næsta
fyrri
atriði

Article

Rusl í höfunum

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Rastislav Stanik
U.þ.b. 70% jarðar er þakið úthöfum og það má finna rusl í sjónum næstum því hvarvetna. Sjávarrusl, sérstaklega plast, er ógn við heilbrigði sjávar og stranda sem og við hagkerfið og samfélög okkar. Mestur hluti alls sjávarrusls kemur til vegna umsvifa manna á landi. Hvernig er hægt að stöðva flæði rusls í sjóinn? Besti staðurinn til að byrja á að takast á við þetta hnattræna sjávarvandamál er á landi.

Árið 2007 skolaði allóvenjulegum skipbrotsmönnum á land í norðanverðu Frakklandi. Það voru gúmmíendur sem höfðu lokið 15 ára langri frægðarför sem hófst í janúar 1992 þegar skip á siglingu frá Hong Kong til Bandaríkjanna missti hluta af farmi sínum fyrir borð í óveðri. Í einum gámanna, sem lent höfðu í sjónum, voru 28.800 leikföng og höfðu sum þeirra rekið að landi í Ástralíu og á austurströnd Bandaríkjanna nokkrum árum áður. Önnur höfðu farið um Beringssund og Norður-Íshaf og komið að landi á Grænlandi, Bretlandi og Nova Scotia.

Endalaust ferðalag plasts

Gúmmíendur eru ekki eina tegundin af manngerðu rusli sem flýtur um höfin. Sjávarrusl samanstendur af framleiddum eða unnum föstum efnum (t.d. plasti, gleri, málmum og viði) sem endar í hafinu á einn eða annan hátt.

U.þ.b. 10 milljónir tonna af rusli enda í heimshöfunum á ári hverju. Plast, og þá sérstaklega plastumbúðir svo sem flöskur utan af drykkjum og einnota pokar, eru langalgengasta tegund rusls sem finna má í sjónum. Listinn er endalaus: skemmd veiðinet, reipi, dömubindi, túrtappar, eyrnapinnar, smokkar, sígarettustubbar, einnota kveikjarar o.s.frv.

Fjöldaframleiðsla á plasti hófst á 6. áratugnum og jókst leifturhratt úr 1,5 milljónum tonna á ári í 280 milljónir tonna á ári nú til dags. U.þ.b. þriðjungur núverandi framleiðslu er einnota umbúðir sem er hent á innan við ári.

Ólíkt lífrænum efnum „hverfur" plast aldrei í náttúrunni heldur safnast upp í umhverfinu, sérstaklega í höfunum. Sólarljós, saltvatn og öldur brjóta plastið niður í sífellt smærri búta. Einnota bleyja eða plastflaska getur verið u.þ.b 500 ár að brotna niður í slíkar örsmáar eindir. En ekki verða allar örplasteindir til við niðurbrotsferlið. Sumar neysluvörur, svo sem tannkrem, snyrtivörur og hreinlætisvörur innihalda nú þegar örplasteindir.

Með hafstraumum, vindum og snúningi jarðar safnast þessar agnir saman, en sumar þeirra mælast aðeins í míkronum (milljónasta hluta úr metra) og mynda gríðarstór svæði sem kallast hvirflar. Allt eftir stærð agnanna kunna þeir að líta út eins og nokkurskonar gegnsæ „plastsúpa". Hvirflar þessir hreyfast til og breytast að stærð og lögun. Stærsti og mest rannsakaði hvirfillinn, hvirfillinn í Norður-Kyrrahafi, er talinn hafa sogað til sín 3,5 milljónir tonna af rusli og hefur hann áhrif á svæði sem er áætlað að sé tvöfalt stærra en Bandaríkin. Í fimm öðrum stórum hringiðum í höfunum er rusl að safnast saman, þ.m.t. í Atlantshafinu.

Sumum ögnum skolar á land þar sem þær blandast sandi, jafnvel í fjarlægum heimshornum. Aðrar agnir verða hluti af fæðukeðjunni.

Uppruni sjávarrusls

Samkvæmt sumum áætlunum eru um 80% alls sjávarrusls upprunnin í starfsemi á landi. Uppspretta sjávarrusls einskorðast ekki endilega við starfsemi manna við sjávarsíðuna. Jafnvel þegar rusli er hent á landi flytja ár, flóð og vindur það til sjávar. Fiskveiðar, flutningar á sjó, mannvirki á sjó á borð við olíuborpalla og skólpkerfið leggja til afganginn.

