næsta
fyrri
atriði

„Garðarnir og göturnar voru þaktar 15 sm lagi af rauðri leðju. Fólk reyndi að þvo hana af húsum sínum og eigum með sápu og vatni. Aðrir pökkkuðu einfaldlega saman. Ég reyndi að þrífa leðjuna af gúmmístígvélunum mínum þarna um kvöldið en tókst það ekki. Rauði liturinn fór bara ekki af“, segir Gábor Figeczky, starfandi yfirmaður Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (World Wide Fund For Nature) í Ungverjalandi.

Hinn 4. október 2010 átti eitt versta eiturefnaslys í Evrópu á síðari árum sér stað nálægt borginni Ajka í Veszprem-sýslu í Ungverjalandi, u.þ.b. 160 km suðvestur af Búdapest. Stífla í útfellingartjörn álverksmiðju brast með þeim afleiðingum að basískur aur flæddi yfir stórt svæði, þar með talin þrjú þorp. Langtímaafleiðingar slyssins eru óþekktar (EEA, 2010).

Þetta er aðeins eitt dæmi um áskoranirnar sem hljótast af mengun frá iðnaði. Olíuslysið í Mexíkóflóa, sem hófst í apríl 2010, er annað vel skráð mengunarslys á sama ári. Þetta eru áberandi dæmi, en staðreyndin er sú að við erum flest í snertingu við einhvers konar mengun í okkar daglega lífi.

Street flowerMótun jarðar og gangverks hennar

Áhrif manna á umhverfið hafa vaxið stöðugt. Áður fyrr komu þau aðallega fram á staðnum. Á umliðnum áratugum höfum við séð áhrif færast á milli svæða- eins og t.d. súrt regn. Og núna hafa t.d. loftslagsbreytingar hnattræn áhrif.

Hugtakið „mannöld“ hefur verið notað til að lýsa tímaskeiðinu sem við lifum nú á. Ástæðan er sú að notkun manna á jarðargæðum og sú flókna blanda mengandi efna sem af þeirri notkun hlýst hefur orðið að ríkjandi drifkrafti sem mótar jörðina og stillingar á gangvirki hennar.

Umhverfið er viðkvæmt gagnvart mengun eins og við sjálf. Það hefur mikla getu til að taka við óæskilegu frálagi athafna okkar, mengun og úrgangi og gera það skaðlaust með tímanum. Reyndar er þessi geta til að gleypa og umbreyta mengandi efnum nauðsynleg þjónusta sem heilbrigt vistkerfi innir af hendi fyrir okkur. En þessi geta vistkerfa er takmörkuð. Ef við ofreynum þau, hættum við á að skemma þau og tegundirnar sem lifa í þeim, þar með talið okkur sjálf.

Þrjú mengandi efni skoðuð nánar

Ef við einbeitum okkur að þremur dæmum um mengunarefni getum við fengið hugmynd um þau alvarlegu áhrif sem við höfum á jörðina. Tökum sem dæmi svifryk, köfnunarefni og óson við jörðu. Þessi efni verðskulda sérstaka athygli vegna þeirra flóknu og mögulega víðfeðmu áhrifa sem þau hafa á virkni vistkerfa, stjórn loftslags og á heilsu manna. Þau deila flestum sömu drifkröftunum, t.d. iðnvæðingu, hnattvæðingu og vaxandi neyslu.

Losun margra loftmengunarefna hefur minnkað umtalsvert í Evrópu síðastliðna áratugi og stefnumörkun um loftgæði er það dæmi um viðleitni ESB í umhverfismálum sem gengið hefur hvað best. Sér í lagi hefur stefnumörkunin valdið miklum samdrætti í losun brennisteins, sem er helsti orsakavaldur súrs regns.

Eigi að síður leggjum við stöðugt flóknari mengunarbyrði á umhverfið, þrátt fyrir það að möguleg áhrif mengunarinnar á lýðheilsu og umhverfi séu lítt þekkt. Áætlað er að nú þegar séu á markaði 70.000–100.000 kemísk efni og þessi tala fer hratt vaxandi. Nærri 5.000 þessara efna eru framleidd í miklu magni, þ.e. yfir einni milljón tonna á ári.

  • Svifryk er hugtak sem notað er til að lýsa ýmis konar örsmáum ögnum, t.d. frá útblæstri bifreiða eða eldavélum í heimahúsum sem hafa áhrif á lungu. Langtímaáhrif svifryks á heilsufar geta verið margs konar, allt frá minni háttar ertingu í öndunarvegi til ótímabærs dauða.
  • Köfnunarefnismengun hefur áhrif á gæði grunnvatns og leiðir til ofauðgunar vistkerfa í ferskvatni og sjó. Eftir að mykja og áburður hafa verið borin á ræktarland kunna umframnæringarefni að berast út í andrúmsloft, síast niður í grunnvatn eða skolast úr með yfirborðsvatni. Þessi ferskvatnsmengun endar úti í sjó við strendur þar sem hún getur haft alvarleg áhrif.
  • Óson (O3) er lofttegund sem myndar verndandi lag hátt yfir yfirborði jarðar en getur engu að síður verið skaðleg. „Óson við jörðu“ er óson í lofti nálægt yfirborði jarðar. Því er ekki sleppt beint út í andrúmsloftið, heldur verður til þegar öðrum efnum er blandað saman. Snerting við óson við jörðu getur haft alvarleg skaðleg áhrif á heilsufar fólks og getur sömuleiðis dregið úr uppskeru. Það getur þannig breytt framleiðni og tegundasamsetningu náttúrulegra búsvæða og þar með sett líffjölbreytni í hættu.

Nýsköpun: dæmið um orkuna

„Eins og að finna nál í heysátu“; þannig lýsir fyrirtækið Ocean Nutrition Canada uppgötvun sinni á örveru sem falin er í þörungi sem er fær um að framleiða þríglýseríðolíu – grunn fyrir lífeldsneyti – 60 sinnum hraðar en aðrar gerðir þörunga sem áður hafa verið notaðar.

Með því að breyta koltvísýringi og sólarljósi í fitusýrur og olíur geta tilteknar gerðir þörunga framleitt allt að 20-falt meira eldsneyti á flatareiningu en hefðbundnar nytjajurtir.

Þetta verkefni er aðeins eitt dæmi um þær rannsóknir sem farið hafa fram á nýjum valkostum fyrir eldsneytisframleiðslu um allan heim. Einfrumuörþörungar innihalda olíur áþekkar jurtaolíum sem hafa þegar verið notaðar með góðum árangri sem lífeldsneyti. Þessi þörungaolía gæti vel verið grænasta lausnin sem til er til þess að minnka kolefnisfótsporið sem við skiljum eftir okkur í hvert sinn sem við ökum bíl, kaupum ávexti sem fluttir hafa verið með vöruflutningabílum langan veg, eða ferðumst með flugvél.

Ólíkt jarðefnaeldsneyti, sem losar kolefni, taka örþörungar upp koltvísýring (CO2) úr andrúmsloftinu þegar þeir vaxa. Þar af leiðandi myndi þörungaeldsneyti ekki auka nettó-kolefnislosun.

Ólíkt öðrum gerðum lífeldsneytis, eins og því sem unnið er úr maís, þarf ekki að taka ræktarland úr fæðuframleiðslu til að framleiða örþörunga. Reyndar væri, samkvæmt Rannsóknaráði Kanada, sem er leiðandi í þessari gerð rannsókna, ákjósanlegt að rækta örþörunga í skolpi, sem er auðugt að áburði svo sem ammóníaki og fosfötum. Koltvísýring sem nú fer út um reykháfa iðnfyrirtækja mætti nota sem kolefnisuppsprettu. Enga aðra tegund lífeldsneytis er hægt að rækta á þennan hátt.

Ocean Nutrition Canada framleiðir raunar fæðubótarefni og var að leita að hráefnum þegar það gerði þessa uppgötvun. Þessi raunveruleiki endurspeglar bæði möguleikana og árekstrana sem við horfumst í augu við í framtíðinni. Ættum við að nota nytjaplöntur/jarðargæði til að fæða okkur sjálf eða búa til eldsneyti? Getum við notað nýsköpun til að þokast fram á við?

Auga haft með jörðinni

Í samhengi við þessa stöðugt flóknari mengunaráskorun, skipta upplýsingar sköpum bæði í vísindalegu skyni og fyrir stefnumörkun. Hins vegar er það einnig markmið EEA að gefa öllum almenningi aðgang að viðeigandi, tafarlausum og skiljanlegum umhverfisupplýsingum. Í stuttu máli: við viljum virkja fólk til að taka þátt í orðræðunni og styrkja áhrif þess.

Hrá gögn eru vitaskuld gagnslaus fyrir flesta. Það er lykilatriði að gera þau aðgengileg á formi sem er aðgengilegt og viðeigandi. EEA vinnur með Microsoft að því að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Ný upplýsinga og samskiptatækni hefur leitt til þess að við getum nú safnað saman, skipulagt og nálgast ólík gögn, mögulega frá gríðarmörgum mismunandi aðilum.

Hinn nýi vettvangur „Auga með jörðinni“ (Eye on Earth) gefur upplýsingar um gæði baðvatns og lofts á einstökum stöðum á grundvelli gagna sem aflað er næstum því í rauntíma úr eftirlitsstöðvum og með líkanagerð í tölvum. Hann færir fremur „þurr“, flókin, vísindaleg gögn yfir á snið sem er viðeigandi og skiljanlegt meira en 500 milljónum borgara ESB á 25 tungumálum.

Vatnsvaktin (Water Watch) gefur notendum greiðan aðgang að einkunnagjöf um vatnsgæði á 21.000 eftirlitspunktum á baðstöðum í 27 Evrópulöndum. Með tölvuskýtækni geta þeir sem hugsa sér að heimsækja tiltekinn baðstað þysjað inn á valið svæði á Evrópukorti á netinu, eða að öðrum kosti slegið heiti strandarinnar inn í leitarstiku.

Auga með jörðinni gefur almenningi einnig tækifæri til að segja skoðun sína á gæðum stranda, vatns og lofts og þannig bæta við og staðfesta (eða hrekja) opinberar upplýsingar. Þessi gagnvirku samskipti eru mikilvæg skref í átt að því að við virkjum hvert annað og eflum ólík samfélög.

Á næstu árum vonumst við til þess að geta auðgað þjónustuna með nýjum gerðum upplýsinga sem fengnar verða bæði frá vísindalegri vöktun og öðrum heimildum, þar með talið sjónarhornum heimamanna eða frumbyggja.

Evrópa stundar nýsköpun

Aðgangur að náttúruauðlindum hefur úrslitaþýðingu fyrir allan heim. Þetta á sérstaklega við í samhengi við hnattræna spurn eftir orku, en vaxandi skortur á jarðefnaeldsneyti kann að ýta undir breytingar yfir í orkugjafa sem eru tiltækir á heimaslóðum.

Breyting yfir í nýja orkugjafa gæti haft áhrif á umhverfi Evrópu. Möguleg áhrif eru aukin landnotkun fyrir framleiðslu lífeldsneytis, röskun á vistkerfum vegna nýrra vatnsaflsvirkjana, hávaði og sjónmengun frá vindhverflum og mengun og losun gróðurhúsalofttegunda frá olíuvinnslu úr olíuleir. Aukin nýting kjarnorku mun ýta undir almennar umræður um öryggi við geymslu úrgangs.

Evrópuþjóðir verða að nýskapa og finna markaðskima sem draga úr heildarþörf fyrir jarðefni, málma og orku en þróa um leið nýjar gerðir tækni og lausna.

Permalinks

Geographic coverage

Temporal coverage

Skjalaaðgerðir