næsta
fyrri
atriði

Article

Hvað eru skynsamleg viðskiptasjónarmið?

Breyta tungumáli
Article Útgefið 26 Jun 2012 Síðast breytt 17 Mar 2023
Photo: © Stockbyte
Allt frá smáum fyrirtækjum upp í fjölþjóðafyrirtæki leita fyrirtæki leiða til að viðhalda eða auka markaðshlutdeild sína. Þegar um er að ræða harða alþjóðlega samkeppni, þá felur sóknin eftir sjálfbærni í sér mun meira en græna ímynd fyrirtækisins og það að draga úr framleiðslukostnaði. Það getur þýtt nýjar atvinnugreinar.

Innrás apamanna var sennilega ekki á lista Unilever yfir mestu áhættur í viðskiptalífinu, en slíkt átti sér stað. Þann 21. apríl 2008 réðust aðgerðasinnar frá Grænfriðungum sem voru klæddir eins og orangútan apar inn í aðalstöðvar Unilever fyrirtækisins í Lundúnum og í verksmiðjur þess í Merseyside. Aðgerðasinnarnir voru að mótmæla tjóni á regnskógum Indónesíu vegna framleiðslu á pálmaolíu sem er notuð í mörgum af vörum Unilever fyrirtækisins. Stuttu eftir “innrásina” tilkynnti fyrirtækið að það mundi taka alla pálmaolíu sína frá “sjálfbærum” auðlindum frá og með árinu 2015. Síðan hefur fyrirtækið gert viðskiptaáætlun sem miðar að því að innleiða og samþætta sjálfbærni í kjarnastarfsemi fyrirtækisins.

Ýmsar ástæður geta fengið fjölþjóðafyrirtæki til að taka upp sjálfbærari vinnureglur. Það gæti tengst ímynd fyrirtækisins eða ímynd vörumerkja fyrirtækisins. Sjálfbærni gæti einnig verið krafist af fjárfestum fyrirtækisins sem gætu verið tregir að setja fjármagn í fyrirtæki sem mæta ekki hættunni sem fylgir umhverfisbreytingum eða sem hafa ekki áhuga á að njóta ávinningsins af vistvænni nýsköpun.

Eins og Karen Hamilton, aðstoðarforstjóri fyrir sjálfbærni hjá Unilever, útskýrir: ‘við sjáum enga árekstra á milli vaxtar og sjálfbærni. Fleiri og fleiri neytendur krefjast sjálfbærni í raun og veru.’

Það að taka upp sjálfbærar verklagsreglur gæti verið skynsamlegt frá viðskiptasjónarmiði. Fyrirtæki gætu náð forskoti á markaðnum og aukið markaðshlutdeild sína. Það getur einnig þýtt ný viðskiptatækifæri fyrir nýskapandi vistvæna frumkvöðla sem bregðast við aukinni eftirspurn eftir grænum vörum.

Karen bætir við, ‘Sjálfbærni felur einnig í sér sparnað og minni kostnað. Ef við getum minnkað pakkningar getum við dregið úr orkunotkun í verksmiðjunni og þannig sparað fé og aukið hagnað.’

Hvert skal leita eftir hugmyndum

Um leið og stór fjölþjóðafyrirtæki taka upp grænni verklagsreglur gerir stærð þeirra þeim kleift að hafa umtalsverð áhrif á markaðinn. Þau hafa tilhneigingu til að fá sína líka til að taka upp svipað verklag. Alþjóðaviðskiptaráðið um Sjálfbæra Þróun (WBCSD), sem stofnað við upphaf Heimsráðstefnunnar í Ríó til að gefa viðskiptalífinu rödd, er vettvangur sem er settur upp til að stuðla að sjálfbærni í viðskiptalífinu. Vision 250 skýrsla ráðsins, sem var tekin saman í samstarfi við forstjóra og sérfræðinga, útskýrir hvað það er sem viðskiptalífið þarf að koma á laggirnar á næstu áratugum til að ná fram hnattrænni sjálfbærni. Semsagt, skýrslan er kall á sjálfbærni sem kemur frá atvinnulífinu sjálfu.

Það helsta sem viðskiptalífið verður að taka upp að mati WBCSD, endurspeglar mörg markmið stjórnmálamanna: að markaðsverð feli í sér kostnað við tjón á umhverfinu; að finna skilvirkar leiðir til að framleiða meiri matvæli án þess að nota meira land eða vatn; að stöðva skógareyðingu; að draga úr kolefnislosun um allan heim með því að skipta yfir í umhverfisvæna orkugjafa; og að nota skilvirkni við orkunýtingu allsstaðar, þar með talið í samgöngum.

Kolefnisupplýsingarverkefnið – The Carbon Disclosure Project (CDP) er annað frumkvöðlaverkefni sem stuðlar að sjálfbærni í viðskiptalífinu. Það eru óháð félagasamtök sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr vatnsnotkun fyrirtækja og borga. CDP aðstoðar einnig fjárfesta til að meta viðskiptahættu sem tengist umhverfinu, eins og loftslagsbreytingum, vatnsskorti, flóðum og mengun eða einfaldlega vegna skorts á hráefnum. Einkum í samhengi núverandi fjármálakreppu hafa fjárfestar mikið að segja til um það hvaða fyrirtæki lifa af.

Copyright: Thinkstock

Engin patentlausn sem hentar öllum

Spurningin er: Hvernig getur fyrirtæki innleitt sjálfbærni í stjórnun fyrirtækisins? Það er ekki til nein patentlausn sem hentar öllum en það er hægt að fá ráðgjöf og stuðning.

Sjálfbær viðskiptavettvangur eins og Alþjóðaviðskiptaráðið um Sjálfbæra Þróun og The Carbon Disclosure Project veita leiðbeiningar til fyrirtækja sem vilja vera í fremstu röð. Það eru einnig markvissari tillögur til eins og Leiðbeiningar OECD fyrir fjölþjóðafyrirtæki, sem eru viðauki við OECD Declaration on International Investment and Multinational Enterprises. Leiðbeiningarnar fela í sér viðmið og staðla fyrir ábyrga viðskiptahegðun fyrir fjölþjóðafyrirtæki sem starfa í löndum sem eru aðilar að yfirlýsingunni.

Flestar leiðbeininganna eru ekki bindandi, heldur gera ráð fyrir frjálsri þátttöku og eru yfirleitt skoðaðar í víðara samhengi félagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins í heild.

Það eru ekki bara æðstu stjórnendur í hinum ýmsu fyrirtækjum sem stjórna því hvernig viðskiptalífið tekur upp sjálfbært verklag. Ríkisstjórnir og opinberir aðilar geta almennt aðstoðað fyrirtæki með því að skapa réttlátt samkeppnisumhverfi og með því að beita hagrænum hvötum. Það er ekki alltaf nauðsynlegt að klæðast orangútan-búningum en neytendur og almenningur geta einnig sent skýr skilaboð til einkageirans, einfaldlega með því að sýna að það er til staðar áhugi á umhverfisvænum vörum.

Karen staðfestir þetta: ‘Ríkisstjórnir og almenningur þurfa virkilega að starfa saman. Fyrirtæki geta einkum haft áhrif í aðfangakeðjum sem ná yfir landamæri, og svo auðvitað á þann hátt hvernig fyrirtækin nálgast neytendur.”

Til að fá nánari upplýsingar

  • Alþjóðaviðskiptaráðið um Sjálfbæra Þróun – World Business Council for Sustainable Development: www.wbcsd.org
  • Carbon Disclosure Project: www.cdp.net

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir