næsta
fyrri
atriði

Article

Flóknar áskoranir í samtengdum heimi

Breyta tungumáli
Article Útgefið 18 Jul 2011 Síðast breytt 11 May 2021
Photo: © EEA/John McConnico
Ein helsta ályktun mikilvægustu skýrslu EEA, SOER 2010, er augljós: „umhverfisvandamál eru flókin og einangruð verða þau ekki skiljanleg“.

Í stuttu máli þýðir þetta að umhverfismálefni eru samtengd og eru oft aðeins hluti stærra púsluspils áskorana sem við og jörðin glímum við. Sannleikurinn er sá að við búum í og erum háð samtengdum heimi sem gerður er úr mörgum stökum en tengdum kerfum – umhverfislegum, félagslegum, hagrænum, tæknilegum, pólitískum, menningarlegum o.s.frv.

Þessa hnattræna samtenging þýðir að skemmdir á einum þætti geta haft óvænt áhrif annars staðar. Hið alþjóðlega hrun fjármálakerfa á síðustu árum og vandræðin sem gosið í Eyjafjallajökli olli í flugsamgöngum eru dæmi um það hvernig skyndilegar bilanir á einum stað geta haft áhrif á heil kerfi.

Þessi samtenging er oft kölluð „hnattvæðing“ og er ekki ný. Við Evrópumenn höfum notið hnattvæðingarinnar, auðgast og verið í efnahagslegri forystu um langt skeið. Meðan á þessu hefur staðið höfum við notað mikið af jarðargæðum álfunnar sem og annarra heimsálfa. „Fótspor“ okkar eða áhrif eru mikil og virða engin landamæri.

Reyndar er talið að drifkraftar hnattvæðingarinnar muni hafa mikil áhrif í Evrópu og umhverfi hennar í framtíðinni. Við höfum enga stjórn á mörgum þeirra. Til dæmis gæti íbúafjöldi jarðar farið fram úr 9 milljörðum árið 2050, með miklum afleiðingum fyrir umhverfið. Mestur hluti fjölgunarinnar mun líklega eiga sér stað í Asíu og Afríku en aðeins 3% hennar í þróuðustu löndunum (Evrópu, Japan, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi).

Umhverfisvandamál sem tengjast hnattrænum drifkröftum breytinga

Ýmsir straumar sem eru að koma í ljós móta heiminn. Sumir þeirra eru nefndir „hnattrænir meginstraumar“ þar eð þeir ganga þvert á félagslega, tæknilega, hagræna, pólitíska og m.a.s. umhverfislega þætti. Meðal helstu drifkrafta breytinga má nefna breytileg lýðfræðileg mynstur, stöðugt örari þéttbýlismyndun, tæknibreytingar, samruna markaða, tilfærslu efnahagslegra valda og loftslagsbreytingar.

Slíkir straumar hafa mikil áhrif á alþjóðlega eftirspurn eftir hráefnum. Borgir breiða úr sér. Neysla eykst. Heimsbyggð býst við áframhaldandi hagvexti. Framleiðsla er að færast til nýrra hagkerfa sem munu eflast að mikilvægi með tímanum. Einkaaðilar gætu orðið mikilvægari fyrir stjórnmál heimsins. Og það er búist við því að tæknibreytingar verði stöðugt hraðari. Þessi „keppni út í hið óþekkta“ skapar nýjar hættur, en einnig mikil tækifæri.

Framtíðaráhrif þessara „hnattrænu meginstrauma“ er viðfangsefni eins hluta SOER og er mikilvægur þáttur Umhverfisteikna 2011. Þessir helstu straumar hafa mikil áhrif á umhverfið á allri jörðinni og stýringu okkar á auðlindum. Víða íUmhverfisteiknum 2011 er fjallað um „Hnattræna meginstrauma jarðar 2050“ þar sem við greinum lykilstraum og metum áhrif hans á umhverfið í Evrópu í framtíðinni.

Við vitum ekki hvernig jörðin muni líta út árið 2050. Eigi að síður eru margir straumar ljósir. Framhaldsþróun þeirra ræðst af þeim ákvörðunum sem við tökum núna. Í þeim skilningi er framtíðin í höndum okkar. Tökum skynsamlegar ákvarðanir. Barnabörn okkar og allir aðrir í fjölskyldunni árið 2050 munu verða okkur þakklát fyrir það.

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir