næsta
fyrri
atriði

Article

Norðurskautssvæðið — Hvað varðar mig um norðurskautssvæðið?

Article Útgefið 22 Mar 2010 Síðast breytt 21 Mar 2023

 

Dines Mikaelsen lætur riffilinn hvíla á borðstokk bátsins sem vaggar rólega á öldunum, setur skot í skothólfið og gefur félögum sínum merki um að hafa hljótt. Þessi veiðimaður af inúítakyni hefur þegar misst marks nokkrum sinnum. Hann tekur í gikkinn, hávær hvellur endurómar frá ísjökunum og skotið drepur sel í meira en 100 metra fjarlægð.

Fjórir ferðafélagar Mikaelsens – allt ferðamenn – eru agndofa. Þetta er það sem þeir komu hingað til þess að sjá en það er þeim engu að síður svolítið áfall. Dines og ferðafólkið sem hann byggir stóran hluta af tekjum sínum á eru enn frekar ókunnug hvort öðru. Á meðan önnur menningarsamfélög lifa nær eingöngu á þunnum kjötsneiðum sem pakkað er inn í sellófan, þá eru veiðar og hefðbundnar smölunaraðferðir enn mikilvægar í sumum samfélögum á norðurskautssvæðinu.

Menning og landslag norðurskautssvæðisins, líkt og sú ferðamannaþjónusta sem Dines veitir, mótast nú af tveimur öflugum þáttum: hnattvæðingu og loftslagsbreytingum. Hnattvæðingin hefur fært þessum fjarlæga heimshluta tónlistarmyndbönd, tónhlöður, nýtísku leiðsögutæki og meiri tengsl við umheiminn. Hið freðna landslag er nú að taka á sig nýja mynd vegna loftslagsbreytinga sem valda því að jöklar bráðna og nýjar sjóleiðir opnast. Slíkt hefur í för með sér ný tækifæri. Skemmtiferðaskip hafa nú í fyrsta skipti viðkomu í þorpinu Tasiilaq þar sem Dines býr Þorpið er á eynni Ammassalik á hrjóstrugri austurströnd Grænlands.  Árið 2006 komu þangað fjögur skemmtiferðaskip, árið eftir voru þau átta talsins. „Fyrir fimm árum voru engar flugur á Norður Grænlandi en nú eru þær komnar þangað. Nú koma flugurnar hingað mánuði fyrr en áður var venjan,” segir Dines. Einnig tekur maður eftir því að það er hlýrra í veðri. Hitastig á sumrin í Tasiilaq hefur náð 22 stigum undanfarin sumur, sem er hærra en nokkru sinni hefur áður mælst.

Hvað er norðurskautssvæðið?

Norðurskautssvæðið er gríðarlega viðfeðmt svæði sem nær yfir einn sjötta hluta jarðar, 24 tímabelti og meira en 30 milljónir ferkílómetra. Mikið af norðurskautssvæðinu er hulið hafi sem er allt að 4 km á dýpt, en þar eru einnig stór þurrlendissvæði.

Á norðurskautssvæðinu búa um 4 milljónir manna, þ.m.t. yfir 30 innfæddar þjóðir.

Átta ríki (Kanada, Danmörk/Grænland, Finnland, Ísland, Noregur, Rússland, Svíþjóð og Bandaríkin) ráða yfir landsvæðum í þessum heimshluta. Fimm þessara ríkja eru aðildarríki Umhverfisstofnunar Evrópu og af þeim eru þrjú í Evrópusambandinu.

Hvað er að gerast á norðurskautssvæðinu?

Loftslagsbreytingar hafa meiri áhrif á norðurskautssvæðinu en annars staðar. Hitastig á svæðinu hefur hækkað um sem nemur tvöföldu meðaltali á heimsvísu síðustu 50 árin.(19) Í Catlin norðurskautsleiðangrinum vorið 2009 var ís kortlagður á um 450 km leið yfir Beaufort-hafið norðan við Kanada. Ísinn var að meðaltali sex fet á þykkt og aðeins ársgamall. Eldri, þykkari og stöðugri hafís er að hverfa. Sumarið 2008 voru norðvestur- og norðaustursiglingaleiðir norðurskautssvæðisins færar skipum í nokkrar vikur í fyrsta sinn frá því að sögur hófust.

Áhrif hlýnunar eru líkleg til að eyðileggja hina viðkvæmu samvirkni vistkerfanna á norðurskautssvæðinu en sú samvirkni er nú þegar að breytast ört. Hafísinn á svæðinu er einkum áhyggjuefni. Ísinn og sjórinn undir honum er búsvæði margra og fjölbreyttra lífvera sem öllum stafar ógn af hnattrænni hlýnun.

Hvítabirnir deyja úr sulti vegna þess að sá ís sem næstur er opnu hafi og þar sem selir vilja helst hvílast er orðinn of þunnur til að bera þá. Fuglar sem fljúga til norðurskautssvæðanna á sumrin missa af vorinu, frjósamasta tímabili ársins, vegna þess að það vorar nú þremur vikum fyrr en áður – áður en fuglarnir koma.

Mengun og brjóstagjöf(18)

Margs konar hættuleg mengunarefni, þ.m.t. eiturefni sem notuð eru í landbúnaði, eldvarnarefni, þungmálmar og geislavirk efni hafa áratugum saman haft áhrif á norðurskautssvæðið og fólkið sem þar býr.

Mengun berst til norðurslóða annars staðar frá með vindi og hafstraumum. Vegna lágs hitastigs eyðast mengunarefni á borð við DDT ekki og eru því áfram í sjónum. Slík efni berast í fituvef eins og selspik og úr því í fólkið sem býr á svæðinu. Sums staðar á norðurskautssvæðinu er mæðrum með börn á brjósti því ráðlagt að gefa börnunum einnig þurrmjólk til þess að draga úr hættunni á að þau verði fyrir skaðlegum áhrifum af völdum mengunarefna.

Hvað varðar mig um norðurskautssvæðið?

Mörgum okkar kann að virðast norðurskautið afar fjarlægt bæði hvað varðar legu svæðisins og mikilvægi. Þess ber þó að gæta að svæðið gegnir lykilhlutverki við að stýra loftslagi jarðar. Ef loftslagsbreytingar halda áfram eins og búist er við mun það hafa alvarleg áhrif fyrir okkur öll.

Bæði norður- og suðurskautið gegna mikilvægu hlutverki við að stýra veðurfari á jörðinni - þau virka sem kælikerfi okkar. Minni snjór þýðir að jörðin dregur í sig meiri hita frá sólu og hafstraumar hnikast til. Norðuríshafið, þar sem saman blandast ferskt leysingavatn og sjór, hefur áhrif á hafstrauma um alla jarðkringluna. Sumir vísindamenn telja að of mikið af fersku leysingavatni gæti „skrúfað fyrir” suma þessara hafstrauma, en þeir hafa mikil áhrif á loftslag sunnar í veröldinni.

Norðurskautssvæðið er einnig heimkynni milljóna manna.  Margt af þessu fólki lifir í samfélögum innfæddra og þessi samfélög eiga sér  hvergi sinn líka. Þetta fólk og menning þeirra er einnig í hættu.

Ný efnahagsumsvif á norðurskautssvæðinu

Bráðnun hafíss og jökla norðurskautssvæðisins mun greiða leiðina að nýjum svæðum sem menn geta nýtt sér. Líklega munu  efnahagsumsvif á svæðinu aukast á næstu áratugum. Fiskveiðar munu verða stundaðar norðar en áður þegar hafísinn hopar, olíu- og einkum gaslindir svæðisins verða nýttar, ferðamönnum er nú þegar að fjölga og sjóflutningar munu líklega aukast með meiri útflutningi frá norðurskautsslóðum.

Vöruflutningar milli heimsálfa kunna að fylgja opnari hafsvæðum og þynnri ís og þeim munu einnig fylgja breytingar á skipulagi og þjónustu. Námuvinnsla,  skógarhögg og önnur auðlindanýting kann einnig að aukast. Hinar ýmsu þjóðir norðurskautssvæðisins gætu lent í samkeppni við hver aðra varðandi yfirráð yfir auðlindum, landsvæðum og siglingaleiðum. Erfitt getur reynst að ná jafnvægi milli efnahagslegra tækifæra og þeirrar áhættu (m.a. á olíulekum og öðrum umhverfisáhrifum) sem hlýrra norðurskautssvæði hefur í för með sér. Nauðsynlegt mun verða að breyta því hvernig svæðinu er stjórnað.

 Stjórnunarhættir í umhverfismálum

Í öðrum heimshlutum er helsta viðfangsefnið í umhverfismálum að byggja sködduð vistkerfi aftur upp. Á norðurskautssvæðinu eigum við þess enn kost að vernda það sem að mestum hluta getur talist einstakt umhverfi. Stjórnunarfyrirkomulagið sem nú er við lýði á norðurskautssvæðinu er afar sundurleitt. Þó svo að ýmsir alþjóðlegir samningar gildi um norðurskautssvæðið var enginn þeirra gerður sérstaklega fyrir svæðið.  Beiting þessara samninga og eftirlit með fylgni við þá er ólíkt innbyrðis meðal ríkjanna sem ráða svæðinu.

Í nóvember 2008 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram skýrslu þar sem lýst er hagsmunum sambandsins á norðurskautssvæðinu og kynntar ákveðnar aðgerðir sem aðildarríki og stofnanir Evrópusambandsins gætu ráðist í. Skýrslan er fyrsta skrefið í átt að samþættri stefnu Evrópusambandsins fyrir norðurskautssvæðið.

Helstu markmið Evrópusambandsins eru eftirfarandi:

  • að vernda og viðhalda norðurskautssvæðinu í samvinnu  við íbúa þess
  • að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda
  • að leggja sitt af mörkum til styrkari marghliða stjórnunar svæðisins.

Hvítabjörnum skammtaður þrengri kostur

Loftslagsbreytingar hafa í för með sér að hvítabirnir léttast því meira sem ísinn þiðnar fyrr á vorin. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um loftslagsbreytingar frá Norrænu ráðherranefndinni (Signs of Climate Change in Nordic Nature). Þar sem bráðnun hafíssins hefst nú fyrr á vorin en áður dregur úr þeim fjölda sela sem birnirnir geta veitt á ísnum. Á ákveðnum stöðum á norðurslóðum er meðalþyngd fullorðins kvendýrs nú aðeins 225 kg, sem er fjórðungi minna en fyrir tveimur áratugum. Ef fram heldur sem horfir er hætta á að hvítabirnir hverfi með öllu sums staðar á norðurskautssvæðinu.

Í skýrslunni er bent á vísa sem hægt er að nota við að meta áhrif loftslagsbreytinga og fylgjast með þróun vistkerfa norðursins. Þessir 14 vísar gefa hugmynd um áhrif hnattrænnar hlýnunar á t.d. vaxtar- og frævunartíma gróðurs og á fisk- og svifstofna. Frjókornatíminn hefst sífellt fyrr og gerir það lífið erfiðara þeim sem þjást af ofnæmi. Í vissum landshlutum í Danmörku, Noregi og á Íslandi hefst birkifrjókornatíðin nú mánuði fyrr en hún gerði á níunda áratug síðustu aldar svo dæmi sé tekið.

18. Amap Assessment 2009: Human Health in the Arctic

19. IPCC, Fourth Assessment Report (4AR), Summary For Policy Makers, 2007

Permalinks

Geographic coverage

Skjalaaðgerðir