Það fer dálítið eftir landsvæðum hvaðan sjávarrusl kemur. Í Miðjarðarhafi og Eystrasalti verður megnið af sjávarrusli til á landi; í Norðursjó hins vegar stafar jafnstór hluti frá umsvifum manna á hafi úti.

Meira plast en svif

Erfitt er að meta heildaráhrif sjávarrusls. Sjávarrusl hefur slæm áhrif á villt dýr í sjó aðallega á tvo vegu: með áti og flækjum.

Í rannsókn á vegum Algalita, sem er sjálfstæð sjávarrannsóknastofnun í Kaliforníu, kom í ljós árið 2004 að sjávarsýni innihéldu sexfalt meira plast en svif.

Vegna stærðar og magns sjávarrusls ruglast sjávardýr og fuglar á því og fæðu. Yfir 40% af núlifandi hvalategundum, höfrungum og hnísum, allar tegundir sjávarskjaldbaka og um 36% af sjávarfuglum hafa greinst með sjávarrusl sem þær hafa innbyrt. Inntaka takmarkast ekki við einn eða tvo einstaklinga. Hún hefur áhrif bæði á fiskitorfur og fuglahópa. T.d. höfðu yfir 90% af fýlum, sem skolaði dauðum á land í Norðursjó, plast í maganum.

Ef magi dýrs er fullur af ómeltanlegu plasti getur það hindrað dýrið í að éta sem endar með því að það sveltur til bana. Efnin í plasti geta einnig virkað sem eitur og veikt dýrið varanlega eða drepið það, eftir magni.

Stærri plasteiningar eru einnig ógn við lífríki sjávar. Margar tegundir, þ.m.t. selir, höfrungar og sæskjaldbökur, geta flækt sig í plastrusli, fiskinetum og -línum sem týnast í sjó. Fæst dýranna sem flækjast lifa af, þar sem þau komast ekki upp á yfirborðið til að anda, sleppa frá rándýrum eða nærast.

Toppurinn á ísjakanum

Sjávarrusl er hnattrænt vandamál og það er erfitt að afla áreiðanlegra gagna. Hafstraumar og vindar flytja sýnilegar agnir til, sem gæti valdið því að sama ruslið sé talið oftar en einu sinni. Ennfremur er talið að eingöngu lítill hluti af sjávarrusli fljóti eða skoli á land. Samkvæmt umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) fljóta aðeins 15% sjávarrusls; önnur 15% eru á mismunandi dýpi í sjónum og 70% liggja á botninum.

Hinn „ósýnilegi" hluti ruslsins hefur áfram áhrif á heildarheilsu sjávarumhverfisins. Talið er að u.þ.b. 640.000 tonn af fiskveiðibúnaði hafi tapast, verið skilinn eftir eða hent á heimsvísu. Þessi „drauganet" halda áfram að veiða fisk og önnur sjávardýr árum og áratugum saman.

Ennfremur lenda sumar þeirra fisktegunda, sem innbyrða plastið, reglulega á matardiskum manna. Þegar menn neyta sjávarfæðis, sem er útsett fyrir plasti og olíuefnum þess, er heilsu þeirra einnig stefnt í hættu. Áhrifin á heilsu manna eru ekki alveg ljós.

Byggðarlög við sjávarsíðuna verða fyrir mestum áhrifum

Yfir 40% íbúa ESB búa nálægt hafi. Sjávarrusl veldur, til viðbótar við umhverfiskostnað, félags-efnahagslegum kostnaði sem hefur mest áhrif á samfélög við sjávarsíðuna. Hrein strandlengja skiptir sköpum fyrir strand-ferðamennsku. Að meðaltali finnast 712 hlutir á hverri 100 metra langri strandlengju við Atlantshafið. Ef ekkert er að gert safnast sjávarrusl upp í fjörunum. Til að gera strandbaðstaði meira aðlaðandi fyrir ferðamenn verða mörg samfélög og fyrirtæki að hreinsa strandirnar fyrir sumarið.

Ekki er til neitt nákvæmt mat á heildarkostnaðinum sem sjávarrusl veldur samfélaginu. Á sama hátt er erfitt að meta tjón hins staðbundna hagkerfis af því að hugsanlegir gestir fara annað. En það eru til dæmi um áþreifanlegan kostnað við hreinsunarstarf sem hægt er að mæla í peningum. Í Bretlandi eyða sveitarfélög u.þ.b. 18 milljónum evra árlega til að hreinsa strandir.

Með hreinsunarstarfi á ströndum má ná upp stærri hlutum og bæta ásýnd svæðisins, en hvað um smærri hluti? Samkvæmt Alþjóða-umhverfissamtökum sveitarfélaga (KIMO), alþjóðasamtökum sem leiða saman sveitarstjórnir til að fjalla um mengun í sjó, eru u.þ.b. 10% (eftir þyngd) alls efnis á strandlengjunni plast. Vegna þess hve smátt það er, er það oft óaðgreinanlegt frá sandi.

Sjávarruslið sigrað: byrjum á forvörnum

Þrátt fyrir að sjávarrusl sé aðeins eitt af þeim atriðum, sem reyna á heilbrigði sjávarumhverfisins, þá er það vaxandi vandamál. Uppsöfnun og langur líftími plasts í náttúrunni flækir málið enn frekar. Sjávarrusl er vandamál sem virðir engin landamæri; eftir að það fer í sjóinn á það enginn. Þetta gerir stjórnun þess erfiða og mjög háða góðri svæðisbundinni og alþjóðlegri samvinnu.

Í vissum lögum ESB er tekið beint á málefnum sjávar. T.d. skilgreinir haftilskipun ESB, sem innleidd var árið 2008, sjávarrusl sem eitt af þeim sviðum sem þarf að taka á til að ná góðri stöðu í umhverfismálum á öllum hafsvæðum fyrir árið 2020. Í kjölfar þessara ESB-tilskipana og þeirra hnattrænu loforða sem gefin voru á Rio+20-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2012, er með 7. aðgerðaáætlun ESB á sviði umhverfismála (2014-2020) gert ráð fyrir ákvörðun grunnviðmiðunar og setningu minnkunarmarkmiðs.

Á svipaðan hátt og með úrgangsmeðhöndlun eru forvarnir fyrsta skrefið til að takast á við sjávarrusl. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að rusli sé hent á víðavangi? Þurfum við plastpoka í hvert skipti sem við förum að versla? Er hægt að hanna sumar vörur og vöruferla þannig að þær innihaldi hvorki né gefi frá sér örplasteindir? Já, það er vissulega hægt.

Marine litter

(c) Ani Becheva / EEA Waste•smART

Aðgerðir hefjast á landi

Næsta skref er að grípa til aðgerða á landi áður en ruslið kemst út í sjó. Í því skyni miða stefnur og lög ESB að því að bæta meðhöndlun úrgangs, draga úr umbúðaúrgangi og að hækka endurvinnsluhlutföll (sérstaklega plasts), bæta skólphreinsun og nýta auðlindir á skilvirkari hátt almennt. Einnig hafa verið útbúnar tilskipanir sem ætlað er að draga úr mengun frá skipum og höfnum. Það getur skilað gríðarlegum ávinningi að bæta innleiðingu úrgangsforvarna og minnkunarmarkmiða.

En hvað með ruslið sem mengar sjóinn og höfin nú þegar? Sjávarrusl hefur verið að safnast saman í höfunum árum saman. Sumir hlutir hafa sokkið til botns en aðrir færast til með hafstraumum. Það er nær ómögulegt að ímynda sér hvernig við getum hreinsað það allt upp.

Allmörg „veiðum upp rusl"-verkefni eru í gangi þar sem sjávarrusl er tínt upp í skip - svipað og ruslasöfnun á vegum sveitarfélaga á landi. Hins vegar næst ekki að tína upp rusl undir ákveðinni stærð með þeim aðferðum sem beitt er. Þannig að vandinn sem örplasteindir skapa er enn óleystur. Ennfremur eru slík verkefni, í ljósi umfangs vandamálsins og stærðar úthafanna, of smá í sniðum til að þau leiði til nokkurra verulegra framfara.

Hið sama mætti segja um hreinsunarstarf á ströndum og í fjörum. Engu að síður eru slík verkefni góð til að efla vitund fólks um málefnið og virkja borgarana til að takast á við þann vanda sem sjávarrusl er. Þegar upp er staðið er þetta e.t.v. einfaldlega spurning um fjölda. Eftir því sem fleiri sjálfboðaliðar taka þátt í slíku starfi gætu forvarnir orðið árangursríkari.

Sjávarruslavaktin

Umhverfisstofnun Evrópu hefur þróað „Marine Litter Watch" (Sjávarruslavaktina) sem inniheldur forrit til að fylgjast með sjávarrusli á ströndum Evrópu. Forritið, sem er ókeypis, gerir samfélögum sem vilja hreinsa strandir kleift að safna gögnum með aðferð sem getur bætt þekkingu okkar á sjávarrusli. Það gerir líka áhugasömum aðilum kleift að finna nálæg hreinsunarverkefni eða að mynda sína eigin hópa.

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage