næsta
fyrri
atriði

Article

Evrópsk sýn á sjálfbærni

Breyta tungumáli
Article Útgefið 26 Jun 2012 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © Istock
Með beitingu löggjafar hyggjast stefnumótendur ESB að gera Evrópu ‘auðlindaskilvirkari’. En hvernig nær Evrópa jafnvægi á milli hagkerfisins og náttúrunnar? Hvað merkir sjálfbærni fyrir ESB og þróunarríkin í tengslum við Rio+20 ráðstefnuna? Hér er eitt sjónarmið.

Viðtal við Gerben-Jan Gerbrandy

Gerben-Jan Gerbrandy hefur setið á Evrópuþinginu í hópi bandalags frjálslyndra og demókrata fyrir Evrópu síðan 2009. Hann er stjórnmálamaður úr hollenska frjálslynda flokknum ‘Demókratar 66’.

Hver er stærsta áskorunin sem umhverfið stendur frammi fyrir? Hvernig getum við tekist á við hana?

“Stærsta áskorunin er ofnýting náttúruauðlinda. Mannleg neysla fer umfram náttúruleg takmörk plánetunnar okkar. Lífshættir okkar, nánar tiltekið hvernig við stjórnum hagkerfinu, eru einfaldlega ekki sjálfbærir.

Jarðarbúar munu ná níu milljörðum á nokkrum áratugum og það mun krefjast 70 % meiri fæðu. Þar af leiðandi er önnur áskorun sú að finna leiðir til að fæða sívaxandi fólksfjölda á sama tíma og við stöndum frammi fyrir skorti á mörgum auðlindum.

Til að taka á þessum áskorunum verðum við að aðlaga undirstöður hagkerfisins. Til dæmis verðleggur hagkerfið ekki efnahagslegan ávinning ýmissa lífsgæða sem eru ókeypis. Verðmæti skóglendis er tekið með í reikninginn þegar skógum er breytt í timbur, en ekki þegar það er ósnert. Verðmæti náttúruauðæfa ætti á einhvern hátt að endurspeglast í hagkerfinu.”

Getum við sannarlega breytt undirstöðum hagkerfis okkar?

“Við erum að vinna að því. Ég held að við séum mjög nærri því að finna leiðir til að verðleggja náttúruauðlindir að fullu í hagkerfinu. En það sem meira máli skiptir, þá eru þrír drifkraftar sem þvinga iðnaðinn til að verða auðlinda-skilvirkari. Sá fyrsti er auðlindaskortur. Við erum í raun að verða vitni að því sem ég vil kalla ‘græna iðnbyltingu’. Auðlindaskortur þvingar fyrirtæki til að koma á fót ferlum fyrir endurheimt og endurnýtingu auðlinda eða finna aðrar leiðir til að nýta auðlindir á skilvirkan hátt.

Þrýstingur frá neytendum er annar drifkraftur. Lítið á auglýsingar. Stórir bílaframleiðendur tala ekki lengur um hraða, heldur um umhverfisleg afköst. Ennfremur er fólk miklu meðvitaðra um ímynd þess fyrirtækis sem það vinnur hjá. Þriðji drifkrafturinn er lagasetning. Við þurfum sífellt að bæta umhverfislöggjöfina vegna þess að ekki er hægt að ná öllu fram með þrýstingi frá markaðinum, auðlindaskorti og þrýstingi frá neytendum.”

Hvað ákvarðar helst val neytenda?

Copyright: Thinkstock“Það er án efa verð. Fyrir stóran hluta samfélagsins telst það munaður að velja á grundvelli einhvers annars en verðs. En það er þó mögulegt að kjósa að neyta matvara sem eru framleiddar staðbundið og eru á markaði eftir árstíðum, eða ferskvara. Oft eru þessar vörur jafnvel ódýrari. Það er augljós ávinningur fyrir heilsu þeirra sem það gera og fyrir samfélagið í heild sinni.

Val á sjálfbærari valkosti fer eftir innviðum sem og vitund fólks um áhrif þess á umhverfið. Séu engir innviðir fyrir almenningssamgöngur til staðar, getum við ekki ætlast til þess að fólk hætti að aka til vinnu.

Eða hvað varðar löggjöf, ef við getum ekki útskýrt mikilvægi ákveðinna reglna eða laga, væri næstum ómögulegt að framfylgja þeim. Við þurfum að fá fólk til að taka þátt og sannfæra það.

Þetta krefst oft að miðla vísindalegri þekkingu á auðskilinn hátt, ekki eingöngu almennum borgurum til hagsbóta heldur einnig stefnumótendum.”

Hvað myndi gera Rio+20 ráðstefnuna ‘árangursríka’?

“Við þurfum áþreifanlegar niðurstöður, eins og samkomulag um nýja stofnanaumgjörð eða sértæk markmið er varða hið græna hagkerfi. En jafnvel án áþreifanlegra niðurstaðna getur ráðstefnan orðið mjög áhrifarík.

Ég er mjög hlynntur stofnun alþjóðlegs dómstóls fyrir umhverfisglæpi eða stofnanaskipulags sem myndi koma í veg fyrir þess háttar þrátefli sem varð raunin í nýlegum viðræðum um umhverfismál. Án tillits til framvindu við stofnsetningu slíkra stofnana, er sú staðreynd mjög stórt skref fram á við að viðræður eiga sér stað og verið er að reyna að finna sameiginlegar lausnir. Allt þar til nýverið hafa alþjóðlegar viðræður um umhverfismál skipt heiminum í tvennt: þróuð lönd og þróunarlönd.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum að færast frá þessari tvískiptu nálgun. Vegna þess hve efnahagslega háð þau eru náttúruauðlindum, munu mörg þróunarlandanna verða meðal þeirra fyrstu til að finna fyrir hnattrænum auðlindaskorti. Takist Rio ráðstefnunni að sannfæra mörg þeirra um að taka upp sjálfbærara verklag, tel ég það vera mikinn árangur.”

Getur Evrópa hjálpað þróunarríkjunum í þessu samhengi?

“Hugtakið um grænt hagkerfi á ekki aðeins við um þróuðu löndin; með því er haft í huga sjónarmið til lengri tíma. Á þessari stundu eru mörg þróunarlandanna að selja náttúruauðlindir sínar fyrir mjög lágt verð. Skammtímahorfur eru freistandi en þær gætu einnig þýtt að ríkin séu að selja framtíðarvelferð sína og vöxt.

En ég held að þetta sé að breytast. Ríkisstjórnir eru í sívaxandi mæli farnar að hugsa um þýðingu auðlindaútflutnings til lengri tíma litið. Einnig eru fjárfestingar í sjálfbærni hafnar í iðnaði í mörgum þróunarlöndum. Líkt og hliðstæður þeirra í þróuðu ríkjunum standa þau frammi fyrir auðlindaskorti. Þetta er mjög sterkur fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki um heim allan.

Fyrir mína parta tel ég að við gætum lagt okkar af mörkum með því að opna landbúnaðarmarkaði okkar og gera þessum ríkjum kleift að skapa aukinn ávinning. Eins og sakir standa koma erlend fyrirtæki og leysa til sín auðlindir og það er mjög lítið efnahagslegt innlegg frá íbúunum.

Landbúnaður, almennt, er úrslitaatriði. Ef við horfum fram á við á þær áskoranir sem tengjast hnattrænni framleiðslu á matvælum er ljóst að við þurfum meiri matvæli og það krefst aukinnar skilvirkni í framleiðslu í þróunarlöndunum. Aukin landbúnaðarframleiðsla í þróunarlöndum myndi einnig draga úr matvælainnflutningi þeirra.”

Hvað merkir ‘sjálfbært líferni’ fyrir þér sem evrópskur ríkisborgari?

“Það merkir mörg lítil atriði, eins og að fara í peysu í stað þess að hækka hitann, nota almenningssamgöngur í stað þess að keyra, og sleppa því að fljúga sé það mögulegt. Það merkir einnig að gera mín eigin börn og aðra meðvitaða um hugtakið um sjálfbærni og áhrifin sem daglegt val þeirra hefur.

Ég get ekki sagt að það sé alltaf hægt að forðast að fljúga þegar staða mín er höfð í huga. En það er einmitt þess vegna sem við verðum að gera flug sjálfbærara, ásamt öllu okkar ósjálfbæra neyslumynstri. Það er áskorun hins græna hagkerfis.”

Gerben-Jan GerbrandyGerben-Jan Gerbrandy hefur setið á Evrópuþinginu í hópi bandalags frjálslyndra og demókrata fyrir Evrópu síðan 2009.

Permalinks

Temporal coverage

Tags

Filed under:
Filed under: sustainability
Skjalaaðgerðir