All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
99 % af bómullarbændum heimsins lifa í þróunarríkjunum. Það þýðir að varnarefnum er dreift á akra þar sem ólæsi er algengt og öryggisvitund er lítil, sem veldur því að bæði umhverfið og mannslíf eru í hættu.
Steve Trent, Forstöðumaður Stofnunar um umhverfislegt réttlæti (Environmental Justice Foundation)
Meira en milljarður manna lifir í “algjörri örbirgð”, miðað við skilgreiningu Alþjóðabankans og lifa á minna en 1,25 USD á dag. Jafnvel þótt það hlutfall mannkynsins sem lifir í fátækt hafi lækkað umtalsvert á undanförnum 30 árum, hefur mikill fjöldi landa – mörg þeirra í Afríku - barist í bökkum til að ná árangri.
Í þessum löndum snýst hagvöxtur oft um nýtingu náttúruauðlinda – gegnum landbúnað, skógarhögg, námavinnslu og svo framvegis. Afleiðingin er sú að tilraunir til að auka hagvöxt til að mæta þörfum ört vaxandi mannfjölda geta valdið miklu álagi á vistkerfin.
Í mörgum tilvikum, eru auðlindir eins og bómull ræktaðar eða unnar úr jörðu í þróunarríkjum og fluttar út til ríkari svæða eins og til Evrópu. Þessi raunveruleiki gefur neytendum í iðnvæddum ríkjum mjög mikilvægt hlutverk: mögulega geta þau lagt sitt af mörkum til að lyfta “lægsta milljarðinum” upp úr fátækt; en um leið geta möguleikar þess fólks minnkað með skaða á vistkerfum.
Í Búrkina Fasó – sem er þurrt, strandlaust og mjög fátækt land við suðurmörk Saharaeyðimerkurinnar – er bómullarræktun stór atvinnugrein. Það er reyndar risastór atvinnugrein. Eftir að hafa aukið framleiðslu á undanförnum árum, er Búrkína Fasó nú stærsti framleiðandi bómullar í Afríku. “Hvítt gull” eins og það er kallað á svæðinu, nam allt að 85% af útflutningstekjum Búrkina árið 2007 og var 12% af framleiðslu hagkerfisins.
Það er mjög mikilvægt að tekjur af bómullarræktinni dreifast víða. Greinin veitir 15–20 % vinnuaflsins vinnu, sem skilar beinum tekjum til 1.5–2 milljóna manna. Og sem lykilaflgjafi hagvaxtar á síðasta áratug hefur ræktunin skapað tekjur af skattheimtu sem geta staðið undir endurbótum í heilbrigðisþjónustu og menntun.
Í huga fólksins í Búrkina Faso er ávinningurinn af því að rækta bómull mjög skýr. Kostnaðurinn er hins vegar oft ekki eins ljós.
Einn fjórði hluti íbúanna hefur ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni. Meira en 80 % eru sjálfsþurftarbændur, sem eru háðir vatni til að mæta grundvallarþörfum sínum fyrir matvæli og húsaskjól. Og samkvæmt niðurstöðum WMO, er árleg þörf fyrir vatnsauðlindir 10–22 % meiri en það vatn sem er tiltækt.
Í þessu samhengi, virðist hin mikla aukning í bómullarframleiðslu á undanförnum árum vera áhættusöm. Bómull er vatnsfrek planta – hún krefst áveitna yfir þurrustu mánuðina og þarf miklu meira vatn en margar aðrar tegundir sem eru víða notaðar í akuryrkju.
Að úthluta vatni til bómullarframleiðslu felur í sér miðlun vatns frá annarri mögulegri vatnsnotkun. Meirihluti uppskerunnar er fluttur út, sem þýðir að mikið magn vatns er notað til að uppfylla kröfur neytenda erlendis. Þetta ferli er kallað að flytja út ‘sýndarvatn’.
Helmingurinn af bómull Burkína Faso er fluttur út til Kína þar sem bómullin er seld til spunaverksmiðja og þaðan til fataframleiðanda sem framleiða fyrir alþjóðlegan markað. Við lok aðfanga‑keðjunnar, flytja neytendur sem kaupa bómullarvörur inn umtalsvert magn af vatni – stundum frá svæðum sem eru mun þurrari en heimaland þeirra. Þegar um er að ræða bómull, fann ein rannsókn út að 84 % af vatnsfótspori Evrópu myndast utan Evrópu.
Fyrir mjög þurr lönd eins og Búrkina Faso er almennt æskilegt að flytja inn vatnsfrekar vörur í stað þess að flytja þær út. Þegar allt kemur til alls, útflutningur á “sýndarvatni” getur leitt til þess að það sé ekki nóg vatn eftir handa fólki á svæðinu og vistkerfum landsins. Hafandi sagt þetta, þá er eina leiðin til að meta hvort gott er fyrir Búrkina Faso að nota vatn til að rækta bómull, að meta heildarkostnaðinn og síðan ávinninginn miðað við aðra notkun. Í sjálfu sér getur hugtakið um sýndarvatn ekki sagt okkur hvernig best er að haga vatnsstjórnun, þótt það gefi gagnlegar upplýsingar um áhrif þeirrar framleiðslu sem við notum og fyrir val neytenda.
Vatnsfótspor og sýndar-vatn eru hugtök sem hjálpa okkur að skilja hvað við notum mikið vatn.
Vatnsfótspor er það magn ferskvatns sem þarf til að framleiða þær vörur og þá þjónustu sem hver einstaklingur eða samfélag notar eða sem er framleitt af fyrirtæki. Fótsporið er samsett úr þremur þáttum. Bláa vatnsfótsporið er það rúmmál yfirborðsvatns og grunnvatns sem þarf til að framleiða vörur og þjónustu. Græna vatnsfótsporið er það magn regnvatns sem er notað við framleiðsluna. Og gráa vatnsfótsporið er það rúmmál vatns sem er mengað vegna framleiðslunnar.
Allar útfluttar vörur eða þjónusta fela einnig í sér útflutning á ‘sýndarvatni’ – sem er vatnið sem er notað í framleiðslu vörunnar eða í þjónustuna. Sýndar-vatnsútflutningur á sér stað þegar vara eða þjónusta er notuð utan þess vatnasviðs þar sem vatnið var tekið úr jörðu.
Fyrir lönd eða svæði sem flytja inn slíkt vatn, gerir innflutningur sýndarvatns landinu kleift að nota vatnsauðlindir sínar til annarra hluta, sem getur verið mjög gagnlegt fyrir lönd sem búa við vatnsskort. Því miður eru mörg lönd sem flytja út sýndarvatn í raun og veru lönd sem búa við vatnsskort en þau hafa sólríkt loftslag sem hentar vel landbúnaði. Í þessum löndum er búa við vatnsskort, hefur útflutningur sýndar-vatns í för með sér aukaálag á vatnsauðlindir og veldur oft félagslegum og hagrænum kostnaði af því að ónógt vatn er til annarra hluta og þarfa.
Heimild: Water Footprint Network
Vatnsnotkun er ekki eina áhyggjuefnið sem tengist bómullarframleiðslu í Búrkina Faso. Ræktun bómullar felur almennt í sér mikla notkun varnarefna. Reyndar fer 16 % af varnarefnanotkun heimsins til bómullarræktar, þrátt fyrir að bómullarræktun sé einungis á 3 % af ræktuðu landi.
Áhrifin geta orðið alvarleg fyrir íbúa og vistkerfi. En þar sem einstaklingarnir sem beita skordýraeitrinu finna ekki sjálfir fyrir áhrifum og vita ekki einu sinni af þeim, endurspeglast áhrifin ekki til fulls við ákvarðanatöku þeirra. Af þessari ástæðu, getur verið mikilvægt að mennta og upplýsa staðbundna ræktendur um skordýraeitur og áhrif þeirra.
Vatn er ekki eina auðlindin sem verið er að nota. Önnur mikilvæg auðlind er ræktanlegt land. Eins og allstaðar er hægt að nota landið í Búrkina Fasó á marga ólíka vegu. Fá íbúar Búrkína Faso mesta velferð út úr því að nýta landið til bómullarræktunar?
Átta ára að aldri, var Modachirou Inoussa þegar farinn að hjálpa foreldrum sínum á bómullarakrinum. Þann 29. júlí árið 2000 hafði Modachirou lagt hart að sér og hljóp aftur heim til sín þar sem hann var þyrstur. Á leið sinni, fann hann tóma plastflösku og notaði hana til að ná í vatn úr næsta skurði. Um kvöldið kom hann ekki aftur heim. Að lokum fannst lík hans við hliðina á tómri Kallísúlfan flösku.
Endósúlfan eitrun í Vestur-Afríku, reported by PAN UK (2006)
Þessi fullyrðing er ekki út í bláinn. Skóglendið í Búrkina Fasó minnkaði um 18 % á tímabilinu 1990–2010, að hluta til vegna vaxandi landbúnaðar, og hnignun skóglendis verður æ örari. Landeigandi sem á skóglendi í Búrkina Fasó getur kosið að rækta bómull af því að hann hagnast meira á því að rækta landið heldur en að selja við (eða nota hann sem eldsneyti) og að varðveita skóglendið. En það er ekki víst að þessi þróun sé endilega best fyrir Búrkina Fasó í heild – þjóðina og vistkerfin.
Skógar veita mannfólki – í nálægð og fjarlægð – mun meiri ávinning en einungis gildi viðarins. Skógar skapa búsvæði fyrir líffræðilega fjölbreytni, koma í veg fyrir jarðvegseyðingu, taka upp koltvíoxíð, veita möguleika á afþreyingu og svo framvegis. Ef samfélagið í heild sinni væri að ákveða hvernig nota á landið – og gæti tekið ákvörðun skv. mati á kostnaði og ávinningi ólíkra valkosta – mundi samfélagið líklega ekki gjörnýta landið og vatnið einungis til bómullarframleiðslu.
Þessi mismunur á milli ávinningsins og kostnaðarins sem mætir einstaklingum annars vegar og samfélaginu hins vegar er úrslitaatriði.
Til að svara lykilspurningum – hversu mikið vatn skal nota til að framleiða bómull, hversu mikið af varnarefnum, hversu mikið af landi – þurfa bændur um allan heim að taka ákvarðanir er byggja á hlutfallslegum kostnaði og ávinningi. En þar sem bóndinn getur notið fulls ávinnings af því að selja bómullina, þarf hann eða hún yfirleitt ekki að bera allan kostnaðinn. Kostnaðurinn við kaup á varnarefnum, til dæmis, er oft miklu minni en kostnaður vegna heilsufarsáhrifa eiturefnanotkunar. Þannig er kostnaðurinn færður yfir á annað fólk, þ.m.t. yfir á komandi kynslóðir.
Vandamál koma upp af því að eins og flest okkar tekur bóndinn ákvarðanir sínar einungis út frá eigin hagsmunum. Og þessi bjögun í ákvarðanatöku nær til heimsmarkaðarins. Verðið sem er greitt af kaupmönnum, fataframleiðendum og að lokum neytendum endurspeglar engan veginn kostnaðinn og ávinninginn sem felst í notkun auðlinda og framleiðslu á vöru.
Þetta er alvarlegur vandi. Víðast hvar eru það markaðir og verð sem eru notuð til að styðja við ákvarðanir okkar, þannig að ef verðið gefur okkur ranga hugmynd um áhrif framleiðslu og neyslu, þá tökum við slæmar ákvarðanir. Sagan segir okkur að markaðir geta verið mjög virk tæki til að leiðbeina ákvörðunum okkar um notkun auðlinda og framleiðslu og til að hámarka hagsæld. En þegar verðið er rangt, bregst markaðurinn.
Hvað getum við gert í málinu? Að vissu marki geta ríkisstjórnir tekið skref til að leiðrétta markaðsbresti. Þær geta framfylgt reglugerðum og skattlagt notkun vatns og varnarefna þannig að bændur noti minna eða reyni að finna skaðminni valkosti. Á hinn bóginn, geta þær skipulagt greiðslur til eigenda skóglendis til að endurspegla þann ávinning sem skógar veita samfélaginu bæði innanlands og alþjóðlega – og þannig veitt bændum annan valkost til að fá tekjur af landi sínu. Lykillinn liggur í því að stilla hvatana þannig að hagsmunir einstaklingsins samræmist hagsmunum samfélagsins í heild.
Það er einnig mikilvægt að veita upplýsingar til neytenda til að bæta við þær upplýsingar sem felast í verði. Í mörgum löndum sjáum við æ fleiri merkingar er segja okkur frá framleiðslu vörunnar, auk herferða frá áhugahópum sem vilja auka meðvitund og skilning á þessum málum. Mörg okkar mundu vilja greiða meira eða eyða minna ef við skildum afleiðingar vals okkar.
Í sumum tilvikum verða ríkisstjórnir að ganga lengra en að leiðrétta markaðinn og raunverulega takmarka hlutverk markaðarins í að úthluta og dreifa auðlindum. Bæði menn og vistkerfi þurfa vatn til að vaxa og dafna. Reyndar myndu margir halda því fram að hver einstaklingur hafi rétt til að fá nægilegt drykkjarvatn, mat, hreinlætisaðstöðu og heilsusamlegt umhverfi. Ríkisstjórnir geta þannig verið skuldbundnar til að tryggja að þörfum íbúa þeirra sé mætt áður en markaðurinn er notaður til að dreifa afgangsgæðum.
Í Búrkina Fasó, hefur ríkisstjórnin og alþjóðlegir samstarfsaðilar þeirra lagt áherslu á að uppfylla grunnþarfir fyrir aðgang að öruggu drykkjarvatni. Jafnvel þótt slíkt sé ekki enn í boði fyrir einn fjórða íbúanna þá fela aðstæður í dag í sér mun betri stöðu miðað við hvernig var fyrir 20 árum, þegar 60 % höfðu ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni.
Á alþjóðavettvangi er verið að reyna að leiðrétta og takmarka áhrif opinna markaða á meðan notið er ávinnings þeirra. Einn sem komið er, hins vegar, gefur markaðsverð oft ranga mynd – og niðurstaðan er slæm ákvarðanataka hjá bæði framleiðendum og neytendum.
Ef markaðir störfuðu almennilega og verð endurspegluðu allan kostnað og ávinning gjörða okkar, mundi þá vera framleidd bómull í Búrkina Fasó?
Þótt erfitt sé að vita slíkt með vissu, er mjög líklegt að svo mundi vera. Fyrir mjög fátækt, strandlaust, auðlindafátækt land eins og Búrkina Fasó, eru engar auðveldar leiðir til hagsældar. Bómullariðnaðurinn skilar a.m.k. talsverðum tekjum sem veitir möguleika á efnahagslegri þróun og bættum lífskjörum.
En að halda áfram að framleiða bómull þarf ekki að þýða það að halda áfram að nota framleiðslutækni sem notar mikið af vatni eða varnarefnum. Né heldur að eyða skóglendi. Aðrir möguleikar, eins og lífræn bómullarframleiðsla, getur dregið úr vatnsnotkun og útilokað notkun varnarefna algjörlega. Beinn kostnaður af að rækta lífræna bómull er hærri – sem þýðir að verðið sem neytendur þurfa að greiða fyrir bómullina verður hærra – en kostnaðurinn gerir meira en að jafnast út með minnkun á óbeinum kostnaði sem lendir á bómullarræktendum og samfélögum þeirra.
Vissulega er það hlutverk stjórnmálamanna að aðstoða markaði þannig að þeir virki, og þannig að verð sé hvetjandi fyrir sjálfbæra ákvarðanatöku. En málin eru ekki bara í höndum stjórnmálamanna – upplýstir borgarar geta einnig breytt miklu.
Alþjóðlegar aðfangakeðjur þýða það að ákvarðanir framleiðenda, kaupmanna og neytenda í Evrópu geta haft umtalsverð áhrif á velferð fólks í löndum sem eru jafn langt í burtu og Búrkina Fasó. Þessi áhrif geta verið að skapa störf og tekjur, en þau geta einnig haft ofnýtingu takmarkaðra vatnsauðlinda og eituráhrif á íbúa og vistkerfi í för með sér.
Að lokum eru það neytendur sem hafa vald til að ákveða. Alveg eins og stjórnmálamenn geta haft áhrif á neyslu okkar með því að hafa áhrif á verð, geta neytendur sent skilaboð til framleiðenda með því að krefjast bómullar sem er framleidd á sjálfbæran hátt. Þetta er hlutur sem vert er að hugleiða næst þegar þú kaupir gallabuxur.
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/umhverfis-teikn/umhverfisteikn-2011/greinar/ad-verdleggja-rett or scan the QR code.
PDF generated on 30 Mar 2023, 01:56 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 12 March 2023 21:56 from version 23.1.28
Software version: EEA Plone KGS 23.3.11
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum