All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Eftir ítarlega rannsókn fékkst sú niðurstaða að sjúkdómurinn hefði verið Chikungunya, veira sem berst í menn með aedes- eða „tígris“- moskítóflugunni sem algengari er í Afríku og Asíu. Uppruni sýkingarinnar var rakinn til manns sem var í fríi í héraðinu.
Talið er að maðurinn hafi sýkst áður en hann ferðaðist til Evrópu en hafi verið bitinn af tígrismoskítóflugu á Ítalíu. Tígrismoskítóflugan er hýsill veirunnar og talið er að skordýrið sem um ræðir hafi borið veiruna í aðra manneskju í þorpinu. Það setti af stað keðjuverkun þar sem tígrismoskítóflugur bitu sýkt fólk og dreifðu veirunni þar til smá-farsótt var komin af stað.
Útbreiðsla Chikungunya var afleiðing flókins vefs víxlverkana og skilyrða sem leiða í ljós ýmsar heilsufarshættur sem við er að glíma í hnattvæddum heimi. Ferðamennska, loftslagsbreytingar, viðskipti, flutningar tegunda og lýðheilsa hafði allt áhrif á uppkomu og útbreiðslu sýkingarinnar.
Tígrismoskítóflugan er talin hafa komist til Evrópu með ýmsum innfluttum vörum, allt frá skrautjurtum svo sem „happabambus“ til notaðra hjólbarða. Moskítólirfan hefur fundist víða í Evrópu. Utanhúss lifir hún aðeins í hlýjum, suðlægum löndum en í gróðurhúsum er norðar dregur, t.d. í Hollandi.
Beinbrunahitasótt og Vestur-Nílar hitasótt finnast nú í Evrópu og berast með biti moskítóflugna. Samkvæmt Sóttvarnamiðstöð Evrópu (ECDC) í Stokkhólmi í Svíþjóð hefur Vestur-Nílar hitasótt verið viðurkennd sem veruleg heilsuvá í Evrópu síðan fyrsti stóri faraldurinn varð í Rúmeníu árið 1996. Ekkert bóluefni er til og helsta ráðið til þess að fyrirbyggja útbreiðslu sóttarinnar er að koma í veg fyrir moskítóbit.
Við erum hugsanlega að skapa aðstæður fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma sem ekki þekktust áður. Iðnvæðing matvælaframleiðslu veldur t.d. umtalsverðum áhyggjum.
Með þéttbærri rækun eða þauleldi einnar tegundar dýra er hætta á einsleitum stofnum með lítinn erfðafjölbreytileika. Slík dýr eru mjög viðkvæm fyrir sjúkdómum sem smitast vegna skorts á hreinlæti eða úr villtum dýrum svo sem fuglum. Eftir að sjúkdómur hefur einu sinni komist í þauleldishópinn getur hann auðveldlega stökkbreyst og dreifst, jafnvel til fólks sem vinnur með viðkomandi dýr. Ofnotkun sýklalyfja hefur orðið að viðurkenndri aðferð til að vega upp á móti skorti á náttúrulegu viðnámi, en sá siður getur valdið öðrum vandamálum.
„Nútíma skilvirkur landbúnaður treystir á vísindi og lyfjafræði til að mæta sumum kröfum hnattvædds heims, rétt eins og lýðheilsa. Enda þótt nútímalandbúnaður hafi séð mörgum okkar fyrir ódýrum og nægum matvælum getur hann einnig haft í för með sér ófyrirséð hliðaráhrif og vandamál“, segir dr. Marc Sprenger, forstjóri ECDC.
„Til dæmis getur virkni sýklalyfja minnkað vegna víðtækrar notkunar þeirra í landbúnaði, sýklar geta orðið ónæmari, og það getur síðan haft áhrif á menn“, segir dr. Sprenger.
Aðgerðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum munu bæta loftgæði
Evrópusambandspakkinn um loftslag og endurnýjanlega orku (CARE) stefnir að því að:
Aðgerðirnar sem þarf til að ná þessum markmiðum munu einnig draga úr loftmengun í Evrópu. Til dæmis munu bæði framfarir í orkunýtni og aukin notkun endurnýjanlegrar orku draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis, sem er helsta uppspretta loftmengunar. Þessi jákvæðu hliðaráhrif eru kölluð „jaðar-ávinningur“ stefnumörkunar í loftslagsbreytingamálum.
Áætlað hefur verið að áðurnefndur pakki muni minnka árlegan kostnað við að uppfylla loftmengunarmarkmið ESB um milljarða evra. Sparnaðurinn fyrir heilbrigðisþjónustu Evrópu gæti jafnvel numið svo miklu sem sexfaldri þeirri upphæð.
Nýjar tegundir og nýir sjúkdómar sem berast til Evrópu eru aðeins hluti heilsufarsáhrifa loftslagsbreytinga. Heilsa manna kann á endanum að verða fyrir mörgum öðrum umhverfislegum og félagslegum áhrifum vegna breytinga á gæðum og magni vatns, lofts og fæðu og breyttra veðufarsmynstra, vistkerfa, landbúnaðar og framfærslu.
Loftslagsbreytingar kunna einnig að skerpa á umhverfisvandamálum sem þegar eru til staðar, svo sem loftmengun og truflað áður sjálfbæra vatns- og hreinlætisþjónustu.
Hitabylgjan í Evrópu sumarið 2003, sem kostaði yfir 70.000 mannslíf, minnti á þörfina fyrir aðlögun að breyttu loftslagi. Eldra fólk og fólk með tiltekna sjúkdóma er í meiri hættu, einnig eru fátækir viðkvæmari en þeir efnameiri. Á umferðarþungum þéttbýlisstöðum þar sem þétt, varmadræg yfirborðsefni loka jarðveginum geta áhrif hitabylgna orðið meiri en ella vegna ónógrar kælingar á næturnar og hægari vinda.
Fyrir þjóðir ESB er áætlað að dánartíðni hækki um 1–4% fyrir hverja gráðu sem hiti hækkar um upp fyrir tiltekið mark (misjafnt eftir stöðum). Á 3. áratug þessarar aldar gæti dauðsföllum sem hljótast af áætlaðri loftslagsbreytingu fjölgað sem næmi meira en 25.000 manns á ári, aðallega í Mið- og Suður‑Evrópu.
„Umræðan um heilsufar, landnotkun, landbúnað, ferðaþjónustu, viðskipti og loftslagsbreytingar þarf að þróast á skapandi hátt. Sem stendur sjáum við hugsanlega ekki nógu skýr tengsl á milli lýðheilsu og umhverfis- og loftslagsbreytinga“, segir dr. Sprenger.
„Til dæmis heimsótti ég nýlega heilbrigðisráðuneyti og spurði hver hefði málefni tengd loftslagsbreytingum á sinni könnu og var sagt að það væri enginn. Með þessu eru ekki felldir dómar yfir neinu sérstöku ráðuneyti eða stofnun en það sýnir að við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um þessi vandamál enda eru þau öll tengd“, segir dr. Sprenger.
„Opinber heilbrigðiskerfi verða að hefja aðlögun og gera ráð fyrir möguleika á nýjum sjúkdómum og nýjum loftslagsaðstæðum. Fólk kann að fá ranga greiningu af því að læknir þess kannast ekki við nýja veiru. Margar slíkar veirusýkingar hafa svipuð einkenni og flensa. Við þurfum ný tæki ásamt þjálfun til þess að glíma við nýjar áskoranir og rannsóknastofnanir þurfa að vera sveigjanlegar og sýna aðlögunarhæfni“, segir hann.
Asíska tígrismoskítflugan, Aedes albopictus, er eitt útbreiddasta dæmið um „ágenga tegund“. Hefðbundin útbreiðsla hennar er frá Pakistan til Norður-Kóreu. Hún finnst nú um allan heim og henni hefur verið lýst sem „ágengustu tegund moskítóflugu í heimi“.
Moskítóflugan er aðeins eitt dæmi um miklu víðtækari ógnun við líffræðilegan fjölbreytileika Evrópu. Framandi tegundir eða tegundir sem ekki eiga heima á viðkomandi stöðum koma sér fyrir og dreifast um álfuna fyrir tilstilli framkvæmda manna. Framandi tegundir má finna allstaðar í vistkerfi Evrópu. Hnattvæðing, einkum aukin viðskipti og ferðamennska, hefur leitt til mikillar aukningar í fjölda og gerð framandi tegunda sem berast til Evrópu.
U.þ.b. 10.000 framandi tegundir hafa verið skráðar í Evrópu. Sumar þeirra, svo sem kartaflan og tómaturinn, voru fluttar til álfunnar vitandi vits og hafa verið efnahagslega mikilvægar allt til þessa dags. Aðrar tegundir, svokallaðar „ágengar framandi tegundir“, geta valdið alvarlegum vandamálum í garðyrkju, landbúnaði og skógrækt, sem smitberar eða með því að valda skemmdum á byggingum svo sem stíflum.
Framandi ágengar tegundir breyta einnig vistkerfunum sem þær lifa í og hafa áhrif á hinar tegundirnar í þeim. Sáttmáli SÞ um líffjölbreytni tilgreinir ágengar framandi tegundir sem eina af helstu ógnununum sem steðja að líffjölbreytni um allan heim.
´For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/umhverfis-teikn/umhverfisteikn-2011-1/greinar/heilsa-i-breytilegu-loftslagi or scan the QR code.
PDF generated on 21 Mar 2023, 03:11 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 12 March 2023 21:56 from version 23.1.28
Software version: EEA Plone KGS 23.3.11
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum