næsta
fyrri
atriði

Article

Loftgæði í Evrópu í dag

Breyta tungumáli
Article Útgefið 05 Jul 2013 Síðast breytt 21 Mar 2023
Photo: © Justine Lepaulard
Í Evrópu hafa loftgæði batnað undanfarna áratugi. Dregið hefur úr losun ýmissa mengunarefna, en mengun svifryks og ósons er enn alvarleg ógn við heilsu íbúa í Evrópu.

Í mörgum borgum er mengun svo mikil að það er nánast ómögulegt að sjá stjörnurnar um nætur.

Justine Lepaulard, Frakklandi (ImaginAIR)

London, 4. desember 1952: Þétta þoku lagði yfir borgina; vind lægði. Dagana á eftir hvíldi kyrrt loft yfir borginni; kolabrennslur í borginni losuðu mikið magn af brennisteinsoxíðum þannig að þokan fékk á sig gulleitan blæ. Sjúkrahús fylltust fljótlega af fólki sem þjáðist af sjúkdómum í öndunarfærum. Meðan verst lét var skyggni víða svo slæmt að fólk sá ekki niður á tærnar á sér. Meðan á hinni miklu reykþoku í London stóð er talið að á bilinu 4.000 -8.000  manns - aðallega ungabörn og aldrað fólk - hafi látist til viðbótar við venjulega dánartíðni.

Alvarleg loftmengun í hinum stóru iðnaðarborgum Evrópu var býsna algeng á 20. öld. Eldsneyti á föstu formi, einkum kol, var oft notað til að knýja verksmiðjur og hita híbýli. Þegar veðurfarslegar aðstæður juku áhrifin, einkum á veturna, gat mikil loftmengun legið yfir borgunum dögum, vikum og mánuðum saman. Reyndar var London þekkt fyrir loftmengun sína allt frá því á 17. öld. Þegar kom fram á 20. öld var reykþokan í London talin eitt af einkennum borgarinnar og hafði m.a.s. unnið sér sess í bókmenntum.

London smog

(c) Ted Russell | Getty Images

Aðgerðir leiddu til meiri loftgæða

Margt hefur breyst síðan. Á árunum eftir reykþokuna miklu leiddi aukin almenn og pólitísk vitund til lagasetningar sem miðaði að því að draga úr loftmengun frá kyrrstæðum uppsprettum svo sem húshitun og iðnaði. Í lok sjöunda áratugarins hófu margar þjóðir, ekki aðeins Bretar, að setja lög til að takast á við loftmengun.

Á þeim 60 árum sem liðin eru frá reykþokunni miklu hafa loftgæði Evrópu aukist verulega, aðallega vegna árangursríkrar lagasetningar ríkja, innan Evrópusambandsins og á alþjóðavettvangi.

Í sumum tilfellum varð ljóst að aðeins yrði hægt að leysa loftmengunarvandann með alþjóðlegri samvinnu. Á sjöunda áratugnum sýndu rannsóknir að súrt regn sem olli súrnun í ám og vötnum á Norðurlöndum væri af völdum mengunar sem losuð var út í loftið á meginlandi Evrópu. Niðurstaðan var fyrsti alþjóðlegi lagalega bindandi gerningurinn til að taka svæðisbundið og fjölþjóðlega á loftmengunarvandamálum, þ.e. samningur efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (LRTAP) frá árinu 1979.

Tækniþróun sem átti í sumum tilfellum upphaf sitt í lagasetningu hefur einnig stuðlað að því að auka loftgæði í Evrópu. Til dæmis hafa bílvélar orðið nýtnari í notkun sinni á eldsneyti; í nýjum díselbílum eru innbyggðar ryksíur; og stöðugt öflugri mengunarvarnarbúnaður hefur verið tekinn upp í verksmiðjum. Ráðstafanir eins og gjöld til að draga úr umferðartöfum eða skattahvatar fyrir hreinni bíla hafa einnig skilað miklum árangri.

Losun nokkurra loftmengunarefna, svo sem brennisteinsdíoxíðs, kolmónoxíðs og bensens hefur minnkað verulega. Þetta hefur aukið loftgæði umtalsvert og þannig einnig bætt lýðheilsu. Það skipti sköpum fyrir minnkun á styrk brennisteinsdíoxíðs að kolum var skipt var út fyrir jarðgas. Á tímabilinu 2001-2010 minnkaði styrkur brennisteinsdíoxíðs um helming í ESB.

Blý er annað loftmengunarefni sem hefur verið kveðið niður með lagasetningu. Á þriðja áratugnum var byrjað að nota blýbensín á flesta bíla til að forðast skemmdir á bílvélum. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum síðar sem heilsufarsáhrifin af því að sleppa blýi út í andrúmsloftið urðu þekkt. Blý hefur áhrif á líffæri og taugakerf og hindrar vitsmunalegan þroska, einkum hjá börnum. Síðan á áttunda áratugnum hafa margs konar aðgerðir bæði í Evrópu og á alþjóðavettvangi orðið til þess að hætt er að bæta blýi út í bensín sem notað er í bíla. Í dag greina næstum allar stöðvar sem fylgjast með blýi í lofti frá styrk vel undir þeim mörkum sem sett eru í lögum ESB.

Hvar stöndum við nú?

Fyrir önnur mengunarefni eru niðurstöðurnar óljósari. Efnahvörf í andrúmsloftinu og það hversu háð við erum tiltekinni starfsemi gera það erfiðara að takast á við þessi mengunarefni.

Annar vandi tengist því hvernig lög eru innleidd og þeim framfylgt í löndum ESB. Í lögum ESB um loftmengun eru yfirleitt sett markmið eða mörk fyrir tiltekin efni en það eftirlátið ríkjunum að ákveða hvernig þau vilji ná markmiðunum.

Sum ríki hafa gripið til margs konar árangursríkra ráðstafana til að takast á við loftmengun. Önnur ríki hafa gripið til færri ráðstafana eða ráðstafanirnar sem þau gripu til reyndust skila minni árangri. Þetta getur verið að hluta til vegna mismunandi mikils eftirlits og mismunandi getu ríkjanna til að framfylgja lögunum.

Annað vandamál við stjórnun loftmengunar stafar af þeim mun sem er á rannsóknarstofuprófum og raunverulegum aðstæðum í heiminum. Í tilvikum þar sem lög fjalla um sérstök svið eins og umferð eða iðnað getur tækni sem prófuð er við ákjósanlegar aðstæður á rannsóknarstofu komið fram sem hreinni og skilvirkari en hún sýnir sig vera við raunverulega notkun og aðstæður.

Við verðum einnig að hafa í huga að ný neyslumynstur eða aðgerðir sem tengjast ekki loftgæðum gætu einnig haft ófyrirséð áhrif á loftgæði í Evrópu.

ImaginAIR: Agricultural traditions that harm

(c) Cristina Sînziana, ImaginAIR/EEA

“Hinn forni siður að brenna sinu til sveita er enn stundaður í Rúmeníu. Með því er svæðið hreinsað svo fá megi nýja, góða uppskeru. Auk þess  sem þetta athæfi hefur neikvæð áhrif á náttúruna tel ég það einnig skaðlegt heilbrigði samfélagsins. Það þarf tiltekinn fjölda fólks til að stýra brunanum  og því eru áhrifin mjög sértæk.” Cristina Sînziana Buliga, Rúmeníu

Styrkur svifryks er ennþá hár í borgum

Í núgildandi löggjöf ESB og alþjóðasamningum sem hafa að markmiði að taka á svifryki er svifryk flokkað í tvo stærðarflokka — 10 míkron í þvermál eða minna og 2,5 míkron í þvermál eða minna (PM10 og PM2,5) - og varða beina losun svifryks sem og losun forlofttegunda þess.

Verulegur árangur hefur náðst við að draga úr losun svifryks í Evrópu. Á árabilinu 2001 til 2010 minnkaði bein losun PM10 og PM2,5 um 14% í Evrópusambandinu og 15% í EEA-ríkjunum 32 (hin 32 aðildarríki Umhverfisstofnunar Evrópu).

Losun forefna svifryks hefur einnig minnkað í ESB: brennisteinsdíoxíð um 54% (44% í EEA-32); nituroxíð um 26% (23% í EEA-32); ammoníak um 10% (8% í EEA-32).

En þessi minnkun á losun hefur ekki alls staðar gert almenning minna útsettan fyrir svifryki. Hlutfall þéttbýlisbúa í Evrópu sem útsettir eru fyrir EA10 í styrk sem er yfir viðmiðunarmörkum ESB er áfram hátt (18-41% fyrir ESB-15 (ESB-15 eru: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Írland, Ítalía, Lúxembúrg, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Bretland) og 23-41% fyrir EEA-32) og minnkaði aðeins lítillega á síðasta áratug. Ef miðað er við enn strangari viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar(WHO) búa yfir 80% þéttbýlisbúa ESB við of háan PM10-styrk.

Ef losun hefur minnkað verulega, hvers vegna er fólk í miklum mæli enn þá útsett fyrir svifryk í Evrópu? Minnkuð losun á tilteknu svæði eða frá tilteknum uppsprettum hefur ekki sjálfkrafa í för með sér minni styrk. Sum mengunarefni geta verið í andrúmsloftinu nógu lengi til að flytjast frá einu landi til annars, frá einni heimsálfu til annarrar, eða í sumum tilfellum um allan heim. Flutningur svifryks og forefna þess milli heimsálfa getur að einhverju leyti útskýrt hvers vegna loftgæði í Evrópu hafa ekki batnað í sama mæli og losun svifryks og forefna þess hefur minnkað.

Aðra ástæðu fyrir áframhaldandi háum styrk svifryks má finna í neyslumynstri okkar. Kol og viður sem brenndur er í litlum ofnum til heimilishitunar er víða í þéttbýli mikil uppspretta PM10-mengunar, einkum í Póllandi, Slóvakíu og Búlgaríu. Þetta stafar að hluta til af  háu orkuverði sem leiðir til þess að sérstaklega lágtekjuheimili velja ódýrari valkosti.

Óson: martröð á heitum sumardögum?

Í Evrópu tókst einnig að draga úr losun forefna ósons á árunum 2001-2010. Í ESB minnkaði losun nituroxíða um 26% (23% í EEA-32), losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda minnkaði um 27% (28% í EEA-32) og losun kolmónoxíðs minnkaði um 33% (35% í EEA-32).

Rétt eins og svifryk hefur magn forefna ósons sem sleppt er út í andrúmsloftið minnkað, en  hinn hái styrkur ósons hefur ekki minnkað samsvarandi. Hluti ástæðunnar er flutningur ósons og forefna þess milli heimsálfa. Landslag og sveiflur frá ári til árs á veðurfari svo sem vindafari og hita skipta einnig máli.

Þrátt fyrir að tilvikum með mjög háan styrk ósons á sumrin hafi fækkað eru þéttbýlisbúar enn mjög útsettir fyrir ósoni. Á tímabilinu 2001-2010 voru á bilinu 15-61% þéttbýlisbúa Evrópusambandsins, einkum í Suður-Evrópu vegna hlýrri sumra, í snertingu við óson í styrk umfram viðmiðunarmörk ESB. Samkvæmt hinum strangari viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar komust næstum allir þéttbýlisbúar ESB í snertingu við of háan ósonstyrk á tímabilinu. Almennt eru tilvik þegar ósonhækkun mælist algengari við Miðjarðarhafið en í Norður-Evrópu.

Í þéttbýli er almennt meiri umferð en í dreifbýli og hærri styrkur svifryks. Hins vegar getur ósonstyrkur verið hár í dreifbýli. Ástæðan er, að eitt af mengunarefnunum frá vegaumferð hvarfast við ósonsameindir sem getur valdið lægri ósonstyrk í þéttbýli.

ImaginAIR: Sustainable and beautiful

(c) Jerome Prohaska, ImaginAIR/EEA

Lagasetning til draga úr losun

Í ljósi þess að svifryk getur átt upptök sín í öðrum löndum fellur losun sumra forefna svifryks og ósons undir Gautaborgarbókunina við samninginn um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (LRTAP-samninginn).

Árið 2010 fóru 12 ESB ríki og ESB í heild fram úr einu eða fleiri losunarhámarki (leyft magn losunar) fyrir eitt eða fleiri mengunarefni sem samningurinn tekur til (um var að ræða nituroxíð, ammóníak, brennisteinsdíoxíð og rokgjörn, lífræn sambönd án metans). Losað var umfram mörk hvað varðar nituroxíð í 11 af löndunum 12.

Löggjöf ESB nær svipuðum árangri. Tilskipun ESB um þak á losunarmörk þjóða setur mörk fyrir losun sömu fjögurra mengunarefnanna og Gautaborgarbókunin en með örlítið lægri mörkum fyrir sum lönd. Endanlegar opinberar tölur fyrir tilskipunina sýna að 12 ESB-ríkjum mistókst að uppfylla lagalega bindandi losunarhámörk sín fyrir nituroxíð árið 2010. Nokkrum þessara landa mistókst einnig að vera innan losunarmarka fyrir eitt eða fleiri hinna mengunarefnanna þriggja.

Hvaðan koma loftmengunarefnin?

Almennt er auðveldara að mæla og fylgjast með framlagi manna til myndunar loftmengunarefna en náttúrulegum uppsprettum. Framlag vegna athafna manna er mjög mismunandi eftir mengunarefnum. Það felst þó ekki síst í brennslu eldsneytis sem á sér stað í hinum ýmsu starfsgreinum, allt frá vegaumferð og heimilum til orkunotkunar og orkuframleiðslu.

Landbúnaður er mikilvæg uppspretta tiltekinna mengunarefna. Um 90% ammóníakslosunar og 80% metanlosunar kemur frá landbúnaði. Aðrar uppsprettur metans eru úrgangur (landfyllingar), kolanámugröftur og gasflutningar um langan veg.

Yfir 40% losunar nituroxíða kemur frá vegaumferð, en um 60% brennisteinsoxíða frá orkuframleiðslu og -dreifingu í aðildarlöndum EEA og samstarfslöndum. Verslunarbyggingar, stjórnarbyggingar og opinberar byggingar og heimili valda um helmingi PM2,5 og kolmónoxíðlosunarinnar.

Ljóst er að ýmsar starfsgreinar eiga þátt í loftmengun. Það vekti ekki mikla athygli þótt því yrði komið til leiðar að við ákvarðanatöku hjá þessum starfsgreinum væri tekið tillit til loftgæða, en það myndi sannarlega auka loftgæði í álfunni.

Uppsprettur loftmengunar í Evrópu

Loftgæði undir smásjá almennings

Fyrirsagnir í fjölmiðlum um loftgæði í stórborgum hafa vakið almenna athygli á undanförnum árum, ekki síst í þeim borgum sem hafa hýst Ólympíuleikana.

Lítum á Peking. Borgin er þekkt fyrir hratt hækkandi skýjakljúfa sína sem og fyrir loftmengun. Í Peking hófst kerfisbundið loftmengunareftirlit árið 1998 - þremur árum áður en borgin var opinberlega valin til að hýsa Ólympíuleikana. Stjórnvöld gripu til raunhæfra aðgerða til að auka loftgæði í aðdraganda leikanna. Gamlir leigubílar og rútur voru endurnýjaðar og mengandi atvinnustarfsemi var flutt eða henni lokað. Nokkrum vikum fyrir leikana var byggingastarfsemi stöðvuð og notkun bíla takmörkuð.

C.S. Kiang prófessor, leiðandi loftslagsvísindamaður í Kína, segir frá loftgæðum á meðan á leikunum í Peking stóð: "Fyrstu tvo daga leikanna var styrkur PM2,5, fínu agnanna sem smjúga djúpt inn í lungun, um 150mg/m3. Á öðrum degi byrjaði að rigna, vindur jókst og PM2,5 -gildin lækkuðu verulega og sveifluðust svo í kringum 50mg/m3, sem er tvöfalt viðmiðunargildi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar upp á 25mg/m3."

London marathon

(c) Rob Ewen | iStock

Svipuð umræða átti sér stað í Bretlandi í aðdraganda Ólympíuleikanna í London árið 2012. Hvort loftgæðin yrðu fullnægjandi fyrir Ólympíuíþróttamenn, einkum maraþonhlaupara og hjólreiðamenn? Samkvæmt Manchesterháskóla voru Ólympíuleikarnir í London ekki mengunarlausir en gætu samt hafa verið minnst menguðu leikarnir á undanförnum árum. Hagstætt veður og gott skipulag virðast hafa hjálpað; sem er talsvert stórt afrek samanborið við London árið 1952.

Því miður hverfa loftmengunarvandamálin ekki þótt að kastljósi Ólympíuleikanna sé ekki lengur til að dreifa. Fyrstu daga ársins 2013 varð Peking aftur fyrir barðinu á alvarlegri loftmengun. Þann 12. janúar sýndu opinberar mælingar PM2,5-styrk upp á 400 mg/m3, en óopinber aflestur á ýmsum stöðum náði 800 mg/m3.

Frekari upplýsingar

Permalinks

Geographic coverage

Topics

Tags

Filed under:
Filed under: air quality, air pollution
Skjalaaðgerðir