næsta
fyrri
atriði

Article

Ósjálfbær neysla

Breyta tungumáli
Article Útgefið 18 Jul 2011 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © EEA/John McConnico
Lykilskilaboð: Stór ástæða fyrir því að neysla hefur neikvæð áhrif á umhverfið og veldur ofnotkun auðlinda er sú að kostnaðurinn við hnignun umhverfisins og auðlindanna endurspeglast ekki fyllilega í verði vöru og þjónustu. Margar vörur eru ódýrar enda þótt þær skaði umhverfið, vistkerfi eða heilsu manna. (SOER 2010)

„Reyk tók að blása yfir bæinn seint um kvöld einn daginn. Það var ekki fallegt. Askan féll eins og snjór“, segir Guðni Þorvaldsson, sem rekur fjölskyldubýlið á Þorvaldseyri á sunnanverðu Íslandi, aðeins 8 km frá eldfjallinu í Eyjafjallajökli. „Við þurftum að taka kindurnar, lömbin og suma hestanna inn í hús. Það þurfti að líta á kindurnar á þriggja tíma fresti því það var sauðburður. Allt var grátt. Stærstu öskuklumparnir voru 3 sm í þvermál. Ég skildi eftir fótspor í öskunni eins og hún væri snjór.“

Guðni Þorvaldsson og aðrir Íslendingar voru merkilega vel búnir undir hið öfluga gos í Eyjafjallajökli í mars 2010. Háþróað eftirlitskerfi sem notast við hnattræna staðsetningartækni mælir stöðugt virk eldfjöll á Íslandi. Mælingarnar bentu til að eldfjallið væri að hækka, sem er örugg vísbending um kvikuhreyfingar. Þetta var staðfest með öðrum mæliaðferðum. Ásamt skilvirku almannavarnakerfi sýnir þetta hversu verðmætar umhverfisupplýsingar geta verið.

Ekki er víst að heimsbyggð að öðru leyti hafi verið eins vel viðbúin. Áhrifin náðu til allra heimshorna innan nokkurra daga, aðallega vegna þess gríðarlega öskuskýs sem varð til og áhrifa þess á flugumferð. Mest fannst fyrir öskunni í milli 20.000 og 36.000 feta hæð, sama hæðarbili og farþegarflugvélar nota. Loftrýminu yfir Evrópu var lokað, sem aftur stöðvaði flug til álfunnar frá svo fjarlægum stöðum sem Sydney. Alþjóðasamband flugfélaga áætlaði að tekjutap flugfélaga hefði numið 200 milljónum Bandaríkjadala á dag.

Nær allar atvinnugreinar sem eru háðar flugumferð urðu fyrir áhrifum. Í Kenýa rotnuðu jurtir, blóm og grænmeti sem ræktað hafði verið fyrir Evrópumarkað í bakandi sólinni og ollu tapi upp á milljónir evra. Áætlað er að á fyrstu dögunum eftir að gosið hófst hafi tíu milljónum blóma, aðallega rósum, verið fleygt. Grænmeti svo sem spergill, brokkólí og grænar baunir voru gefnar búfé í stað þess að hafna á matardiskum í Evrópu. Birgðir af ferskum túnfiski frá Víetnam og Filippseyjum tóku að ganga til þurrðar í Evrópu.

Óhugnanleg kyrrð himinsins yfir Evrópu í apríl árið 2010 minnti á það hversu mikil flugumferð er þar venjulega. Sögur af rotnandi blómum og grænmeti í Kenýa minna okkur á það hvaðan sum þau blóm og grænmeti sem við notum kemur. Reyndar sýndi gosið greinilega fram á tengslin milli nokkurra lykilkerfa – manngerðra og náttúrulegra – sem hnattvætt samfélag okkar hvílir á.

Stóri fóturinn á okkur

Vistporið er ein nokkurra mæliaðferða sem notaðar eru til að sýna fram á kröfurnar sem mannkyn gerir til jarðarinnar. Fótsporshugtakið hefur sínar takmarkanir en það er einnig tiltölulega auðskilið: það metur það flatarmál lands og sjávar sem þarf til að leggja til þau hráefni sem við notum og gleypa úrganginn sem við framleiðum.

Árið 2003 var vistspor Evrópusambandsins 2,26 milljarðar hnattrænna hektara eða 4,7 hnattrænir hektarar á mann. Til samanburðar var heildarflatarmál ræktarlands í Evrópu 1,06 milljarðar hnattrænna hektara eða 2,2 hnattrænir hektarar á mann (WWF, 2007).

Ef allir jarðarbúar lifðu eins og Evrópubúar þyrftu þeir meira en tvo og hálfan hnött til að fá þau hráefni sem við neytum, gleypa úrganginn sem við losum og skilja eftir eitthvert pláss fyrir villtar tegundir (WWF, 2007).

Fullnýtingardagur jarðar

Fullnýtingardagur jarðar markar þann dag á dagatalinu þegar neysla mannkyns á vistfræðilegum auðlindum það árið samsvarar því sem náttúran getur framleitt á 12 mánuðum. Það er dagurinn sem sameiginleg laun okkar klárast og við byrjum að taka að láni frá jörðinni.

Árið 2010 áætlaði Hnattræna fótsporssamstarfsnetið að 21. ágúst hefði mannkyn fullnýtt vistfræðilega þjónustu – allt frá því að binda CO2 til þess að framleiða fæðuhráefni – sem náttúran gæti með góðu móti innt af hendi allt það ár. Frá 21. ágúst til ársloka var vistfræðilegum þörfum okkar mætt með því að ganga á auðlindabirgðir og safna upp gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu.

Vissirðu þetta? Meðal Evrópubúi notar u.þ.b. ferfalt meiri hráefni en Afríkubúi og þrefalt meiri en Asíubúi, en helming þess sem gerist í Bandaríkjunum, Kanada eða Ástralíu.

SOER 2010

Venjum okkar haldið uppi

Bæði „Hnattræna fótsporið“- og „fullnýtingardagurinn“ eru gróft mat. En við vitum fyrir víst að þörf okkar fyrir náttúrauðlindir um allan heim hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi. Helstu drifhvatarnir hafa verið fólksfjölgun, ríkidæmi og neysla. Mestur hluti fjölgunarinnar hefur átt sér stað í þróunarlöndum meðan mesti auðurinn og neyslan eru í þróuðum löndum.

Í Evrópu bætum við vistfræðilegan halla okkar – muninum á fótspori okkar og líffræðilegri afkastagetu – með því að flytja inn vörur og þjónustu annarsstaðar frá. Við flytjum líka út hluta úrgangsins. Í sem stystu máli verðum við stöðugt minna sjálfum okkur nóg.

Sem afleiðing af vaxandi hnattrænum viðskiptum kemur stöðugt stærri hluti þess umhverfisþrýstings og -áhrifa sem neysla í ESB-löndunum veldur, fram annars staðar. Hluti þessarar tilfærslu er milli ESB‑landa en stór hluti kemur niður utan ESB og utan gildissviðs framleiðslutengdrar stefnumörkunar ESB. Þetta þýðir að við flytjum út áhrif neyslu okkar til landa þar sem umhverfisstefna er gjarnan vanþróuð og setjum þar með mikinn þrýsting á íbúa og umhverfi þeirra staða.

Alþjóðleg neysla veldur meiriháttar, óafturkræfum áhrifum á hnattræn vistkerfi: 130.000 km2 regnskóga í hitabeltinu eru ruddir á ári. Að auki hefur þriðjungur ræktarlands jarðar frá árinu 1960 verið yfirgefinn eða þurrausinn vegna ofnýtingar og jarðvegseyðingar.*

Vítahringurinn rofinn

Við þurfum að finna betra jafnvægi milli þarfarinnar fyrir það að varðveita náttúrulegt fjármagn og þess að nota það til þess að knýja efnahagslífið. Aukin nýtni auðlindanotkunar er lykilatriði. Með því að viðurkenna að kröfur okkar til náttúrulegra kerfa eru ósjálfbærar, verður ljóst að við þurfum að gera meira úr minna.

Það er hinsvegar hvetjandi að þetta er svið þar sem hagsmunir umhverfis- og verslunargeiranna getur farið saman: fyrirtæki blómstra eða falla eftir því hversu vel þeim gengur að gera hámarksverðmæti úr ílögum, rétt eins og varðveisla hins náttúrulega umhverfis og velferðar manna er háð því að við gerum meira úr takmörkuðu framboði jarðargæða.

Nýting jarðargæða er núna forgangsverkefni í ESB – meginþáttur í stefnumörkun um skynsamlegan, sjálfbæran og jafnræðislegan hagvöxt árið 2020. Með hugmyndinni um nýtingu jarðargæða leggjast saman meginreglur góðra viðskipta og góðs umhverfislegs verklags með því að búa til meira og framleiða minni úrgang. Það er eins og taka upp bæði heilbrigðara mataræði og líkamsrækt – eftir smátíma kemst maður að því að maður getur gert meira með minna.

* Frekari upplýsingar má finna í þemagreindum áætlunum SOER: neysla og umhverfið: www.eea.europa.eu/soer/europe/consumption-and-environment

Kaupmáttur

Neyslan sem á sér stað þegar við borðum, ökum eða hitum upp heimili okkar veldur beinum þrýstingi á umhverfið. Enn þyngra vegur hinsvegar sá óbeini þrýstingur sem verður til í framleiðsluferli varanna og þjónustunnar sem neytt er. Þetta geta verið áhrif af námuvinnslu eða uppskeru, vatnsnotkun við ræktun nytjaplantna eða tjón á staðbundinni líffjölbreytni sem hlýst af þéttbærum landbúnaði eða mengun.

Sem neytendur getum við stjórnað umhverfisáhrifum okkar, t.d.með því að kaupa matvæli og trefjar sem framleidd eru á sjálfbæran hátt.

Vinsældir og velgengni lífrænnar ræktunar og „verndunarbúskapar“ fara vaxandi í heiminum. Frumkvæðið að verndaðri bómullarrækt (The Conservative Cotton Initiative, CCIU) er aðeins eitt dæmi um sjálfbæra aðferðafræði í framleiðslu sem dregur úr áhrifum ræktunar á umhverfið.

CottonNýsköpun: fatnaður

Frumkvæðið að verndaðri bómullarrækt

Siðlega fataframleiðslufyrirtækið EDUN, Samtök um verndun villtra dýra og plantna og Ósýnileg börn höfðu frumkvæði að því að stofna til verndaðrar bómullarræktar í Úganda til að koma á legg sjálfbærum bændasamfélögum í Úganda.

„CCIU hefur aðsetur í einu fátækasta héraði Úganda, Gula-svæðinu, sem er að ná sér eftir borgarastríð sem hrakti milljónir manna frá heimkynnum sínum. CCIU-áætlunin aðstoðar bændur sem eru að snúa aftur á jarðir sínar með því að leggja til fjármagn, tæki og þjálfun þannig að þeir geti byggt upp sjálfbæra bómullarræktun“, segir Bridget Russo, hnattrænn markaðssetningarforstjóri EDUN.

Bændur eru þjálfaðir í fjölbreyttri ræktun sem samanstendur af annars vegar skiptiræktun nytjaplantna sem geta uppfyllt grunnþarfir fjölskyldna þeirra og hins vegar ræktun á bómull, sem alþjóðleg eftirspurn er eftir og þeir geta selt. Sem stendur njóta 3.500 bændur góðs af CCIU-áætluninni og áætlanir eru uppi um að auka þennan fjölda upp í 8.000 á næstu þremur árum.

Þetta samstarf miðar að því að bæta lífsviðurværi samfélaganna í Afríku með því að styðja bændur til að uppskera „verndarbómull“ á sjálfbæran hátt.

Permalinks

Skjalaaðgerðir