næsta
fyrri
atriði

Article

Loftslagsbreytingar og loftgæði

Breyta tungumáli
Article Útgefið 05 Jul 2013 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © Ace & Ace/EEA
Loftslagið er að breytast. Margar lofttegundir sem valda breytingum á loftslagi eru einnig algeng loftmengunarefni sem hafa áhrif á heilsu manna og umhverfi. Á ýmsan hátt getur bót á loftgæðum einnig eflt viðleitni við að draga úr loftslagsbreytingum og öfugt, en ekki alltaf. Áskorunin framundan felst í því að tryggja að við mörkun stefnu í loftslags- og loftgæðamálum sé lögð áhersla á þau svið þar sem ná má árangri í báðum málaflokkum.

Hlýnun jarðar veldur langvinnum þurrkum. Vegna þeirra verða skógareldar tíðari.

Ivan Beshev, Búlgaríu (ImaginAIR)

Árið 2009 vann teymi breskra og þýskra vísindamanna að rannsóknum við strendur Noregs með hljóðsjá af því tagi sem venjulega er notuð til að leita að fiskitorfum. Teymið var ekki þar til að leita að fiski heldur til að fylgjast með einni öflugustu gróðurhúsalofttegundinni, metani, sem losnaði af hinum "bráðnandi" sjávarbotni. Niðurstöður þeirra voru meðal margra annarra í langri röð viðvarana um möguleg áhrif loftslagsbreytinga.

Á svæðum nálægt skautunum er hluti landmassans eða hafsbotnsins varanlega frosinn. Samkvæmt sumum áætlunum inniheldur þetta lag — sem þekkt er sem sífrerinn — tvöfalt meira kolefni en er í andrúmsloftinu. Við hlýrri aðstæður getur þetta kolefni losnað úr rotnandi lífmassa sem annaðhvort koldíoxíð eða metan.

"Metan er gróðurhúsalofttegund sem er meira en 20 sinnum öflugri en koldíoxíð", svo hljóðar viðvörun Peter Wadhams prófessors við Cambridge-háskóla. "Þannig að núna stöndum við frammi fyrir hættu á frekari hlýnun jarðar og enn hraðari bráðnun á norðurslóðum".

Metan losnar við umsvif manna (aðallega landbúnað, orku- og úrgangsmeðhöndlun) og úr náttúrulegum uppsprettum. Eftir að metan hefur sloppið út í andrúmsloftið hefur það u.þ.b. 12 ára líftíma. Þó það sé talið vera tiltölulega skammlíf lofttegund er líftími þess samt nógu langur til að það berist til annarra svæða. Auk þess sem metan er gróðurhúsalofttegund leggur það einnig til myndunar ósons við yfirborð jarðar en óson er meiriháttar mengunarefni sem hefur áhrif á umhverfið í Evrópu og á heilsufar fólks.

Svifryk getur haft hitandi eða kælandi áhrif

Koldíoxíð getur verið stærsti drifkraftur hnattrænnar hlýnunar og loftslagsbreytinga en það er ekki sá eini. Mörg önnur efnasambönd úr lofttegundum eða ögnum sem þekkt eru sem "loftslagsáhrifavaldar" hafa áhrif á það magn sólarorku (þ.m.t. varma) sem jörðin heldur og á það magn sem hún endurkastar aftur út í geiminn. Meðal þessara loftslagsáhrifavalda eru nokkur helstu loftmengunarefnin eins og óson, metan, svifryk og nituroxíð.

Svifryk er flókið mengunarefni. Allt eftir samsetningu þess getur það svæðisbundið og á jörðinni allri ýmist haft kælandi eða hitandi áhrif á loftslag. Til dæmis gleypir sót, sem er einn efnisþátta fíns svifryks og verður til við ófullkominn bruna, sólar- og innrauða geislun í andrúmsloftinu og hefur þannig hitandi áhrif.

Aðrar gerðir svifryks sem innihalda brennisteins- eða nitursambönd hafa öfug áhrif. Þær hafa tilhneigingu til að verka sem litlir speglar, endurspegla orku sólar og valda þannig kælingu. Í einföldu máli fer það eftir lit agnarinnar. "Hvítar" agnir hafa tilhneigingu til að endurspegla sólarljós en "svartar" og "brúnar" agnir gleypa það.

Ámóta fyrirbæri á sér stað á landi. Sumar agnanna berast til jarðar með regni og snjó eða lenda einfaldlega á yfirborði jarðar. En sót getur ferðast langt frá upprunastað sínum og lent á snjó- og íshulunni. Á undanförnum árum hefur ákoma sóts á norðurslóðum dekkt hið hvíta yfirborð í vaxandi mæli og minnkað endurvarp þess, sem þýðir að jörðin heldur eftir meiri varma. Með þessum viðbótarvarma minnka hvítir fletir sífellt hraðar á norðurslóðum.

Það er athyglisvert að margir loftslagsferlar stjórnast ekki af helstu efnum andrúmsloftsins heldur lofttegundum sem finnast aðeins í mjög litlu magni. Algengust þessara svokölluðu snefillofttegunda, koldíoxíð, telst aðeins 0,0391% loftsins. Allar breytingar á þessum örlitla styrk megna að hafa áhrif á og breyta loftslaginu.

Meiri eða minni rigning?

"Litur" agna sem svífa í loftinu eða falla á jörðina er ekki eini eiginleiki þeirra sem getur haft áhrif á loftslagið. Hluti loftsins er vatnsgufa — þ.e. örsmáar vatnssameindir sem svífa í loftinu. Á þéttara formi þekkjum við þær öll sem ský. Agnir hafa mikið að segja um það hvernig skýin birtast; hve lengi þau endast; hve mikilli sólargeislun þau geta endurspeglað; hvers konar úrkomu þau geta af sér og hvar; o.s.frv. Ský eru augljóslega nauðsynleg fyrir loftslagið; styrkur og samsetning svifryks gæti breytt tímasetningu og staðsetningu hefðbundinna úrkomumynstra.

Breytingar á magni og mynstri úrkomu hafa í för með sér verulegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar þar eð þær hafa tilhneigingu til að hafa áhrif á matvælaframleiðslu á heimsvísu og þar með matvælaverð.

Í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu, Loftslagsbreytingar, áhrif og viðkvæmni í Evrópu 2012, kemur fram að öll svæði Evrópu verða fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum sem hafa margs konar áhrif á samfélag, vistkerfi og heilsufar. Samkvæmt skýrslunni hefur hærri meðalhiti mælst um alla Evrópu sem og minnkandi úrkoma í Suður-Evrópu og vaxandi úrkoma í Norður-Evrópu. Ennfremur eru jökulbreiður og jöklar að bráðna og sjávarborð að hækka. Búist er við að þessi þróun haldi áfram.

ImaginAIR: Astronauts of the polluted Earth

(c) Dovile Zubyte, ImaginAIR/EEA

Tengslin á milli loftslagsbreytinga og loftgæða

Þó við höfum ekki fullan skilning á því hvernig loftslagsbreytingar gætu haft áhrif á loftgæði og öfugt, benda nýlegar rannsóknir til þess að þetta gagnkvæma samband gæti verið sterkara en áður var áætlað. Í mati sínu frá árinu 2007 spáir alþjóðanefnd sérfræðinga um loftslagsbreytingar — alþjóðastofnunin sem stofnuð var til að meta loftslagsbreytingar — rýrnun loftgæða í borgum í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga.

Á mörgum svæðum um allan heim er búist við að loftslagsbreytingar hafi áhrif á staðbundið veðurfar, þ.m.t. tíðni hitabylgna og tímabil kyrrstöðuloftmassa. Verið getur að meira sólarljós og hærri hiti framlengi ekki aðeins tímabil með hærri ósonstyrk, heldur hækki einnig hæstu toppa enn frekar. Þetta eru sannarlega ekki góðar fréttir fyrir Suður-Evrópu sem berst þegar við  of mikið magn ósons við yfirborð jarðar.

Alþjóðlegar viðræður um mildun loftslagsbreytinga hafa skilað samkomulagi um að takmarka hækkun meðalhita á jörðinni við 2°C yfir það sem var fyrir iðnbyltingu. Ekki er enn víst hvort heimsbyggðinni takist að hefta losun gróðurhúsalofttegunda nægilega til að ná tveggja gráðu markmiðinu. Á grundvelli nokkurra mismunandi losunarspáa hefur Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna bent á muninn á núverandi loforðum um minnkun losunar og þeim niðurskurði sem þarf að framkvæma til að ná markmiðinu. Ljóst er að fleiri aðgerðir eru nauðsynlegar til að draga frekar úr losun í því skyni að auka möguleika okkar á að takmarka hækkun hitastigs við tvær gráður.

Spáð er að sum svæði — svo sem norðurslóðir — hitni miklu meira. Gert er ráð fyrir að hærri hiti yfir bæði landi og hafi hafi áhrif á rakastig andrúmsloftsins og það gæti aftur á móti haft áhrif á úrkomumynstur. Ekki er enn að fullu ljóst að hve miklu leyti meiri eða minni styrkur vatnsgufu í andrúmsloftinu gæti haft áhrif á úrkomumynstur eða loftslag á heimsvísu og á tilteknum svæðum.

Hins vegar fer umfang áhrifa loftslagsbreytinga að hluta eftir því hvernig mismunandi svæði aðlagast loftslagsbreytingum. Aðlögunaraðgerðir — frá bættu skipulagi borga til aðlögunar innviða svo sem bygginga og samgangna — fara nú þegar fram um alla Evrópu, en fleiri slíkra aðgerða verður þörf í framtíðinni. Grípa má til fjölbreytilegra ráðstafana til að laga umhverfið að loftslagsbreytingum. Til dæmis má gróðursetja tré og stækka græn svæði (garða) í þéttbýli og dregur þá úr áhrifum hitabylgna jafnframt því sem loftgæði aukast.

ImaginAIR: Windmills

(c) Bojan Bonifacic, ImaginAIR/EEA

Ná má árangri á fleiri en einu sviði samtímis

Margir loftslagsáhrifavaldar eru algeng loftmengunarefni. Ráðstafanir til að draga úr losun sóts (svarts kolefnis), ósons eða forefna ósons gagnast bæði heilsu fólks og loftslaginu. Gróðurhúsalofttegundir og loftmengunarefni koma frá sömu losunaruppsprettum. Því má hugsanlega ná fram ávinningi með því að takmarka losun annars hvors.

Evrópusambandið stefnir að því að gera hagkerfið samkeppnishæfara með því að það verði minna háð jarðefnaeldsneyti og hafi þannig minni áhrif á umhverfið árið 2050 en nú er. Nánar til tekið miðar framkvæmdastjórn ESB að því að hafa á þeim tímapunkti dregið úr innanlandslosun ESB á gróðurhúsalofttegundum um 80-95% frá árinu 1990.

Ekki er hægt að ná fram umskiptum yfir í lág-kolefnishagkerfi og verulegri minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda án þess að endurskipuleggja orkunotkun sambandsins. Þessi stefnumið miða að minnkun endanlegrar orkueftirspurnar; skilvirkari orkunotkun; notkun meiri endurnýjanlegrar orku (t.d. sólar, vinds, jarðhita og vatnsafls); og minni notkun jarðefnaeldsneytis. Markmiðin sjá einnig fyrir víðtækari beitingu nýrrar tækni, svo sem kolefnisföngun og geymslu þar sem koldíoxíðútblástur frá verksmiðju er fangaður og geymdur neðanjarðar, einkum í jarðlögum þar sem hann getur ekki sloppið út í andrúmsloftið.

Sumar þessara aðferða – sérstaklega kolefnisföngun og - geymsla – eru ekki endilega bestu lausnirnar til lengri tíma. Engu að síður, með því að koma í veg fyrir að miklu magni kolefnis sé sleppt út í andrúmsloftið til skamms og meðallangs tíma, geta þær hjálpað til við að draga úr loftslagsbreytingum fram til þess að langtíma-skipulagsbreytingar byrji að skila árangri.

Margar rannsóknir staðfesta að skilvirkar loftslags- og loftgæðastefnumótanir geta gagnast hvor annarri. Stefnumótun sem miðar að því að draga úr magni loftmengunarefna gæti hjálpað til að halda hækkun meðalhita á jörðinni fyrir neðan tvær gráður. Loftslagsstefnumótun sem miðar að því að draga úr losun sóts og metans gæti dregið úr tjóni á heilsu og umhverfi.

En það er ekki svo að í öllum loftslags- og loftgæðastefnumótunum fari hagsmunir endilega saman. Miklu skiptir hvaða aðferðir eru notaðar. Til dæmis gætu sumar geymsluaðferðir með kolefnisföngun sem notaðar eru hjálpað við að bæta loftgæði í Evrópu en aðrar ekki. Með því jafnframt að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir lífefnaeldsneyti mætti draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að uppfyllingu loftslagsmarkmiða. En á sama tíma gæti með því losun svifryks og annarra krabbameinsvaldandi loftmengunarefna aukist og loftgæði Evrópu þannig spillst.

Áskorun til Evrópu er að tryggja að með loft- og loftslagsstefnumótunum á næsta áratug sé fjárfest í aðgerðum til þess að ná árangri á fleiri en einu sviði samtímis og í aðferðum sem styðja hver aðra.

ImaginAIR: Vicious circle

(c) Ivan Beshev, ImaginAIR/EEA

Frekari upplýsingar

Permalinks

Geographic coverage

Topics

Tags

Filed under:
Filed under: air quality, air pollution
Skjalaaðgerðir