næsta
fyrri
atriði

Article

Loftgæðalöggjöf í Evrópu

Breyta tungumáli
Article Útgefið 05 Jul 2013 Síðast breytt 21 Mar 2023
Photo: © Jean-Jacques Poirault
Loftmengun er ekki eins alls staðar. Mismunandi mengunarefnum er sleppt út í andrúmsloftið frá ólíkum uppsprettum. Þegar þau eru einu sinni komin í andrúmsloftið geta þau breyst í ný mengunarefni og dreifst út um allan heim. Það eru ekki auðveld verkefni að hanna og innleiða stefnur til að taka á þessum flækjum. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir loftgæðalöggjöf í Evrópusambandinu.

Ljósmyndirnar eru teknar efst úr Montparnasse-turni meðan mengun frá NO 2 mældist yfir viðmiðunarmörkum veturinn 1997-1998.

Jean-Jacques Poirault, Frakklandi (ImaginAIR)

Magn mengunarefna sem losað er út í loftið og sem við öndum að okkur hefur verið stórlega minnkað frá því að ESB kynnti stefnumörkun og aðgerðir varðandi loftgæði á áttunda áratugnum. Nú gilda reglur um losun loftmengunar frá mörgum helstu uppsprettunum svo sem samgöngum, iðnaði og orkuverum og fer hún almennt minnkandi, að vísu ekki alltaf jafnmikið og fyrirhugað var.

Mengunarefni í sigtinu

ESB hefur náð þessum árangri m.a. með því að setja bæði lagalega bindandi og óbindandi mörk fyrir allt sambandið um tiltekin mengunarefni sem eru dreifð í andrúmsloftinu. ESB hefur sett umhverfismörk fyrir svifryk (PM) af tilteknum stærðum, óson, brennisteinsdíoxíð, nituroxíð, blý og önnur mengunarefni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu manna eða vistkerfi. Lykillöggjöf þar sem sett voru umhverfismörk fyrir alla Evrópu eru m.a. tilskipun frá árinu 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu (2008/50/EC) og rammatilskipun um loftgæði frá árinu 1996 (96/62/EB).

Önnur aðferð við að setja löggjöf til að bæta loftgæði er að setja þak á  árlega losun þjóða fyrir tiltekin mengunarefni. Í slíkum tilvikum bera ríkin ábyrgð á að innleiða þær ráðstafanir sem þarf til að tryggja að losun þeirra séu undir hámarkinu sem sett er fyrir viðkomandi mengunarefni.

Gautaborgarbókunin við samning efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa (LRTAP), og tilskipun ESB um þak á losunarmörk þjóða  (2001/81/EC) settu bæði árleg losunarmörk fyrir Evrópu fyrir loftmengunarefni, þ.m.t. þau mengunarefni sem bera ábyrgð á súrnun, ofauðgun vatna og ósonmengun við jörð. Gautaborgarbókunin var endurskoðuð árið 2012. Tilskipun ESB um þak á losunarmörk þjóða  kemur til athugunar og endurskoðunar árið 2013.

Atvinnugreinar í sigtinu

Auk þess að setja umhverfismörk fyrir tiltekin mengunarefni og árleg landsbundin hámörk er evrópskri löggjöf einnig ætlað að beinast að sérstökum atvinnugreinum sem eru uppsprettur loftmengunar.

Um losun loftmengunarefna frá iðnaði gildir m.a. tilskipun um losun mengandi efna frá iðnaði (2010/75/ESB). og tilskipunin um takmörkun á losun tiltekinna mengunarefna frá stórum brennsluverum út í andrúmsloftið (2001/80/EB).

Losun frá ökutækjum hefur lotið setningu fjölda staðla um frammistöðu og eldsneytisnýtni, þar á meðal tilskipuninni frá árinu 1998 um gæði bensíns og dísileldsneytis (98/70/EB) og stöðlum um losun ökutækja sem þekktir eru sem Euro-staðlar.

Euro 5 og 6 staðlarnir ná yfir losun frá léttum ökutækjum, þ.m.t. fólksbifreiðum, sendibílum og atvinnubifreiðum. Euro 5 staðallinn öðlaðist gildi 1. janúar 2011 og hann krefst þess að allir nýir bílar sem falla undir löggjöfina losi minna af svifryki og nituroxíðum en tilgreind mörk. Euro 6, sem mun öðlast gildi árið 2015, mun setja strangari mörk á nituroxíð sem dísilvélar losa.

Það eru einnig alþjóðasamningar um losun mengunarefna á öðrum sviðum samgangna, eins og samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá árinu 1973 um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL), með viðbótarbókunum sem ákvarða losun brennisteinsdíoxíðs frá skipum.

ImaginAIR: Contamination

(c) Javier Arcenillas, ImaginAIR/EEA

„Þó að sem betur fer séu enn til næstum villtir og fallegir staðir í Rúmeníu þar sem mannshöndin hefur ekki flekkað náttúruna, er við augljósan vistfræðivanda að glíma á þéttbýlissvæðum.” Javier Arcenillas, Spáni

Brotunum raðað saman

Yfirleitt fjalla fleiri en ein löggjöf um hvert mengunarefni. T.d. er beint tekið á svifryki í þremur evrópskum lagalegum ráðstöfunum (tilskipunum um gæði andrúmslofts og losun loftmengunarefna og Euro takmörkununum á losun ökutækja) og tveimur alþjóðlegum sáttmálum (LRTAP og MARPOL). Tekið er á sumum forefna svifryks með öðrum lagalegum ráðstöfunum.

Innleiðingu þessara löggjafar er einnig dreift yfir nokkurt tímabil og henni er náð fram í áföngum. Fyrir fínt svifryk setur loftgæðatilskipunin 25mg/m3 sem "markgildi" sem ber að uppfylla fyrir 1. janúar 2010. Sami þröskuldur á að verða "viðmiðunarmörk" árið 2015, sem felur í sér frekari skuldbindingar.

Í sumum geirum kann stefnumörkun um loftgæði fyrst að ná yfir tiltekin mengunarefni í hluta Evrópu. Í september 2012 samþykkti Evrópuþingið að samræma staðla ESB um brennisteinsútstreymi frá skipum við staðla Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá árinu 2008. Árið 2020 verður brennisteinn í eldsneyti takmarkaður við 0,5% í öllum höfum ESB.

Í Eystrasalti, Norðursjó og Ermarsundi á svokölluðum "Sulphur Emission Control areas" setti Evrópuþingið enn strangari brennisteinsmörk fyrir eldsneyti, 0,1%, fyrir árið 2015. Miðað við að venjulegt skipaeldsneyti inniheldur 2700 sinnum meiri brennistein en venjuleg dísilolía fyrir bíla er ljóst að þessi löggjöf gefur siglingageiranum sterka ástæðu til að þróa og nota  hreinna eldsneyti.

Innleiðing á vettvangi

Núverandi evrópsk loftgæðalöggjöf er byggð á þeirri meginreglu að aðildarríki ESB skipti yfirráðasvæðum sínum í fjölda stjórnunarsvæða þar sem lönd þurfa að meta loftgæði með mælingum eða líkanaaðferðum. Flestar stórborgir falla undir slík svæði. Ef farið er staðbundið eða svæðisbundið yfir þau mörk sem löggjöf segir til um, þarf aðildarríkið að gefa skýrslu til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og útskýra ástæðurnar.

Ríkin eru þá skuldbundin til að gera staðbundna eða svæðisbundna áætlun þar sem því er lýst hvernig þau ætla að bæta loftgæðin. Þau gætu t.d. komið á svokölluðum lág-losunarsvæðum þar sem aðgangur mjög mengandi ökutækja er takmarkaður. Borgir geta líka stuðlað að breytingum á samgöngum yfir í minna mengandi ferðamáta þ.m.t. að auka fótgangandi umferð, hjólreiðar og almenningssamgöngur. Þær geta einnig tryggt að brennsluuppsprettur frá iðnaðar- og atvinnuhúsnæði séu búnar mengunarvarnarbúnaði samkvæmt nýjustu og bestu fáanlegu tækni.

Rannsóknir eru einnig mikilvægar. Ekki aðeins gefa rannsóknir okkur nýja tækni, heldur bæta þær einnig þekkingu á loftmengunarefnum og neikvæðum áhrifum þeirra á heilsu og vistkerfi. Með því að samþætta nýjustu þekkingu í lög og aðgerðir verður auðveldara að halda áfram að bæta loftið í Evrópu.

King's Park Copenhagen

(c) Gülçin Karadeniz

Frekari upplýsingar