næsta
fyrri
atriði
Note: new versions of the publication are available!

Dobrísmatið - Yfirlit

VANDAMÁL

Page Síðast breytt 19 Apr 2016
11 min read

VANDAMÁL

Umhverfisvandamál krefjast þess að viðbrög séu samþætt, án tillits til þess hvort um sé að ræða vatn, loft eða land, hver ástæða álagsins sé eða hvaða mannleg umsvif eru að verki. Þessi hluti bregður birtu á 12 vandamál, sem eru Evrópumönnum sérstök áhyggjuefni. Í honum er athyglinni beint að orsökum þeirra, aðferðum til að glíma við þau og markmiðum með aðgerðum.

27 Veðurfarsbreytingar

Fjallað er um möguleg áhrif á Evrópu af gróðurhúsaáhrifunum sem orsakast af auknu koltvísýringsmagni í andrúmsloftinu sem er þegar orðið 50% meira en fyrir upphaf

iðnbyltingarinnar. Í kaflanum er rætt um orsakir vandans, afleiðingarnar (sem koma fram í breyttu veðurfarsmynstri, hækkandi yfirborði sjávar, áhrif á vatnsbúskap, ógnum við vistkerfi og rýrnun jarðvegs) og alþjóðlegar aðgerðir til að stemma stigu við hækkun lofthita.

Gróðurhúsaáhrifin

Nú er gert ráð fyrir tvöföldun koltvísýrings fram til ársins 2030 og áætlað er að það leiði til hækkunar lofthita um 1,5 til 4,5 °C

"Bestu getspár" um áhrifin í Suður-Evrópu gera ráð fyrir að lofthiti hækki um 2 °C að vetrarlagi og 2-3 °C á sumrin

Búist er við að votviðrasamari vetur leiði til aukinna flóða

Alþjóðlegar aðgerðir eru ekki enn til þess fallnar að takmarka hækkun lofthita við 0,1 °C á áratug eins og lagt hefur verið til

28 Minnkandi óson í heiðhvolfinu

Hér er gerð grein fyrir vandanum sem fólginn er í rýrnun ósons í heiðhvolfinu vegna sleppingar á efnum þeim sem þekkt eru sem klór- og brómflúorkolefni, sem notuð eru sem kæliefni í kæliskápa, hreinsiefni í iðnaði, froðuefni og í slökkvitæki. Meðal afleiðinganna eru mögulega breytingar á hringrás andrúmsloftsins og aukin útfjólublá geislun á yfirborð jarðar sem gæti leitt til aukinnar tíðni húðkrabbameins og skýja á augum, auk áhrifa á vistkerfi og manngerð efni. Rætt er um nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr rýrnun ósonlagsins.

Breytingar á meðaltali ósonmagns yfir Evrópu (Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO)

Reiknað magn klórs í andrúmslofti frá 1950 til 1990 (RIVM)

Ósonmagnið yfir miðbiki Evrópu hefur minnkað um 6-7% síðasta áratug

Um þriðjungur ósonminnkandi efna sem sleppur út í andrúmsloft jarðar kemur frá Evrópu

Áætlað er að dauðsföllum af völdum útfjólublárrar geislunar muni fjölgi í tvo af hverri milljón íbúa árið 2030

Jafnvel þótt Lundúnabókunin við Vínarsáttmálann komist að fullu í framkæmd munu líða að minnsta kosti 70 ár áður en ósonrýrnuninni linnir

29 Minnkandi fjölbreytileiki lífríkisins

Gefið er yfirlit yfir fjölbreytileika lífríkisins í Evrópu og ástæðurnar fyrir afturför í álfu þar sem umsvif manna eru einkar mikil. Kaflinn lýsir röð markmiða sem ættu að tryggja viðhald fjölbreytts lífríkis og sjálfbæra nýtingu lífrænna auðlinda, sem og úrræðum til að ná þeim markmiðum, þar á meðal framkvæmd Sáttmálans um fjölbreytileika lífríksins.

Í lífríki Evrópu eru meira en 2500 gerðir búsvæða og um 215.000 tegundir en 90% þeirra eru hryggleysingjar

Í nærfellt hverju Evrópulandi eru tegundir sem finnast hvergi annars staðar

Meðal miðstöðva fyrir fjölbreytt lífríki í Evrópu eru Miðjarðarhafssvæðið og Kákasusfjöll á suðausturjaðri álfunnar

Þar eð vistfræðilegt hlutverk margra tegunda er nánast óþekkt er hyggilegast að hafa þá varúðarreglu að forðast hvers konar umsvif sem draga að óþörfu úr fjölbreytileika lífríkisins

 

Dæmigerð svæði náttúrulegra vistkerfahópa í Evrópu: Heildarflatarmál og flatarmál lands þar sem stjórnunarvandi og álag eru möguleg ógnun við fjölbreytileika lífríkis

30 Stórslys

Hér er yfirlit yfir þau umhverfisvandamál sem verða af völdum slysa og þá athygli sem hefur verið beint að ráðum til að setja viðunandi áhættumörk, bæði vegna heilsu manna og umhverfisins. Áhættustýring er könnuð og beinist athyglin að umfangi afleiðinga af slysum og líkum á að þau verði. Þörfin á að iðnaðurinn meti eigin áhættu og noti samþætt öryggisstjórnkerfi og eftirlitsbúnað er rædd. Fjallað er um neyðarviðbrögð eða neyðarúrræði, bæði hvað varðar slys er aðeins hafa áhrif í einstökum ríkjum, sem og þau er hafa áhrif á stærra svæði. Kaflanum lýkur með sérstökri umræðu um orsakir kjarnorkuslysa og ráð til að forðast þau.

Það er lykilatriði að til séu slysaskýrslur svo að hægt sé að bæta getuna til að draga úr áhættu með öryggisstjórnkerfi

Til þess að setja sér markmið þarf að átta sig á viðunandi áhættumörkum. Í Hollandi telst það til dæmis óviðunandi ef líkur eru á að ferli valdi meira en tíu dauðsföllum á hverjum 100.000 árum

Brugðist er við hinum sérstöku vandamálum er varða kjarnorkuöryggi í Mið- og Austur-Evrópu með sameiginlegri aðstoð 24 landa

31 Súrnun

Bruni jarðefnaeldsneytis veldur því að brennisteins- og niturtvíoxíð berast út í andrúmsloftið þar sem gastegundirnar breytast í sýrur. Þegar þær falla til jarðar með úrkomu leiða þær til ýmissa óæskilegra breytinga á vistkerfum vatns og þurrlendis. Í kaflanum er athyglinni beint að hinum óæskilegu efnafræðilegu og líffræðilegu áhrifum á vötn, jarðveg og skóga sem súrnun umfram viðmiðunarmörk hefur. Rætt er um möguleikann á að draga úr útblæstri með alþjóðlegum sáttmálum.

Mikillar súrnunar gætir í fersku vatni á stórum svæðum í Suður-Skandinavíu og veldur víða miklum fiskadauða

Barrskógar verða fyrir skemmdum í Tékklandi, Þýskalandi, Póllandi og Slóvakíu, líklega vegna súrnunar og mikils magns ósons og brennisteinstvíoxíðs í loftinu

Gert er ráð fyrir að súrt regn fari minnkandi í Evrópu eftir að dregið hefur úr útstreymi en samt mun farið yfir hættumörk á meira en helmingi svæðisins

Samanburður á hlutdeild mismunandi uppruna súrrar úrkomu árið 1990 (RIVM)

32 Óson í veðrahvolfinu og önnur ljósnæm, oxandi efni

Hér er fjallað um hin flóknu efnahvörf sem verða í neðri lögum lofthjúpsins og mynda oxandi efni á borð við óson úr öðrum efnum, t.d. nituroxíðum, rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum, metani og kolsýrlingi. Magn oxandi efna fer í vöxt og það hefur óhagstæð áhrif á heilsufar fólks. Þau geta einnig haft áhrif á efni eins og málningu og plastefni, uppskeru og jafnvel skóga. Gert er ráð fyrir að óson haldi áfram að aukast um 1% á ári á norðurhveli jarðar. Engin markmið hafa enn verið sett um hámarksmagn og vafasamt er talið að núverandi aðgerðir í Evrópu séu fullnægjandi.

Oft er farið fram úr leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um loftgæði hvað óson áhrærir í flestum hlutum Evrópu

Ekkert efni í andrúmsloftinu jafnast á við óson hvað viðkemur þeim litla mun sem er á raunverulegu magni og því magni sem veldur eituráhrifum

Niðri við jörð geta ljósefnafræðileg, oxandi efni, þar á meðal óson, haft í för með sér ótímabæra öldrun lungna, ertingu í augum, nefi og hálsi, óþægindum fyrir brjósti, hósta og höfuðverk

33 Stýring ferskvatnsbirgða

 

Vatnsmengun og hnignun vatnabúsvæða eru alvarleg hindrun við nýtingu vatns til neyslu og fyrir dýralíf

Mikið vatn fer forgörðum í leiðslukerfum og þótt gert sé ráð fyrir 25-30% vatnstapi í Frakklandi Bretlandi og Spáni, er hugsanlegt að talan sé nær 50%

Til bóta gæti orðið fyrir stýringu vatnsneyslu að líta á vatn sem verslunarvöru og selja það á viðeigandi verði

European water demand, 1950 - 2000

Útbreiðsla vandamála í Evrópu á sviði vatnsbúskapar - svo sem misvægi í framboði og eftirspurn eftir vatni, eyðilegging vatnabúsvæða og vatnsmengun - er tekin til umræðu í sambandi við álag sem stafar af umsvifum manna á vatnasviðum. Lagðar hafa verið fram margar tillögur um sjálfbæra stýringu vatnsbúskapar ásamt ábendingum um hvernig ná megi þeim markmiðum. Athygli er sérstaklega beint að þörfinni á alþjóðlegri samvinnu við stjórn nýtingar á ám sem renna um fleiri en eitt land.

34 Hnignun skóga

Þessi kafli beinist að tveim aðalorsökum hnignunar skóga í Evrópu: Loftmengun sem er alvarleg ógn við sjálfbæra nýtingu skóga í Mið- og Austur-Evrópu og í minna mæli í N.-Evrópu; og skógareldum, sem er mikið áhyggjuefnið í Suður-Evrópu. Yfirlit yfir tjónið hefur fengist með umfangsmiklum athugunum um alla Evrópu. Með því móti er þó ekki hægt að sjá tengsl orsaka og afleiðinga. Nákvæm vöktun gæti aukið þekkingu í þessu efni. Hvað skógarelda varðar eru orsakirnar oft tengdar félagshagfræðilegum atriðum sem gera stjórn orsakanna oft flókna þar sem þær gefa oft til kynna deilur og spennu í heildarstjórnkerfi landnytja.

Rannsókn sem fram fór árið 1992 í 34 Evrópulöndum sýndi að 24% trjáa voru skemmd að því leyti að aflaufgun var meiri en 25%; 10% trjáa sýndu óeðlilegan fölva

Allt að því 54% skóga í Tékklandi hafa e.t.v. orðið fyrir óbætanlegu tjóni

Að jafnaði brenna 700.000 ha skóglendis árlega í Evrópu af völdum 60.000 skógarelda.

 

35 Ógnir við strandlengjuna og stjórn hennar

Hér er vakin athygli á mikilvægi strandlengjunnar sem tengiliðar sjávar og lands og athugað hvernig umsvif manna hefur leitt til breytinga á strandlengjunni og hvernig frárennsli mengandi efna hafa leitt til hnignunar búsvæða og rýrt gæði sjávar. Til þess að draga úr hinum alvarlegu umhverfisvandamálum sem er að finna á mörgum standsvæðum, hefur verið stungið upp á aðferð við samþætta stjórn strandlengjunnar. Aðferðin tekur mið af mikilvægi strandlengjunnar fyrir vellíðan manna og því að jafnframt er hún búsvæði jurta og dýra.

Strendur Evrópu eru að minnsta kosti 148.000 km langar og áætlað er að u.þ.b. 200 milljónir manna búi innan 50 km frá strandlengjunni

Mengun með ströndum fram er alvarleg ógnun í öllum höfum við Evrópu

Enn hefur ekki verið lögð fram nein heildaráætlun um stjórn á strandsvæðum Evrópu

 

Ástand strandlengju í Evrópusambandinu, 1991
 

36 Myndun úrgangs og stýring á meðferð hans

Hér er fjallað um hinn sívaxandi og alvarlega vanda sem felst í losun úrgangs og meðhöndlun hans sem stafar af því að úrgangur verður æ meiri og inniheldur sífellt meira af eiturefnum. Þrátt fyrir aukna áherslu á hindrun úrgangsmyndunar og endurvinnslu, losa Evrópubúar sig að mestu við úrgang með urðun og brennslu. Ýmsir möguleikar við stýring á meðferð úrgangs eru ræddir og bent á að þrátt fyrir miklar framfarir sleppi megnið af úrganginum framhjá eftirliti eða komist hjá ströngum reglugerðum með því að vera flutt milli landa í Evrópu eða til þróunarlanda. Úrræði til að draga úr úrgangsmyndun og tryggja örugga stjórn á meðferð úrgangs teljast brýn til að koma á sjálfbæru kerfi framleiðslu og neyslu.

 

Í Evrópu myndast meira en 250 millj. lesta af sorpi og meira en 850 millj. lesta af iðnaðarúrgangi árlega

Í OECD-löndum Evrópu fara árlega fram meira en 10.000 flutningar yfir landamæri með 2 milljónir lesta af hættulegum úrgangi

Meira en 55.000 staðir, sem mengaðir eru af spilliefnum, hafa verið skráðir í aðeins sex löndum og heildarflatarmál spilliefnamengaðra svæða í Evrópu er áætlað 47.000-95.000 km2 og eru þá meðtaldir 1000-3000 km2 af landi sem hefur mengast vegna urðunar

37 Álag í borgum

Borgir í Evrópu sýna vaxandi merki umhverfisálags sem einkum kemur fram í slæmu andrúmslofti, óhæfilegum hávaða og umferðaröngþveiti. Á hinn bóginn gleypa borgirnar vaxandi magn af náttúruauðlindum og mynda síaukið magn útstreymis og úrgangs. Í þessum kafla er litið á orsakir borgarálagsins og tengsl þeirra við örar breytingar á lífsháttum borgarbúa og mynstri borgarþróunar sem orðið hafa á síðustu áratugum. Rætt er um nokkur markmið og leiðir til þess að ná sjálfbæru borgarmynstri, þar á meðal bætt skipulag borga, samþætta stjórn samgöngumála, hagkvæmari nýtingu vatns, orku og efna; gerð nýrra staðla og bætt uppplýsingakerfi.

Umferð í borgum verður sífellt mikilvægari orsök loftmengunar. Hún á mesta sök á þeim reyk og þoku sem liggur yfir borgum Evrópu á sumrin og því að farið er fram úr viðmiðunarreglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um óson, nituroxíð og kolsýrling í andrúmslofti

Í flestum borgum nota flutningatæki um 30% þeirrar orku sem notuð er þar og breyting hefur orðið í átt til notkunar bifreiða, sem sjá fyrir 80% allra vélflutninga

Stefnuskrá fyrir sjálfbæra þróun í borgum og bæjum Evrópu var undirrituð af fulltrúum 80 bæjarfélaga í Álaborg í Danmörku í maí, 1994

38 Efnahætta

Þau eru fá umhverfisvandamálin í Evrópu sem ekki má rekja til of mikils efnaálags af einhverju tagi og í þessum kafla er yfirlit yfir vandann sem um er að ræða og aðferðir til að draga úr hættunni. Markmiðið er að draga svo úr magni hættulegra efna í umhverfinu að skaðleg áhrif verði sem minst fyrir íbúa og umhverfi. Evrópusambandið hefur samþykkt umfangsmikla áætlun sem á að draga úr hættunni af völdum kemískra efna í umhverfinu.

Vitað er um meira en 10 milljón manngerð efnasambönd og af þeim eru um 100.000 framleidd til sölu

Á tímabilinu júní 1993 til júní 1994 lauk Evrópusambandið við að meta 1700 efnasambönd sem framleidd voru eða flutt inn í meira magni en 1000 lestum árlega


Áframhaldandi sókn til að draga úr efnaáhættu fyrir umhverfið (Húsnæðis-, skipulags- og umhverfismálaráðuneyti Hollands)

 
 

Permalinks

Skjalaaðgerðir