næsta
fyrri
atriði

Article

Hagkerfið: skilvirkt í auðlindanýtingu, grænt og í hringrás

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Rastislav Stanik
Velferð okkar byggist á nýtingu náttúruauðlinda. Við vinnum náttúruauðlindir úr jörðu og umbreytum þeim í fæðu, byggingar, húsgögn, raftæki, fatnað o.s.frv. En nýting okkar á náttúruauðlindum er meiri en svo að umhverfið ráði við að endurnýja þær og framfleyta okkur. Hvernig getum við tryggt velferð samfélagsins til langs tíma? Grænkun hagkerfisins gæti svo sannarlega komið að notum.

Ekki er auðvelt að skilgreina eða mæla velferð. Margir myndu telja góða heilsu, fjölskyldu og vini, persónulegt öryggi, að búa í ánægjulegu og heilbrigðu umhverfi, ánægju í starfi og tekjur sem tryggja góð lífsgæði til þátta sem stuðla að velferð sinni.

Þó það geti verið mismunandi milli manna, þá eiga efnahagslegir þættir -atvinna, þokkalegar tekjur, góð vinnuskilyrði - mikilvægan þátt í velferð okkar. Þættir á borð við atvinnuöryggi eða atvinnuleysi verða sérstaklega mikilvægir á tímum efnahagsþrenginga og geta haft áhrif á anda og velferð alls samfélagsins.

Auðsýnt er að þörf er á starfhæfu hagkerfi, sem veitir fólki ekki aðeins þær vörur og þjónustu sem það þarf, heldur einnig störf og tekjur sem tryggja ákveðin lífskjör.

Hagkerfið er háð umhverfinu

Starfhæft hagkerfi er háð m.a. óhindruðu flæði jarðargæða og hráefna, svo sem timburs, vatns, nytjaplantna, fisks, orku og steinefna. Ef truflun verður á framboði lykilhráefna geta atvinnugreinar sem á þau treysta í raun stöðvast þannig að fyrirtæki neyðist til að segja fólki upp eða hætta að bjóða vörur og þjónustu.

Óhindrað flæði jafngildir því að við getum unnið eins mikið úr jörðu og okkur sýnist. En getum við það í raun og veru? Eða, ef við gerum það, hvaða áhrif hefur það á umhverfið? Hvað getum við raunverulega unnið mikið úr jörðu án þess að skaða umhverfið?

Stutta svarið er að við erum nú þegar að vinna of mikið úr jörðu, meira en jörðin getur framleitt eða endurnýjað á gefnum tíma. Vissar rannsóknir gefa til kynna að á síðustu hundrað árum hafi efnisnotkun á mann á tvöfaldast á heimsvísu og að á sama tíma hafi orkunotkun á mann þrefaldast. M.ö.o., notar hvert og eitt okkar nú u.þ.b. þrefalt meiri orku og tvöfalt meira efni en forfeður okkar árið 1900. Það sem meira er, við sem gerum þetta erum nú rúmlega 7,2 milljarðar samanborið við 1,6 milljarða árið 1900.

Þessi vinnsluhraði og það hvernig við nýtum auðlindirnar dregur úr getu jarðarinnar til að standa undir okkur. Tökum fiskistofna sem dæmi. Ofveiði, mengun og loftslagsbreytingar hafa haft alvarleg áhrif á fiskistofna jarðar. Mörg sjávarsamfélög, sem áður fyrr byggðu afkomu sína á fiskveiðum, hafa nú þurft að leita á önnur mið, til að mynda ferðamennsku. Þau samfélög sem ekki hafa náð að auka fjölbreyttni í hagkerfi sínu eiga í vandræðum.

Reyndar valda efnahagsleg umsvif okkar margvíslegum umhverfis- og samfélagsáhrifum. Loftmengun, súrnun vistkerfa, missir líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsbreytingar eru allt umhverfisvandamál sem hafa alvarleg áhrif á velferð okkar.

Að verða græn og auðlindanýtin

Ef við viljum varðveita umhverfið og halda áfram að njóta góðs af afurðum þess, þurfum við að draga úr því magni efna sem við vinnum úr jörðu. Það útheimtir að við breytum því hvernig við framleiðum vörur og þjónustu og neytum jarðargæða. Í stuttu máli þurfum við að gera hagkerfið grænt.

Þrátt fyrir að til séu margar skilgreiningar á hugtakinu „grænt hagkerfi" þýðir það almennt hagkerfi þar sem allar ákvarðanir um framleiðslu og neyslu eru teknar með velferð samfélagsins og heildarvelferð umhverfisins í huga. Á tæknilegra máli er það hagkerfi þar sem samfélagið nýtir auðlindir á skilvirkan hátt þannig að velferð manna í jafnræðislegu samfélagi eykst um leið og það viðheldur þeim náttúrukerfum sem framfleyta okkur.

ESB hefur nú þegar innleitt stefnumarkandi markmið og sett af stað aðgerðaáætlanir til að gera hagkerfi sitt sjálfbærara. Evrópa 2020-áætlunin miðar að hagvexti sem er skynsamlegur, sjálfbær og stuðlar að félagslegu jafnræði. Með henni er áhersla lögð á atvinnu, menntun og rannsóknir en einnig á að byggja upp lágkolefnishagkerfi með markmið á sviði loftslags og orkunýtingar.

Í áætluninni eru tilgreind nokkur flaggskipsverkefni sem ætlað er að ná þessum markmiðum. Flaggskipsverkefnið "Auðlindanýtin Evrópa" leikur lykilhlutverk í stefnumótun ESB á þessu sviði. Fjöldi nýrra laga er einnig settur til að innleiða markmið hennar.

En hvað þurfum við að gera til að gera hagkerfi ESB auðlindanýtið? Í stuttu máli sagt þurfum við að framleiða og neyta á þann hátt að nýting allra viðkomandi auðlinda sé hámörkuð. Þetta felur í sér uppbyggingu framleiðslukerfa sem gefa af sér minnkandi magn úrgangs eða sem framleiða meira úr minni aðföngum.

Seagulls

(c) Stipe Surac / EEA Waste•smART

Hugsað um heil kerfi en ekki atvinnugreinar

Við þurfum einnig að hugsa um heil kerfi en ekki atvinnugreinar. Kerfi samanstendur af öllum þeim ferlum og innviðum, sem um er að ræða í tengslum við auðlind eða starfsemi, sem eru nauðsynlegir fyrir umsvif manna. Til dæmis tekur orkukerfi okkar til þeirra orkugerða sem við notum (kol, vind, sólarorku, náttúrugas o.s.frv.), þess hvernig við vinnum eða búum til þá orku (vindmyllur, olíuborholur, gasvinnsla úr leirsteini o.s.frv.), hvar við notum hana (í iðnaði, samgöngum, til húshitunar o.s.frv.) og þess hvernig við dreifum henni. Það tæki einnig til annarra málefna svo sem þeirra land- og vatnsauðlinda sem orkunotkun og -framleiðsla hefur áhrif á.

Efni inn; vörur og afgangar út.

Til að framleiða vöru eða þjónustu þarf aðföng. T.d. þurfa bændur til framleiðslu nytjaplantna, auk vinnu sinnar, land, sáðkorn, vatn, sólskin, verkfæri, og í nútímalandbúnaði, áburð og skordýraeitur og háþróuð verkfæri. Hið sama á að miklu leyti við um nútíma verksmiðjuframleiðslu. Til að framleiða raftæki þarf einnig vinnuafl, orku, vatn, land, steinefni, málma, gler, plast, sjaldgæfa málma, rannsóknir, o.s.frv.

Megnið af þeim efnum sem notuð eru við framleiðslu í ESB eru einnig unnin úr jörðu í ESB. Árið 2011 voru 15,6 tonn á mann af efnum notuð sem ílag í ESB, af því voru 12,4 tonn unnin úr jörðu í ESB en þau 3,2 tonn sem eftir stóðu voru innflutt.

Lítill hluti af þessum ílagsefnum var fluttur út. Afgangsins - 14,6 tonn á mann - var neytt í ESB. Efnisneysla er mismunandi milli landa. T.d. neyttu Finnar meira en 30 tonn á mann en Maltverjar 5 tonn á mann árið 2011.

Á síðasta áratug skapaði hagkerfi ESB meiri „virðisauka" í skilningi vergrar landsframleiðslu fyrir hverja einingu efna (steinefna, málma o.s.frv.) sem neytt var. T.d. framleiddi hagkerfið, úr sama magni af málmum, farsíma eða fartölvur sem voru „verðmætari" (einfaldlega orðað, „meira virði") en eldri framleiðsluvörur. Þetta nefnist auðlindaframleiðni. Í ESB jókst auðlindaframleiðni um u.þ.b. 20% úr 1,34 evrum í 1,60 evrur fyrir hvert kíló af efnum frá 2000 til 2011. Hagvöxtur var 16,5% á sama tíma.

Sum Evrópulönd hafa tiltölulega háa auðlindaframleiðni. Árið 2011 sköpuðu Svisslendingar, Bretar og Lúxemborgarar rúmlega 3 evrur í virðisauka á kíló af efnum, á meðan Búlgarar, Rúmenar og Lettar sköpuðu tæplega 0,5 evrur í virðisauka á kíló af efnum. Auðlindaframleiðni er nátengd hagskipan þess lands sem um ræðir. Sterkar þjónustu- og þekkingar/tæknigreinar sem og hátt hlutfall endurvinnslu hefur tilhneigingu til að auka auðlindaframleiðni.

Hringhagkerfi

Með núverandi framleiðslu- og neysluferlum eru ekki eingöngu framleiddar vörur og þjónusta. Með þeim verða einnig til afgangar. Þessir afgangar geta verið á formi mengunarefna sem losuð eru í umhverfið, ónotaðir efnisbútar (viður eða málmur), eða matvæli sem ekki er neytt af einhverri ástæðu.

Hið sama á við um vörur sem nálgast síðasta notkunardag. Sumar vörur mætti endurvinna eða endurnýta að hluta, en aðrar enda á ruslahaugum, landfyllingum eða sorpbrennslu. Í ljósi þess að auðlindir voru notaðar til að framleiða þessar vörur og þjónustu, þá er hver einasti hluti sem ekki er nýttur mögulegt efnahagslegt tap sem og umhverfisvandamál.

Evrópubúar framleiddu að meðaltali um 4,5 tonn af úrgangi á mann árið 2010. U.þ.b. helmingurinn af því fer aftur inn í framleiðsluferlið.

Með hugtakinu „hringhagkerfi" sjá menn fyrir sér framleiðslu- og neyslukerfi sem getur af sér eins lítið tap og mögulegt er. Í fullkomnum heimi væri næstum því allt endurnýtt, endurunnið eða endurheimt til að framleiða aðrar afurðir. Með því að endurhanna vörur og framleiðsluferla mætti stuðla að lágmörkun úrgangs og breyta ónýtta hlutanum í auðlind.

Fólk og viðskiptahugmyndir

Neytandinn og framleiðandinn eru jafnmikilvægir við að grænka hagkerfið. Framleiðsluferlið er hannað til að gefa það af sér sem neytandinn vill. En viljum við eignast fleiri neysluvörur eða viljum við bara njóta þjónustunnar sem vörurnar bjóða upp á?

Sífellt fleiri fyrirtæki innleiða nú viðskiptahætti sem kallast „samvinnuneysla". Hún gerir neytendum kleift að svala þörfum sínum með leigu, vöru-þjónustukerfum og með því að deila hlutum í stað þess að kaupa þá. Þetta gæti útheimt nýjan hugsunarhátt varðandi markaðssetningu og vöruhönnun - með minni áherslu á sölu og meiri áherslu á að búa til vörur sem endast og hægt er að gera við.

Internetið og samfélagsmiðlar auðvelda fólki að finna og nota slíkar samvinnuneysluvörur og -þjónustu. Og það þarf ekki að láta sér nægja að fá lánuð verkfæri hjá nágrönnunum eða að bóka bíl hjá bíladeilikerfi eða taka raftæki á leigu. Fatasöfn, þar sem notendur geta fengið lánuð föt, eru einnig til í sumum löndum ESB.

Allar aðgerðir sem draga úr nýrri vinnslu jarðefna og magni úrgangs, þ.m.t. sem auka auðlindaframleiðni, endurvinnslu og endurnýtingu, minnkar álagið á umhverfið og eykur getu vistkerfisins til að framfleyta okkur. Því hraustara sem umhverfið er, þeim mun betur haldin og hraust verðum við.

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir