All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Það er komið fram í seinni hluta septembermánaðar og síðustu monsúnrigningarnar hafa leikið Nýju Delí grátt. Það er heitt í höfuðborg Indlands – yfir 30°C – og rakt. Rigningunni hefur slotað en vatnið er úti um allt. Nýbúið er að staðfesta að beinbrunasótt, sem moskítóflugur bera á milli manna, hafi greinst í borginni.
Ólögleg byggð sem kölluð er Yamuna Pushta eða „Yamuna-flóðgarðurinn“ í norðaustanverðri borginni, teygir sig venjulega marga kílómetra um slétturnar sitt hvoru megin við elfuna miklu. Núna liggja þessar sléttur alfarið undir vatni. Gríðarmikill straumur fólks hefur lagt undir sig hraðbrautina. Tugir þúsunda íbúa fátækrahverfanna meðfram ánni yfirgefa þau og leita skjóls.
Samfélögin slá upp búðum á hraðbrautinni með því hafurtaski sem þau eiga eftir, aðeins einu feti frá æðandi straumnum í Delí: umferðinni. Örsmátt ungbarn sefur á harðri steypunni, einn eða tvo metra frá veginum, vafið inn í teppi. Táningsstúlka greiðir vandlega sítt, svart hár sitt undir plastskýlinu þar sem hún á heimili. Önnur skrifar skilaboð á farsímann sinn meðan hún setur drykkjarvatn úr vatnsbíl á brúsa.
Þegar við hugsum um hnattvæðingu hugsum við sjaldnast um fátækrahverfi, en fólkið í Yamuna Pushta er hluti af hnattrænu fyrirbæri. Milljarðar manna safnast saman í borgum og á þéttbýlisstöðum og yfirgefa sveitina og dreifbýlið. Í fyrsta skipti í sögunni búa yfir 50% mannkyns í þéttbýli. Árið 2050 verða líklega 70% okkar þéttbýlisbúar, samanborið við minna en 30% árið 1950 (UNDESA, 2010).
Borgir ná nú einnig áður óþekktum stærðum. Vaxandi fjöldi risaborga um allan heim veldur gríðarlegu álagi á náttúruauðlindirnar sem styðja þéttbýlið. Enn hraðari vöxtur lítilla og meðalstórra borga gæti mögulega skipt ennþá meira máli frá sjónarhóli umhverfisverndar.
Í borgum safnast saman fjárfestingar- og atvinnumöguleikar, þar á hagvöxtur sér stað og aukning framleiðni. Þær bjóða betur launuð störf sem og betri aðgang að vörum, þjónustu og aðstöðu ýmis konar, bætta heilsu, læsi og lífsgæði. Þessi tækifæri freista dreifbýlisbúa og fá þá til að leita betra lífs og hærri tekna á þéttbýlisstöðum.
Sé sterk stjórnsýsla hins vegar ekki til staðar, getur hröð þéttbýlismyndun valdið miklum umhverfisvandamálum með því að auka bæði neyslu og fátækt í þéttbýli.
Samkvæmt tölum frá Búsetusjóði SÞ býr 1,1 milljarður manna í fátækrahverfum í þéttbýli um allan heim. Eftir því sem fólki heldur áfram að fjölga, flytjast stöðugt fleiri í þéttbýli og sá straumur er talinn munu þyngjast.
Meðan meirihluti þess fólks sem glímir við alvarlegan skort býr enn til sveita, býr stór og vaxandi hluti þess í þéttbýli, en sá fjöldi er þó talinn stórlega vanmetinn í opinberum tölum. Miklu skiptir að hlutfall fátækra í þéttbýli eykst hraðar í mörgum þróunarlöndum en sem nemur heildaraukningu af hlutfalli þéttbýlisbúa.
Borgir eru vistkerfi: þær eru opin og kvik kerfi sem neyta, umbreyta og losa efni og orku; þær þróa og laga sig að; þær eru mótaðar af mönnum og víxlverka við önnur vistkerfi. Þeim ber því að stjórna eins og öðrum gerðum vistkerfa.
Með því að hugsa þéttbýlishönnun, arkitektúr, samgöngur og skipulag upp á nýtt getum við látið borgir og þéttbýlisstaði vera í fararbroddi mildunar loftslagsbreytinga (t.d. sjálfbærar samgöngur, hrein orka og lítil neysla) og aðlögun (t.d. fljótandi hús eða lóðréttir garðar). Ennfremur munu almenn lífsgæði batna með betri hönnun þéttbýlissvæða sem gerir þau hljóðlát, örugg, hrein og græn. Það skapar einnig nýja möguleika á störfum með því að örva markaðinn fyrir nýjar gerðir tækni og grænan arkitektúr.
Vegna þess að fólk og starfsemi safnast saman í borgum skipta þær máli. Vandamál þeirra verða ekki leyst aðeins í heimabyggð. Þörf er á betri samþættingu stefnumörkunar og nýja stjórnsýslu sem útheimtir nánara samstarf og samhæfingu á stigum heimabyggðar, ríkja og svæða. Reyndar skiptir árangursrík stefnumörkun, sem felur í sér þátttöku allra, sköpum í þeim samtengda heimi sem við búum í.
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/umhverfis-teikn/umhverfisteikn-2011-1/greinar/borgvaeddur-heimur or scan the QR code.
PDF generated on 23 Mar 2023, 11:32 PM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 12 March 2023 21:56 from version 23.1.28
Software version: EEA Plone KGS 23.3.11
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum