You are here: Home / Blaðamannarými / Fréttatilkynningar / Loftslagsbreytingar gera vart við sig um alla Evrópu sem staðfestir brýna þörf fyrir aðlögun

Loftslagsbreytingar gera vart við sig um alla Evrópu sem staðfestir brýna þörf fyrir aðlögun

Breyta tungumáli
Press Release Útgefið 21 Nov 2012 Síðast breytt 06 Feb 2013, 12:04 PM
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á alla hluta Evrópu og birtast með margvíslegum hætti í samfélagi og umhverfi. Frekari áhrifa er vænst í framtíðinni og munu þá hugsanlega valda háum tjónakostnaði samkvæmt nýjasta matinu sem Umhverfisstofnun Evrópu gaf út í dag.

 Image © istockphoto

Loftslagsbreytingar eru veruleiki um allan heim og umfang og hraði breytinganna verða sífellt meira áberandi. Þetta þýðir að sérhver hluti hagkerfisins, þ.m.t. heimili, þarf að aðlaga sig og draga úr losun.

Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu

Í skýrslunni, „Loftslagsbreytingar, áhrif og viðkvæmni í Evrópu 2012“ er komist að þeirri niðurstöðu að hærri meðalhiti hafi mælst um alla Evrópu sem og minnkandi úrkoma í Suður-Evrópu og vaxandi úrkoma í Norður-Evrópu. Grænlandsjökull, hafís Norðurskautssvæðisins og margir jöklar í Evrópu eru að bráðna, snjór hefur minnkað og sífrerajarðvegur hefur víðast hvar hlýnað. 

Öfgakenndir veðuratburðir svo sem hitabylgjur, flóð og þurrkar hafa valdið hækkandi tjónakostnaði í Evrópu á undanförnum árum.  Þó frekari vitneskju þurfi til að greina þátt loftslagsbreytinga í þessari þróun hefur vaxandi athafnasemi manna á hættusvæðum haft megináhrif. Búist er við að þessi viðkvæmni aukist við frekari loftslagsbreytingar enda er þess vænst að öfgafullur veðuratburðir verði ákafari og tíðari. Ef samfélög Evrópu aðlagast ekki er búist við að tjónakostnaður haldi áfram að hækka, segir í skýrslunni.

Sum svæði geta síður lagað sig að loftslagsbreytingum en önnur, m.a. vegna efnahagslegs misræmis í álfunni, segir í skýrslunni. Loftslagsbreytingar gætu valdið því að þetta misvægi aukist.

Jacqueline McGlade framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu sagði: „Loftslagsbreytingar eru veruleiki um allan heim og umfang og hraði breytinganna verða sífellt meira áberandi. Þetta þýðir að sérhver hluti hagkerfisins, þ.m.t. heimili, þarf að aðlaga sig og draga úr losun.“

Mældar loftslagsbreytingar og framtíðarspár – nokkrar helstu niðurstöður

Síðasti áratugur (2002-2011) var sá heitasti sem mælst hefur í Evrópu og var hitastig á landi í álfunni 1,3 ° C yfir meðaltali frá því fyrir iðnbyltingu. Spár ýmissa líkana sýna að í Evrópu gæti orðið 2,5–4° C hlýrra á síðari hluta 21. aldar en að meðaltali árin 1961-1990.

Hitabylgjur hafa orðið tíðari og lengri og hefur það valdið tugum þúsunda dauðsfalla síðasta áratuginn. Vegna áætlaðrar fjölgunar hitabylgna gæti dauðsföllum vegna ofhitnunar fjölgað á næstu áratugum, nema samfélögin aðlagist, segir í skýrslunni. Hins vegar er því spáð að dauðsföllum vegna ofkælingar muni fækka í mörgum löndum.

Þó úrkoma fari minnkandi á suðlægum slóðum eykst hún í Norður-Evrópu, segir í skýrslunni. Búist er við að þessi þróun haldi áfram.  Því er spáð að loftslagsbreytingar valdi auknum árflóðum, einkum í Norður-Evrópu þar sem hærra hitastig örvar vatnshringrásina. Hins vegar er erfitt að meta áhrif loftslagsbreytinga í eldri flóðagögnum.

Árþurrkar virðast hafa orðið alvarlegri og algengari í Suður-Evrópu. Spáð er að lágmarksstreymi áa muni minnka verulega á sumrin í Suður-Evrópu, en einnig mörgum öðrum hlutum Evrópu í mismiklum mæli.

Norðurskautssvæðið er að hitna hraðar en önnur svæði. Minni hafís mældist en nokkru sinni fyrr á Norðurskautssvæðinu árin 2007, 2011 og 2012 og þakti þá u.þ.b. helmingi minni flöt en árið 1980. Bráðnunarhraði Grænlandsjökuls hefur tvöfaldast frá 1990 og minnkaði massi hans að meðaltali um 250 milljarða tonna á hverju ári frá 2005 til 2009. Jöklar í Alpafjöllum hafa minnkað um u.þ.b. tvo þriðju að rúmmáli frá árinu 1850 og búist er við að sú þróun haldi áfram.

Sjávarborð er að hækka sem eykur hættu á strandflóðum í hvassviðri. Sjávarborð hefur hækkað um 1,7 mm á ári að meðaltali í heiminum á 20. öld og um 3 mm á ári nýliðna áratugi. Framtíðarspár eru mjög misvísandi en það er líklegt að sjávarborð hækki örar á 21. öld en þeirri 20.  Hins vegar er hækkun sjávarborðs við strendur Evrópu mismunandi, m.a. vegna staðbundinna landhreyfinga.

Auk hitatengdra áhrifa á heilsu eru önnur áhrif á heilsu manna einnig markverð, segir í skýrslunni. Loftslagsbreytingar eiga þátt í útbreiðslu tiltekinna sjúkdóma. Til dæmis valda þær því að skógarmítill (ixodes ricinus) dafnar norðar og frekari hlýnun gæti gert hluta Evrópu að betri búsvæðum fyrir smitberandi moskítóflugur og sandflugur. Frjókornatímabilið er lengra og byrjar 10 dögum fyrr en fyrir 50 árum, sem einnig hefur áhrif á heilsu manna.

Margar rannsóknir hafa mælt útbreiddar breytingar á eiginleikum plantna og dýra. Til dæmis blómgast jurtir fyrr á árinu og í ferskvatni byrjar einnig að bera á plöntu- og dýrasvifsblóma fyrr. Önnur dýr og plöntur flytja sig norðar eða ofar í land eftir því sem búsvæði þeirra hitna. Þar eð búferlaflutningahraði margra tegunda nægir ekki til að halda í við hraða loftslagsbreytinga gætu þær átt á hættu að deyja út í framtíðinni.

Jafnframt því sem vatnsskortur hrjáir mögulega landbúnað í Suður-Evrópu kunna vaxtarskilyrði að batna á öðrum svæðum. Vaxtarskeið allmargra akurplantna í Evrópu hefur lengst og talið er að sú þróun haldi áfram samhliða útbreiðslu hitakærari akurplantna til norðlægari slóða. En því er spáð að uppskera einhverra akurplantna minnki af völdum hitabylgna og þurrka í Mið- og Suður-Evrópu.

Eftir því sem hitastig hækkar hefur eftirspurn eftir húshitun einnig lækkað og valdið orkusparnaði. Á móti þessu vegur meiri eftirspurn eftir orku til kælingar á heitari sumrum.

Bakgrunnur

Skýrslunni er ætlað að greina frá öllum áhrifum loftslagsbreytinga í Evrópu og einnig veita upplýsingar fyrir Aðlögunarstefnu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem kemur út í mars 2013. Ennfremur mun Umhverfisstofnun Evrópu styðja stefnuna með mati á völdum aðlögunaraðgerðum í Evrópu sem verður gefið út í ársbyrjun 2013.

Á vefsíðunni Climate-ADAPT er mikið magn upplýsinga sem ætlað er að aðstoða við þróun og innleiðingu aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Geographic coverage

Europe
Áskriftir
Nýskráning til þess að fá skýrslur frá okkur (á prentuðu og/eða rafrænu formi) og ársfjórðungslegt e-fréttabréf.
Fylgjast með okkur
 
 
 
 
 
Umhverfisstofnun Evrópu (EEA)
Kóngsins nýjatorgi 6
1050 Kaupmannahöfn K
Danmörku
Sími +45 3336 7100