næsta
fyrri
atriði

Article

Að tengja almenning við vísindi og stefnumörkun

Breyta tungumáli
Article Útgefið 04 Jul 2013 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © Tamas Parkanyi
Fólk hefur lengi heillast af andrúmslofti, veðurfari og árstíðabundnum sveiflum og stundað athuganir á því. Á 4. öld f.Kr. gaf hinn mikli heimspekingur Aristóteles út ritið Veðurfræði, sem ekki aðeins fjallar um veðurfar, heldur jarðvísindi almennt. Fram til 17. aldar táknaði loft "ekkert". Gert var ráð fyrir að loft hefði enga þyngd þar til Galileo Galilei sannaði vísindalega hið gagnstæða.

Frá iðnbyltingu hafa umsvif manna haft stöðugt alvarlegri áhrif á vistkerfi jarðar. Ein afleiðinganna er loftmengun. …

Tamas Parkanyi, Ungverjalandi (ImaginAIR)

Í dag höfum við miklu víðtækari þekkingu og skilning á lofthjúpnum. Við getum sett upp stöðvar til að fylgjast með loftgæðum og á nokkrum mínútum getum við séð efnasamsetningu loftsins á þeim stöðum ­og hvernig hún tengist langtímaþróun.  Við höfum einnig mun skýrari yfirsýn yfir uppsprettur þeirrar loftmengunar sem hefur áhrif í Evrópu. Við getum metið magn mengunarefna sem einstakar verksmiðjur sleppa út í andrúmsloftið. Við getum spáð og fylgst með lofthreyfingum og boðið tafarlausan og ókeypis aðgang að þeim upplýsingum. Skilningur okkar á andrúmsloftinu og efnaferlum þess hefur sannarlega aukist mikið frá dögum Aristótelesar.

Andrúmsloftið er flókið og síbreytilegt. Loft ferðast um allan heiminn og hið sama gera mengunarefnin sem í því eru. Útblástur bíla í þéttbýli; skógareldar; ammoníak frá landbúnaði; kolakynt orkuver um allan heim; og m.a.s. eldgos hafa áhrif á gæði þess lofts sem við öndum að okkur. Í sumum tilfellum eru uppsprettur mengunarinnar í þúsunda kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem skaðinn verður.

Við vitum líka að léleg loftgæði geta haft alvarleg áhrif á heilsu og vellíðan sem og á umhverfið. Loftmengun getur framkallað og aukið alvarleika öndunarfærasjúkdóma; hún getur skaðað skóga, gert jarðveg og vötn súr, minnkað uppskeru og valdið því að byggingar tærast. Við sjáum líka að margir mengunarvaldar stuðla að loftslagsbreytingum og að loftslagsbreytingarnar sjálfar munu hafa áhrif á loftgæði í framtíðinni.

Corn

(c) Gülçin Karadeniz

Með stefnumörkun hafa loftgæði aukist, en…

Vaxandi vísindaleg þekking, auknar kröfur frá almenningi og ný lagasetning hefur stuðlað að bættum loftgæðum í Evrópu á síðustu 60 árum. Styrkur margra mengunarefna, þ.m.t. brennisteinsdíoxíðs, kolmónoxíðs og bensens hefur minnkað verulega. Styrkur blýs hefur lækkað hratt niður fyrir þau mörk sem sett eru í lögum.

En þrátt fyrir slík afrek hefur Evrópa ekki enn náð þeim loftgæðum sem gert er ráð fyrir í lögum og sem borgararnir þrá. Svifryk og óson eru tvö mikilvægustu mengunarefnin í Evrópu í dag og valda heilsu manna og umhverfi alvarlegri hættu.

Núgildandi lög og aðgerðir í þágu loftgæða taka á vissum starfsgreinum, ferlum, eldsneyti og mengunarefnum. Sum þessara laga og aðgerða setja takmarkanir á það magn mengunarefna sem ríkjum er heimilt að sleppa út í andrúmsloftið. Aðrar aðgerðir miða að því að draga úr snertingu íbúa við óheilsusamlegt magn mengunarefna með því að setja mörk fyrir hámarksstyrk – þ.e.a.s. magn ákveðinna mengunarefna í loftinu á ákveðnum stað á ákveðnum tíma.

Allmörgum ríkja ESB tekst ekki að ná þeim losunarmarkmiðum, fyrir eitt eða fleiri loftmengunarefni (einkum köfnunarefnisoxíð), sem kveðið er á um í lögum. Styrkur efna er líka áskorun. Í mörgum borgum er háð barátta við hærri styrk svifryks, köfnunarefnisdíoxíðs og ósons við jörð en nemur viðmiðunarmörkum í lögum.

Frekari úrbætur eru nauðsynlegar

Nýlegar skoðanakannanir sýna að almenningur í Evrópu hefur greinilega áhyggjur af loftgæðum. Tæplega einn af hverjum fimm Evrópubúum segist þjást af öndunarfærakvillum sem ekki endilega allir tengja lélegum loftgæðum. Fjórir af hverjum fimm telja að ESB ætti að leggja til frekari ráðstafanir til að taka á loftgæðavandamálum í Evrópu.

Þremur af hverjum fimm íbúum finnst þeir ekki vera upplýstir um loftgæðamál í landi sínu. Þrátt fyrir verulegar úrbætur á undanförnum áratugum, telja aðeins tæplega 20% Evrópubúa að loftgæði í álfunni hafi aukist. Meira en helmingur Evrópubúa telur reyndar að loftgæði hafi minnkað á síðustu 10 árum.

Nauðsynlegt er að miðla upplýsingum um loftgæðamálefni. Það gæti ekki einungis aukið skilning okkar á ástandi lofts í Evrópu í dag heldur einnig hjálpað til við að draga úr áhrifunum af sambúð fólks við mikla loftmengun. Fyrir þá sem eiga ættingja sem þjást af öndunarfæra- eða hjarta- og æðasjúkdómum getur það verið flestu öðru mikilvægara að vita ástand loftmengunar í borginni þar sem þeir búa eða hafa aðgang að nákvæmum og tímanlegum upplýsingum.

People on the street

(c) Valerie Potapova | Shutterstock

Ávinningur af aðgerðum gæti verið verulegur

Á þessu ári mun Evrópusambandið hefja mótun framtíðarstefnu í loftgæðamálum. Það er ekki auðvelt verkefni. Það felur í sér að dregið verði úr áhrifum loftmengunar á heilsu almennings og umhverfið. Kostnaðurinn af þessum áhrifum er áætlaður mjög mikill.

Á hinn bóginn er engin auðveld og fljótleg leið til þess að bæta loftgæði í Evrópu. Það útheimtir að glímt sé við mörg mismunandi mengunarefni af ýmsum uppruna til langs tíma. Það krefst einnig meiri grundvallarbreytingar á hagkerfi okkar í átt til grænna neyslu- og framleiðslumynsturs.

Rannsóknir sýna að jafnvel mjög lítil aukning loftgæða - sérstaklega í borgum - leiðir til bættrar heilsu og peningasparnaðar. Kostirnir eru m.a.: meiri lífsgæði fyrir íbúa borganna sem þjást minna af mengunartengdum sjúkdómum; meiri framleiðni vegna færri veikindadaga; og lægri sjúkrakostnaður fyrir samfélagið.

Rannsóknir sýna einnig að það að grípa til aðgerða gegn loftmengun getur haft ýmsa kosti. T.d. eru sumar gróðurhúsalofttegundir einnig algeng mengunarefni í lofti. Samtvinnun stefnumörkunar í loftslags- og loftgæðamálum getur nýst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og aukið loftgæði samtímis.

Önnur leið til að bæta loftgæði felst í því að bæta framkvæmd löggjafar í loftgæðamálum. Í mörgum tilvikum eru það sveitarfélög og héraðsstjórnir sem sjá um framkvæmd stefnumörkunar og takast á við þau daglegu vandamál sem hljótast af lélegum loftgæðum. Þau eru oft það stjórnvald sem er næst því fólki sem verður fyrir áhrifum af loftmengun. Sveitarstjórnir búa þar af leiðandi yfir mikilli þekkingu ­og oft raunhæfum lausnum í baráttunni við loftmengun hver á sínu  svæði. Það skiptir því miklu að leiða þessi sveitarfélög saman svo þau geti miðlað á milli sín upplýsingum um vandamál, hugmyndir og lausnir. Það gefur þeim ný tæki til að ná markmiðum laga, upplýsa borgarana betur og draga úr heilsuáhrifum loftmengunar.

Við stöndum nú frammi fyrir áskorun um hvernig eigi að nýta vaxandi þekkingu til þess að ná betri árangri í stefnumörkun og bæta heilsu. Hvaða aðgerða getum við gripið til til þess að draga úr áhrifum loftmengunar á heilsu og umhverfi? Hverjir eru bestu kostirnir sem eru í boði? Og hvernig virkjum við þá?

Það er tímabært að vísindamaðurinn, stjórnmálamaðurinn og borgarinn taki höndum saman og svari þessum spurningum þannig að við getum haldið áfram að bæta loftgæði í Evrópu.

Jacqueline McGlade prófessor

Forstjóri

Permalinks

Geographic coverage

Topics

Tags

Filed under:
Filed under: air quality, air pollution
Skjalaaðgerðir