All official European Union website addresses are in the europa.eu domain.
See all EU institutions and bodiesGerðu eitthvað fyrir plánetuna okkar, prentaðu einungis þessa síðu ef þú þarft þess. Jafnvel lítil aðgerð getur haft gríðarleg áhrif ef milljónir manna gera hið sama!
Article
Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um græna innviði er áætluninni lýst sem tæki til ná fram vistfræðilegum, efnahagslegum og félagslegum ávinningi með náttúrulegum lausnum sem auðvelda okkur að gera okkur grein fyrir þeim kostum sem náttúran veitir samfélagi manna og til að greiða fyrir fjárfestingum sem viðhalda þeim ávinningi og auka hann. Með öðrum orðum er það net náttúru, hálfnáttúrulegra svæða og grænna svæða sem veita vistkerfisþjónustu sem renna stoðum undir vellíðan og lífsgæði fólks.
Grænir innviðir hafa margvísleg hlutverk og skapa ýmsan ávinning innan sama landsvæðis. Þessi hlutverk geta verið umhverfislegs eðlis (t.d. viðhald líffræðilegrar fjölbreytni eða aðlögun að loftlagsbreytingum), félagsleg (t.d. gerð vatnsfráveitu eða grænna svæða) og efnahagsleg (t.d. atvinnusköpun og hækkun fasteignaverðs). Gráir innviðir uppfylla hins vegar yfirleitt aðeins eitt hlutverk, s.s. fráveitu eða flutninga. Grænir innviðir eru því eftirsóknarverðari í ljósi þess að þeir geta leyst nokkur vandamál samtímis. Hefðbundnir gráir innviðir eru enn nauðsynlegir en oft má styrkja þá með náttúrulegum lausnum.
Til dæmis er hægt að nota græna innviði til að draga úr magni rigningarvatns sem rennur inn í fráveitukerfi og á endanum í vötn, ár og læki með náttúrulegum gleypni- og geymslueiginlekum gróðurs og jarðvegs. Ávinningur grænna innviða í því tilfelli gætu t.d. verið upptaka kolefna, bætt loftgæði, hömlun gegn hitaeyjum borga, myndun vistarvera villtra dýra og útivistarsvæða. Græn svæði eiga líka sinn þátt í varðveislu menningarlegs og sögulegs landslags, geta gefið stöðum auðkenni og hafa áhrif á útlit þéttbýlissvæða þar sem fólk starfar og býr. Rannsóknir sýna að lausnir grænnar innviða séu ódýrari en gráir innviðir og skila margvíslegum öðrum ávinningi fyrir hagkerfið, félagslega gerð og víðara umhverfi.
Grænir innviðir eru tiltölulega ný og flókin hugmynd og á þeim er engin ein viðurkennd skilgreining. Nægileg magngreining hefur ekki farið fram og vísa skortir. Þar af leiðandi eiga stefnumótendur erfitt með að innleiða græna innviði inn í stefnumörkun. Hins vegar eru nokkrir þættir grænna innviða sem þetta á ekki við um. Til dæmis eru hlutverk vistvega og náttúrulegra vatnsstjórnunarkerfa á borð við græn þök yfirleitt skýr og mælikvarðar eru til staðar til að meta árangur þeirra.
Fjárhagsleg rök grænna innviða geta einnig virst flókin en fyrir utan að hafa í för með sér margvíslegan ávinning eins og getið er hér að framan eru grænir innviðir oft ódýrari, traustari og sjálfbærri. Svo í stað þess að notast sjálfkrafa við gráar lausnir eins og skurði og leiðslur til flóðavarna ættu skipulagsvöld fyrst að horfa til þess ávinnings sem stafar af endurheimt flæðilands og votlendis.
Að síðustu eru grænir innviðir hluti af áætlun ESB um líffræðilega fjölbreytni. Þeir eru þó meira en bara tæki til varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Þá má nýta við innleiðingu á markmiðum stefnu ESB hvað varðar svæðisþróun og dreifbýlisþróun, loftslagsbreytingar, stjórnun á hamfaraáhættu, landbúnað og skógrækt og umhverfi.
Áætlun ESB um græna innviði mælir fyrir fullri innleiðingu á grænum innviðum í stefnum ESB þannig að þeir verði staðalþáttur í svæðisþróun innan sambandsins. Áætlunin viðurkennir einnig að græna innviði má nýta í mörgum stefnumálum ESB þar sem ná má markmiðum með náttúrulegum lausnum og setur notkun grænna innviða í samhengi við stefnumörkunina Evrópa 2020.
Auk þess miðar áætlunin um líffræðilega fjölbreytni að því að tryggja að árið 2020 sé vistkerfum og þjónustu þeirra viðhaldið og aukin með því að koma á grænum innviðum og endurheimta a.m.k. 15% af eyddum vistkerfum. Hún fer einnig fram á að aðildarríki kortleggi og meti ástand vistkerfa og þjónustu þeirra í hverju landi. Þessi vinna mun nýtast við mat á efnahagslegu virði vistkerfaþjónustu og örva innleiðingu á þessum gildum inn í bókhalds- og tilkynningakerfi innan ESB og á landsstigi fyrir árið 2020.
Grænir innviðir eru einnig viðurkenndir á öðrum sviðum í stefnu ESB, sér í lagi í sjöundu aðgerðaáætlun á sviði umhverfismála (7EAP), byggðastefnunni 2014–2020, rammatilskipuninni um vatn, tilskipuninni um nítröt, flóðatilskipuninni og áætlun ESB um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Öll þessi verkefni munu vonandi leiða til bættrar notkunar á grænum innviðum sem tæki til stefnumótunar og gerð staðbundinna lausna.
EEA hefur tekið þátt í rannsóknum á grænum innviðum til að aðstoða stefnumótendur og almenning. Árið 2011 gáfum við út skýrsluna Green infrastructure and territorial cohesion (grænir innviðir og samheldni milli svæða) þar sem undirstrikað er mikilvægi þess að þróa tæki til að greina og mæla græna innviði og aðstoða við forgangsröðun og markmiðasetningu. Sú skýrsla var einnig tekin inn í orðsendingu ESB um græna innviði.
Rannsókn EEA Spatial analysis of green infrastructure in Europe (svæðisgreining á grænum svæðum í Evrópu) leggur mat á græna innviði sem vistfræðilegt og landfræðilegt hugtak til að ýta undir heilbrigði og sveigjanleika vistkerfa, aðstoða við viðhald líffræðilegrar fjölbreytni og ávinning fyrir mannfólk með því að hvetja til vistkerfaþjónustu á borð við mótvægi við loftslagsbreytingar, veitingu lykilbúsvæða fyrir lífverur og tenginu búsvæða.
Í burðarliðnum er framhaldsskýrsla EEA, „Exploring nature-based solutions", þar sem fjallað er um hlutverk grænna innviða í baráttu við áhrif náttúruhamfara af völdum veðurfars- og loftslagsbreytinga. Hún byggir á fyrri skýrslum og sýnir fram á hlutverk grænna innviða í baráttunni við skaðleg áhrif öfgakenndra veður- og loftlagsfyrirbrigða, sem er ein dýrusta og mannskæðasta náttúruvá í Evrópu og um heim allan. Í skýrslunni er sjónum beint að tilteknum fyrirbrigðum sem að öllum líkindum munu magnast vegna loftslagsbreytinga, t.d. aurskriður, snjóflóð, vatnsflóð og storma. Auk þess snertir skýrslan á hlutverki grænna innviða og vistkerfisþjónustu við reglusetningu í loftlagsmálum á heimsvísu.
Gorm Dige
Viðtalið birtist í tölublaði 2015/3 í fréttabréfi EEA, í september 2015.
For references, please go to https://www.eea.europa.eu/is/articles/graenir-innvidir-betra-lif-med or scan the QR code.
PDF generated on 08 Oct 2024, 11:11 AM
Engineered by: Vefteymi EEA
Software updated on 26 September 2023 08:13 from version 23.8.18
Software version: EEA Plone KGS 23.9.14
Skjalaaðgerðir
Deila með öðrum