næsta
fyrri
atriði

Article

Gæðum náttúrunnar skiptt

Breyta tungumáli
Article Útgefið 18 Jul 2011 Síðast breytt 21 Mar 2023
Photo: © EEA/John McConnico
Af þeim 8,2 milljörðum tonna efna sem neytt var í hinum 27 löndum ESB árið 2007 voru jarðefni 52%, jarðefnaeldsneyti 23%, lífmassi 21% og málmar 4%. (SOER 2010)

Í þúsunda kílómetra fjarlægð frá Evrópu í Orissa-fylki við Bengalflóa bruna vörubílar framhjá þúsundum saman. Þetta er Austur- Indland, víðfræg uppspretta jarðefnaauðs Indlands og stór upprunastaður efna sem efldu iðnað um allan heim á fyrri tímum. Jarðefnaauðurinn í þessum hluta Indlands er ennþá meðal hins mesta sem þekkist í heimi og iðnbyltingin þar er sennilega rétt að hefjast.

Ættbálkasamfélögin í skóginum hafa miklu að tapa og fátt að vinna. Þau eru illa vernduð, enda hafa réttindi þeirra aldrei verið skráð eða formlega viðurkennd. Í litlu ættbálksþorpi langt inni í skógunum sem þekja Gajapati-hérað búa hjónin Gangi Bhuyan og eiginmaður hennar Sukru Bhuyan með ungum börnum sínum í og á skóginum.

Í nálega fimm mánuði ársins fæða þau fjölskyldu sína af minna en hálfri ekru lands sem þau rækta í jaðri skógarins sem umlykur Raibada, þorpið þeirra. Meðan á þessum tíma stendur uppskera þau einnig grænmeti, fræ, ávexti, lækningajurtir og byggingarefni (svo sem gras) úr skóginum. Í fjóra mánuði í viðbót er hann aðalfæðuuppspretta þeirra. Án skógarins myndu þau svelta. Þá þrjá mánuði ársins sem eftir eru neyðast þau til að vinna sem verkafólk í borgum á borð við Bangalore eða Mumbai.

Auður neðanjarðar – fátækt ofanjarðar

Orissa, sem staðsett er á skaga á Austur- Indlandi við Bengalflóa býr yfir mörgum verðmætum jarðefnum. Raunar er talið að í fylkinu séu einna mestar auðlindir af öllum fylkjum Indlands. Aukinheldur eru jarðefnin í Orissa talin meðal hinna bestu í heimi.

Sú gnótt birgða af kolum, járngrýti, báxíti, krómíti, kalksteini, dólómíti, mangani, graníti, tini, nikkeli, vanadíni og gimsteinum sem þar má vinna úr jörðu veldur því að hröð iðnvæðing á sér nú stað í fylkinu. Nokkur þessara efna eru í slíku magni í Orissa að það jafngildir umtalsverðum hluta heimsbirgðanna, bæði að magni og gæðum. Því raða alþjóðleg fyrirtæki sér nú upp til að fá aðgang.

Sum jarðefnanna eru notuð á Indlandi en umtalsvert magn fer annað: til Kína, Japans, Suður- Afríku, Rússlands, Kóreu, Tælands, Malasíu, Indónesíu, Úkraínu, Nepals, Bandaríkjanna og auðvitað til Evrópusambandsins (A.B. Ota, 2006).

Brotalínur í hnattvæddum heimi

Orissa, þar sem auðurinn í jörðu myndar sterkar andstæður við fátæktina á yfirborðinu, er gott dæmi um brotalínu í hinum hnattvædda heimi. Í héraðinu koma saman ójöfnuður, þrálát sókn eftir náttúruauðlindum og nauðungarflutningar fólks. Námugröftur í Orissa færir íbúum svæðisins efnahagslegan ávinning en hann deilist engan veginn jafnt. Ásælni námufyrirtækjanna eftir aðgangi að landi ættbálkanna í skóginum stofnar heimkynnum þeirra í hættu.

Sextíu prósent þeirra íbúa Orissa sem tilheyra ættbálkasamfélögum lifa á landi sem verðmæt jarðefni eru undir. En þeir hafa engan formlegan rétt á þessu landi. Flutningar íbúa úr ættbálkasamfélögum vegna efnahagslegra þróunarverkefna, þar með talið námustarfsemi, hafa farið fram um nokkurt skeið. En umfang flutninganna hefur breyst á síðustu áratugum. Frá árinu 1991 hefur efnahagsleg þróun gert það að verkum að flutningum hefur fjölgað og þeir átt sér stað víðar (A.B. Ota, 2006).

Vaxandi áhrif af auðlindanotkun Evrópumanna

Í Evrópu er efnahagsleg þróun og auðsköpun í miklum mæli knúin áfram af notkun náttúruauðlinda. Notkun okkar á hráefnum er núna meiri en framboð þeirra í álfunni og þarf að flytja vaxandi hlutfall þeirra inn frá öðrum heimshlutum.

Yfir 20% hráefnanna sem notuð eru í Evrópu eru innflutt. Og við notum umtalsvert meiri hráefni óbeint í formi fullunninna vara sem við flytjum inn annars staðar frá.

Það er sérstaklega alvarlegt hversu mjög við þurfum að reiða okkur á innflutt eldsneyti og námuafurðir. En Evrópa er einnig nettó-innflytjandi fóðurs og kornmetis fyrir kjöt- og mjólkurframleiðslu álfunnar. Yfir helmingur þess fiskmetis sem neytt er í ESB er einnig innflutt. Við höfum þurrausið fiskistofna okkar og erum nú að endurtaka leikinn annars staðar.

Sá þrýstingur á umhverfið sem vinnsla hráefna og framleiðsla á verslunarvöru veldur – svo sem úrgangur sem til verður, vatn og orka sem notað er – hafa áhrif á upprunalöndin. Umhverfisáhrif hráefnanna geta verið veruleg – í tilviki tölva eða farsíma geta þau verið nokkrum stærðargráðum stærri en áhrif vörunnar sjálfrar. En þrátt fyrir mikilvægi slíks þrýstings endurspeglast hann sjaldnast í verði eða öðrum þáttum sem stýra ákvörðunum neytenda.

Annað dæmi um jarðargæði sem fara í framleiðslu á verslunarvöru er vatn sem þarf til ræktunar á mörgum útfluttum matar- og trefjaafurðum. Slík framleiðsla felur í sér óbeinan og oft falinn útflutning vatnsauðlinda. Til dæmis fara 84% baðmullartengdrar vatnsnotkunar ESB fram utan sambandsins, aðallega á vatnsrýrum svæðum með miklum áveitum.

  • Lesið meira og óstyttan heimildalista í
    SOER 2010

Hvert flæða gæði náttúrunnar

Notkun náttúruauðlinda tengist mörgum umhverfislegum og félags-hagrænum málefnum.

Hagfræði vistkerfa og líffjölbreytni (TEEB‑ferlið) – stærðarinnar greining á hnattrænu hagrænu mikilvægi líffjölbreytni – varpar ljósi á tengslin milli missis líffjölbreytni og fátæktar.

TEEB-rannsóknamenn leituðust við að bera kennsl á þá sem njóta góðs af fjölbreytileika vistkerfa og líffjölbreytni. „Svarið“, ritar Pavan Sukhdev, yfirmaður Verkefnis UNEP um grænt hagkerfi, „er að það eru aðallega hinir fátæku“. Þær gerðir lifibrauðs sem verða fyrir mestum áhrifum eru sjálfsþurftabúskapur, kvikfjárrækt, fiskveiðar og óformlegt skógarhögg – flestir fátæklingar heims reiða sig á þær (EC, 2008).

Missir líffjölbreytni á Indlandi hefur einnig alvarleg áhrif á konur því hann dregur úr möguleikum þeirra sem safnara í skóginum. Rannsóknir á ættbálkasvæðum í Orissa og Chattisgarh hafa leitt í ljós að skógareyðing hefur leitt til missis lífsviðurværis fólks og orðið til þess að konur þurfa að ganga ferfalda vegalengd til að safna skógarafurðum og komast ekki lengur í grös með lækningamátt sem eru uppurin. Þessi missir minnkar tekjur, eykur strit og hefur áhrif á heilsu manna. Einnig eru vísbendingar um að staða kvenna innan fjölskyldna sé betri í þorpum sem hafa aðgang að skógi enda sé framlag þeirra til tekna fjölskyldunnar þar hærri en í þorpum sem skortir aðgang að náttúruauðlindum. (Sarojini Thakur, 2008).

Í Evrópu erum við oft vernduð fyrir beinum áhrifum umhverfishnignunar, a.m.k. til skemmri tíma litið. En áhrifin geta verið mikil á fátækt fólk sem sækir sér bæði fæði og skjól beint til umhverfisins. Hinir veikustu í samfélaginu verða oft fyrir mestu tjóni af eyðileggingu náttúrulegra kerfa en fá lítið sem ekkert í staðinn.

Árlegt fjárhagstjón vegna umhverfiseyðingar er venjulega metið sem aðeins nokkur prósent þjóðarframleiðslu. Ef við hins vegar skoðum betur hin mannlegu áhrif, á grundvelli reglunnar um jafnræði og vitneskju okkar um það hvert gæði náttúrunnar flæða – þ.e. til hinna fátæku – styrkist röksemdin gegn slíkri eyðingu umtalsvert.

Þessi röksemdafærsla gildir jafnt um allan heim. Þetta snýst um rétt hinna fátæku til lifibrauðs frá náttúrunni, sem samsvarar helmingi framfærslu þeirra eða meira og þeir gætu ómögulega fundið annað lifibrauð í staðinn (EC, 2008).

ForestNáttúrulegt fjármagn og þjónusta vistkerfisins

Hugtökin „náttúrulegt fjármagn“ og „þjónusta vistkerfisins“ eru kjarnahugtök í öllum umræðum um tengsl mannkyns við umhverfið. Til að skilja þau er gagnlegt að íhuga hvað náttúruleg kerfi gera fyrir okkur.

Tökum til dæmis skóga. Skógar geta gefið af sér alls konar fæðu: ávexti, hunang, sveppi, kjöt og þannig áfram. Ef þeim er haganlega stjórnað geta þeir einnig gefið af sér sjálfbært flæði hráefna til hagkerfisins, svo sem timbur. En skógar gera margt fleira. Til dæmis hjálpa tré og gróður til við að tryggja heilbrigt loftslag, staðbundið og hnattrænt, með því að gleypa mengunarefni og gróðurhúsalofttegundir. Jarðvegur í skógum brýtur niður úrgang og hreinsar vatn. Fólk ferðast oft langt að til þess að njóta fegurðar og rósemdar skóga eða til þess að taka þátt í frístundaiðju svo sem veiðum

Öll þessi þjónusta – framleiðsla fæðu og trefja, temprun loftslags o.fl. – er verðmæt. Við myndum greiða háar fjárhæðir fyrir vélar sem gerðu það sama. Því ættum við að hugsa um vistkerfi sem nokkurs konar fjármagn, sem gefur af sér þjónustu til eigandans en oft einnig til annars fólks nær og fjær (eins og á við um temprun loftslags). Öllu skiptir að við viðhöldum náttúrulegu fjármagni okkar, þ.e. ofnýtum hvorki vistkerfið né ofmengum, ef það á að geta haldið áfram að gefa af sér þessa gríðarlega verðmætu þjónustu.

Gildi líffjölbreytni í skógum okkar

Aðalástæða þess að líffjölbreytni skóga minnkar, er að gildi hennar er ekki vel skilið. Þegar einum hektara skóglendis, auðugs af líffjölbreytni, er breytt í ræktar- eða byggingarland, er það vegna tafarlauss hagsauka sem það gefur. Hin fjölbreytta ómælanlega vistfræðilega þjónusta sem vistkerfi sem þetta veitir fær litla athygli.

Lækningajurtir í skógum Indlands

Auk þess sem á Indlandi er auðugt dýra- og plöntulíf er þar einnig að finna eitt ríkulegasta úrval heims af jurtum með lækningamátt. Þjóðir Indlands nota svo mikið sem 8.000 tegundir jurta reglulega sem lyf og koma 90–95% þeirra úr skógum. Færri en 2.000 þessara jurta eru opinberlega skráðar í indverska heilbrigðiskerfinu. Upplýsingar um allar hinar eru óskráðar og aðeins varðveittar í munnlegri geymd og sem alþýðulærdómur. Aðeins 49 tegundir eru notaðar við nútímalækningar.

Líffjölbreytni er nokkurskonar trygging gegn sjúkdómum í mönnum – þekkingarbanki sem geymir mögulega lækningu við sjúkdómum svo sem krabbameini eða alnæmi. Til dæmis inniheldur börkur cinchona-trésins lyf sem notað er gegn malaríu. Verst er, að við erum oft ómeðvituð um þann samfélagslega missi sem hlýst af aldauða tegundar.

Þessi hluti byggist á skýrslunni Verkefnið Grænt bókhald fyrir fylki Indlands: gildi líffjölbreytni í skógum Indlands (Gundimeda et al., 2006).

Möguleikarnir á því að vera kyrr

Hnattvæðing einkennist oft af flutningi – t.d. fólks, varnings, auðs og þekkingar. Kyrrstaða eða óbreytileiki telst yfirleitt ekki til forgangsmannréttinda. En skógarfólkið í Orissa og margir aðrir þrá aðeins það: að mega vera áfram þar sem það er, þar sem það hefur fæði og skjól og tengsl við fjölskyldur sínar og ættbálkinn á staðnum þar sem kynslóðunum hefur fundist þær vera öruggar og óhultar.

Reyndar ættum við, nú þegar flóðbylgjur fólks skella á borgum og öðrum þéttbýlisstöðum, að hugsa um hvernig hægt sé að hjálpa fólki til þess að vera kyrrt þar sem það er.

Permalinks

Skjalaaðgerðir