti orðið að veruleika, erum við og þurfum að vera í sífelldum samræðum við samfélagið, opinberar stofnanir og einkageirann. ESB styrkir mörg verkefna okkar.

Hvernig geta íbúarnir tekið þátt eða aðstoðað?

Lykilþáttur í umhverfisáætlun okkar er það sem við köllum „að auðvelda rétta breytni". Við þurfum að bjóða íbúunum upp á þann möguleika að velja sjálfbærari valkosti, þ.m.t. með því að auðvelda notkun almenningssamgangna og bæta úrgangsmeðhöndlun.

Í sambandi við hegðunarbreytingar skiptir þekking sköpum. Nálgun okkar miðar að því að gera íbúunum kleift að taka upplýstar ákvarðanir. Hvaða þýðingu hefur ákvörðun af þeirra hálfu um að taka einkabílinn fyrir loftgæði og umferð borgarinnar samanborið við að nota almenningssamgöngur?

Eitt af markmiðum okkar er að gera borgina félagslega sjálfbæra með meiri samskiptum milli fólks sem býr í mismunandi borgarhlutum. Þetta felur í sér að skapa rými og tækifæri fyrir íbúa Malmö til að hittast, svo sem græn svæði og hátíðir. Með þessu er líka hlúð að jákvæðri ímynd af borginni og búsetuumhverfið bætt.

Recycling boxes

(c) Daniel Skog

Hversu langan tíma tekur það að umbreyta borg eins og Malmö þannig að hún verði algerlega sjálfbær?

Hver borg byrjar á sínum stað. Hann fer eftir þeim innviðum sem eru til staðar, pólitískri forgangsröðun og markmiðum. Malmö hefur forskot á flestar borgir í Evrópu. Þessi framsýni hefur verið uppi síðan á 10. áratugnum. Þar af leiðandi hafa heilir borgarhlutar þegar verið byggðir og þróaðir með þessa framtíðarsýn í huga.
Við erum að tala um mjög áþreifanleg verkefni og áþreifanleg vandamál og við höfum betri skilning á þeim verkum sem þarf að vinna. Þannig að í þessum skilningi erum við leiðandi í Evrópu.

Í þeim hverfum þar sem við höfum verið að störfum í 15 ár má sjá að áætlunin hefur öðlast sinn eigin skriðþunga. Það getur tekið 5-10 ár að koma sumum verkefnum, svo sem flokkun úrgangs og endurvinnslu, í framkvæmd, en almenningsálitið getur þurft allt að heilli kynslóð til að breytast. Önnur mál, t.d. að breyta byggingum sem eru til staðar, gætu tekið enn lengri tíma.

Umskiptin gerast svo sannarlega í litlum skrefum. Stjórnvöld leika ákveðið hlutverk í að auðvelda þessi umskipti, ekki eingöngu með því að búa til rammann heldur einnig með því að sýna fordæmi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar?

Að mínu áliti er stærsta áskorunin að gera áætlanir til langs tíma; m.ö.o. að færa sig frá skammtímaáætlunum yfir í áætlanir til meðallangs tíma. Stjórnmálamenn eru kosnir til fjögurra eða fimm ára í senn og forgangsröðun stefnumála þeirra getur breyst eftir kosningar eða á meðan þeir eru við völd. Hið sama á við um fyrirtæki.

Ákvörðun um fjárfestingu fer eftir því hversu mikla ávöxtun menn geta fengið og hvenær. Varðandi það að byggja sjálfbærar borgir lítum við til margra ólíkra þátta, eins og ég nefndi áðan.

Við þurfum að skipuleggja og undirbúa framtíðarsýn sem nær talsvert lengra en 5-10 ára aðgerðaáætlanirnar okkar. T.d. gætu byggingarnar, sem við erum að reisa núna, enn verið í notkun árið 2100. Tökum við mið af framtíðarorkuþörf eða -notkun bygginga þegar við hönnum þær? Við þurfum að vera framsýn og sveigjanleg í senn. Það eru kannski engin skýr svör til við þessum spurningum ennþá, en það er svo sannarlega þess virði að skoða þær.

Roland Zinkernagel

Roland Zinkernagel

Roland Zinkernagel starfar hjá umhverfisdeild Malmö-borgar.

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage