næsta
fyrri
atriði

Article

Grundvallaratriði hagfræðinnar og umhverfisins

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Gülcin Karadeniz
Í mars 2014 varð París í Frakklandi fyrir mikilli svifryksmengun. Notkun einkabíla var skert mikið í marga daga. Hinumegin á hnettinum var kínverskt fyrirtæki að setja nýja vöru á markað: reykjarmóðutryggingu fyrir innlenda ferðamenn sem lentu í því að dvöl þeirra var ónýt vegna loftmengunar. Hversu mikils virði er þá hreint loft? Getur hagfræðin hjálpað okkur að draga úr mengun? Við lítum nánar á grundvallarhagfræðihugtök.

Orðið „economy" (hagfræði á ensku) er dregið af forngríska orðinu „oikonomia" sem þýðir rekstur heimilis. Starfsemin, sem það nær yfir, nær enn lengra aftur í tímann. Frumstæð samfélög samanstóðu aðallega af stórfjölskyldum sem unnu saman til að tryggja að hópurinn lifði af og að grunnþörfum þeirra væri sinnt. Meðlimir samfélagsins báru ábyrgð á mismunandi störfum: útvega mat, finna eða byggja skjól o.s.frv.

Eftir því sem samfélögin og tækni á boðstólnum varð háþróaðri fóru meðlimirnir að sérhæfa sig í ýmiss konar verkum sem þurfti að vinna í samfélaginu. Sérhæfing fylgdi í kjölfar aukinna viðskipta með vörur og þjónustu, bæði innan samfélagsins og við önnur samfélög.

Markaðsverð

Notkun sameiginlegs gjaldmiðils auðveldaði viðskipti. Hvort sem á formi perla, silfurpeninga eða evra endurspegla „peningar" undirskilið samkomulag um að sá sem eigi þá geti skipt þeim fyrir vörur og þjónustu. Raunverð — það hversu margar einingar hins sameiginlega gjaldmiðils þurfi í skiptum fyrir vöru —ræðst einnig af samkomulagi kaupanda og seljanda.

Til eru mismunandi líkön sem notuð eru til að útskýra hvernig markaðurinn ákvarðar sölu/kaupverð. Ein grunnforsendan er að kaupandinn eða neytandinn tengi ákveðið verðmæti við vöruna og sé fús til að borga fyrir það. Um flestar vörur gildir að því hærra sem verðið er, þeim mun færri eru fúsir til að kaupa þær.

Önnur forsenda er að birgirinn myndi ekki framleiða vöruna ef hún seldist ekki á hærra verði en sem það kostaði að framleiða eina einingu hennar. Í hinum raunverulega heimi selja birgjar hugsanlega vörur sínar undir framleiðsluverði til að bola keppinautum út af markaðnum eða til að losa sig við umframbirgðir, en slík iðja kallast „undirboð".

Lykilorðið hérna er „kostnaður". Hvernig er kostnaður reiknaður út? Felur verðið, sem við greiðum fyrir vörur og þjónustu, í sér kostnaðinn við að nýta náttúruauðlindir — á tæknilegra máli „náttúrulegan höfuðstól" — eða kostnaðinn af menguninni sem til verður við framleiðslu og neyslu?

Stutta svarið er nei. Varla neitt verð á markaði endurspeglar raunverulegan kostnað vöru — þ.e. þann kostnað sem tekur bæði til framleiðslu- og umhverfiskostnaðar (þ.m.t. þess heilbrigðiskostnaðar sem tengist hnignun umhverfisins). Núverandi hagkerfi byggir á þúsunda ára gamalli venju sem byggist á þeim skilningi að þjónustan, sem náttúran veitir okkur, sé ókeypis. Í flestum tilfellum tekur það sem við greiðum fyrir efni (olíu, járngrýti, vatn, timbur o.s.frv.) til vinnslu úr jörðu, flutnings- og viðskiptakostnaðar. Þetta er einn helsti veikleiki núverandi hagkerfis sem ekki er auðvelt að laga, aðallega af tveim ástæðum.

Örðugleikar við að meta kostnað

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að gera kostnaðarmat á allri þeirri þjónustu og hlunnindum, sem við fáum úr náttúrunni, eða öllum þeim skaða sem athafnir okkar valda. Það getur verið mjög mismunandi hversu mikið einstaklingar eða samfélög eru fús til að greiða fyrir hreint loft. Fyrir íbúahóp, sem verður fyrir mjög mikilli svifryksmengun, gæti það verið gríðarlega mikils virði, en þar sem fólk nýtur þess alla daga tæki það mögulega ekki eftir því.

Umhverfishagfræðingar eru að þróa bókhaldshugtök, sem gera kleift að reikna út „verð", fyrir slík hlunnindi sem við njótum úr umhverfinu sem og fyrir það umhverfistjón sem hlýst af umsvifum okkar.

Hluti af vinnunni að umhverfisbókhaldi metur tjónskostnað til að reikna út peningalegt verðmæti þjónustunnar. Hvað snertir t.d. loftgæði er reiknaður út heilbrigðiskostnaður vegna lítilla loftgæða, dauðsfalla, styttri ævilíkinda, færri vinnudaga o.s.frv. Á sama hátt, hversu mikils virði er að búa á hljóðlátu svæði? Nota mætti muninn á húsnæðisverði fyrir svipuð hús til að fá mat á markaðsverði fyrir hljóðlátt umhverfi.

Hins vegar gefa allir þessir útreikningar enn þá aðeins vísbendingar. Ekki er alltaf ljóst að hvaða leyti lítil loftgæði valda tilteknum öndunarfæraerfiðleikum eða hávaði veldur lægra húsnæðisverði.

Fyrir sumar auðlindir má með umhverfisbókhaldi einnig meta hversu mikið er til af viðkomandi auðlind á ákveðnu svæði, t.d. ferskvatni á vatnasviði. Með því eru lagðar saman úrkomutölur, vatnsflæði í ám, yfirborðsvatn og grunnvatn o.s.frv.

Fish for free

(c) Gülcin Karadeniz

Greitt fyrir umhverfisþjónustu

Í öðru lagi, jafnvel þótt skýr verðmiði fyndist hefði það alvarlegar félagslegar afleiðingar að endurspegla þann „aukakostnað" í núverandi verði til skamms tíma. Hin mikla hækkun á matvælaverði á árinu 2008, þar sem verð á ákveðnum undirstöðufæðutegundum tvöfaldaðist á hálfu ári, hafði áhrif á alla, en fátækasta fólkið varð fyrir mestum áhrifum. Snögg skipti úr kerfi þar sem náttúruleg þjónusta er ókeypis yfir í kerfi þar sem allur kostnaður er innifalinn yrðu mjög félagslega umdeild.

Á hinn bóginn eru nú þegar ákveðnir umhverfiskostnaðarliðir innifaldir í því verði sem við greiðum fyrir vissar vörur og þjónustu. Skattar og niðurgreiðslur eru algengustu verkfærin sem ríkisstjórnir nota til að „leiðrétta" markaðsverð. Umhverfisskattar bæta viðbótarkostnaði við vöruverð og hækka þannig söluverðið. Nota mætti þetta tæki til að takmarka neyslu á ákveðnum ósjálfbærum vörum. T.d. er með teppugjöldum í sumum evrópskum borgum aðeins þeim notendum einkabíla sem hafa greitt aukagjald leyft að aka í miðbænum.

Á sama hátt er með niðurgreiðslum hægt að hvetja neytendur til að velja umhverfisvænni vörur með því að lækka verðið á þeim. Þessi tæki má einnig nota til að taka á jafnræðismálum með því að veita samfélagshópum sem eiga á brattann að sækja aðstoð.

Umhverfishagfræðingar eru einnig að þróa hugtökin í kringum „umhverfislegar fjárhagsendurbætur" til að kanna hvernig hægt sé að breyta skattlagningu þannig að umhverfisvænum valkostum sé gert hærra undir höfði og hvernig hægt sé að breyta niðurgreiðslum sem eru skaðlegar umhverfinu.

Í sumum tilfellum getur markaðsaðili (birgir eða kaupandi) verið nógu stór til að hafa áhrif á markaðinn. Fyrir ákveðna græna tækni og vörur hefur sú ákvörðun stjórnvalda að færa sig yfir í þær gert þeim kleift að komast inn á markaðinn og keppa við aðila sem þar eru fyrir.

Þrátt fyrir að hagfræðin hjálpi okkur að skilja sum hugtök sem knýja áfram neyslu- og framleiðslumynstur, verð og hvata, í hnattvæddum heimi, geta margir aðrir þættir á borð við tækni og stjórnmál einnig skipt máli.

Permalinks

Geographic coverage

Tags

Skjalaaðgerðir