Strendur og höf

Breyta tungumáli
Page Síðast breytt 03 Jun 2016
Athafnir manna eru að valda breytingum á umhverfi vistkerfa strandsvæða og vistkerfa hafsins. Slíkar breytingar hafa aldrei átt sér stað fyrr í þessum mæli. Álag vegna fiskveiða, mengunar frá uppsprettum á landi og á sjó, borgarmyndun, tap og eyðing mikilvægra búsvæða, og innrásir framandi tegunda eru vaxandi vandamál um allan heim. Öll þessi áhrif eru líkleg til að versna vegna breytinga á loftslagi.

Evrópa er umkringd fjórum hafsvæðum: Miðjarðarhafi, Svartahafi og Eystrasalti, og Norður Atlantshafi sem einnig nær yfir Norðursjó. Evrópa stendur einnig fyrir ýmsum aðgerðum á hafsvæðum heimskautasvæða.

Aðgerðir manna takmarkast oft við strandsvæði sem eiga erfiðast með að vinna úr afleiðingum athafna mannsins og þar sem neikvæðar afleiðingar eru hvað augljósastar. Aðal ógnin við strandsvæði Evrópu er vatnsmengun og ofauðgun, tap líffræðilegs fjölbreytileika, stækkun borga, hnignun landslags og rof strandsvæða.

Hafsvæði Evrópu og strandsvæði: áhugaverðar staðreyndir

 • Það hafsvæði sem er undir lögsögu aðildarríkja ESB er stærra en heildarflatarmál alls landsvæðis innan ESB.
 • ESB er með strandlengju upp á 68 000 km - sem er 3 sinnum lengri en strandlengja Bandaríkjanna og næstum því tvisvar sinnum lengri en strandlengja Rússlands; og séu lönd EES, Ísland, Noregur og Tyrkland tekin með, þá er strandlengjan 185 000 km.
 • Næstum helmingur af íbúum ESB búa innan við 50 km frá hafinu; meirihluti íbúanna lifir á þéttbýlissvæðum meðfram strandlengjunni. Árið 2001, bjuggu 70 milljónir manna eða 14% allra íbúa innan ESB í innan við 500 metra fjarlægð frá ströndinni.
 • Hafið og strandlengjan er vinsælasti ferðamannastaður Evrópu: 63% af þeim sem velja að taka sér frí í Evrópu velja sér ströndina sem áfangastað. Til dæmis, er talið að 8 milljón til 10 milljón stangveiðimanna veiði fisk sér til ánægju eða sem íþrótt, sem styður við evrópskan veiði-iðnað sem skilar 8 milljörðum til 10 milljörðum Evra á hverju ári.
 • Efnahagslegar eignir sem eru í minna en 500 metra fjarlægð frá ströndinni hafa verðgildi sem er metið frá 500 milljörðum Evra upp í 1 000 milljarða Evra.
 • Opinber útgjöld ESB vegna verndar strandsvæða vegna hættunnar á rofi eða flóðum eru talin munu nema 5,4 milljörðum Evra á ári á tímabilinu 1990 til 2020.

[EC, 2006: Maritime Facts and Figures (skoðað 27. september 2010)]

Um strandsvæði og hafsvæði

Regional sea characteristics

Staðbundin einkenni hafsvæða

Hafsvæði Evrópu ná til Eystrasaltsins, Svartahafs, Norð-Austur Atlantshafs og Miðjarðarhafs. Norð-Austur Atlantshafið nær til Norðursjávar, en einnig til Íshafsins, Barentshafs, Írska hafs og Keltneska hafsins, Biskajaflóa og strandlengju Íberíuskagans.

Eystrasaltið er hálf lokað innhaf með lágri seltu vegna takmarkaðra vatnsskipta við Norð-Austur Atlantshafið, og vegna mikils ferskvatns sem berst til hafsins frá vatnsföllum. Þessi skilyrði gera hafið sérstaklega viðkvæmt fyrir mengun vegna næringarefna.

Svartahafið er einnig hálf lokað; það er stærsta innlands-vatnasvæði heims og vatnsskipti við Miðjarðarhafið eru takmörkuð. Vatn Svartahafs er súrefnisfirrt á dýptarbili frá 150 metrum niður á 200 metra dýpi. Selta yfirborðssjávar í Svartahafi er innan meðal marka. Stærstur hluti Svartahafs er talinn fela í sér óunna olíu og jarðgas, og könnun á möguleikum olíu- og jarðgasvinnslu er í gangi.

Miðjarðarhafið er einnig hálflokað haf með mikla seltu vegna mikils hraða uppgufunar og vegna þess að lítið af ferskvatni berst til hafsins. Það hefur takmörkuð vatnsskipti við Atlantshafið og Svartahaf. Það er það haf í Evrópu sem býr yfir mestum líffræðilegum fjölbreytileika.

Norð-Austur Atlantshafið nær yfir nokkur mismunandi höf og þar er loftslag mjög mismunandi eftir svæðum. Það er haf með mikla líffræðilega framleiðslu, og þar er að finna verðmætustu fiskimið Evrópu og mörg einstök búsvæði og vistkerfi. Það er einnig það svæði sem inniheldur mest af óunninni olíu og jarðgasi í Evrópu.

Ströndin er skilgreind sem það svæði þar sem land og haf mætast. Í þeim 24 löndum sem hafa strandsvæði og eru aðilar að EES eru 560 000 km2 af strandsvæðum, sem samsvarar 13 % af heildar landi þessara ríkja (byggt á Corine Land Cover gögnum frá 2000).

Djúpsjórinn og hafsbotninn mynda umfangsmikið og flókið kerfi sem tengist öðrum hlutum reikistjörnunnar gegnum hringrásir efna, orku og líffræðilegs fjölbreytileika. Djúpsjávar vistkerfin og starfsemi þeirra ræður úrslitum varðandi hinar stóru hnattrænu líf-jarðefnafræðilegu hringrásir sem stór hluti lífs á jörðinni, og siðmenning mannkynsins, er algjörlega háður. Djúpsjávarvistkerfi er að finna bæði í Evrópska hluta og alþjóðlegum hluta Atlantshafsins og Íshafsins. Við tölum venjulega um djúpsjó þegar verið er að ræða um dýpi sem er meira en 400 metrar.

Hnignun sjávar- og strandarvistkerfa hefur komið fram í Eystrasalti, Svartahafi, Miðjarðarhafi og í Norð-Austur Atlantshafi og einnig í Norður-Íshafinu. Athafnir sem hafa áhrif á umhverfið eru afleiðing af því að við erum að mæta skammtíma mannlegum þörfum, en athafnirnar hafa áhrif á tegundir og búsvæði sem hafa þróast í þúsundir, ef ekki milljónir ára - og áhrifin ganga stundum ekki aftur til baka.

Þessar athafnir tengjast mikilli fólksfjölgun og auknu þéttbýli meðfram ströndum Evrópu, fiskveiðum, mengun frá landbúnaði, efnum frá iðnaði, þróun ferðaþjónustu, skipaflutningum, innviðum endurnýjanlegra orkugjafa og öðrum athöfnum sem tengjast hafinu.

Einstök vandamál:

 • Þrátt fyrir miklu betri meðhöndlun afrennslisvatns, er mengun næringarefna sem kemur frá dreifðum uppsprettum í landbúnaði áfram stórt vandamál á strandsvæðum og í sjávarumhverfi; mengunin hraðar vexti þörunga og getur leitt til útbreidds skorts á súrefni (súrefnisfirrð).
 • Styrkur sumra þungmálma og þrávirkra lífrænna efna í sjávarlífverum fer yfir mörk um matvæli á völdum sýnatökustöðum á öllum evrópskum hafsvæðum. Stórir olíulekar og olíuslys hafa orðið sjaldgæfari, en losun olíu frá hefðbundinni starfsemi, eins og frá flutningum og olíuhreinsistöðvum er ennþá umtalsverð. Þessi efni geta safnast upp í fæðukeðjunni.
 • Ágengar tegundir dreifast með skipaferðum og fiskeldi, og geta haft mjög eyðileggjandi áhrif og afleiðingar fyrir vistkerfi og samfélög. Árlegt efnahagslegt tjón vegna ágengra tegunda í vatnaumhverfi er talið vera meira en 100 milljarðar Bandaríkjadalla í heiminum öllum. 
 • Ósjálfbærar fiskveiðar eiga sér stað á öllum hafsvæðum Evrópu, og skapa hættu fyrir framtíð evrópskra fiskistofna. Eyðileggjandi fiskveiðiaðferðir - eins og botnvörpuveiðar - halda áfram. Fiskar, fuglar, spendýr og skjaldbökur festast einnig í netunum, og búsvæði hafsins og vistkerfi þjást af þeim sökum. Fiskveiðar geta hugsanlega breytt vistkerfum hafsins.
 • Jafnvel þótt verndun sjávar- og strandsvæða og tegunda batni með því að afmarka strandsvæði og hafsvæði sem hluta af Natura 2000, hefur það ferli verið hæggengt og erfitt. Staða sumra strandsvæða og flestra hafsvæða er áfram ómetin og óþekkt; 22% af spendýrum hafsins eru í útrýmingarhættu.
 • Ferðaþjónusta, sem er ábyrg fyrir þróun þéttbýlis meðfram Miðjarðarhafsströndinni, er núna orðin aflgjafi þróunar á strönd Svartahafsins líka.
 • Loftslagsbreytingar valda því að yfirborðshiti sjávar og sjávarborð hækkar. Tegundir á hafsvæðum og strandsvæðum eru að breyta landfræðilegu og árstíðarbundnu útbreiðslusvæði sínu til að bregðast við þessum breytingum; stjórnun fiskveiða og náttúrulegra búsvæða mun í auknum mæli þurfa að aðlagast þessum breytingum til að tryggja umhverfislega sjáflbærni. Sýrustig hafsins mun halda að lækka sem svörun við auknum styrk CO2 í lofthjúpnum; kóralrifum á svæðum sem tilheyra Evrópu, sem eru miðstöðvar líffræðilegs fjölbreytileika, er ógnað bæði vegna hækkaðs hitastigs og súrnunar hafsins.

Stefna Evrópusambandsins

Það að leysa umhverfisvanda strandlengju og hafsvæða Evrópu, krefst viðbragða við stefnumótun sem starfar þverfaglega yfir ólík stjórnunarsvið er tengjast vatni, náttúru, mengun, fiskveiðum, loftslagsbreytingum og landnotkunarskipulagi. Sögulega séð, hafa þetta verið talin vera ólík stjórnsvið, en með upptöku rammaáætlunar um hafsvæði Marine Strategy Framework Directive (MSFD) árið 2008, er verið að bregðast við á samþættan og þverfaglegan hátt: nálgunin við stjórnun nær til alls vistkerfisins og setur þau markið að ná góðri stöðu umhverfismála með tilliti til margra einstakra umhverfisþátta. MSFD er stutt af rammatilskipuninni um vatn (Water Framework Directive (WFD)) sem stjórnar vistfræðilegri stöðu kerfa á strandsvæðum og ísöltum svæðum með því að skoða álag vegna næringarefna, efnasambanda og vatnaformfræði, og einnig stutt af tilskipunum um búsvæði og fugla  sem setja fram verndunarmarkmið fyrir sum búsvæði og sumar tegundir á haf- og strandsvæðum.

Vöxtur þeirra greina atvinnulífsins er lúta að hafinu, siglingum, landbúnaði og ferðaþjónustu er talinn munu halda áfram að aukast; mikilvægt framtíðar markmið fyrir MSFD er að tryggja að sá vöxtur verði umhverfislega sjálfbær með ýmsum stjórnunaraðgerðum. Slíkar áætlanir er hægt að styðja samkvæmt innleiðingu viðmiða við áætlanagerð sem samræmast Áætlun um samþætta stjórnun strandsvæða - Integrated Coastal Zone Management (ICZM) og Hafnotkunarskipulagi - Maritime Spatial Planning (MSP).

Jafnvel þótt MSFD skilgreini umhverfismarkmið fyrir stöðu fiskistofna, er öllum þáttum fiskveiða stjórnað af almennri fiskveiðistefnu ESB (CFP). Ný endurskoðuð stefna verður tekin upp árið 2012.

Tengdir tenglar

 • MSFD krefst góðs umhverfislegs ástands fyrir marga líffræðilega þætti, þar með talið ástand fiskistofna á hafsvæðum ekki seinna en árið 2020. Stefnan er talin munu draga úr álagi og áhrifum mengunar á hafsvæði og umhverfi þeirra.
 • ICZM mælir með þróun áætlana til að ná sjálfbærri þróun strandsvæða.
 • MSP er tæki sem styður við þróun áætlana fyrir sjálfbæra notkun hafsins með því að kalla saman margvíslega notendur gæða hafsins.
 • WFD krefst góðs umhverfislegs ástands eða góðra vistfræðilegra möguleika fyrir líffræðilega og efnafræðilega þætti á óshólmum og á strandsvæðum innan ESB ekki síðar en árið 2015, og reiknað er með að stefnan muni draga úr álagi og áhrifum mengunar á óshólma og strendur. Hún mun einnig dragar úr breytingum vegna vatnaformfræðilegra breytinga.
 • Tilskipun um nítrat sem miðar að því að draga úr mengun nítrats frá landbúnaði;
 • Tilskipun um hreinsun skólps og affallsvatns í þéttbýli sem miðar að því að draga úr mengun frá skólphreinsistöðvum og vissum tegundum iðnaðar;
 • Tilskipanir ESB um búsvæði og fugla (sjá náttúrulöggjöf ESB) mynda hornstein stefnu ESB um náttúruvernd. Tilskipunin um búsvæði byggir á tveimur meginstoðum: Natura 200 netkerfi af vernduðum svæðum og ströngu kerfi sem verndar einstaka tegundir.
 • Ógn loftslagsbreytinga er mætt hnattrænt af Rammasamningi Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar - United Nations Framework Convention on Climate Change (UNFCCC). Kyoto bókunin setur bindandi losunarmarkmið fyrir þau ríki sem hafa undirritað og fullgilt samninginn, eins og aðildarríki ESB. Fáðu frekari upplýsingar um stefnu ESB í loftslagsmálum.
Skjalaaðgerðir
Áskriftir
Nýskráning til þess að fá skýrslur frá okkur (á prentuðu og/eða rafrænu formi) og ársfjórðungslegt e-fréttabréf.
Fylgjast með okkur