næsta
fyrri
atriði

Article

Frá framleiðslu til úrgangs: matvælakerfið

Breyta tungumáli
Article Útgefið 01 Oct 2014 Síðast breytt 05 Nov 2021
Photo: © Gülcin Karadeniz
Við nýtum náttúruauðlindir stöðugt meira vegna fólksfjölgunar, breytinga á lífsstíl og vaxandi einkaneyslu. Til að takast á við ósjálfbæra neyslu þarf að taka á öllu auðlindakerfinu, þ.m.t. framleiðsluaðferðum, eftirspurnarmynstrum og framboðskeðjum. Hér lítum við nánar á matvæli.

Matvælakerfið, almennt séð, tekur til allra þeirra efna, ferla og innviða sem tengjast landbúnaði, viðskiptum, smásölu, flutningi og neyslu matvæla. Líkt og fyrir vatn og orku hafa menn grunnþörf fyrir fæðu. Auk þess að vera fáanleg þurfa matvæli að vera af háum gæðum, fjölbreytt, aðgengileg, örugg til neyslu og á viðráðanlegu verði. Það eru einnig sterk tengsl milli heilsu okkar og velferðar og fæðu. Vannæring og offita eru bæði heilbrigðisvandamál sem tengjast beint við hvernig við framleiðum, markaðssetjum og neytum matar.

Matvælaneysla Evrópubúa hefur breyst umtalsvert í gegnum tíðina. T.d. borðum við nú meira en tvisvar sinnum meira kjöt á mann en fyrir 50 árum. En jafnframt hefur nautakjötsneysla á mann dregist saman um 10% síðan 1995. Á sama tíma borða Evrópubúar meira fuglakjöt, fisk og sjávarafurðir, ávexti og grænmeti.

ESB er einn stærsti matvælaframleiðandi heims. Þar eru rekin nútímaleg landbúnaðarframleiðslukerfi og þar er land sem hentar vel undir landbúnað. Framleiðni á hektara hefur aukist umtalsvert, sérstaklega á seinni hluta 20. aldar. Í krafti hins fjölbreytilega landbúnaðarlands og loftslags eru framleiddar mjög fjölbreyttar landbúnaðarafurðir í Evrópu. En ESB treystir einnig á innflutning til að mæta eftirspurn eftir matvælum.

Framleiðni landbúnaðarins, talin í uppskeru á flatareiningu, hefur aukist vegna aukinnar sérhæfingar í ræktun (þ.e. sama tegund er ræktuð á stórum svæðum) og áveita, betri véla og meiri notkunar kemískra efna svo sem skordýraeiturs og áburðar. Þessi framleiðniaukning hefur gert Evrópubúum kleift að nota minna land til að framleiða meiri mat.

Hins vegar hafa þessir framleiðsluhættir ekki orðið til án kostnaðar fyrir umhverfið. Framleiðniaukning af þessu tagi veldur meira álagi á umhverfið, sem veldur meiri niturmengun og CO2-útblæstri, frekari missi líffjölbreytileika á landbúnaðarsvæðum og mengun jarðvegs, áa og vatna. Ennfremur dregur aukin notkun á ytri aðföngum til að ná fram meiri uppskeru í matvælaframleiðslu oft úr heildarorkunýtni. Þ.e.a.s., þegar enn meiri orka er notuð til að framleiða matvæli, fáum við í staðinn sífellt minni orku (hitaeiningar) mælt í raunverulegri matvælaorku til samfélagsins.

Waste bags

(c) Gülcin Karadeniz

Sjálfbær og afkastamikil

Það er deginum ljósara að Evrópubúar þurfa að draga úr umhverfisáhrifum landbúnaðarframleiðslu. Jafnframt þurfa Evrópubúar að halda áfram að framleiða sambærilegt magn af matvælum til að svara eftirspurn bæði í ESB og á heimsvísu.

ESB er einn stærsti framleiðandi og útflytjandi matvæla heims. Ef framleiðsla þess minnkaði markvert hefði það strax áhrif á heimsframleiðsluna og þar af leiðandi á matvælaverð. Hvernig geta Evrópubúar haldið áfram að framleiða hágæðamatvæli í nægjanlegu magni og á viðráðanlegu verði um leið og þeir draga úr umhverfisáhrifum landbúnaðar?

Það gæti hjálpað að innleiða sjálfbærari landbúnaðarhætti. T.d. gefa vistvænar landbúnaðaraðferðir kost á að auka framleiðni landbúnaðar án þess að nota tilbúin kemísk efni (þ.e. áburð og skordýraeitur) með því að nota náttúrulegar afurðir og að nýta sér vistvæna ferla við framleiðsluna. Nákvæmnisaðferðir í landbúnaði bjóða upp á úrræði til að draga úr notkun kemískra efna og þannig úr umhverfisáhrifum.

Óháð því hvaða aðferð er beitt, þarf matvælaframleiðsla að vera nægilega mikil til að framleiðni haldi í við eftirspurn eftir matvælum. Með þessu móti er forðast að stofna landnotkun og líffjölbreytileika í frekari hættu.

Ennfremur er landbúnaður víða helsta tekjulind staðbundinna samfélaga og á margvíslegan hátt hluti af samfélagskerfinu og menningu staðarins. Við ákvörðun hvers kyns aðgerða sem miða að því að bæta matvælakerfið þyrfti að taka slík samfélagsleg sjónarmið með í reikninginn.

Með aðgerðum sem beindust aðeins að framleiðsluhliðinni næðist ekki að „grænka" allt matvælakerfið. Engu að síður þarf að auka nýtni frekar á öðrum stigum, svo sem í flutningum, smásölu og neyslu. Ef fólk breytti mataræði sínu og borðaði minna kjöt og meira grænmeti myndi álagið á landnotkun minnka.

Fæðuúrgangur

Í Evrópu er áætlað að u.þ.b. þriðjungs þeirra matvæla, sem framleidd eru í álfunni, sé ekki neytt og að sóun eigi sér stað á öllum stigum keðjunnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að í ESB einu saman sé um 90 milljónum tonna af matvælum (eða 180 kg á mann) sóað og að mikið af því sé enn neysluhæft. Sóun á matvælum er eitt af þeim sviðum sem ESB hefur kosið að takast á við í Vegvísi að auðlindanýtnari Evrópu.

Margir reyna að draga úr því magni matvæla sem þeir henda heima hjá sér. Ein leið til þess er að útbúa hárrétt magn í matinn - ekki of mikið, ekki of lítið. Önnur leið er að nota afgangana frá því í gær á skapandi hátt. Engu að síður, sama hversu mikið við reynum, verður sumum matvælum óhjákvæmilega hent: mygluðum ávöxtum og súrri mjólk. Matvælaúrgangur frá heimilum er eingöngu brot af því heildarmagni matvæla sem fer til spillis. Miklu magni matar hefur þegar verið sóað áður en hann kemst í ísskápinn hjá okkur.

Ekki til neinar áætlanir um það magn matar sem sóað er á hinum ýmsu stigum í öllu ESB. Áreiðanleg og samanburðarhæf gögn eru ekki til, sérstaklega um matvælaúrgang sem verður til við landbúnað og fiskvinnslu. Hins vegar eru til greiningar fyrir ákveðin lönd.

Greining á matvælaúrgangi í Svíþjóð

Samkvæmt rannsókn sænsku umhverfisverndarstofnunarinnar sóuðu Svíar 127 kg af mat á mann árið 2012. Þessi áætlun tekur ekki til þeirra matvæla sem sóað var á framleiðslustiginu (landbúnaði og fiskvinnslu) né óhjákvæmilegrar sóunar í matvælavinnsluiðnaðinum.

Af þessu magni féll til 81 kg á mann á heimilum. Hjá veitingahúsum féllu til 15 kg á mann, stórmörkuðum 7 kg á mann og veitingaþjónustu 6 kg á mann. Í sænsku rannsókninni var einnig áætlað hversu mikið af þessari sóun matvæla væri „ónauðsynlegt". Niðurstöðurnar gefa til kynna svið þar sem ná mætti árangri: 91% af matvælaúrganginum sem féll til hjá stórmörkuðum, 62% hjá veitingahúsum, 52% hjá veitingaþjónustu og 35% á heimilum voru metin sem ónauðsynleg sóun.

Visst magn matvælaúrgangs fellur til vegna viðleitni aðila við að fara eftir lögum til verndar heilsu almennings og neytenda. Skemmt kjöt, sem tekið er úr hillum, er sóun á auðlindum, en fjarlæging þess er einnig varúðarráðstöfun til að vernda heilsu manna.

Aðrar aðgerðir eru ekki jafn auðtúlkaðar. T.d. þýða „best fyrir"-dagsetningar á matarumbúðum ekki endilega að varan skemmist þann dag, heldur frekar að gæði hennar minnki frá þeim degi. Þ.e., sumra vara er enn óhætt að neyta eftir daginn, sem merktur er, en smásöluaðilar mega ekki selja þær og neytendur kaupa þær ekki. Viðleitni við að uppfylla kröfur neytenda (t.d. um mikið úrval og fullar hillur, eða útlit) getur einnig valdið sóun matvæla hjá smásölum.

Örlög matvæla, sem ekki seljast, fara eftir þeim venjum sem farið er eftir um meðferð úrgangs. Þau má nota sem fóður, setja í safnhauga eða endurnýta sem orku, eða urða.

Ávinningur eins kerfis er einnig ávinningur annars

Í hvert skipti sem matvælum er sóað, er því landi, vatni, orku og öðrum aðföngum sem notuð voru til að búa til matinn sem ekki er neytt, einnig sóað. Þar af leiðandi er minni sóun matvæla í raun mögulegur ávinningur fyrir umhverfið. Ef við drögum úr því magni matvæla sem fer til spillis í öllu matvælakerfinu, minnkar líka þörfin fyrir vatn, áburð, land, flutninga, orku, úrgangssöfnun, endurvinnslu o.s.frv.

Til að setja þetta í breiðara samhengi græns hagkerfis, þá hjálpar aukin auðlindanýtni í einu kerfi við að draga úr auðlindanotkun í öðrum kerfum. Allir hagnast nánast alltaf.

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage