næsta
fyrri
atriði

Article

Líf í samtengdum heimi

Breyta tungumáli
Article Útgefið 18 Jul 2011 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © EEA/John McConnico
„… samanlagðar kröfur og lífsstíll 500 milljóna Evrópubúa setja of mikið álag á umhverfið. Tölum ekki einu sinni um réttmæta þrá nokkurra milljarða manna í viðbót um að taka upp sams konar lífsstíl … Við þurfum að breyta hegðun evrópskra neytenda. Efla meðvitund fólks og hafa áhrif á venjur þess.“ Janez Potočnik, ráðunautur Evrópusambandsins um umhverfismál (mars 2010).

Fyrir fimm árum var Bisie frumskógurinn skógur á Wailikale-svæðinu í Austur-Kongó. Þar er núna fjölmennur bær í kjölfar þess að þar fannst kassíterít sem er afbrigði af tini og nauðsynlegt hráefni í rafrásir margra nútímatækja. Það er í farsímanum þínum, fartölvunni, stafrænu myndavélinni og leikjatölvum.

Kassíterít er mjög eftirsótt og verðmætt. Eftirspurn okkar eftir neytendaraftækjum hefur reyndar valdið mikilli verðhækkun á tini. Verð þess á málmmarkaði Lundúna hefur hækkað úr u.þ.b. 5.000 Bandaríkjadala á tonn árið 2003 í yfir 26.000 Bandaríkjadala á tonn seint á árinu 2010 samkvæmt Financial Times.

Í dag er mikil eftirspurn eftir hinum ýmsu jarðargæðum sem finnast í skógum og frumskógum Kongó. Eigi að síður er Kongó bláfátækt nú sem fyrr. Síðastliðin 15 ár hafa yfir 5 milljónir manna dáið í Austur-Kongó í stríði milli ýmissa vopnaðra hópa. Áætlað er að ekki færri en 300.000 konum hafi verið nauðgað.

Þetta hefur gerst áður í Kongó, sem Leópold II, konungur Belgíu, gerði að nýlendu fyrir rúmum 100 árum. Hann varð einn ríkasti maður heims af því að selja gúmmí frá Kongó. Þá voru dagar iðnvæðingar og bílaiðnaðurinn, sem var í uppgangi, þurfti mikið gúmmí.

Langvinn eftirspurn okkar eftir náttúrugæðum til að fæða, klæða, skýla, flytja og skemmta okkur er stöðugt að aukast en um leið er tiltækt vinnanlegt magn tiltekinna hráefna að verða hættulega lítið.

Eftirspurn eftir nýjum hráefnum svo sem eftir efnum úr jurtum eða lífmassa sem látinn er koma í stað jarðefnaeldsneytis veldur nýju álagi á náttúruleg kerfi. Þegar þessi atriði eru tekin saman, er þróun Evrópu í umtalsverðri hættu vegna þessarrar vaxandi eftirsóknar eftir gæðum sem fara síminnkandi.

„Sem heimsbúar tengjumst við öll ofbeldinu sem á sér stað í Kongó. Vinnsla stríðs-jarðefna sem heldur átökunum gangandi tengir okkur öll.“

Margot Wallström, sérstakur talsmaður aðalritara SÞ um kynferðislegt ofbeldi á átakasvæðum.

Þróun fyrir alla

„Þúsaldaryfirlýsingin árið 2000 var stór áfangi í alþjóðlegri samvinnu og fól í sér hvata til þróunarstarfs sem hefur bætt líf hundruða milljóna manna um allan heim. Þúsaldarþróunarmarkmiðin átta (ÞÞM) eru umgjörð fyrir allt alþjóðasamfélagið til að vinna saman að sameiginlegu markmiði.

Það er hægt að ná markmiðunum, en framfarir í lífi hinna fátæku hafa verið óviðunandi hægar og nú grefur undan sumum endurbótum sem höfðu náðst með harðfylgi vegna loftslags-, matvæla- og hagrænna vandamála.

Heimsbyggðin býr yfir auðlindum og þekkingu til þess að gera jafnvel fátækustu löndum og öðrum sem þjökuð eru af sjúkdómum, landfræðilegri einangrun eða borgarastríði, kleift að ná ÞÞM. Það að markmiðin náist varðar alla. Ef það mistekst, margfaldast hættur í heiminum: óstöðugleiki, stórfelldir smitsjúkdómar og hnignun umhverfis. Náist markmiðin hins vegar, miðar okkur hratt áfram í átt að heimi sem er stöðugri, réttlátari og öruggari.

Milljarðar manna líta til alþjóðasamfélagsins um að framkvæma þá glæstu framtíðarsýn sem felst í Þúsaldaryfirlýsingunni. Efnum það heit.“

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna í „Skýrslu um Þúsaldarþróunarmarkmiðin 2010“ (SÞ 2010)

Evrópa og nýtt valdajafnvægi

Eftir því sem 21. öldinni vindur fram, sjáum við að stjórn á stöðugt fleiri aflhvötum þróunar fer fram utan Evrópu. Þetta hefur áhrif á aðgang Evrópubúa að hráefnum.

Áberandi óvissa er á alþjóðavísu um framboð og aðgang að ýmsum nauðsynjum: mati, vatni og eldsneyti. Þörf íbúa Kína, Indlands, Brasilíu og fleiri landa fyrir hráefni gæti farið fram úr þörf Evrópumanna á næstu áratugum og þannig valdið stöðugt meiri þrýstingi á umhverfið.

Raunar keppast sum þróunarlönd nú þegar við að lyfta umsvifum hagkerfa sinna í átt til þess sem gerist í Evrópu. Líkur eru á því að íbúafjöldi þeirra, neyslustig og framleiðslugeta fari langt fram úr því sem gerist hjá okkur. Réttmæt sókn þeirra eftir því að þróast efnahagslega og félagslega mun leiða til meiri notkunar hráefna jarðar. Sér í lagi hafa Kínverjar reynst lagnir við að tryggja sér aðgang að hráefnum í fjölda landa og á mörgum svæðum.

Íbúum jarðar fjölgar, ýmis tækni tekur framförum og áhrif einkaaðila svo sem fjölþjóðafyrirtækja eru að aukast. Í ljósi þess að pólitísk tæki til stjórnunar á alþjóðavettvangi eru veik, ógna þessir kraftar jöfnum aðgangi heimsbyggðarinnar að náttúrulegum gæðum.

Hnattvæðing: rammi utan um mannlega þróun

Eðli hnattvæðingarinnar veitir tækifæri og umgjörð fyrir annars konar niðurstöðu. Fræjum hefur verið sáð fyrir áhrifaríka, sanngjarna og hnattræna stýringu málefna sem geta skipt sköpum fyrir okkur öll.

„Þúsaldarþróunarmarkmið“ SÞ eru aðeins eitt dæmi um hnattrænt stefnuferli sem hefur að markmiði jafnræðislega og sjálfbæra mannlega þróun.

Alþjóðlegar loftslagsviðræður skiluðu árangri á síðastliðnu ári. Cancún-samkomulagið sem undirritað var í desember 2010 er fyrsta SÞ-skjalið þar sem ákveðið er að hnattrænni hlýnun skuli haldið undir 2°C umfram það sem var fyrir tíma iðnvæðingar.

Samkomulagið staðfestir að þróaðar þjóðir, en iðnstarfsemi þeirra og fótspor kom manngerðum loftslagsbreytingum af stað, leggi 100 milljarða Bandaríkjadala í loftslagsbreytingasjóð til handa þróunarlöndum árlega til ársins 2020. Með samkomulaginu er Græni loftslagssjóðurinn ennfremur stofnaður, en miklum hluta fjármögnunarinnar verður beint í gegnum hann.

Nýjungar eins og hið svokallaða „REDD+“‑tæki (Minnkun losunar vegna eyðingar og hnignunar skóga) gera mögulegar aðgerðir til þess að draga úr losun vegna eyðingar og hnignunar skóga í þróunarlöndum. Engar þessara aðgerða væru mögulegar án skipulegs alþjóðasamstarfs og samvinnuanda.

Evrópusambandið stuðlar að samvinnu um viðbrögð við sameiginlegum áskorunum og markmiðum. Með 2020-sýn Evrópusambandsins er sett fram áætlun um vöxt sem byggist á skynsamlegu, sjálfbæru og jafnræðislegu hagkerfi.

Vaxandi hlutverk einkaaðila

Hnattrænir pólitískir ferlar eru augljóslega mikilvægir til að tryggja að hagvöxtur eyðileggi ekki hin náttúrulegu kerfi. En annað stórt einkenni hnattvæðingar er vaxandi mikilvægi einkaaðila.

Alþjóðleg fyrirtæki, svo sem farsíma- og upplýsingatæknifyrirtæki, geta einnig gegnt þýðingarmiklu hlutverki við að þoka áfram sjálfbærri þróun. Fyrsta fyrirtækið sem fær vörur sínar vottaðar sem lausar við „átaka“‑jarðefni mun hafa jákvæð áhrif á líf margra og gríðarlega markaðssetningarmöguleika.

Við verðum að beita aðferðafræði rannsókna og þróunar leiðandi fyrirtækja á vandamálin sem við glímum við. Við þurfum að virkja öll tæki sem í boði eru til lausnar vandamála á vegleiðinni í átt til viðvarandi sjálfbærrar þróunar.

Almenningur er einnig farinn að taka virkan þátt, bæði sem einstaklingar og í félagasamtökum. Sumir efna til mótmæla á götum úti. Aðrir verja tíma sínum og orku í að enduruppgötva aðgerðastefnu í þágu fæðuöflunar eða samfélagslegrar virkni. Margir eru að breyta neyslumynstri sínu til að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja að framleiðendur í þróunarlöndum fái sanngjarnt endurgjald. Aðalatriðið er: Hnattvæðing hefur áhrif á okkur öll og við erum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki valdalaus; við getum mótað hluti.

Þróa, skapa, vinna og mennta

Við verðum að halda áfram að þróa, skapa, vinna og mennta okkur sjálf og vera snjallari þegar kemur að auðlindanotkun. Til dæmis er fyrsta aðalmarkmið Þúsaldarþróunarmarkmiðanna að vernda það náttúrulega umhverfi sem hinir allra fátækustu hafa lifibrauð sitt af.

Þetta útheimtir að náttúruauðlindum sé stjórnað á þann hátt sem gerir staðbundnum samfélögum kleift að lifa af, síðan hagnast og að lokum sækja fram. Þetta er ein stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir eins og betur kemur fram í næsta kafla um hráefni og skógarbúa á Indlandi.

Í því verkefni hafa Evrópubúar stóru hlutverki að gegna. Stjórnun auðlinda um allan heim verður lykilatriði fyrir jafna dreifingu velferðar, meiri félagslega samkennd og heilbrigðara umhverfi.

Hands Nýsköpun: Jarðefni

Fingraför

Dr. Frank Melcher er yfirmaður teymis við Náttúruauðlinda- og jarðfræðistofnun Sambandslýðveldisins í Hannover í Þýskalandi sem er að þróa leið til að votta jarðefnin sem notuð eru í raftæki, á svipaðan hátt og gert er við demanta. Hvert jarðefni sem um ræðir hefur sérstakt „fingrafar“ sem segir til um upprunastað þess.

„Til að greina einkenni jarðefna svo sem koltans og kassíteríts borum við lítið gat í gegnum sýnið“ segir dr. Melcher.

„Síðan skönnum við sýnið í u.þ.b. 2 klukkustundir. Við greinum síðan samsetningu rúmmálsins. Það er hið svokallaða fingrafar. Og það er mjög auðþekkt fyrir Bisie.

„Við getum greint aldur hvers korns – jarðfræðilegan aldur – og sagt: þetta efni hlýtur að koma frá Lýðræðislega lýðveldinu Kongó, eða Mósambik, því við vitum nákvæmlega hve gömul kornin eiga að vera.

„Það er því tæknilega hægt að greina hrá-jarðefnin, en það þarf að gera áður en þau eru brædd niður í málma“, segir hann.

Starf dr. Melchers fer fram samkvæmt samstarfssamkomulagi milli ríkisstjórna Þýskalands og Kongós um verkefnið „Styrking gegnsæis og stjórnun náttúruauðlindageirans í Kongó“. Þetta starf hófst árið 2009 og felur í sér að Námaráðuneyti Kongós er styrkt til að koma á jarðefnavottunarkerfi fyrir tin, tungsten, tantalít og gull.

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir