næsta
fyrri
atriði

Article

Að auka þekkingu á loftgæðum

Breyta tungumáli
Article Útgefið 05 Jul 2013 Síðast breytt 21 Mar 2023
Photo: © Gülcin Karadeniz
Þekking og skilningur á loftmengun fer vaxandi með hverju árinu. Við höfum stækkandi net eftirlitsstöðva sem veita gögn um mikinn fjölda loftmengunarefna að viðbættum niðurstöðum úr loftgæðalíkönum. Við þurfum nú að ganga úr skugga um að vísindaleg þekking og stefnumörkun haldi áfram að þróast hönd í hönd.

Það er mikilvægt að vita hvað er að gerast í borginni, landinu og heiminum sem við búum í...

Bianca Tabacaru, Rúmeníu (ImaginAIR)

Loftgæðaeftirlitsstöðvum er yfirleitt komið fyrir nálægt vegum í þéttbýli þar sem mikl umferð er eða í almenningsgörðum og ber gjarnan lítið á þeim. En þessir dauflega útlítandi kassar innihalda búnað sem tekur reglulega sýni úr loftinu þar sem þeir eru staðsettir, mælir nákvæmlega styrk helstu loftmengunarefna svo sem ósons og svifryks og sendir gögnin sjálfkrafa í gagnagrunn. Í mörgum tilvikum má nálgast þessar upplýsingar á netinu nokkrum mínútum eftir sýnatökuna.

Vöktun á loftgæðum í Evrópu

Í evrópskri og innlendri löggjöf er fjallað um helstu loftmengunarefni. Til að mæla þessi mengunarefni hafa víðtæk vöktunarnet verið sett upp um alla Evrópu til að sannreyna hvort loftgæðin á mismunandi stöðum séu í samræmi við hin ýmsu lagaákvæði og heilsuverndarviðmið. Þessar stöðvar skrá og senda niðurstöður mælinga á ýmsum tíðnum og fyrir fjölmörg loftmengunarefni, þ.m.t. brennisteinsdíoxíð, niturdíoxíð, blý, óson, svifryk, kolmónoxíð, bensen, rokgjörn lífræn efnasambönd, og fjölhringa arómatísk vetniskolefni.

Umhverfisstofnun Evrópu safnar saman loftgæðamælingum frá fleiri en 7.500 vöktunarstöðvum um alla Evrópu í loftgæðagagnagrunninn AirBase. AirBase geymir loftgæðagögn frá fyrri árum (söguleg gögn).

Sumar vöktunarstöðvar mæla og senda nýjustu gögn með stuttri töf (næstum því rauntímagögn). Árið 2010 mældu t.d. allt að 2.000 stöðvar stöðugt styrk ósons við jörðu og sendu gögnin á klukkustundar fresti. Slíkar næstumþví-rauntímamælingar má nota fyrir viðvörunar- og boðakerfi komi til verulegra mengunaróhappa.

Vöktunarstöðvum í Evrópu fjölgaði töluvert á síðasta áratug, sérstaklega þeim sem vakta ákveðin lykilefni. Árið 2001 sendu rétt rúmlega 200 stöðvar gögn um niturdíoxíðmælingar, en árið 2010 sendu nærri 3.300 stöðvar gögn  í 37 Evrópulöndum. Á sama tíma hefur fjöldi stöðva sem senda gögn um PM10 næstum þrefaldast og eru nú yfir 3.000 stöðvar í 38 löndum.

Vöxtur vöktunarnetsins stuðlar að aukinni þekkingu og skilningi á loftgæðum í Evrópu. Þar eð uppsetning nýrrar eftirlitsstöðvar með tilheyrandi hátæknibúnaði er dýr kemur þekking okkar að hluta annarsstaðar frá svo sem frá gervitunglamyndum; mati á losun stórra verksmiðja; loftgæðalíkönum; og ítarlegum rannsóknum á tilteknum svæðum, geirum eða mengunarefnum.

Nálega 28.000 verksmiðjur í 32 Evrópulöndum senda gögn í E-PRTR – mengunarefnaskrá sem nær yfir alla Evrópu – um hve mikið af ýmsum mengunarefnum þær sleppa út í vatn, land og loft. Allar þessar upplýsingar eru á netinu og aðgengilegar jafnt almenningi sem stefnumótendum.

Road transport

(c) Artens | Shutterstock

Samantekt og aðgangur að loftgæðaupplýsingum

Það er áskorun að raða saman upplýsingunum sem koma frá þessum mismunandi heimildum. Mælingar vöktunarstöðvanna eru háðar staðsetningu og tíma. Veðurfar, landslagseinkenni, tími dags eða árs og fjarlægðin til uppsprettna losunar skipta öll máli við mengunarmælingarnar. Í sumum tilvikum, svo sem vöktunarstöðva við vegi getur fjarlægð upp á jafnvel nokkra metra haft áhrif á aflestur.

Þar að auki eru mismunandi aðferðir notaðar til að vakta og mæla sama mengunarefnið. Aðrir þættir skipta einnig máli. T.d. aukning á umferð eða aðgerðir til að beina umferð annað leiða til ólíkra mælinga en þeirra sem skráðar voru við sömu götu árið áður.

Mat á loftgæðum svæða utan vöktunarstöðva byggist á líkönum eða samsetningu reiknilíkana og mælinga, þ.m.t. gervihnattaathugana. Loftgæðahermun er undirorpin nokkurri óvissu þar sem líkön geta ekki endurskapað alla þá flóknu þætti sem tengjast myndun, dreifingu og ákomu mengunarefna.

Óvissan verður mun meiri þegar kemur að því að meta heilsufarsáhrif útsetningar fyrir mengunarefnum á tilteknum stað. Vöktunarstöðvar mæla yfirleitt massa svifryks á rúmmálseiningu lofts en ekki endilega efnasamsetningu svifryksins. Í útblæstri bíla t.d. er sót losað beint út í andrúmsloftið sem svifryk, sem og lofttegundir eins og niturdíoxíð. En svo hægt sé að ákvarða möguleg áhrif á lýðheilsu þurfum við að vita nákvæmlega blönduna í loftinu.

Tæknin gegnir lykilhlutverki við að efla þekkinguna á loftinu sem við öndum að okkur. Hún er mikilvægur þáttur í vöktunar- og tilkynningaferlinu. Nýleg þróun í upplýsingatæknigeiranum hefur gert vísindamönnum og stefnumótendum kleift að vinna gríðarlegt magn af gögnum á nokkrum sekúndum. Margar stjórnvaldsstofnanir gera þessar upplýsingar aðgengilegar almenningi, annaðhvort í gegnum vefsíður sínar, svo sem sveitarfélagið Madrid, eða gegnum sjálfstæð samtök svo sem Airparif í París og hinu stærra Île-de-France-svæði.

Umhverfisstofnun Evrópu heldur úti upplýsingagátt fyrir almenning um loftgæði og loftmengun. Sögulegu loftgæðagögnin sem geymd eru í AirBase má skoða á korti, sía eftir mengunarefni og ári, og hlaða niður.

Nálgast má næstumþví-rauntímagögn (þar sem það er í boði) um helstu mengunarefni eins og PM10, óson, niturdíoxíð og brennisteinsdíoxíð í gegnum „AirWatch“ „Eye on Earth"-vefgáttina. Notendur geta einnig sett inn persónulega einkunnagjöf sína og athugasemdir við skoðunartólið.

Háþróaðri gæðagreining

Tæknin hefur ekki aðeins gert okkur kleift að vinna meira magn af gögnum, hún hefur einnig hjálpað til við að bæta gæði og nákvæmni greiningarinnar. Við getum nú greint samtímis veðurupplýsingar; vegasamgangnainnviði; íbúaþéttleika; og losun mengunarefna frá tilteknum verksmiðjum ásamt mælingum frá vöktunarstöðvum og niðurstöðum úr loftgæðalíkönum. Á sumum svæðum er hægt að bera ótímabær dauðsföll úr hjarta- og öndunarfærasjúkdómum saman við loftmengunargildi. Við getum merkt flestar þessar breytur inn á kort af Evrópu og búið til nákvæmari líkön.

Loftgæðarannsóknir takmarkast ekki við þá þætti sem getið er hér að ofan. Marie-Eve Héroux frá svæðisskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni í Evrópu segir: "Rannsóknasamfélagið skoðar einnig hvernig ýmsar aðgerðir hafa áhrif á loftmengun. Það eru fjölbreytilegar aðgerðir sem kveðið er á um í reglugerðum til breytinga á orkuneyslumynstri og orkuuppsprettum, eða breytingum á samgönguháttum og hegðun fólks."

Héroux bætir við: „Allt þetta hefur verið rannsakað og niðurstöðurnar eru skýrar: það eru ráðstafanir sem geta dregið úr mengun, einkum svifryki. Það gefur okkur vísbendingar um hvernig við getum lækkað dánartíðni vegna loftmengunar."

Betri skilningur á heilsu- og umhverfisáhrifum loftmengunarefna skilar sér þá inn í stefnumörkunarferlið. Ný mengunarefni, mengunaruppsprettur og mögulegar aðgerðir til að berjast gegn mengun eru greind og sett fram í löggjöf. Þetta gæti útheimt vöktun nýrra mengunarefna. Gögnin sem safnað er í framhaldinu hjálpa til við að bæta þekkingu okkar enn frekar.

Þótt ríki hafi framkvæmt innlendar mælingar árið 2004, þá sendi engin vöktunarstöð gögn beint til AirBase um styrk rokgjarnra lífrænna efnasambanda, þungmálma eða fjölhringa arómatískra vetniskolefna í Evrópu. Árið 2010 sendu rúmlega 450, 750 og 550 (í sömu röð) slíkar stöðvar gögn.

ImaginAIR: Pollution in my city

(c) Bianca Tabacaru, ImaginAIR/EEA

Myndin skýrist

Loftgæðalöggjöf setur yfirleitt markmið sem eiga að nást á gefnum tímaramma. Einnig gerir hún ráð fyrir leiðum til að vakta framfarir og sannreyna hvort markmiðin hafi náðst innan hins áætlaða tímaramma.

Fyrir stefnumarkmið sem voru sett fyrir áratug gætu tvær mismunandi sviðsmyndir komið fram eftir því hvaða verkfæri við notum. Umhverfisstofnun Evrópu skoðaði tilskipun ESB um þak á losunarmörk þjóða sem samþykkt var árið 2001, sem ætlað var að takmarka losun fjögurra loftmengunarefna fyrir árið 2010, og lagði mat á það hvort markmiðin um ofauðgun og súrnun sem komu fram í tilskipuninni hefðu verið uppfyllt.

Miðað við það sem við vissum þegar tilskipun var samþykkt virtist ofauðgunarmarkmiðið hafa náðst og súrnunarhættan virtist hafa minnkað verulega. Hins vegar, miðað við núverandi þekkingu með fleiri nútímaverkfærum, er myndin ekki eins björt. Ofauðgun af völdum loftmengunar er ennþá stórt umhverfisvandamál og mörg fleiri svæði uppfylltu ekki súrnunarmarkmiðið.

Á þessu ári stefnir Evrópusambandið að því að endurskoða loftgæðastefnu sína, sem felur í sér að setja ný markmið og tímaramma sem nær til ársins 2020 og enn lengra. Ásamt því að þróa stefnu sína um loftgæði mun Evrópa einnig halda áfram að fjárfesta í þekkingargrunni sínum.

Frekari upplýsingar

Permalinks

Geographic coverage

Topics

Tags

Filed under:
Filed under: air quality, air pollution
Skjalaaðgerðir