næsta
fyrri
atriði

Article

Spanskir sniglar og aðrar framandverur - Líffræðilegur fjölbreytileiki Evrópu rýrnar með ógnvænlegum hraða

Breyta tungumáli
Article Útgefið 03 Apr 2009 Síðast breytt 11 May 2021
Hefur þú gaman af garðyrkjustörfum? Ef svo er og þú átt heima í Mið- eða Norður-Evrópu er líklegt að 'spanski snigillinn' sé einn af verstu óvinum þínum. Snigillinn eirir hvorki grösum né grænmeti og ekkert virðist bíta á hann.

Spanski snigillinn tók að dreifast um Evrópu fyrir u.þ.b. 30 árum og fór þá milli landa sem egg í mold í blómapottum. Þetta er einn helsta leið hans til að ná fótfestu á nýjum svæðum.

Spanski snigillinn er bara eitt af mörgum dæmum um þá miklu ógn sem líffræðilegum fjölbreytileika Evrópu er búinn af framandi lífverum sem berast um meginlandið fyrir tilstilli mannanna. Flestar þessar lífverur ferðast sem laumufarþegar um veröldina. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika er því haldið fram að hættan af ágengum framandi lífverum sé ein versta ógn sem líffræðilegur fjölbreytileiki heimsins stendur frammi fyrir.

Framandi lífverur hafa komið fram á nýjum stöðum allt frá því menn fóru að ferðast milli staða og stunda verslun.

Aukin verslun, landafundir og stofnun nýlendna frá því á sautjándu öld olli því, meðal annars, að skepnur eins og brúna rottan kom sjóleiðina frá Asíu til Evrópu en þar var hún áður óþekkt.

Um 10 000 framandi lífverur hafa verið skráðar í Evrópu. Sumar þeirra, eins og t.d. kartaflan og tómaturinn, voru fluttar af ásettu ráði og hafa frá upphafi haft mikla efnahagslega þýðingu. Ýmsar aðrar, svokallaðar 'ágengar framandi lífverur' gera mikinn usla í garðrækt, landbúnaði og skógrækt sem sóttberar, eða valda tjóni á öðrum sviðum , eins og t.d. þær sem skemma mannvirki eins og hús og stíflur.

Ágengar framandi lífverur valda einnig breytingum á vistkerfunum sem þær lifa í og hafa áhrif á aðrar lífverur í þeim. Sem dæmi má nefna að nýleg rannsókn á blóðarfa, sem menn fluttu til Evrópu á nítjándu öld frá Austur-Asíu sem skrautplöntu, hefur sýnt að hin hraða útbreiðsla hennar hefur valdið miklum áföllum meðal upphaflegra plantna og skordýra í Bretlandi og Frakklandi.

Snigillinn sem hefur vísindaheitið Arion lusitanicus, er einnig 'spænskur snigill' vegna þess að hann er upprunninn á Pyreneaskaganum. Hann er tvíkynja og dreifir sér mjög ört. Hann er miklu grimmari en venjulegir svartir sniglar og étur hiklaust minni snigla.

Kostnaður

Ágengar framandi lífverur hafa iðuleg í för með sér mjög mikinn kostnað fyrir löndin þar sem þær setjast að. Aðflutt illgresi spillir evrópskri uppskeru og álmsýki, sem innfluttur sveppur veldur, hefur stórskaðað álmskóga í Mið-Evrópu. Grár íkorni frá Ameríku sem fluttur var til Bretlands veltir úr sessi rauða íkornanum sem er upprunalegur í landinu. Erfitt er að leggja mat á þann skaða sem af því hlýst, en að auki skemmir grái íkorninn barrtré og dregur úr verðmæti þeirra sem smíðaviðar.

Kostnaðurinn af þeim skaða sem ágengar framandi lífverur valda í Bandaríkjunum og af öllu því sem gert er til að halda þeim í skefjum er áætlaður 80 milljarðar evra á ári. Samkvæmt fyrstu áætlunum í Evrópu er kostnaðurinn þar umfram 10 milljarðar evra á ári. Þá er ekki tekið tillit til skæðra sóttkveikja er leggjast á menn (t.d. HIV eða inflúensuveira) eða meiriháttar faraldra dýrasjúkdóma.

Stjórnunarlegar aðgerðir til að fækka (eða útrýma) ágengum framandi lífverum eru erfiðar, þungar í vöfum og dýrar. Framkvæmdastjórn Evrópu styður verkefni á sviði náttúrustjórnunar í gegnum EU LIFE reglugerðina. Sjóðir LIFE eru notaðir í sífellt auknum mæli fyrir verkefni er snerta ágengar framandi lífverur og fjárframlögin fyrir þennan lið eru nú næstum 14 milljónir evra fyrir þriggja ára tímabil.

Líffræðilegur fjölbreytileiki í víðara samhengi

Með líffræðilegum fjölbreytileika er átt við margbreytilegar birtingarmyndir lífsins á jörðinni. Með hugtakinu er átt við náttúrleg auðæfi jarðarinnar sem eru grundvöllur þess að við lifum og þrífumst. Þessi fjölbreytileiki er jafnframt undirstaða margskonar gunn-gæða sem við njótum, eins og t.d. vatnsins sem við drekkum og loftsins sem við öndum að okkur. Hann gerir það að verkum að blómin frjóvgast og að við fáum mat til að næra okkur, hann stýrir veðráttunni og hreinsar úrganginn eftir okkur.

Án þessafjölbreytileika héldum við ekki lífi. Í því ljósi má líta svo á að hann sé líftryggingaskírteini sem jörðin okkar hefur gefið okkur. Gildi hans má bera saman við það sem gerist á fjármálamörkuðum, þar sem fjölbreytt eignasafn með mörgum hlutabréfum, tengdum lífverum, tryggir okkur gegn áföllum.

Á vorum dögum rýrnar líffræðilegur fjölbreytileiki með ógnvænlegum hraða, og stafar það fyrst og fremst af því hvernig við níðumst á náttúrunni til að halda framleiðslu, neyslu og viðskiptum gangandi í því hnattræna efnahagskerfi sem við búum við. Eyðing búsvæða og sundurhlutun lands vegna eyðingar skóga og opinna svæða til að skapa rými fyrir byggingar; framræsla votlendis og stíflur í ám fyrir landbúnað; skefjalausar fiskveiðar: Þetta eru helstu ástæður þess að líffræðilegum fjölbreytileika hnignar óðum.

Margir náttúruverndarsinnar líta svo á að innrás ágengra framandi lífvera sé  önnur mesta ógnin sem líffræðilegum fjölbreytileika er búinn um víða veröld. Hvort sem sú innrás er af ásettu ráði eða fyrir slysni, geta lífverur af þessu tagi valdið fólki, viskerfum og þeim plöntum og dýrum sem fyrir eru, miklum búsifjum. Gert er ráð fyrir að þessi vá haldi áfram að versna á þessari öld vegna loftlagsbreytinga, vaxandi heimsviðskipta og ferðamennsku.

Aðrar helstu orsakir hnignandi fjölbreytileika eru mengun, loftslagsbreytingar og ofnýting auðlinda. Vegna þess að fyrirséð er að fólkinu á jörðinni fjölgi upp í níu milljarða árið 2050 úr þeim 6,7 milljörðum sem nú lifa, má ætla að tjónið af völdum núverandi ógnvalda haldi áfram að vaxa.

 

Vaxandi ógn af ágengum framandi lífverum í Evrópu

Ágengar framandi lífverur er að finna í öllum vistkerfum Evrópu. Hnattvæðingu fylgja sívaxandi viðskipti og mikil aukning í ferðamennsku og af því hefur hlotist gríðarmikil fjölgun framandi lífvera af ýmsu tagi í Evrópu.

Hafsvæði og strandhéruð hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Ágengum framandi lífverum hefur fjölgað gífurlega þar vegna aukinna skipaferða og tilkomu skipaskurða – Ennþá berst mjög mikið af nýjum lífverum eftir Suezskurðinum inn í Miðjarðarhafið. Svo mikið berst af nýjum lífverum með sjó úr botngeymum skipa að gerður hefur verið alþjóðlegur samningur um kjölfestuvatn (International Convention for the Control and Management of Ships Ballast Water & Sediments) til að 'afstýra og halda í lágmarki flutningum skaðlegra vatnalífvera og sóttkveikja, og að lokum stöðva þá með öllu'.

Aðgerðir til að halda vágestum í skefjum

Besta vörnin gegn ágengum framandi lífverum er stöðug árvekni og fyrirbyggjandi ráðstafanir – nokkurskonar landamæraeftirlit til að stöðva nýjar tegundir. Næstu skref eru leit til að tryggja að lífverurnar finnist sem fyrst svo og áframhaldandi eftirlit.

Mjög gott dæmi um þetta er risahvönnin, Heracleum mantegazzianum, sem var flutt til Evrópu sem skrautjurt á

19. öldinni. Nú er ástandið orðið þannig að mikið átak er í gangi til að stemma stigu við útbreiðslu þessarar plöntu, einkum á graslendi og meðfram vegum og brautarteinum og á árbökkum. Plantan breiðir mikið úr sér og skyggir á þann gróður sem fyrir er. Risahvönnin er eitruð og ef hún kemst í samband við húð getur hún valdið slæmum sárum, einskonar brunasárum. Nú er sennilega orðið of seint að uppræta hana í Evrópu, en ef gripið hefði verið í taumana nógu snemma (ekki seinna en á sjötta áratugnum) hefði það getað tekist.

Í samræmi við þetta hefur Framkvæmdastjórn Evrópu í nýlegri tilkynningu um líffræðilegan fjölbreytileika lagt áherslu á þörfina fyrir viðvörunarkerfi vegna ágengra framandi lífvera. EEA hefur brugðist við ásamt aðildar- og samstarfslöndum sínum og ætlar að koma upp upplýsingakerfi sem nær yfir alla Evrópu til að finna, meta og bregðast við nýjum og vaxandi innrásum framandi lífvera.

Dauðalistinn lengist

Framandi lífverur sem berast á okkar slóðir eru af öllu mögulegu tagi. Sumar eru fluttar til okkar af ásettu ráði og hafa mikla efnahagslega þýðingu, aðrar hafa lítil áhrif, en sumar hafa valdið gífurlegum skaða. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa í taumana og fara af stað með efirlits- og stjórnunaraðgerðir. Fyrstu skrefin yrðu þau að finna hættulegustu tegundirnar svo hægt sé að beina aðgerðunum sérstaklega gegn þeim.

Til að fá betri skilning á eðli ágengra framandi tegunda og hvaða áhrif þær hafa á líffræðilegan fjölbreytileika í Evrópu, hefur EEA, með stuðningi ýmissa sérfræðinga tekið saman lista yfir verstu ágengu tegundirnar sem ógna líffræðilegum fjölbreytileika í Evrópu.

Á listanum eru nú 163 tegundir eða tegundaflokkar. Tegundum er bætt á listann ef þær eru mjög útbreiddar og/eða þær valda miklum spjöllum á líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfum á hinum nýju vistsvæðum sínum.

Tegundirnar á listanum, en af þeim eru æðplöntur stærsti flokkurinn, samtals 39 tegundir, hafa veruleg áhrif á hinn upprunalega líffræðilega fjölbreytileika, annaðhvort erfðafræðilega, tegundarlega eða hvað varðar vistkerfi. Margar þessar tegundir hafa einnig áhrif á heilsu manna og efnahagslífið. Frá 1950 hafa að jafnaði fleiri en ein af tegundunum á listanum náð öruggri fótfestu á ári hverju og engar augljósar vísbendingar eru um að ástandið sé að lagast ( Mynd 1).

Lífverurnar á þessum lista eru frá ýmsum heimshornum, einkum þó frá Asíu og Norður-Ameríku ( Mynd 2). Reyndar koma margar þeirra frá ákveðnum svæðum í Evrópu en hafa verið fluttar til annarra staða álfunnar.

Mynd. 1 / Dreifing þeirra ágengu framandi lífveranna sem helst ógna líffræðilegum fjölbreytileika í Evrópu. Heimild: EEA, 2007.

Mynd. 2 / Upprunastaðir land- og vatnalífvera sem taldar eru ágengustu lífverurnar og þær sem mest ógna líffræðilegum fjölbreytileika Evrópu. Heimild: EEA, 2007.

Hvað er framundan?

Aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að vinna gegn ágengum framandi lífverum felast meðal annars í stjórnun og enduruppbyggingu, sem er yfirleitt bæði erfitt og kostnaðarsamt.

Sem dæmi má nefna að aðgerðir til að halda spönskum sniglum í skefjum hafa kostað mikla fyrirhöfn, duga bara á takmörkuðum svæðum og skamman tíma. Samt má ekki slaka á.

Í ESB löndunum hefur þegar verið reynt að vinna gegn ágengum framandi lífverum með sérstökum stjórnunaraðgerðum og enduruppbyggingu fyrir fé í gegnum LIFE reglugerðina.

Á árunum 1992–2002, var veitt 40 milljónum evra til verkefna gegn ágengum framandi lífverum og fárframlögin fara vaxandi. ESB fjármagnar líka rannsóknir á þessum lífverum innan 'áætlunar fyrir rannsóknir og tækniþróun'.

Vandi ágengra framandi lífvera hverfur ekki. Hnattvæðingin og loftlagsbreytingarnar (lífverur flytjast milli svæða vegna breytinga á náttúrlegum búsvæðum) munu gera það að verkum að þeim mun fjölga mikið sem með einhverjum hætti komast í kynni við þessar lífverur,. Þörf er á auknum skilningi almennings og stjórnvalda til að tryggja meiri framlög til að eftirlits með helstu inngönguleiðum þeirra, og vakta þarf líklegustu svæðin til að finna lífverurnar fljótt. Við þurfum líka að vera vel á verði og eyða samstundis óæskilegum lífverum.

 

Heimildir

DAISIE, 2008. Delivering Alien Invasive Species Inventories for Europe.

EEA, 2007. Europe's environment — The fourth assessment. Copenhagen.

European Commission, 2006. Communication from the Commission. Halting the loss of Biodiversity by 2010 — and beyond. Sustaining ecosystem services for human well-being. COM/2006/0216 final.

IMO, 2004. International Maritime Organisation. Conventions.

Kettunen, Genovesi, Gollash, Pagad, Starfinger, ten Brink & Shine, work in progress.

Scalera, R., 2008. How much is Europe spending for invasive alien species? Report to EEA.

Weidema, I., 2000. Introduced Species in the Nordic Countries. Nord Environment 2000:13.

Permalinks

Skjalaaðgerðir