næsta
fyrri
atriði

Article

Úrgangur: vandamál eða auðlind?

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Andrzej Bochenski / EEA
Úrgangur er ekki eingöngu umhverfisvandamál, heldur einnig efnahagslegt tap. Evrópubúar framleiða að meðaltali 481 kg af sorpi á mann á ári. Sífellt stærra hlutfall af þessu er endurunnið eða sett í safnhauga og minna er urðað. Hvernig er hægt að breyta framleiðslu- og neysluháttum þannig að stöðugt minni úrgangur verði til, um leið og allur úrgangur er nýttur sem auðlind?

Evrópubúar framleiða gríðarlegt magn af úrgangi: matvæla- og garðaúrgangi, úrgangi úr byggingavinnu og niðurbroti, úrgangi úr námavinnslu, iðnaðarúrgangi, seyru, gömul sjónvörp, gamla bíla, rafhlöður, plastpoka, pappír, hreinlætisúrgang, gömul föt og gömul húsgögn... listinn er endalaus.

Magnið af úrgangi sem verður til er nátengt neyslu- og framleiðslumynstrum okkar. Sá mikli fjöldi vörutegunda sem kemur inn á markaðinn eru enn eitt vandamál. Lýðfræðilegar breytingar, svo sem fjölgun heimila með einum íbúa, hafa einnig áhrif á það magn úrgangs sem við getum af okkur (t.d. umbúðir utan um minni einingar).

Mikill fjöldi tegunda úrgangs og flóknar leiðir til meðhöndlunar hans (þ.m.t. ólöglegar leiðir) gera það erfitt að fá heildræna yfirsýn yfir þann úrgang sem til fellur og hvað verður um hann. Það eru til gögn, af mismunandi gæðum að vísu, um allar tegundir úrgangs.

Hversu mikinn úrgang getum við af okkur?

Gagnamiðstöð ESB um úrgang safnar saman gögnum um úrgang fyrir alla Evrópu. Samkvæmt gögnum fyrir árið 2010 fyrir 29 Evrópulönd (þ.e. ESB-löndin 28 auk Noregs) eru um 60% af þeim úrgangi sem myndast steinefni og jarðvegur, aðallega úr byggingavinnu og niðurrifi og námavinnslu. Hvað varðar málma, pappír og pappa, við, kemískan úrgang og sjúkragagnaúrgang og dýra- og gróðurúrgang, var hver tegund úrgangs um 2-4% af heildinni.

Um 10% af heildarúrganginum sem fellur til í Evrópu er það sem kallast „sorp" - úrgangur sem fellur til aðallega á heimilum og í minni mæli litlum fyrirtækjum sem og opinberum byggingum svo sem skólum og sjúkrahúsum.

Árið 2012 varð til 481 kg af húsasorpi á föstu formi á mann í hinum 33 aðildarríkjum Umhverfisstofnunar Evrópu (USE). Vart hefur orðið örlítillar samdráttarleitni frá og með árinu 2007, sem má útskýra að hluta til með efnahagskreppunni sem hefur herjað á Evrópu frá árinu 2008.

Á réttri braut: endurvinna meira; urða minna

Þessi örlitli samdráttur, sem varð vart í magni sorps sem fellur til í ESB, gæti hafa hjálpað til við að draga úr umhverfisáhrifum úrgangs, að ákveðnu leyti. Á hinn bóginn, enda þótt magn úrgangs skipti máli, er meðferð úrgangs einnig afar þýðingarmikil.

Á heildina litið í ESB er vaxandi magn úrgangs endurunnið og minnkandi magn urðað. Hvað varðar sorp hefur það hlutfall úrgangs sem er endurunnið eða mylt í ESB-27 aukist úr 31% árið 2004 í 41% árið 2012.

Þrátt fyrir þennan árangur er enn mikill munur milli landa. T.d. urða Þjóðverjar, Svíar og Svisslendingar innan við 2% af sorpi, en Króatar, Lettar og Maltverjar urða yfir 90%. Flest lönd með lágt urðunarhlutfall hafa hátt hlutfall endurvinnslu- og sorpbrennslu, bæði yfir 30% af öllu sorpi.

Háleit markmið í löggjöf ESB

Breytingin á meðhöndlun úrgangs er nátengd úrgangslöggjöf ESB. Mikilvægasta löggjöfin á þessu sviði er rammatilskipunin um úrgang (RTÚ). Í henni er kveðið á um stigskipta úrgangsmeðhöndlun: byrjað er á forvörnum, svo kemur undirbúningur undir endurnýtingu, endurvinnsla, endurheimt og að lokum förgun. Með henni er miðað að því að koma í veg fyrir tilurð úrgangs að eins miklu leyti og hægt er, að nota úrgang sem myndast sem auðlind og að draga úr því magni úrgangs sem er urðað.

RTÚ ásamt öðrum úrgangstilskipunum ESB (um urðun, ónýt farartæki, raftækjaúrgang, rafhlöður, umbúðaúrgang, o.s.frv.) innihalda sérgreind markmið. T.d. ber hverju ESB-ríki að endurvinna helminginn af öllu sorpi fyrir árið 2020; safna ber saman 45% af rafhlöðum fyrir árið 2016; fyrir árið 2020 ber að endurvinna eða endurheimta 70% af hættulausum úrgangi frá byggingariðnaði og niðurbroti (eftir þyngd).

Ríki ESB mega nota mismunandi aðferðir til að ná fram úrgangsmarkmiðum sínum. Sumar aðferðir virðast virka betur en aðrar. T.d. virðist skattlagning á urðun vera skilvirk leið til að draga úr þeim úrgangi sem urðaður er, ef hún er vel undirbúin. Framlengd ábyrgð framleiðenda, þar sem framleiðendur þurfa að taka aftur við vörunni þegar hún er ónýt, virðist einnig skila árangri.

Loftmengun, loftslagsbreytingar, jarðvegs- og vatnsmengun...

Slök úrgangsmeðhöndlun stuðlar að loftslagsbreytingum og loftmengun og hefur bein áhrif á mörg vistkerfi og tegundir.

Við urðun, sem talin er sísti kosturinn í stigskipun úrgangsmeðhöndlunar, losnar metan, mjög öflug gróðurhúsalofttegund sem tengist loftslagsbreytingum. Örverur sem finna má á urðunarstöðum mynda metan úr lífbrjótanlegum úrgangi, svo sem matvælum, pappír og garðaúrgangi. Allt eftir gerð urðunarstaða kunna þeir einnig að menga jarðveg og vatn.

Eftir að úrgangi hefur verið safnað saman er hann fluttur og meðhöndlaður. Í flutningsferlinu losnar koltvísýringur - algengasta gróðurhúsalofttegundin - og loftmengunarefni, þ.m.t. efnisagnir, út í andrúmsloftið.

Hluti af úrganginum er mögulega brenndur eða endurunninn. Orku úr úrgangi má nota til að framleiða hita eða rafmagn, sem getur svo komið í stað þeirrar orku sem framleidd er úr kolum eða öðru eldsneyti. Með orkuvinnslu úr úrgangi má þannig stuðla að minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda.

Með endurvinnslu má stuðla enn frekar að minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda og annars konar losun. Þegar endurunnin efni koma í stað nýrra efna þarf að vinna minna af nýjum efnum úr jörðu eða framleiða.

Úrgangur hefur áhrif á vistkerfi og heilsu manna

Sum vistkerfi, t.d. sjávar- og strandvistkerfi, geta orðið fyrir miklum áhrifum af slakri meðhöndlun úrgangs, eða rusli. Rusl í sjónum er vaxandi vandamál, og ekki eingöngu af útlitsástæðum: mörgum tegundum sjávardýra stafar mikil hætta af því að flækja sig í rusli eða éta það.

Úrgangur hefur einnig óbein áhrif á umhverfið. Það sem er ekki endurunnið eða endurheimt úr úrgangi jafngildir tapi á hráefnum og öðrum aðföngum sem notuð eru í keðjunni, þ.e. á framleiðslu-, flutnings- og neyslustigum vörunnar. Umhverfisáhrif í vistferliskeðjunni eru umtalsvert meiri en bara þau sem verða á úrgangsmeðhöndlunarstigunum.

Beint eða óbeint hefur úrgangur áhrif á heilsu okkar og velferð á margan hátt: metangas á þátt í loftslagsbreytingum, mengunarefnum er hleypt út í andrúmsloftið, ferskvatnslindir spillast, nytjaplöntur eru ræktaðar í menguðum jarðvegi og fiskar innbyrða eitruð efni sem enda í kjölfarið á matardiskunum hjá okkur.

Ólöglegar athafnir á borð við ólöglega losun, brennslu eða útflutning skipta einnig máli, en það er erfitt að meta til fulls umfang þeirra eða áhrif.

Efnahagslegt tap og kostnaður við meðhöndlun

Úrgangur veldur líka efnahagslegu tjóni og er byrði á samfélaginu. Vinnuafl og önnur ílög (land, orka o.s.frv.) sem notuð eru við vinnslu hans úr jörðu, framleiðslu, dreifingu og neyslu tapast einnig þegar „afgöngunum" er hent.

Ennfremur kostar úrgangsmeðhöndlun peninga. Það er dýrt að byggja upp innviði til að safna, flokka og endurvinna, en þegar þeir eru komnir getur endurvinnsla skapað tekjur og störf.

Úrgangur hefur einnig hnattræn áhrif sem tengjast útflutningi okkar og innflutningi. Það sem neytt er og framleitt í Evrópu getur valdið úrgangsmyndun annarsstaðar. Og í sumum tilfellum verður úrgangur í raun vara sem verslað er með yfir landamæri, bæði löglega og ólöglega.

Úrgangur sem auðlind

Hvað ef við nýta mætti úrgang sem auðlind og draga þar með úr eftirspurn eftir vinnslu nýrra jarðefna? Ef minna væri unnið af efnum úr jörðu og þau jarðefni sem fyrir eru væru notuð, væri með því komið í veg fyrir hluta af þeim áhrifum sem skapast í framleiðslukeðjunni. Í þessu samhengi er ónotaður úrgangur einnig hugsanlegt tap.

Að breyta úrgangi í auðlind fyrir árið 2020 er eitt af meginmarkmiðum Áætlunar ESB um auðlindanýtna Evrópu. Í áætluninni er einnig undirstrikuð þörfin á að tryggja hágæða endurvinnslu, hætta urðun, takmarka endurnýtingu orku við óendurvinnanleg efni og stöðva ólöglegar sendingar af úrgangi.

Og það er hægt að ná þessum markmiðum. Í mörgum löndum er eldhús- og garðaúrgangur stærsti hluti húsasorps á föstu formi. Með því að safna þessari tegund úrgangs í sitthvoru lagi má breyta henni í orkugjafa eða áburð. Loftfirrð rotnun er aðferð til að meðhöndla úrgang sem felur í sér að láta lífúrgang í lífrænt rotnunarferli svipað því sem gerist á urðunarstöðum, en við stýrðar aðstæður. Við loftfirrða rotnun verður til lífrænt gas og afgangsefni sem nota má sem áburð.

Í rannsókn Umhverfisstofnunar Evrópu árið 2011 var skoðaður sá ávinningur sem öðlast mætti með betri sorpmeðhöndlun. Niðurstöðurnar voru sláandi. Bætt sorpmeðhöndlun árin 1995 til 2008 skilaði umtalsvert lægri losun gróðurhúsalofttegunda, aðallega vegna minni losunar metans frá urðunarstöðum og losunar sem komist var hjá með endurvinnslu. Ef öll löndin stæðust fyllilega markmið urðunartilskipunarinnar um minnkun urðunar fyrir árið 2020, gætu þau tekið 62 milljónir tonna til viðbótar af CO2-jafngildi losunar gróðurhúsalofttegunda út úr vistferlinum - sem væri stórt framlag til viðleitni ESB við að draga úr loftslagsbreytingum.

Forvarnir eru fyrsta skrefið til að ná tökum á úrgangi

Mögulegur ávinningur er gríðarlegur og hann getur auðveldað þróun ESB í átt að hringlaga hagkerfi þar sem engu er sóað. Með því að fara ofar í stigskipun úrgangsmeðhöndlunar gefst umhverfislegur ávinningur, jafnvel hjá löndum með hátt hlutfall endurvinnslu og endurheimtar.

Því miður bjóða núverandi framleiðslu- og neyslukerfi ekki upp á marga hvata til að koma í veg fyrir og draga úr úrgangsmyndun. Endurhanna þarf alla virðiskeðjuna, allt frá vöruhönnun og innpökkun til vals á hráefnum, með það efst í huga að koma í veg fyrir úrgangsmyndun, og þá er hægt að nota „afganga" eins ferlis sem ílag annars.

Það að fara ofar í stigskipun úrgangsmeðhöndlunar útheimtir sameiginlegt átak allra sem í hlut eiga; neytenda, framleiðenda, stefnumótenda, sveitarstjórna, sorpmeðhöndlunarstöðva o.s.frv. Neytendur sem eru fúsir til að flokka heimilissorp sitt geta því aðeins endurunnið ef innviðir til að hirða flokkaða sorpið frá þeim eru til staðar. Hið gagnstæða gildir einnig: sveitarfélög geta því aðeins endurunnið meira ef heimilin flokka sorpið sitt.

Á endanum fer það hvort úrgangur verður vandamál eða auðlind eftir því hvernig við meðhöndlum hann.

Permalinks

Geographic coverage