næsta
fyrri
atriði

Article

Umskipti í átt að grænu hagkerfi

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Gülcin Karadeniz
Lífsgæði okkar, heilsa og atvinna eru öll háð umhverfinu. Hins vegar eigum við á hættu að grafa undan velferð okkar og getu náttúrunnar til að sjá okkur fyrir lífsviðurværi vegna þess hvernig við nýtum auðlindir okkar og hversu hratt við göngum á þær. Við þurfum að gerbreyta framleiðslu-, neyslu- og lífsháttum okkar. Við þurfum að gera hagkerfið grænt og umskiptin þurfa að hefjast í dag.

Jörðin býr yfir takmörkuðum auðlindum og sem stendur vinnum við og nýtum meira af auðlindum hennar en hún rís undir með sjálfbærum hætti. Náttúruauðlindir standa undir framleiðslu okkar og neyslu og skapa auðlegð og störf ásamt því að stuðla að lífsgæðum og velferð.

Allt í umhverfi okkar kemur frá náttúrunni. Á einn hátt eða annan eru heimili okkar, bílar, reiðhjól, matvæli, klæðnaður og orka hluti af umhverfinu. Við vinnum hráefni úr jörðu, vinnum úr þeim og byggjum upp samfélög okkar. Þessi tengsl við umhverfið og traust okkar á það hafa alla tíð verið nauðsynleg afkomu okkar.

En það eru gallar á því hversu mikið við nýtum náttúruauðlindir. Við setjum slíkt álag á umhverfi okkar að við eigum á hættu að veikja getu þess til að sjá okkur farborða í framtíðinni.

Með aðgerðum okkar losum við mengunarvalda í andrúmsloftið og plast í höfin. Vistkerfin eru að breytast hraðar en áður, á ónáttúrulegum hraða. Með auknum vöruflutningum berast nýjar tegundir sem geta gert innrás í heilu vistkerfin. Með breytingum á loftslagi breytast úrkomumynstur. Uppskerumagn verður óáreiðanlegra sem veldur hækkandi matvælaverði. Við sjáum skýrt að ákveðin svæði og lönd eru viðkvæmari en önnur. Hins vegar hafa ákveðin umhverfisáhrif á borð við loftmengun áhrif á alla, en mismikið.

Í ljósi þess álags sem vænta má í framtíðinni er brýnt að við grípum til aðgerða strax

Núverandi neysla og framleiðsla er þegar ósjálfbær fyrir þá 7 milljarða manna sem búa á jörðinni, en spáð er að fólksfjöldinn aukist í u.þ.b. 9 milljarða um miðja öldina þar sem milljarðar manna lifi enn í fátækt en vilji auka lífsgæði sín.

Auðlindanotkun okkar dregur úr og spillir hinum náttúrulega höfuðstóli sem verður til staðar til að viðhalda velferð kynslóða framtíðar. Þetta þýðir að allraminnsta kosti að það verður til æ minna jarðnæði og ferskvatn á hvern einstakling til að framleiða matinn sem við þurfum.

Til að tryggja lífsgæði okkar og velferð til langs tíma, þurfum við að gera hagkerfið grænna og umskiptin þurfa að hefjast í dag. En hvernig getum við náð því fram? Hvernig getum við umbreytt hagkerfi okkar þannig að það varðveiti umhverfið en tryggi um leið lífsgæði okkar?

Auðlindanýtni Evrópu aukin

Til að byrja með þarf hagkerfið að nýta auðlindir á skilvirkari hátt. Við þurfum raunverulega að fá meira út úr minna. Við þurfum að draga úr því magni auðlinda sem við vinnum og nýtum.

Þó það sé mikilvægt að draga úr flæði nýrra efna í framleiðsluferla og gera þá skilvirkari, er það aðeins einn þáttur málsins. Við þurfum einnig að draga úr efnistapi og úrgangsmyndun í öllu framleiðslu- og neysluferlinu.

Og það er hægt að umbreyta hagkerfi okkar, en það krefst aðgerða og stefnufestu til margra áratuga. Evrópubúar hafa náð umtalsverðum árangri við að auka auðlindanýtni sína, en meira þarf til.

Ýmiss konar verkefni og löggjöf ESB, til að mynda Evrópa 2020, sem er flaggskipsverkefni um skilvirkari auðlindanýtingu í Evrópu, rammatilskipunin um úrgang eða 7. aðgerðaáætlun á sviði umhverfismála, eru þegar til staðar og með þeim er reynt að koma á sjálfbærni í lykilþáttum hagkerfisins til langs tíma litið.

Full innleiðing slíkrar stefnu myndi leiða af sér margskonar ávinning. Það þyrfti minna af jarðargæðum fyrir alla framleiðslu og með því væri stuðlað að vernd og viðhaldi umhverfisins. Á sama tíma myndi umhverfið græða á grunnnýsköpun og aukinni samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja.

Street market

(c) Gülcin Karadeniz

Dregið úr úrgangi

Tökum matarúrgang sem dæmi. Áætlað er að milli 30% og 50% af matvælum í heiminum endi sem úrgangur. Aðeins í ESB fara nærri 90 milljón tonna af matvælum til spillis árlega sem samsvarar tæpum 180 kg á mann.

Matvælum er sóað á öllum framleiðslu- og neyslustigum. Við framleiðslu á fæðu, sem ekki er neytt, sóast orka, vatn, vinna og landsvæði. Gróðurhúsalofttegundir og áburður, sem losaður er út í náttúruna, stuðlar að eyðingu umhverfisins.

Gætum við breytt fæðukerfinu til að koma í veg fyrir sóun matvæla þannig að neytendur, stórmarkaðir og matvælaframleiðendur ynnu allir saman að því að framleiða, selja og kaupa eingöngu það sem verður borðað?

Væri hugsanlega hægt að nota útrunnar vörur - „afganga" frá einu stigi framleiðsluferlisins - sem aðföng á öðru stigi þess? Gætum við skapað „hringhagkerfi" sem framleiddi eins lítinn úrgang og mögulegt væri? Betri meðhöndlun á sorpi frá borgum og bæjum sýnir að mögulegur ávinningur, bæði efnahagslegur og umhverfislegur, er gríðarlegur.

Grænkun hagkerfisins - í Evrópu og heimsins þegar til lengri tíma er litið - er feiknarlegt verkefni. Það felur í sér að gera sjálfbæra auðlindanotkun eðlilega í öllum þáttum lífs okkar.

Nýsköpunarverkefni á sviði umhverfismála, endurnýjanlegar vörur og rannsóknir almennt hafa úrslitaþýðingu fyrir hönnun á betri vörum og ferlum og við að draga úr úrgangi. Viðskiptasamfélagið gæti, í samvinnu við stjórnvöld og borgarana, innleitt sjálfbærar lausnir þar til þær verða „almennar". Til að mynda væri hægt að skapa kerfi þar sem við „leigjum" eða „fáum að láni" vörur, svo sem verkfæri og bíla, í stað þess að eiga þær, þannig að við þyrftum færri slíkar vörur til að sinna þörfum okkar?

Við, neytendur...

Við þurfum að láta hagkerfið nýta auðlindir á skilvirkari hátt og draga úr úrgangsmagninu - eða tapinu - sem það skapar. Hagfræðin gefur okkur ákveðin verkfæri til að meta kostnað og skaða og kemur með ákveðnar tillögur að því hvernig við getum tekið tillit til umhverfissjónarmiða við efnahagslegar ákvarðanir. En okkur vantar einnig meiri nýsköpun, meiri rannsóknir og síðast en ekki síst langtímasýn.

Sem neytendur höfum við öll hlutverki að gegna í að styðja við breytinguna í átt að grænu hagkerfi. Neysluhegðun okkar er undir miklum áhrifum frá jafningjum okkar og samfélagi, hvötum okkar og þeim valkostum sem okkur standa til boða. Í gegnum söguna hafa neyslumynstur verið í sífelldri þróun. Við getum nýtt okkur þennan sveigjanleika og stýrt þróuninni í átt að sjálfbærni.

Óháð tekjum okkar og því hvar við búum í heiminum, byggist heilsa okkar og velferð á umhverfinu. Við höfum öll hag af velferð umhverfisins.

Í 2014-tölublaðinu af Boðbera eru þessi mál skoðuð nánar.

Hans Bruyninckx

Hans Bruyninckx
framkvæmdastjóri

Permalinks

Geographic coverage

Tags

Skjalaaðgerðir